Sigmundur Dýrfjörð

Sigmundur Dýrfjörð, Garðabæ, fæddist á Siglufirði 13. apríl 1956. Hann lést á blóðlækningadeild Landspítalans 31. mars 2017.

Foreldrar hans voru Sigurrós Sigmundsdóttir, fædd 22.8. 1915 (látin), og Hólm Dýrfjörð, f. 21.2. 1914 (látinn).

Systkini hans eru

1) Birna, f. 26.10.1935, maki Þorleifur Jónsson (látinn).

2) Anna, f. 20.11. 1937, maki Skúli Skúlason.

3) Erla f. 19.3. 1939, maki Þórarinn Björnsson (látinn).

4) Guðmunda, f. 20.11. 1944, maki Birgir Vilhelmsson.

5) Kristján Oddur, f. 10.2. 1948. 6) Ragnheiður, f. 25.7. 1949, eiginmaður Finnur Jóhannsson.

Sigmundur Dýrfjörð

Sigmundur Dýrfjörð

Eiginkona Sigmundar er Berglind Guðbrandsdóttir f. 31.1. 1958. Foreldrar hennar eru Kristín María Hartmannsdóttir, f. 3.12. 1929, og Guðbrandur Sæmundsson, f. 13.11. 1921 (látinn). Systur hennar eru María, f. 19.3. 1951, og Kristín, f. 19.5. 1953 (látin).

Börn þeirra Sigmundar og Berglindar eru

1) Kristín María Dýrfjörð, f. 14.8. 1982, eiginmaður hennar er Halldór Guðmundsson og börn þeirra; Ronja, f. 17.12. 2009 og Sara f. 19.1. 2014.

2) Sunna Rós Dýrfjörð f. 20.4. 1989, sambýlismaður hennar er Tómas Joð Þorsteinsson.

Sigmundur ólst upp á Siglufirði fram yfir fermingu en þá flutti hann með foreldrum sínum í Hafnarfjörð. Hann kynntist Berglindi eiginkonu sinni árið 1979. Sama ár útskrifaðist hann sem matreiðslumeistari og vann sem slíkur á Íslandi og í Svíþjóð. Árið 1984 stofnuðu Sigmundur og Berglind fyrirtækið Te & kaffi og hafa þau rekið það síðan.

Útför Sigmundar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 18. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.

Hvað segir maður þegar ein mikilvægasta manneskjan í lífi manns deyr? Við vorum svo sannarlega ekki tilbúnar að kveðja pabba strax. Er maður nokkurn tímann tilbúinn? Við ætluðum yfir þessa hindrun saman eins og allar hinar og áttum eftir að gera svo mikið saman, eins og hann orðaði það sjálfur, tveimur dögum áður en hann lést. Nú sitjum við saman systurnar í bústaðnum, uppáhaldsstað pabba á allri jörðinni, og rifjum upp allt þetta góða sem pabbi okkar skilur eftir sig.

Pabbi var mjög virkur í leik og starfi, stöðugt fullur af orku og gat ekki verið kyrr í eina mínútu. Hann var pabbinn sem nennti alltaf að leika sér, sérstaklega ef það tengdist útiveru. Hann var alltaf að búa til allskonar þrautir, keppnir og finna upp á einhverju skemmtilegu fyrir okkur systurnar.

Það er óhætt að segja að pabbi hafi verið duglegasti maður sem við þekkjum. Virkilega ósérhlífinn og sterkur einstaklingur sem auðvelt var að líta upp til. Hann var glaðlyndur, skemmtilegur og stríðinn og fannst fátt fyndnara en að hrekkja okkur systur. Það eru ófá skiptin sem hann kleip í tærnar á okkur, plataði eða lét okkur bregða. Svo hló hann hæst að eigin fyndni og maður gat ekki annað en hlegið með honum.

Hann var ótrúlega klókur og útsjónarsamur og hafði einstaklega gott verksvit, enda með margra áratuga reynslu af alls kyns framkvæmdum. Þar sem hann var matreiðslumeistari að mennt og mikið í sveit og til sjós bjó hann yfir þekkingu sem nýttist svo oft og í svo mörgu. Það eru því engar ýkjur þegar við systur tölum um að pabbi okkar hafi vitað allt og getað allt. Það verður erfitt að geta ekki tekið upp símann hvenær sem er og hvar sem er til þess að spyrja hann ráða.

Haustið 2008 var algjört reiðarslag fyrir okkur fjölskylduna. Pabbi greindist 52 ára gamall með ólæknandi krabbamein og fáeinum dögum síðar hrundi hagkerfi Íslands. Fyrirtækið stóð á krossgötum og fjölskyldan einnig. Kletturinn hann pabbi okkar tókst á við bæði verkefnin af ótrúlega miklu æðruleysi.

