Alda Jónsdóttir Siglufirði

Alda Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 28. júní 1937. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Keflavík 21. júní 2008.

Foreldrar hennar voru Jón Jóhannsson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 31.10. 1895, d. 1.10. 1962 og María Hjálmarsdóttir, húsfreyja, f. 1.4. 1899, d. 3.3. 1993.

Systkin Öldu eru

 • Björk, f. 3.9. 1929,
 • Snorri, f. 8.5. 1934, d. 23.6. 1934,
 • Hrönn, f. 2.5. 1939 og Sjöfn, f. 7.4. 1942, d. 2.7. 1943.

Alda giftist 6.9. 1958 Birgir Olsen frá Siglufirði, f. 22.3. 1937.

Foreldrar hans voru Olav Ingvald Visnes Olsen, f. 6.9. 1889, d. 27.8. 1973 og Bjarnrún Magðalena Jónatansdóttir Olsen, f. 28.11. 1895, d. 2.5. 1970.

Systkini Birgis eru

Alda Jónsdóttir - Ljósm; ókunnur

Alda Jónsdóttir - Ljósm; ókunnur

 • Ólöf María, f. 3.7. 1920, d. 1965,
 • Jón Kristján, f. 10.9. 1921,
 • Sverrir Hartvig, f. 9.11. 1925, d. 3.4. 2005,
 • Karl Hinrik, f. 29.10. 1926,
 • Bjarni Gísli, f. 5.9. 1931 og
 • Henry, f. 26.2. 1936, d. 6.1. 1938.

Börn Öldu og Birgis eru

1) Jón Olsen, f. 14.12. 1956, maki Erla Hólm Zakaríasdóttir, f. 25.8. 1954.
Börn Jóns og Jóhönnu Gunnarsdóttur, f. 31.3.1956 eru

Marta Jónsdóttir, f. 17.5. 1979, sambýlismaður Smári Þorbjörnsson, f. 28.11. 1981.
Börn Erlu eru
 • Gunnhildur Brynjólfsdóttir, f. 12.7. 1973, maki Rúrik Hreinsson, f. 16.5.1980 og
 • Sigurður Brynjólfsson, f. 9.9. 1982. 2) Ævar Olsen, f. 15.5. 1959.

Börn hans eru Birgir Júlíus Olsen, f. 23.11. 1985, sambýliskona Telma Sif Björnsdóttir, f. 15.8. 1981, sonur Birgis er Kristján Árni, f. 4.4. 2004, Gunnar Olsen, f. 24.8. 1990 og Elín Olsen, f. 10.6. 1998. 3) María Olsen, f. 13.10. 1962. Börn Maríu eru Margrét Maríudóttir Olsen, f. 9.12. 1980, sambýlismaður Haukur Gylfason, f. 2.11. 1979 og Birgitta Maríudóttir Olsen, f. 3.1. 1987, sonur Birgittu er Birgir, f. 27.11. 2004. 4) Björk Olsen, f. 12.8. 1964, maki Heiðar Víkingur Sölvason, f. 17.4. 1963. Börn þeirra eru Bára Rós Ingimarsdóttir, f. 5.3. 1985, sambýlismaður Tómas Arnar Emilsson, f. 27.12. 1984, María Lena Heiðarsdóttir Olsen, f. 4.4. 1993 og Sölvi Víkingur Heiðarsson, f. 10.8. 2001.

Alda var einn af stofnendum starfsmannafélags Suðurnesjabyggða og gegndi hinum ýmsu trúnaðarstörfum innan BSRB til fjölda ára. Hún starfaði mikið með skátafélaginu Víkverjum og var einn af stofnendum kvennadeildar Hjálparsveitar skáta í Njarðvík. Þá kom hún mikið að starfi innan Rauða Kross Íslands og var m.a. formaður Suðurnesjadeildar.

Alda var starfsmaður Íþróttamiðstöðvar Njarðvíkur hátt í tvo áratugi en síðar ráku þau hjónin Sólbaðs- og líkamsræktarstöðina Perluna í tuttugu ár. Þá var Alda starfsmaður Heiðarskóla í sjö ár.

Útför Öldu fer fram frá Njarðvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

 • Mamma, elsku mamma,
 • man ég augu þín,
 • í þeim las ég alla
 • elskuna til mín.
 • Mamma, elsku mamma,
 • man ég þína hönd,
 • bar hún mig og benti
 • björt á dýrðarlönd.
 • Mamma, elsku mamma,
 • man ég brosið þitt,
 • gengu hlýir geislar
 • gegnum hjarta mitt.
 • Mamma, elsku mamma,
 • mér í huga skín
 • bjarmi þinna bæna,
 • blessuð versin þín.
 • Mamma, elsku mamma,
 • man ég lengst og best
 • hjartað blíða, heita,
 • hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson)

Elsku mamma og tengdamamma, Guð geymi þig og góða ferð.

