Tengt Siglufirði
13. maí 2014 | Minningargreinar
Reynir Þorgrímsson fæddist á Siglufirði 7. október 1936. Hann lést á Landakoti 1. maí 2014.
Foreldrar Reynis voru
Þorgrímur Brynjólfsson frá Syðri-Vatnahjáleigu í Austur-Landeyjum f. 15.2. 1908, d. 27.12. 1994, og
Margét Ingibjörg
Jónsdóttir frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd í Skagafirði, f. 19.12. 1915, d. 31.3. 1999.
Albróðir Reynis er
Reynir kvæntist Rósu Guðbjörgu Gísladóttur, f. 18.5. 1941, þann 8.2. 1964. Börn Reynis og Rósu eru:
Reynir ólst upp á Siglufirði og bjó þar til 16 ára aldurs. Þá flutti hann til Reykjavíkur og stundaði nám við Samvinnuskólann og útskrifaðist hann þaðan árið 1954. Reynir kom víða komið við í atvinnulífinu, hann var einn af stofnendum Hagkaups, hann rak og átti verksmiðju á Sauðárkróki þar sem sokkabuxur undir nafninu Gleymmérei voru framleiddar.
Hann átti bílasöluna Bílakaup sem var í Borgartúninu. Þá stofnaði hann Fyrirtækjasöluna í Suðurveri árið 1986 og rak hana þar til hann settist í helgan stein árið 2012. Reynir var áhugaljósmyndari og hélt hann margar ljósmyndasýningar, meðal annars í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hann sýndi og seldi ljósmyndir sem hann hafði tekið og nefndi Skartgripi fjallkonunnar.
Reynir var virkur í félagsstörfum, hann var félagsmaður í JCI og var þar landsforseti frá '73-'74, hann var einn af stofnfélögum Lionsklúbbsins Víðarr og þá var hann einnig frímúrari.
Reynir og Rósa bjuggu meirihluta ævi sinnar í vesturbænum í Kópavogi þar sem þau ólu börnin sín upp.
Reynir verður jarðsunginn í dag, 13. maí 2014, í Digraneskirkju kl. 13.
Það er erfitt að segja frá föður mínum í svona stuttri grein. Mín fyrsta minning af honum er þegar ég var lítill og átti að fara að sofa. Það var ekki hægt að fara að sofa án þess að fá sögu frá pabba. Alltaf voru sögurnar fleiri en ein og þegar sögurnar sem hann kunni höfðu allar verið sagðar margoft þá voru skáldaðar upp nýjar sögur þangað til maður sofnaði.
Það var ekki hægt að fara með pabba út á meðal fólks án þess að hann rækist á einhvern eða einhverja sem hann þekkti og þurfti að spjalla aðeins við, svo vinamargur var hann. Þegar ég var sex ára þá var þetta óþolandi að þurfa að stoppa svona oft og spjalla við einhverja kalla. Ég hélt þá að hann þekkti hálft Ísland. Þegar við vorum svo í sumarfríi í Flórída í verslunarmiðstöð og hann var farinn að heilsa fólki þar þá var ég viss um að hann þekkti hálfan heiminn!
Hann pabbi kunni sko að njóta lífsins og það þurfti ekki mikið til að gleðja hann. Einn góður vindill, ein ísskál eða jafnvel bara einn konfektmoli dugði. Þegar hann gladdist þá ljómaði andlit hans og það var svo smitandi að það var ekki hægt annað en að gleðjast líka. Hann samgladdist manni líka svo innilega þegar eitthvað gekk vel eða áfanga var náð. Hann var þessi týpa af manni sem gerði allt vel. Ef hann fékk áhuga á golfi þá stofnaði hann golfklúbb, ef hann fékk áhuga á félagsstarfi þá stofnaði hann Lionsklúbb. Eitt það mikilvægasta sem hann kenndi mér var að ef maður ætlar að gera eitthvað þá á maður að gera það vel eða að sleppa því. Þessu lifði hann eftir og þessu hef ég alltaf reynt að lifa eftir.