Hann sýndi og sannaði hvernig hægt var að snúa vörn í sókn og ákvað strax að taka þessum áskorunum af jákvæðni með vonina að vopni. Síðustu átta ár hafa verið okkur bæði erfið en á sama tíma svo verðmæt. Við höfum skapað svo margar minningar á þessum tíma. Pabbi reisti bústaðinn okkar að nýju, varð tvisvar afi, fylgdi eldri dóttur sinni upp að altarinu, var svo stoltur af þeirri yngri þegar hún kláraði klæðskeranámið og stýrði fyrirtækinu, ásamt góðu fólki, svo glæsilega á þann stað sem það er á í dag. Hann má svo sannarlega vera stoltur af ævistarfinu.

Við munum aldrei sætta okkur við fráfall hans en munum gera okkar besta til þess að læra að lifa með því. Það er okkur huggun í sorginni að rétt fyrir andlát pabba fengum við fjölskyldan, með hjálp yndislega starfsfólksins á deildinni hans, tækifæri og styrk til þess að takast á við það sem var að gerast.

Hann mun ávallt lifa í hjarta okkar og huga og fylgja okkur um ókomin ár.

 • Ertu frosin á tánum
 • Láttu pabba hlýja þér.
 • Hvernig sem fer og hvað sem er
 • Þá stendur hann við hliðina á þér.

(Sunna Rós Dýrfjörð, 6 ára)

Kristín María Dýrfjörð & Sunna Rós Dýrfjörð.

--------------------------------------------------------------

Simmi er maður sem ég hef litið upp til í svo langan tíma og lært svo margt af. Það er ótrúlega mikill missir af þessum góða manni.

Ég kynntist honum þegar ég var 17 ára gamall og hann tók mér alltaf svo vel, við náðum strax mjög vel saman þrátt fyrir að við gætum ekki talað saman um fótbolta en þá fundum við okkur aðra hluti til að ræða eins og t.d. kaffi.

Ég fékk svo að vinna hjá Simma þegar ég kláraði FG og ætlaði að vinna á kaffihúsinu í Smáralind þangað til ég ákvæði hvað ég myndi læra í Háskólanum. Nú er ég enn hér, 14 árum síðar, og það eru forréttindi fyrir mig að hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu Tes & kaffissíðastliðin ár með honum.

Það var rosalega gott að geta leitað til hans með hin ýmsu mál og það verður erfitt að geta ekki spurt hann ráða þegar ég verð í vafa því hann hafði svör við öllu, en hann hefur kennt mér og okkur svo margt og verið leiðtogi okkar svo lengi að vonandi hefur eitthvað síast inn.

Hann hefur verið frábær fyrirmynd fyrir okkur öll og á svo mörgum sviðum en það sem ég mun alltaf virða hvað mest er hversu jákvæður og drífandi hann var eftir að hann greindist með þennan ólæknandi sjúkdóm. Hann horfði alltaf fram á veginn og kvartaði aldrei yfir sinni stöðu.

Hann fékk þessar skelfilegu fréttir haustið 2008. Margir myndu draga sig í hlé og missa eldmóðinn, Sigmundur tvíefldist. Við fórum fulla ferð áfram og náðum ótrúlega góðum árangri og í dag skilur hann eftir sig gríðarlega öflugt og flott fyrirtæki sem hann getur svo sannarlega verið stoltur af.

Einnig endurbyggði hann Árbakka, sumarhús fjölskyldunnar í Borgarfirði sem var hans kærasti staður á jörðinni. Það eru margar góðar minningar þaðan og við fjölskyldan nutum okkar alltaf vel saman þar. Alltaf þegar við fórum þangað var mikill matur meðferðis og þar lærði maður sko að elda almennilega af meistaranum.

Simmi var miklu meira en bara tengdapabbi minn, hann var lærifaðir, fyrirmynd og svo vinur sem ég á eftir að sakna mikið.

Nú er komið að mér að stíga upp og reyna að feta í þín fótspor, það verður svo sannarlega erfitt en ég mun gera mitt allra besta og hugsa vel um stelpurnar þínar, allar 5.

Hvíldu í friði Simmi minn.

Halldór Guðmundsson.

