Leó Jónsson smiður

Leó Jónsson var fæddur þann 7. september árið 1909 á Höfðaströnd í Grunnavík.

Foreldrar hans voru Jón Arnórsson hreppstjóri og Kristín Jensdóttir en þau eignuðust sex börn.

Kristín var seinni kona Jóns, en með fyrri konu sinni Kristínu Kristjánsdóttur átti hann einnig sex börn.

Alsystkin hans voru Valgeir, Kristín, Karl, Indriði og Sigríður sem öll eru látin en hálfsystkinin voru Árni Friðrik, Elísabet, Valgerður, Kristján, Ólafía og Arnór.

Leó var aðeins fárra ára gamall þegar faðir hans féll frá, og flutti hann þá með móður sinni og systkinum í Hnífsdal. Þar bjó hann aðeins skamma hríð því hann flutti fljótlega til Valgeirs bróður síns sem þá bjó að Gemlufelli í Dýrafirði. Þar leið honum mjög vel á sínum þroska- og uppvaxtarárum.

Leó Jónsson smiður

Leó Jónsson smiður

En þó kom að því að hann hleypti heimdaganum, yfirgaf æskuslóðir sínar á vestfjörðum og fór til Siglufjarðar líklega 1933, þá rúmlega tvítugur. Þar voru næg verkefni fyrir duglegan ungan mann, verkefni sem flest snérust um veiðar á silfri hafsins, síldinni og vinnslu á henni sem skilaði æ meiri  verðmætum til lands og þjóðar.

Til Siglufjarðar kom margt ungt fólk til starfa á þessum árum og þar á meðal var ung stúlka úr Svarfaðardalnum, Sóley Gunnlaugsdóttir. Leiðir Leós og Sóleyjar lágu brátt saman og á ævigöngunni upp frá því voru þau samferða í lífinu. 
Þau hófu fyrst búskap á Ísafirði og bjuggu þar í eitt ár, en að þeim tíma loknum fluttu þau aftur til Siglufjarðar þar sem þau höfðu fyrst kynnst og bundist tryggðarböndum.

Þau Leó og Sóley eignuðust eina dóttur saman, Minný Gunnlaug Jónsdóttir, en áður hafði Leó eignast soninn Gunnar með Soffíu Bæringsdóttur.
Gunnar lést af slysförum þann 27. mars árið 1994.  Hann var kvæntur Guðbjörgu Stefánsdóttur í Bolungarvík og áttu þau fjögur börn saman, Hafþór, Jóhönnu Sóley, Bæring og Elínu, en fyrir átti Gunnar dótturina Fanný.

Minný var lengst af búsett á Sauðárkróki og eiginmaður hennar var Haukur Stefánsson sem lést árið 1992 en hún árið 2002.

Börn Minnýjar eru tvö, Leó Reynir Ólafsson og Sæunn.
Leó Reynir ólst upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Leó og Sóleyju á Hverfisgötunni og bjó hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Sæunn ólst upp hjá föðurafa sínum og ömmu á Ásfelli sem er rétt sunnan Akraness.

Fyrstu árin eftir að Leó kom til Siglufjarðar stundaði hann mest sjómennsku, en síðan söðlaði hann um og fór að vinna í landi. Fyrst í slippnum við bátaviðgerðir og ýmislegt fleira aðallega tengt bátum. Þar fann hann að smíðar áttu vel við hann, enda var hann laginn, nákvæmur og góður verkmaður.

Hann vann í tunnuverksmiðjunni í mörg ár og síðar hjá Húseiningum allt frá stofnun þess fyrirtækis til 75 ára aldurs þegar hann dró sig í hlé.  Hann var einn af þeim síðustu sem fengu ráðherrabréf sem veittu honum rétti til að vinna sem smiður, en það segir sitt um verkkunnáttu hans á þessu sviði.  Það sem einkenndi Leó og kom glöggt fram í öllum hans störfum, var vinnusemi og trúmennska. Þá var hann snyrtilegur og vandvirkur, og vildi ávallt hafa hlutina í afar mikilli röð og reglu.

Hann var hægur maður sem hafði sig ekki mikið í frammi, en góður í viðkynningu og þægilegur í umgengni. Hann kom ekki mikið nálægt félagsmálum, en starfaði þó um skeið af áhuga með vestfirðingafélaginu á Siglufirði meðan það var virkt, en það áhugamál sem átti hug hans mestan og í raun allt til hinstu stundar var tónlistin.

Hann hlustaði mikið á tónlist, söng gjarnan eða raulaði fyrir munni sér yfir útvarpinu og spilaði á orgel og harmoniku. En það var líklega harmonikan sem var honum hjartfólgnust og hana hafði hann gjarnan nálægt sér á góðri stundu.

En þótt gamla ítalska takkaharmonikan hljómi ekki lengur í höndum Leós afa þá geta hins vegar þeir gömlu tónar ómað sem gleðiríkur undirleikur þeirra minninga sem ástvinir eiga í hjarta á kveðjustund og um ókomna tíð.

Tekið af bloggsíðu Leós R Ólasonar