Geir Sigurjónsson Siglufirði

Geir Sigurjónsson  fæddur 11. júlí 1930 d. í oktíber 2019

Þá er enn einn af mínum gömlu og góðu vinum fallinn frá, Geir Sigurjónsson 89 ára gamall.

Ég kynntist Geira þegar ég var rétt 16 ára, þá ásamt honum, Bússa Jó, Didda Hafliða og Steina Kristjáns. Allir eldri en ég og þeir með bílpróf og unnu mikið tengt bílum og vinnuvélum.

Geiri hóf snemma vinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, þar sem ég vann einnig mjög lengi frá 16 ára aldri. Vinátta okkur var því nokkuð náin, bæði á vinnustaðnum og utan vinnustaðar. Þó vorum við framan af ekki á sama vinnusvæði, hann sem skilvindumaður við bræðsluna og ég fyrstu árin við mjölmóttökuna.

Geir Sigurjónsson

Geir Sigurjónsson

Síðustu árin hjá SR vann Geiri sem umsjónarmaður á SR-Vélaverkstæði, þar sem hann vann verk sitt með einstakri prýði öllum sem þar unnu til gagns og ánægju. Geiri var einstakt snyrtimenni, hvar sem á var litið honum tengt.

Sem dæmi: Aldrei sá ég hann taka vasaklút sinn upp úr vasa sínum, án þess að hann væri vandlega saman brotinn, tandurhreinan, og oft vandlega straujaður og þannig fór klúturinn til baka í vasa hans, eftir að hafa notað hann.
Aldrei sást blettur eða óþrif á vinnufötum hans, þrátt fyrir að hann sinnti störfum sínum af atorku til jafns  við vinnufélaga sína, sem flestir báru merki um aðstæður og  órein vinnuföt. Snyrtimennska, áreiðanleiki og gott bros var hans aðalsmerki. Nokkuð sem allir dáðust að.

Síðast er ég hitti vin minn Geira, var er ég heimsótti hann á sjúkrahúsið nú fyrir um 3-4 vikum síðan, þá tók hann brosandi á móti mér og rétti mér hendi sína og sagði; „Gaman að sjá þig vinur“ En á þessum tíma var hann að horfa á sitt uppáhalds sjónvarpsefni, það er fótbolta sem hann hafði mikinn áhuga á og var á sínum yngri árum, talsvert meira en liðtækur hjá KS og fylgdi liðinu sem einn af máttarstólpum þess á vellinum í kappleikjum. 

Athygli hans nú er ég heimsótti hann var ekki minni þó nú væri hann aðeins áhorfandi, því vart mátti hann missa af neinu sem á skjánum var, gaf sér rétt tíma til að gefa mér auga annað slagið, stundum eins og hann væri að átta sig á því hvort ég hefði verið að koma eða fara og sagði lítið.

Ég stoppaði stutt hjá vini mínum, og við kvöddum hvorn annan með brosi á vör, eins og venjulega. Blessuð sé minning míns trygga vinar.

Steingrímur Kristinsson, Siglufirði

Ath, þessi grein var send mMorgunblaðinu til birtingar, en vegna þess að ég hafði ekki frekari upplýsingar á blaði um fjölskyldu hans og fleira, þá fékkst hún ekki birt þar