---------------------------------------------------

Afi minn var mjög góður við mig og gerði allt sem ég vildi. Það skemmtilegasta sem mér fannst með honum var að fara í bústaðinn og fara í hjólbörurnar með grasinu þegar við vorum að vinna í garðinum. Mér fannst líka gaman að fara í þrautir þegar ég var lítil sem hann bjó til fyrir mig. Við afi byggðum líka pall sem varð að tekofa með tjaldi yfir, bekk og leikhorni handa litlu systur minni Söru og við buðum öllum í teboð. Síðan byggði hann líka kofa handa okkur til að leika í. Við fórum líka alltaf saman í heita pottinn og hann kenndi mér að þurrka mér með því að hlaupa hringinn í kringum húsið.

Það var líka gaman að spila við hann og hann var svo stoltur af mér hvað ég las vel og gaf mér alls konar bækur til að æfa mig og læra meira. Svo var hann svo oft að stríða mér sem var gaman. Svo eldaði hann sérstaklega fyrir mig oft. Og svo var hann alltaf tilbúinn að hitta mig og beið alltaf eftir að ég kæmi bak við hurðina og faldi sig. Honum fannst ég vera einstök stelpa.

Það var svo gaman með honum. Ég fékk að kveðja hann á spítalanum og hann kyssti mig og sagði mér að halda uppi fjörinu í Árbakka, bústaðnum okkar. Ég ætla að gera það fyrir hann.

Þín afastelpa, Ronja.

------------------------------------

Í dag verður borinn til grafar yngsta systkini okkar, hann hefði orðið 61 árs á skírdag. Við vorum 7 systkinin og voru 20 ár á milli þess elsta og hans. Þrátt fyrir aldursmuninn þá erum við mjög samrýmd og hittumst reglulega með mökum og einu sinni á ári er fjölskyldumót. Við söknum hans sárt, af hverju var hann tekinn fyrstur, þessi mikli reglusami dugnaðarforkur.

Við brotthvarf hans streyma fram minningar æskuáranna á Siglufirði. Ég var 18 ára, einn daginn birtist mamma í rauðrósótta kjólnum sem þýddi að enn eitt barnið væri á leiðinni, ég var ekki hrifin af því að móðir mín væri ófrísk á sama tíma og skólasysturnar. Hann fæddist í Lækjargötu 23 hinn 13. apríl 1956. Ég og eldri systir aðstoðuðum ljósmóðurina við að taka á móti stráknum sem varð hvers manns hugljúfi frá fyrsta degi, dekraður af systkinum og foreldrum. Flutt var á Hólaveginn, þar gat hann stigið á skíðin á veturna fyrir utan útidyrnar og beint upp í fjall. Hann var óheppinn að fá snjóblindu, sem varð til þess að hann gekk með gleraugu fram eftir aldri.

Hann var heppinn að eiga tvær systur sem voru bóndakonur og var hann tíður gestur hjá þeim, Erlu í Öxarfirði og Birnu í Skagafirði, stundum allt sumarið. Þegar síldin hvarf frá Siglufirði og atvinnuleysið blasti við þvældist hann víða með foreldrunum, meðal annars til Svíþjóðar. Það var eins og að hann væri með meðfædda aðlögunarhæfileika, hann undi sér alls staðar vel, féll inn hvar sem hann var, sáttur, ánægður og forvitinn um umhverfi sitt. Flutt var í Hafnarfjörð þar sem hann eyddi táningsárunum með bítlahár og hornspangargleraugu.

Eftir matreiðslunám fóru þau hjón til Svíþjóðar, þar kynntust þau alvöru te- og kaffimenningu, sem þau fluttu með sér til Íslands og stofnuðu Te & kaffi fyrirtækið árið 1984. Ferill fyrirtækisins verður ekki rakinn hér en ég leyfi mér að fullyrða að þau hjón eru frumkvöðlar í te- og kaffimenningu á Íslandi. Á fyrstu árum þeirra voru mörg ljón á veginum sem þau höfðu gæfu til að yfirstíga. Uppi stendur margverðlaunað stórfyrirtæki fyrir vistvænar fyrsta flokks vörur og árið 2008 var það eina „Fairtrade“ vottaða fyrirtækið á Íslandi.

Hann Simmi var svo lítillátur að hann var ekkert að monta sig yfir afrekum sínum. Þegar þau hjón voru loksins farin að geta notið afraksturs vinnu sinnar knúði óboðinn gestur dyra fyrir næstum 9 árum, honum fylgdi svartnætti, miklar þjáningar, góðir dagar inni á milli og þá hellti hann sér í mikla vinnu, fór í ferðalög og naut hvíldar í bústaðnum. Hann tók þessum óboðna gesti með ótrúlegu æðruleysi, hans góða kona og öll fjölskyldan hafa staðið þétt saman í þessu stríði þar til yfir lauk. Nú er hann Simmi litli bróðir okkar farinn inn í ljósið bjarta, það er sárt að kveðja hann á besta aldri. Með tár í augum og trega í hjarta kveðjum við hann með þessu kvæði.

