Tengt Siglufirði
5. janúar 1995 | Minningargreinar
Þorgrímur Brynjólfsson
Þorgrímur Brynjólfss - viðbót Árið 1908, þegar Þorgrímur Brynjólfsson leit fyrst dagsins ljós í Austur-Landeyjum, vóru íbúar Siglufjarðar (Sigluness og Héðinsfjarðar) aðeins 400. Samt vóru þeir þrisvar sinnum fleiri þá en um aldamótin, þegar "síldarævintýrið" var enn fræ í frjóum hugum fólksins norður þar. Þegar Þorgrímur flytzt til Siglufjarðar, árið 1938, vóru Siglfirðingar um 2.700. Flestir urðu þeir tíu árum síðar, um 3.100.
"Síldarævintýrið" var segull, sem dró til sín fólk, hvarvetna að af landinu. Siglfirðingar urðu skemmtileg blanda fólks úr öllum fjórðungum landsins. Síldveiðiflotar og síldarkaupmenn frá ýmsum Evrópuþjóðum settu svo fjölþjóðlegan blæ á bæinn og mannlífið. Þorgrímur Brynjólfsson var einn af fulltrúum Austur-Landeyja í því "blandaða samfélagi", sem þarna varð til.
Þorgrímur Brynjólfsson var í vissum skilningi dæmigerður fyrir þá skörun á starfsstéttum, sem einkenndi Siglufjörð og reyndar íslenzkt samfélag - fram undir líðandi tíma. Í Austur-Landeyjum hefur hann eflaust kynnst hvers konar bústörfum þeirra tíma. Ungur flytzt hann til Vestmannaeyja þar sem hann sækir sjóinn af kappi. Fluttur til Siglufjarðar stendur hann að bátaútgerð og fisksölu, gerist verkstjóri við síldarsöltun og efnir, ásamt konu sinni, til verzlunarreksturs.
Þorgeir kvænist Ingibjörg Jónsdóttir frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd í Skagafirði, árið 1915. Ingibjörg er af góðkunnum, skagfirzkum ættum. Mér er í barnsminni hve foreldrar hennar og frændgarður nutu mikils álits norður í Siglufirði. Synir þeirra hjóna eru tveir, Reynir og Víðir Páll, sem báðir starfa við kaupsýslu.
Ingibjörg og Þorgrímur stóðu í áratugi að verzlunarrekstri, fyrst norður í Siglufirði (Verzlunin Túngata 1) og síðar í Reykjavík (Tösku- og hanskabúðin á Skólavörðustíg 7). Þau vóru dugleg og samhent og byggðu upp gott fyrirtæki.
Ég man Þorgrím sem harðduglegan, hygginn, fjölfróðan og skemmtilegan mann, sem gaman var að ræða við um landsins gagn og nauðsynjar. Nú er hann genginn þann veg sem allra bíður. Hann lézt á Vífilsstöðum 27. desember síðastliðinn.
Vistaskipti hans ber upp á vetrarsólstöður, þegar sól tekur að hækka á lofti og dag að lengja - þegar við fögnum fæðingu hans sem sagði: "Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."
Ég kveð Þorgrím Brynjólfsson með þökk og virðingu og sendi ástvinum hans samúðarkveðjur mínar og minna.
Stefán Friðbjarnarson.
-------------------------------
5. janúar 1995 | Minningargrein
Þorgrímur Brynjólfsson
Aðfaranótt þriðja dags jóla, hinn 27. desember síðastliðinn, andaðist á Vífilsstaðaspítala, eftir þunga legu, aldinn heiðursmaður, Þorgrímur Brynjólfsson, kaupmaður, nær áttatíu og sex ára að aldri. Þorgrímur var manna hæglátastur og prúðastur. Þar vitum við genginn einhvern þann er sýndi jafnan sannastan þegnskap, geðprýði, góðvild, jafnlyndi og æðruleysi. Slíkir menn eru á hverjum tíma of fáir og að þeim er ávallt eftirsjá.
Þorgrímur var fæddur hinn 15. febrúar árið 1908, í Vatnahjáleigu í Austur-Landeyjum í Rangárvallasýslu. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Margrét Guðmundsdóttir og Brynjólfur Jónsson. Svo sem þá var títt eignuðust þau heiðurshjón vænan hóp barna, en systkinin urðu ellefu talsins.
Eins og gefur að skilja varð það ekki lítið veganesti að alast upp í svo stórum systkinahóp, þar sem hörð lífsbaráttan útheimti bæði atorku og samheldni, jafnt við dagleg störf og leik.
Þorgrímur ólst upp í Landeyjum, en fluttist snemma með fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja. Í Vestmannaeyjum og suður með sjó dvaldi Þorgrímur til þrjátíu ára aldurs. Hann var einn þeirra Íslendinga, sem kynntust harðri lífsbaráttu og lifði því tímana tvenna.