Jón og Erla.
-------------------------------------------------------------

Hvernig er hægt að byrja að festa þau orð niður á blað sem best lýsa manneskju sem var manni allt. Það eru ekki til orð í íslenskri tungu sem ná að nálgast því að lýsa henni. Hún var okkur mamma og amma en öllu fremur besta vinkona. Hún var fyrirmyndin í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Hún var það leiðarljós í lífinu sem beindi okkur alltaf á rétta braut. Í ófá skipti höfum við mæðgurnar spurt: Hvað myndi hún gera? Alltaf hefur svarið leitt okkur á réttan stað.

Hún var líkt og fjallkonan og sjálf móðir jörð að styrkleika og kom þeim skilaboðum til okkar að allir vegir væru færir í lífinu. Það var sama hvað bjátaði á þá sá hún bjartan punkt í tilverunni. Með þessum styrk mátti jafnframt finna áþreifanlega blíðu og hlýju frá henni. Þótt hún sé farin þá stendur það eftir.

Hún var á undan sinni samtíð í öllu sem tengdist heilsu og náttúru. Ófá seyði sem hún notaðist við úr eigin smiðju sitja nú á hillum Jurtaapóteksins í töfluformi sem sprenglærðir jurtalæknar hafa sett saman af mikilli kostgæfni. Hún var ímynd heilbrigðs lífernis en óboðinn gestur kom í heimsókn í vitlausan líkama og lét sér ekki segjast. Hún barðist hetjulega í átta mánuði, fram á síðasta dag. Við hlið hennar mátti alltaf sjá besta vin hennar og eiginmann til nær 50 ára.

Oftar en ekki var hana að finna fyrir framan eldavélina, annaðhvort að elda ekta heimilismat eða baka nýjar og nýjar kökur. Hún var af þeirri kynslóð sem enn bakaði jólasmákökur og þá ekki eina, tvær sortir heldur voru það einar þrettán tegundir auk einnar tilraunasortar hver jól. Alltaf þurfti ein sort að fylgja þótt enginn borðaði þær vegna gamals loforðs sem hún gaf föður sínum. Þessi staðfesta að halda í loforð sem var orðið 45 ára gamalt sýnir hversu trú og staðföst hún var í öllu sem hún gerði.

Hún var og verður innblástur í lífi okkar. Við lifum hvern dag til að líkjast henni meira. Elsku pabbi og afi þú veist að þú átt skjól hjá okkur. Elskum ykkur meira en orð fá lýst.

Fylgdu sársaukanum, láttu hann bera þig.

Opnaðu lófa þína og líkama fyrir honum.

Hann kemur í bylgjum eins og flóð og fjara og þú verður að vera eins og rekaldið á ströndinni, láta hann flæða yfir þig og þegar fellur frá, skilur hann þig eftir tóma og hreinþvegna.

Dragðu djúpt andann – eins djúpt og sársaukinn nær – og þá öðlastu innra frelsi frá honum eins og sársaukinn heyri ekki þér til heldur aðeins líkama þínum.

(Anne Morrow Lindbergh)

Þín dóttir og ömmubörn, María Magðalena Birgisd. Olsen, Margrét Maríudóttir Olsen, Birgitta Maríudóttir Olsen.

Það er ekki lítið skref sem ung kona stígur, þegar hún gengur í fyrsta sinn inn á heimili tilvonandi tengdaforeldra sinna. Ég man að ég var feimin og uppburðarlítil. En það stóð ekki lengi. Mér var strax tekið eins og einni úr fjölskyldunni og þau Alda og Birgir tóku mér eins og væri ég þeirra eigin dóttir.

Við Jón áttum okkar fyrsta heimili á neðri hæðinni á Þórustíg 1 og fluttum síðar á Þórustíg 30, stuttu áður en eldri dóttir okkar fæddist. Mikill samgangur var á milli heimilanna og alltaf var Alda boðin og búin að aðstoða ef á þurfti að halda.

Hún hafði þó mikið á sinni könnu fyrir, enda var Birgir oft veikur á þessum árum og ábyrgð heimilisins hvíldi öll á henni. Alda lagði oft nótt við dag til að vinna þau verk sem vinna þurfti. Ég man að mér fannst nú óþarfi að strauja allan þvott eins og hún gerði, meira að segja borðarýjurnar, eins og hún kallaði þær. Og alltaf var til nýbakað með kaffinu, enda mikill gestagangur á heimilinu. Þau hjónin voru virk í skátastarfi Víkverja og einnig Hjálparsveit skáta í Njarðvík. Birgir var þar formaður og oft voru haldnir fundir við eldhúsborðið. Ekki get ég ímyndað mér að nokkur hafi farið svangur af þeim fundum.

Ekki er ætlun mín að rekja hér lífshlaup Öldu, enda eflaust margir pennafærari en ég betur til þess fallnir.