Ég gleymi aldrei öllum veiðiferðunum sem við fórum í, hvort sem við vorum við fallegt stöðuvatn að veiða eða á bryggjunni að dorga þá var alltaf jafn gaman hjá okkur. Það sem stendur hæst upp er þegar við vorum staddir á Siglufirði á síldarævintýri um verslunarmannahelgi. Þá tókum við þátt í dorgveiðikeppni saman og ég hélt að stöngin ætlaði að brotna þegar við hífðum upp þennan svakalega ufsa. Að sjálfsögðu fengum við bikar fyrir stærsta fiskinn.
Pabbi var mjög stoltur af náttúruljósmyndum sínum sem hann kallaði Skartgripi fjallkonunnar. Hann tók áhugamálið sitt á næsta stig og hélt sýningar víða, meðal annars í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mér fannst alltaf jafn gaman að stilla upp sýningunum með honum því áhuginn hjá honum var svo mikill að maður gat ekki annað en haft áhuga á þessu sjálfur. Við gátum setið tímunum saman og horft á myndirnar hans og séð allskonar form og fígúrur úr þeim og rætt þær fram og til baka.
Tíminn sem við áttum saman á þessari jörðu var langur og góður, en samt alltof alltof stuttur. Þessi mikli maður skilur rosalega mikið eftir sig og hefur glatt marga í gegnum árin. Fyrir ári síðan í dag þá fékk hann nafna þegar ég og María konan mín skírðum son okkar, Reyni Leo, í höfuðið á afa sínum. Ég gleymi því aldrei hvað hann og við öll vorum hamingjusöm þennan dag fyrir ári síðan.
Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og allt sem þú hefur kennt mér. Minning þín mun aldrei gleymast.
Ragnar Már Reynisson.
-----------------------------------------
Yndislegi pabbi minn, tengdapabbi og afi er búinn að kveðja. Það er svo erfitt að trúa því og maður getur ekki hugsað það til enda að fá ekki að sjá eða heyra í honum meir. Undanfarnir mánuðir hafa verið okkur erfiðir, þetta var þrautaganga fyrir pabba þessi veikindi hans.
Minningarnar um þig og okkar samveru hellast yfir okkur og hvað þú varst frábær pabbi, besti tengdó í heimi og yndislegur afi.
Eftirminnilegar eru veiðiferðir okkar í hinar ýmsar veiðiár landsins og voru mikil forréttindi að fá að fara með þér og afa í laxveiði sem gutti.
Þú varst kletturinn okkar og stóðst okkur við hlið alla tíð, greiðviknin og kærleikurinn sem kom frá þér er okkur mikils virði og munum við ávallt geyma í hjarta okkar.
Félagsstörfin voru alltaf ofarlega, hann var landsforseti JC hreyfingarinnar, einn af stofnendum Lionsklúbbsins Viðarrs. Frímúrari var hann líka.
Pabbi elskaði að ferðast og ferðaðist víða, fór m.a. í heimsreisu með JC hreyfingunni og svo var ég svo lánsamur að geta boðið honum og mömmu í forsetaferðina til Indlands sem var stórkostleg ferð og eftirminnileg fyrir hann og þau bæði.
Ég var svo lánsamur að fá að verja svo miklum tíma með honum, áratugi vann ég með honum og er sá tími ómetanlegur fyrir mig. Pabbi hugsaði vel um mömmu og okkur systkinin, hann vildi að öllum liði vel og var alltaf tilbúinn að aðstoða hvert sem tilefnið var. Allar minningarnar af Þinghólsbrautinni verða vel varðveittar þar sem alltaf var tekið á móti okkur af mikilli ástúð og gestrisni alla tíð.
Pabbi minn, þú og mamma voruð alltaf svo sæt saman og hugsuðuð svo vel um okkur öll, alltaf tilbúin til að vera með okkur og hjálpa við hvað sem er. Þið eruð yndislegir foreldrar og þeir bestu sem ég hefði kosið mér.