Á þessum árum urðu þáttaskil í lífi hans, en þá kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Jónsdóttur. Hún er fædd árið 1915. Foreldrar hennar voru hjónin Pálína Guðrún Pálsdóttir og Jón Björnsson, trésmiður á Siglufirði.
Á árinu 1938 fluttust þau, Ingibjörg og Þorgrímur, með frumburð sinn, Reyni, til Siglufjarðar, þar sem Þorgrímur fékkst við ýmis störf tengd sjávarútvegi og síldveiðum. Síðar gerðu þau hjónin verslunarstörf og kaupmennsku að sameiginlegu lífsstarfi. Á Siglufirði stofnuðu þau sín fyrstu fyrirtæki, bæði fiskverslun og Verslunina Túngata 1.
Engin kona gat reynst manni sínum tryggari og öruggari förunautur en Ingibjörg. Segja má, að vart verði annars þeirra minnst, hvort heldur var við heimili eða verslunarreksturinn, að ekki komi mynd beggja í hugann. Og það sem mest er um vert, þau hjónin voru samhent í því sem öðru að láta gott af sér leiða. Þess hafa margir notið, jafnt í stórum hlutum sem smáum.
Árið 1954 fluttu þau Þorgrímur til Reykjavíkur. Gerðist hann þar verslunarstjóri við Ritfangaverslun Ísafoldar í Bankastræti. Árið 1960 stofnuðu þau Ingibjörg Tösku- og hanskabúðina við Skólavörðustíg 7 í Reykjavík. Um árabil höfðu þau síðan með höndum umfangsmikinn innflutning og verslunarrekstur, Árið 1968 kom yngri sonur þeirra, Víðir, til liðs við þau og tók 1971 við rekstrarstjórn fyrirtækisins.
Samvinna Þorgríms og Ingibjargar svo og Víðis og eiginkonu hans, Jóhönnu, var með eindæmum góð og starfaði Þorgrímur við fyrirtækið á meðan heilsan leyfði. Til þess er tekið hversu gott hefur verið að skipta við verslun þeirra, að þar mætti treysta því, að allt væri vandað og valið og einvala starfsfólk við störf. Svo munu og viðskipti Þorgríms við lífið hafa verið yfirleitt. Við samtíðarmenn sína hefur hann verið hreinskiptinn og raungóður.
Miðbærinn í Reykjavík varð þannig um rúma þrjá áratugi starfsvettvagur hans og meginpólar þar heimilið á Óðinsgötu 1 og verslunin við Skólavörðustíg 7.
Þau Ingibjörg og Þorgrímur hafa búið við barnalán. Tvo syni eignuðust þau. Þeir eru Reynir, framkvæmdastjóri, kvæntur Rósu Gísladóttur, og Víðir Páll, framkvæmdastjóri, kvæntur Jóhönnu Haraldsdóttur. Barnabörnin eru átta. Allt er þetta mikið atgervis- og dugnaðarfólk og hefur komist vel áfram. Upp eru að renna nýjar kynslóðir og efnilegar, sem lofa góðu um framtíð ættarinnar. Barnabarnabörnin eru orðin fjórtán.
Stórfjölskyldan með samábyrgð sína og samstöðu er okkur hugleikin þegar horft er um öxl til Óðinsgötunnar og liðins tíma á Siglufirði. Athvarfs var ætíð að leita á heimili Ingibjargar og Þorgríms, og stafaði þaðan öryggi, góðvild og umhyggju. Við endurminningar þaðan hlýnar okkur um hjartarætur, og fyrir hverja samvistarstund ber þeim þakklæti okkar.
Þorgrímur skilur eftir fallegar minningar og ástúðlegar hugsanir. Hann var prúðmenni í framgöngu. Í öllu viðmóti hans var hógværð og ljúfmannlegur þokki. Samfara hinu létta fasi var þó djúp alvara í hugsun, fastlyndi og samviskusemi. Mannúð var ríkur þáttur í skoðunum Þorgríms og ádeilur á ójöfnuð og ranglæti. Hann gat þá verið kjarnyrtur í tilsvörum og umsögnum. Jafnan var hann skemmtilegur í viðræðum, einkum tveggja manna tali. Aldrei féll honum óþreyjuorð af vörum. Hann var maður öfundarlaus með öllu.
Þorgrími auðnaðist að halda andlegum hæfileikum sínum óskertum til dauðadags. Hann kvaddi með rósemi og þann frið í sál sinni, sem er síðasta og dýrmætasta gjöfin, sem góðum manni og æðrulausum getur hlotnast hérna megin grafar.
Slíkra er gott að minnast, og í trausti þess, að við séum bænheyrð, biðjum við Þorgrími "afa" náðar Guðs og blessunar og óskum honum heilla að strönd síns framtíðarlands.
Alda, Árni og Helga.