 • Margs er að minnast,
 • margt er hér að þakka.
 • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
 • Margs er að minnast,
 • margs er að sakna.
 • Guð þerri tregatárin stríð.
 • Far þú í friði,
 • friður Guðs þig blessi,
 • hafðu þökk fyrir allt og allt.
 • Gekkst þú með Guði,
 • Guð þér nú fylgi,
 • hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem.)

Hann kvaddi þennan heim umvafinn fjölskyldunni. Elsku Berglind, dætur, tengdasynir og barnabörn, megi almættið styrkja ykkur og styðja þessi þungu spor. Okkar dýpstu samúð.

Birna, Anna, Erla, Guðmunda, Kristján & Ragnheiður.

---------------------------------------

Mér er minnisstætt er ég sá tengdason minn í fyrsta skipti. Hann var að heimsækja Berglind, en þá bjuggum við fjölskyldan í Eskihlíð. Ég fer að spyrja hann um ættir hans og þegar ég heyrði af hvaða fólki hann væri kominn var ástæðulaust að hafa áhyggjur af samdrætti þeirra Berglindar. Eftir að ég var orðin ekkja var gott að eiga Sigmund að og fá ráðleggingar hjá honum.

Þrjú orð koma upp í hugann er ég minnist Sigmundar: Dugnaður, traust og heiðarleiki. Hann var mikill fjölskyldumaður. Litlu dótturdætur hans minnast margra ánægjustunda með afa sínum. Ferðanna að Árbakka, sumarbústað fjölskyldunnar, afi og amma með þeim í heita pottinum, að gefa litlu fuglunum, fara í gönguferðir og margt fleira. Fjölskyldan á um sárt að binda. Þetta er mikið áfall fyrir okkur öll sem þekktum Sigmund.

Elsku Berglind, Sunna Rós, Tómas, Kristín María, Halldór og litlu Ronja og Sara, góður Guð veri með ykkur.

 • Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki
 • um lífsins perlu í gullnu augnabliki –

(Tómas Guðmundsson)

Kristín María Hartmannsdóttir.

-----------------------------------------------

Simmi frændi var frumkvöðull í kaffihúsamenningu okkar. Það var 1984 þegar þau Berglind opnuðu fyrstu búðina á Barónsstíg. Ilmurinn lokkaði mig inn, þótt ég drykki ekki kaffi, og brátt vorum við hjónin fastir viðskiptavinir. Nokkru seinna opnuðu þau kaffihús á Laugavegi í bakhúsi og einmitt þar kynntu frænkur okkar mig fyrir Simma. Síðan hefur vináttan verið óslitin.

Strax frá fyrstu búðinni var tónninn sleginn – gæði og upplifun.

Ferðamenn voru ekki jafn fjölmennir og nú en við opnun á Laugavegi 27 fór boltinn að rúlla.

Þar réði ríkjum Edda frænka, systurdóttir Simma, sem vann á við fjóra. Brátt fóru menn að sitja á tröppum með litla svarta vasabók og bíða opnunar! Veitingar og kaffið orðið þekkt í heiminum!

Nú eru kaffihúsin á annan tug og um 200 vinna hjá Te og kaffi.

Hvernig fór þessi siglfirski strákur að þessu? Ekki með því að láta aðra bera ábyrgð. Sígandi lukka er best. Þau Berglind fylgdu ævinlega hjartanu og létu fyrirtækið dafna og vaxa. Gríðarleg vinna var lögð í öflun hráefnis og ekkert nema það besta var nógu gott fyrir viðskiptavini þeirra. Þau ferðuðust víða um heiminn til þess að hitta kaffibændur og seldu frá smábændum. Kaffibarþjónar frá Te og kaffi voru sigursælir í keppnum víða um heiminn. Þau keyptu bækur um efnið og héldu tesýningar o.fl.

Simmi var mikill gæfumaður í einkalífi sínu, fjölskyldan ástrík og samheldin. Þó að frændi minn hafi verið vammlaus halur og vítalaus eins og Hóras kvað um, þ.e. sá sem ekkert grandaði, náði skelfilegur sjúkdómur tökum þegar við töldum allt leika í lyndi.