Pabbi var ríkur því hann átti mörg barnabörn sem honum þótti svo vænt um og þau dýrkuðu hann og dáðu, missir þeirra er mikill og söknuður.
Alltaf var stutt í húmorinn hjá þér, elsku tengdó og minnist ég þess hvað mér þótti alltaf yndislegt þegar þú stóðst alltaf með mér þegar ég var að gera grín að Einari. Einnig hvað það var gott og auðvelt að spjalla við þig um daginn og veginn og áttum við þó nokkur skemmtileg samtöl á pallinum eða í sólhúsinu.
Þakkir fá starfsfólk Landakots fyrir umönnun vegna veikinda hans.
Elsku pabbi minn, tengdapabbi og afi, við söknum þín svo mikið en nú ertu kominn á þann stað þar sem þú finnur ekkert til. Þú verður í huga og hjarta okkar alla daga.
Einar Örn, Ása Sóley og afabörn.
----------------------------------------------------
Pabbinn minn fallegi og yndislegi er farinn, hjartað mitt er brotið og söknuðurinn mikill. Pabbi var mér bæði faðir og vinur, hann gekk syni mínum í föður stað þegar pabbi hans var erlendis í námi, hann var okkur svo margt og mikið. Þakklætið og minningarnar eru svo margar og góðar sem hlýja manni í hjartastað. Hann var svo mikil húmoristi, með risastórt hjarta, sitt innilega bros og stóran faðm.
Pabbi var mér mikil fyrirmynd í svo mörgu, sem hann gerði um sína ævi og ég var svo stolt yfir að kalla mig dóttur hans Reynis. Hann kallaði mig alltaf pongu þegar ég var lítil, sem mér þótti mjög vænt um þangað til ég komst á unglingsárin og fór að kalla mig Ingu, ef einhver vina minna hringdi og spurði um Ingu þá sagði hann alltaf það býr engin Inga hér og skellti á.
Mér er svo minnisstætt þegar hann bauð mér á feðgnaball hjá Frímúrunum þegar ég var um 16 ára, sítt pils og háir hanskar og pabbi í kjólfötum, þar dönsuðum við vals fram eftir nóttu feðginin saman.
Þinghólsbrautin, æskuheimili mitt var svo hlýlegt og fallegt eins og pabbi og mamma. Pabbi tók öllum vinum mínum og systkina minna opnum örmum og það voru ófáar vinkonur mínar sem hann kallaði dætur sínar. Að koma heim úr skólanum og pabbi sat á pallinum eða í sólhúsinu skyrtulaus með vindil er sú mynd sem kemur einna fyrst upp í huga minn þegar ég hugsa til hans.
Hann var svo stoltur af mér þegar ég fór ein í nám til Arizona með litla strákinn minn og skemmtum við okkur vel þegar hann, mamma og Raggi bróðir komu í heimsókn. Alltaf stóð hann við bakið á mér og þegar ég opnaði búðina mína, hvað hann var ánægður og stoltur af litlu stelpunni sinni. En ég held að hann hafi aldrei verið eins glaður og ánægður og daginn sem hann leiddi mig inn kirkjugólfið þegar ég gifti mig, þvílíkur dásemdardagur sem fer í stóra minningabankann minn um hann pabba.
Við það að taka saman ævi hans pabba núna gerir maður sér ennþá betur grein fyrir hversu mikil og flottur maður hann pabbi var. Öll félagssamtökin sem hann var í JCI, Frímúrarnir og Lions, alls staðar lét hann til sín taka. Enda var erfitt að labba með pabba í gegnum Kringluna eða aðra staði, alla þekkti hann og talaði við með svo miklum hlýhug. Þegar hann fór að eldast fór hann að taka myndir af náttúrunni, svo fallegar og sérstakar.
Held svo fullt af sýningum bæði í Ráðhúsinu og víðar, já honum pabba var margt til lista lagt. Hans ríkidæmi var börnin hans og barnabörnin og var hann aldrei eins glaður og þegar hann hafði alla í kringum sig og ekki má gleyma skál af ís. Hann kvaddi í fanginu á okkur mömmu, umkringdur sínum börnum og nánustu, sáttur, því hann vissi það að Gísli bróðir og aðrir góðir biðu eftir honum á betri stað.
Eins og við pabbi sögðum alltaf þegar við kvöddumst „I love you“.
Ingibjörg
Reynisdóttir.
----------------------------------------------
Elskulegur tengdafaðir minn, sá langbesti í öllum heiminum, er nú farinn yfir móðuna miklu. Hans störfum hér á þessari jörð, sem voru fjölbreytt og mikil, er nú lokið. Hann hefur kvatt og er farinn að knúsa strákinn sinn, hann Gísla minn.
Reynir, ég kynntist þér í nóvember 1991, þegar ég varð ástfangin af Gísla syni þínum sem varð maðurinn minn. Þú tókst mér og Gabríel syni mínum strax opnum örmum, líkt og við værum hluti af fjölskyldunni. Þú tilkynntir mér fljótlega að ég væri langbesta tengdadóttirin í öllum heiminum og stangaðir mig mjúklega á ennið. Að sjálfsögðu varðst þú á móti langbesti tengdapabbinn í öllum heiminum.
Þú varst kletturinn í fjölskyldunni. Stóri pabbinn og passaðir vel upp á þína, studdir við bakið á börnunum þínum, barnabörnunum og allir gátu hallað sér upp að þér. Þú hafðir risa faðm sem stóð okkur alltaf opinn. Þú varst ákaflega hugmyndaríkur, félagslyndur, frjór frumkvöðull og gerðir margt stórkostlegt í lífinu, en það allra besta sem þú gerðir var að breiða út kærleika og hlýju til okkar sem kynntumst þér.
Þú varst einstakur afi og reyndist börnunum mínum vel. Þau búa vel að góðum minningum um elskandi afa sem dekraði við þau. Afann sem tók þau alltaf með að veiða á bryggjunni. Afann sem var alltaf með hanskahólfið fullt af sælgæti þegar við komum í heimsókn til Íslands þá búandi erlendis.
Seinna þegar við fluttum heim tókst þú innilegan þátt í áhugamálum þeirra og eigum við einstakar minningar um frábæran afa, sem kom í kjallarann að horfa á enska boltann, með öllum afastrákunum sínum og vinum þeirra, allar helgar þegar boltinn var í gangi. Þú hafðir frábæran húmor og það var dásamlegt að koma til ykkar Rósu í partakaffi á laugardögum eða grill á pallinum, heyra sögurnar þínar og hlusta á þig gantast í allri fjölskyldunni, þú varst alltaf með puttann á púlsinum, aldrei gamaldags. Þetta var dásamlegur tími.
Við ferðuðumst vítt og breitt um heiminn og þið komuð og heimsóttuð okkur hvar sem við bjuggum. Bý ég vel að frábærum minningum frá Ameríku, Finnlandi, Lettlandi, Danmörku og síðast en ekki síst frá því er við sigldum við strendur Tyrklands fyrir ekki fyrir svo löngu, umkringd allri fjölskyldunni og ætíð gaman. Ekki er lífið alltaf dans á rósum. Fyrir fimm árum kvaddi Gísli maðurinn minn, sonur þinn, þennan heim alltof ungur. Það var reiðarslag fyrir alla fjölskylduna. Aldrei mun ég geta þakkað nóg þann stuðning sem ég fékk frá ykkur fjölskyldunni á erfiðum tímum.
Ég þá búin að missa föður minn og móðir mín lést stuttu síðar. Þarna eignaðist ég foreldra í ykkur tengdaforeldrum mínum, þið reyndust mér svo sannarlega sem slíkir. Reynir, ég er óendanlega heppin að hafa átt þig að og er innilega þakklát fyrir tímann sem við áttum saman. Þú varst einstakur vinur minn. Ég mun aldrei að eilífu gleyma þér.
Rósa mín, Ingibjörg, Einar, Ragnar og fjölskyldur. Ég votta ykkur innilega samúð mína og bið Guð og alla góða vætti að vernda ykkur og styrkja í sorginni sem og alltaf.