Gull skírist í eldi, maðurinn í raunum. Hafi nokkru sinni komið fram mannkostir frænda míns var það í baráttu fyrir lífinu. Við ólumst upp við söguna um forföðurinn sem sviptur öllu nema bátnum sínum lagði ótrauður með bátinn yfir Skálmadalsheiði. Sagan kenndi okkur að berjast – jafnvel þegar útlitið er vonlítið. Þau stóðu öll saman sem einn maður – yndislegu stelpurnar hans, Berglind sem aldrei bregst, tengdasynirnir.

Mér finnst það svo óréttlátt að hann sem aldrei miklaðist af velgengni félli frá þegar gæfan brosti við. Mér fannst að dótturdætur hans tvær og heittelskuð fjölskylda ætti að njóta samvista miklu lengur.

Fjölskylda mín kveður Simma frænda með mikilli þökk. Megi moldin verða honum létt.

Samúðarkveðjur til allra vandamanna.

Erna Arngrímsdóttir.

-----------------------------------------------

Simmi frændi er fallinn frá, þetta eru orð sem erfitt er að skrifa. Simmi frændi, þú átt mjög stóran hlut í hjarta mínu og ég mun halda minningu þinni á lofti við syni mína um ókomna tíð. Þú varst búinn svo ótrúlega mörgum mannkostum, traust þitt og trú á fólki er aðdáunarvert og aldrei heyrði ég þig tala illa um nokkurn mann.

Ég man fyrst eftir þér í heimsóknum á Siglufirði og fannst skrítið að þú kallaðir þig Siglfirðing, þú bjóst ekki þar og þekktir fáa fannst mér þá, í dag er ég í nákvæmlega sömu sporum og við erum báðir sannir Siglfirðingar. Þegar ég flutti til Reykjavíkur kynntist ég fyrir alvöru manngæsku þinni. Ég fann fljótt hversu velkominn ég var á heimili ykkar á Álftanesi, enda var það nýtt til hins ýtrasta. Fyrir þann tíma verð ég ævinlega þakklátur.

Í kringum þig hefur alltaf verið nóg að gera og fékk ég að vera með í nokkrum þeim framkvæmdum sem þú tókst þér fyrir hendur. Ofarlega í huga mér er málun innréttingar í grænum lit, opnun verslunar á Eiðistorgi, uppgerð íbúðar að Skúlaskeiði, bygging húss við Steinás, viðhald sumarhúss ásamt alls konar öðru, sem þú ákvaðst að taka þér fyrir hendur. Ég er mjög ánægður fyrir traustið sem þú sýndir mér strax. Einhverjir segja að maður ávinni sér traust en í þínu tilfelli fékk maður full traust strax, en það tel ég einkenna einn af þínum mannkostum og hversu mikla trú þú hafðir á mér og fólki almennt. Með þessu fékkst þú mig til að gera alls konar hluti sem ég vissi alls ekki að ég kynni og bý ég enn að því. Ég lærði svo ótrúlega margt af þessu sífellda brölti í kringum þig, takk Simmi.

Í gegnum tíðina hef ég verið að máta mig í þín spor og löngu búinn að átta mig á hverju þú hefur áorkað á allt of stuttri ævi þinni. Spurningar á borð við „Hvað var Simmi gamall árið 1984, þegar fyrsta verslun Te & kaffi opnaði?“ Jú, þú varst bara 28 ára. Þú varst líka bara um 35 ára þegar þú varðst að bjóða okkur systkinum í mat og alls konar afþreyingu og skemmtun. Í dag er ég 43 ára, þú varðst 43 ára árið 1999, eigandi að einu flottasta fyrirtæki landsins og sem síðan þá hefur bara dafnað. Það er sama hvar er stigið niður, þú ert alltaf mörgum skrefum á undan.

Simmi frændi, ég er og verð um alla tíð ótrúlega stoltur að eiga þig sem frænda, og hef einnig verið mjög stoltur þegar einhver sagði okkur líka í útliti enda ekki leiðum að líkjast. Ég hefði svo viljað hafa þig lengur hér til að geta leitað í reynslubanka þinn við úrlausn þeirra verkefna sem ég stend frammi fyrir núna. Hittingur okkar í desember síðastliðnum verður mér lengi í minni hafður og var lýsandi hversu vel þú treystir mér, það spjall sem við áttum þá mun ég lengi búa að, takk fyrir það Simmi og takk fyrir að benda mér á styrkleika mína.

Elsku Berglind, Kristín María og Sunna Rós, missir ykkar er mikill en að sama skapi eru þið heppnar að hafa Simma frænda ykkur við hlið í gegnum tíðina, því betri mann er vart hægt að finna.

Takk fyrir allt, elsku besti Simmi.

Þinn frændi Bragi Birgisson.