Þín langbesta tengdadóttir, Anna Margrét.
---------------------------------------------------------
Elskulegur tengdafaðir minn Reynir er nú látinn. Því miður fékk ég ekki að þekkja Reyni nema í tæp tvö ár. Á þessum tveimur árum höfum við gengið með honum í gegnum súrt og sætt en einnig átt fullt af gæðastundum. Strax frá okkar fyrstu kynnum tókst með okkur mikill vinskapur og er ég svo þakklát fyrir það hvernig Reynir tók á móti mér og dóttur minni, Gabríelu Rós, inn í fjölskylduna. Hann kallaði Gabríelu strax afastelpuna sína og reyndist hann henni sem besti afi.
Það var alltaf svo gaman að heimsækja Reyni með ís en það þurfti ekki meira til að gleðja hann þar sem ís og bláber voru í hans allra mesta uppáhaldi. Hann átti það til að vera sérvitur og gera allt mögulegt sem gat komið barnarbörnunum spánskt fyrir sjónir eins og að setja kók út á ísinn hjá sér, og fannst honum afar gaman að sjokkera þau með þessum uppátækjum sínum.
Reynir hafði glöggt auga fyrir fegurð og sá ávallt það fallega og góða í öllu. Það má sjá í ljósmyndaverkum hans, en hann tók myndir af því sem aðrir eru venjulega ekki að spá í. Myndefni hans voru nærmyndir af yfirborði steina sem voru þaktir mosa og skófum. Var útkoman oft afar sérstæð og falleg. Ég man hvað það gladdi hann alltaf mikið að fá like eða umsögn á myndirnar sínar á facebook.
Það sem var svo dásamlegt við Reyni var að hann kunni svo innilega að njóta lífsins, hann elskaði að sitja úti í sólinni á pallinum sínum, borða góðan mat, hlusta á Sinatra og fá sér af og til vindil. Hann var líka mikil tilfinningavera og leyndi það sér ekki þegar eitthvað snart hann en hann varð oft klökkur vegna einhvers sem gladdi hann og var hann ófeiminn við að sýna þær tilfinningar.
Mér er afar minnisstæður dagurinn 12. maí fyrir akkúrat ári en það var mikill gleðidagur fyrir okkur sem við deildum með Reyni. Þann dag var Gabríela fermd og Ragnar sonur okkar skírður í höfuðið á afa sínum, eða Reynir Leo. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og grét Reynir af gleði. Reynir Leo ber svo sannarlega nafn með rentu en hann er jafn kómískur og uppátækjasamur og afi hans var og hefur hann marga takta frá afa sínum. Það tekur mig sárt að þeir hafi ekki fengið að þekkjast nema í rúmt ár og að ófæddur sonur okkar Ragnars fái aldrei að kynnast honum. Við munum samt ávallt halda minningu hans á lofti og gegnum þessar góðu minningar munu börnin okkar fá að kynnast þeim vandaða manni sem Reynir var.
Því miður tóku við erfið veikindi Reynis eftir aðeins nokkurra mánaða kynni af honum og var erfitt að horfa upp á það. En þrátt fyrir veikindin var hann alltaf jafn jákvæður, glaður og kunni að njóta góðu stundanna. Í hvert skipti sem við hittumst ljómaði hann af gleði sem lýsti upp herbergið, húmorinn var heldur aldrei langt undan og hélt hann skopskyninu allt fram á síðustu stundu.
Það er mér mikill heiður að hafa fengið að kynnast þessum mikla og góða manni og læra af honum að það á að njóta hverrar stundar og sjá gleðina og hamingjuna í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða. Við munum sakna hans sárt. Hvíl í friði, elsku Reynir.
María Gomez.
-----------------------------------------
Nú kveð ég ástkæra tengdaföður minn, hann Reyni Þorgrímsson, og hugsa um okkar fjölmörgu samverustundir. Reynir var brosmildur, glaðlyndur og leiddist ekki að hnoðast með fjölmörg barnabörn sín.
Reynir naut þess að hlusta á tónlist frá sjötta áratugnum og fengum við Inga nokkur tækifæri til að fara með honum á tónleika síðastliðna mánuði. Við áttum frábæra stund með Reyni og Rósu á Tony Bennett í ágúst 2013. Svo fórum við með Reyni á Álftagerðisbræður í Hörpu 13. ágúst þar sem það lifnaði yfir honum að heyra Ragga Bjarna syngja og Rósina. Sú ferð var hans síðasta úr Landakoti.
Ég mun heiðra þín síðustu orð við mig og passa upp á dóttur þína.
(Bubbi Morthens.)
Ólafur Tryggvason.
---------------------------------------------------------
Elsku afi, það er sárt að þurfa að kveðja þig, en ég veit að þú ert á góðum stað. Það verður erfitt að fá ekki að heyra þig kalla á nafna þinn, sem ég var svo montinn af. Ég man alltaf um jólatímann þegar þú sast inni í stofu, púaðir vindla og húsið fylltist af þessari yndislegu vindlalykt sem við frændurnir elskuðum, á meðan þú púaðir vindlana hlustaðir þú á klassíska tónlist. Þú kenndir mér og frændum mínum að láta appelsín eða annað gos út á ísinn okkar, það var alltaf svo gaman að koma í mat, því það klikkaði ekki í eitt skipti að afi kom með ís í eftirrétt handa okkur og var tilbúinn með appelsínið á hægri hönd.
Ég gæti skrifað endalaust áfram hvað ég á eftir að sakna þín mikið og hvað ég á eftir að sakna hversu ótrúlega stríðinn þú varst, sem ég fékk frá þér. Þú varst þessi stóri og sterki afi að utan, en að innan varstu svo hlýr og tilfinningaríkur sem ég er einnig líka.
En nú er komið að kveðjustund, takk fyrir allt sem þú kenndir mér, elsku afi, takk fyrir allar þær minningar sem ég mun eiga um alla ævi.
Þinn
nafni, Reynir Örn Einarsson.
--------------------------------------------------
Reynir Þorgrímsson var ekki bara einn af mínum bestu vinum heldur líka afi minn. Það var hægt að tala um allt við hann afa, hvort sem það var hjálp við heimanámið eða góð ráð varðandi lífið og tilveruna. Hann afi minn var líka merkilegur maður og varla hægt að óska sér betri afa. Hann kenndi manni svo margt, þar á meðal að láta gos á sunnudagsísinn sem honum þótti lostæti. Við fórum saman hverja einustu helgi í mörg ár þegar ég var lítill og gáfum öndunum brauð og skemmtum við okkur alltaf jafn vel.
Seint má gleyma öllum þeim skiptunum sem hann tók okkur frændurna að dorga við höfnina og öllum þeim sumrum sem var eytt úti í garði saman. Okkur vinunum þótti fátt betra en að sitja úti í sólhúsi á Þinghólsbrautinni og ræða þar nýjustu fréttir með afa og ekki skemmdi fyrir ef félagi okkar, Frank Sinatra, var á fóninum í bakgrunni.
Svo þegar við frændurnir vorum orðnir aðeins eldri þá fannst okkur alltaf jafn æðislegt þegar afi kíkti yfir um helgar og horfði á boltann með okkur. Seinasta skiptið sem við vinirnir horfðum á boltann saman lentum við einmitt í þvílíkri markaveislu í spænska boltanum á meðan við gæddum okkur á ljúffengum hamborgara, en þú afi minn slóst aldrei hendinni á móti því. Takk fyrir að vera alltaf til staðar og takk fyrir að vera besti afi í heimi. Hvíldu í friði, elsku afi, ég elska þig.
Þitt barnabarn, Viktor Þór.
---------------------------------------------
Afi minn lýsti upp heiminn með ást. Á móti var hann umvafinn ást. Ég þekki fáa menn sem kunna að tjá ást jafn vel og hann. Hann sagði ekki „bæ!“, heldur „I love you!“. Ég lærði að segja „I love you too!“. Þrátt fyrir að vera ekki blóðskyldur afa mínum, tók hann mér eins og ég væri hans eigin. Það var mín upplifun. Ég þurfti á því að halda í æskunni. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.
Afi lagði mikla áherslu á fjölskyldumálin. Enda var hann svo sannarlega höfuð fjölskyldunnar. Hann og amma sameinuðu fjölskylduna á margan hátt. Um hverja helgi var haldin veisla á Þinghólsbrautinni fyrir fjölskylduna. Það var staðalbúnaður í lífi fjölskyldunnar. Það þurfti ekki einu sinni að bjóða, fólk mætti bara. Þá sauð amma kleinur og parta og bakaði bananabrauð. Oft var líka kaka eða ís með gosi, en við yngri krakkarnir hlökkuðum alltaf til. Það mikilvæga við þessi staðföstu fjölskylduboð voru samböndin sem mynduðust. Þau hafa styrkst með árunum og eru nú órjúfanleg. Þetta held ég að afi minn hafi séð fyrir. Ég held hann hafi viljað búa til órjúfanleg fjölskyldusambönd. Fyrir það er ég einnig óendanlega þakklátur.
Afi var líka einstaklega góð fyrirmynd. Fyrst og fremst var hann reglusamur. Ekki veit ég til þess að hann hafi nokkurn tímann smakkað áfengi. En þegar hann púffaði á vindli, sá ég að hann var glaður. Það var hans næðisstund á pallinum. En mikilvægara en þetta var skapið og andlegi stöðugleikinn. Þó svo að ég reyni, get ég ekki munað eftir einu atviki þar sem hann varð reiður eða pirraður. Kannski var hann að hlífa mér. Efast samt um það. Brandararnir voru allsráðandi, hvert sem við fórum. Stundum voru þeir líka hóflega vandræðalegir. Afgreiðslustúlkur sem hafa orðið fyrir barðinu á því, skipta líklegast hundruðum. Ég hlæ upphátt í hvert skipti sem ég minnist þess. Lærdómurinn er mikill. Lífið er á margan hátt til þess að vera í góðu skapi, hlæja og brosa. Afi var persónuleiki sem allir geta tekið sér til fyrirmyndar. Meira að segja á dánarbeðnum var hann að segja brandara.
Kæra fjölskylda. Ég vona svo innilega að við náum öll að halda heiðri afa á lofti. Hann er farinn, en við getum haldið áfram. Haldið áfram að umvefja hvert annað með ást. Við getum haldið áfram að skapa órjúfanleg fjölskyldubönd. Og seinast en alls ekki síst, verðum við að halda áfram að gera það sem honum tókst frá fæðingu til dauða: Brosa, hlæja og vera í góðu skapi!
Gabríel Þór Gíslason.
---------------------------------------
Hann Reynir mágur og svili er látinn eftir erfið veikindi. Reynir kynntist henni Rósu systur fyrir meira en 50 árum og eftir nokkra mánaða kynni voru þau gift. Hann keyrði Benz , sem heyrði til tíðinda í okkar fjölskyldu, en þar átti enginn bíl á þessum tíma. Fyrsta heimili Rósu og Reynis í Barmahlíð 9 var innréttað í bláu og gulu og myndu mörg ung hjónin vilja eiga 1960-tals design húsgögnin sem voru borin inn.
Alla tíð lögðu Rósa og Reynir mikla alúð við heimili sitt og átti Reynir mikið safn málverka eftir helstu meistara landsins. Þau bjuggu lengst af á Þinghólsbraut 52 í Kópavogi með börnin sín fjögur. Þar áttum við hjónin margar góðar stundir með þeim, ekki síst þegar spilað var langt fram á kvöld. Reynir var kærleiksríkur fjölskyldufaðir og bar hag og velferð heimilins mjög fyrir brjósti. Einstakur afi og voru barnabörnin öll mjög hænd að honum. Hjálpsamur og greiðvikinn hver sem átti í hlut. Það sem hann tók að sér var gert af metnaði og dugnaði.
Ógleymanlegt er erindi hans um mismunandi víngerðir og gæði þeirra – ekki síst í ljósi þess að hann var alla ævi reglumaður. Auglýsti gjarnan á skemmtunum ónotaðan „kóta“ til sölu. Reynir hafði mikinn áhuga á félagsmálum. Hann tók virkan þátt í starfi JC og var einnig einn af stofnendum Lionsklúbbsins Víðarr. Reynsla hans og þekking á félagsmálum og fundarsköpum skipti miklu á sokkabandsárum þess klúbbs.
Reynir var baráttumaður sinna skoðana, þátttaka hans snerist ekki bara um huggulegar samverustundir heldur hafði hann metnað til þess að móta stefnu og koma framfaramálum í farveg. Hann var einstakur framsögumaður og ávallt tilbúinn „að leggja lið“. Síðustu árin voru Reyni erfið. Hann glímdi við margháttuð veikindi – sjúklingshlutverkið hentaði Reyni ekki vel, hugur hans var áfram fullur af lífsmóði. Barátta dóttur hans Ingibjargar fyrir verðugum aðstæðum fyrir föður sinn verður minnisstæð. Ekki létt að ganga fram fyrir skjöldu og ræða mál sinna nánustu opinberlega, en þegar vel er gert –
þá er það mikilvægt framlag til þess að móta samfélagið okkar, svo það búi hverjum og einum verðugar aðstæður. Elsti sonur Reynis og Rósu, Gísli Þór, veiktist og dó fyrir fáum árum. Líklega náði Reynir sér aldrei eftir það áfall. Eftir lifa Einar Örn, Ingibjörg og Ragnar Már. Reynir skipaði mjög stóran sess í hugum þeirra allra og voru þau öll mjög hænd að honum. Sást það best þegar Reynir lá banaleguna, að allan sólarhringinn sátu þau hjá honum – Rósa, börnin og barnabörnin, gerðu að gamni sínu við afa sinn eða pabba um leið og þau studdu hvert annað. Blessuð sé minning Reynis Þorgrímssonar.
Bryndís og Þórarinn.
-------------------------------------------------------
Reynir Þorgrímsson, vinur minn, er dáinn. Reynir er búinn að skipa fastan sess í mínu lífi frá því ég man eftir mér, fyrst sem Reynir vinur hans pabba og síðar meir sem sá sanni vinur sem hann alltaf reyndist, traustur og hlýr, þó aldursmunur okkar sé mikill. Reynir var mikill húmoristi og mjög stríðinn að eðlisfari og eru ófá skiptin sem hann hringdi til að atast í mér eða foreldrum mínum með hinum ótrúlegustu uppátækjum sem fengu okkur til að veltast um af hlátri.
Reynir og Rósa voru sannir höfðingjar heim að sækja á Þinghólsbrautina, garðurinn þeirra sá blómlegasti í bænum og alltaf logn á veröndinni, alveg með ólíkindum. Reynir hafði mikinn áhuga á myndlist og átti hann mikið og flott safn flottra málverka sem ég naut þess virkilega að skoða og virða fyrir mér þegar við vorum í heimsóknum á Þinghólsbrautinni.
Reynir og Rósa voru slegin þungu höggi þegar Gísli veiktist skyndilega og lést og voru dagar þeirra aldrei samir eftir það. Reynir var mikill og stór persónuleiki sem ég hef alltaf litið upp til og haft virðingu fyrir, sanna og verðskuldaða virðingu og er ég honum ávalt þakklátur fyrir þann tíma sem hann hefur gefið sér til að taka þátt í gleðistundum og stórum atburðum í lífi mínu. T.d. brúðkaupi okkar hjóna og skírn barna okkar svo eitthvað sé nefnt. Nú og um alla framtíð get ég yljað mér við góðar og fallegar minningar um mikinn mann. Hvíl í friði, gamli vinur. Rósu, Einari, Ingibjörgu, Ragnari, Önnu Margréti og fjölskyldum votta ég mína dýpstu samúð.
Hermann Ármannsson.