Mig langar til að þakka henni fyrir allt sem hún kenndi mér í þessu lífi. Hún var mér sem móðir frá fyrstu tíð og þó að hjónabandi okkar Jóns hafi lokið eftir 19 ár, þá skipaði Alda ávallt sinn sess í hjarta mínu og ég veit að sama gilti um mig. Samskiptin voru ekki mikil síðustu árin, en kveðjur gengu á milli með dætrum mínum, Öldu og Mörtu. Þegar ég heimsótti hana síðast á sjúkrahúsið, sá ég að þrátt fyrir erfið veikindi að undanförnu stóð kjarnakonan Alda enn fyrir sínu og var óbuguð.

Jóhanna Gunnarsdóttir. 
-------------------------------------------------

 • Elsku besta amma,
 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.
 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.
 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.
 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Takk fyrir allar góðar minningar og allar yndislegu stundirnar sem þú gafst okkur.

Guð geymi þig, þín barnabörn, Bára Rós, María Lena og Sölvi Víkingur.
----------------------------------------------

Þegar ég var lítil fannst mér að amma hlyti að vera besta konan í öllum heiminum. Hún var svo hlý og góð. Hún varð aldrei reið sama hvað ég gerði. Svo átti hún alltaf nammi. Það var ekki hægt að biðja um meira.

Þegar ég var unglingur fékk ég að fara ótakmarkað í ljós á Perlunni og uppskar mikla öfund frá jafnöldrum mínum, ekki síst í kringum ferminguna, svo gaf hún mér pening þegar ég átti síst von og sagði mér að fara og kaupa mér föt. Það var auðvitað himnaríki fyrir hvern ungling.

Þegar ég varð fullorðin varð amma að vinkonu minni. Það var alltaf svo gott að leita til hennar til að fá ráð, sama hvað gekk á, og ég nýtti mér það óspart. Amma var hafsjór af upplýsingum, hvort sem það var hvernig best væri að strauja ermar eða elda hrísgrjónagraut. Svo var hún auðvitað einstök þegar kom að alvörumálefnum. Amma hlustaði svo vel og mundi allt sem ég sagði henni en fór aldrei með það lengra. Það var bara okkar á milli, enda lagði amma mikið upp úr þagmælsku, almennri kurteisi og mannasiðum. Þegar eitthvað skemmtilegt gerðist varð ekkert að raunveruleika fyrr en ég sagði henni fréttirnar.

Hún varð alltaf svo ánægð fyrir mína hönd. Viðbrögð hennar skiptu mig líka ótrúlega miklu máli og ég hef alltaf viljað gera ömmu stolta af mér. Ég vona innilega að það hafi tekist. Amma átti einstakt lag með að muna dagsetningar, hvort sem það voru prófdagar eða eitthvað sem stóð til hinn eða þennan daginn. Hún hringdi alltaf í mig sama dag og ég kláraði prófin til að athuga hvernig hefði gengið en passaði sig þó á því að hringja hæfilega löngu eftir á, svo ég fengi nú tíma til að jafna mig. Ég hafði kannski minnst á það mánuði áður við eldhúsborðið á Holtsgötunni, að ég yrði búin í prófum þennan dag og hún mundi það.

Amma átti sérstakt samband við öll barnabörnin sín og lét hverju og einu líða eins og það væri einstakt. Hún vissi vel að enginn væri eins og tók mið af því. Enda eru barnabörnin hennar ömmu jafnólík og þau eru mörg. Hvert og eitt okkar var einstakt í hennar augum hvort sem við bjuggum í húsinu við hliðina á eða í fjarlægum löndum, hún gerði aldrei upp á milli okkar. Amma mín var tillitsöm, umburðarlynd og umfram allt kurteis. Hún hafði gaman af fallegum fötum og keypti alltaf það vandaðasta, þó að það væri mun dýrara. Vinkonur mínar töluðu alltaf um ömmu sem skutluna, enda var hún stórglæsileg kona.

Hún amma mín hefur reynst mér ómetanlega á öllum sviðum enda gæti ég ekki hugsað mér betri ömmu. Þó að erfitt sé að tala um ömmu í þátíð verð ég að hugsa raunsætt og hugsa um allt unga fólkið sem deyr alltof snemma. Amma fékk rúm 70 ár og ég veit að henni þóttu þetta góð ár. Hún talaði einmitt um þetta við mig nokkrum dögum áður en hún dó. Þó svo að við myndum öll vilja hafa hana lengur hjá okkur verðum við að vera þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með henni. Ég veit að hún hefði viljað vera lengur með okkur en það er ekki spurt að því. Í staðinn eignumst við engil sem fylgir okkur um ókomna tíð.

Hvíldu í friði, elsku amma mín. Marta.
---------------------------------------------------

Elsku hjartans amma, ég er svo rík af yndislegum minningum um þig amma mín. Sú fyrsta er frá því að ég var með ykkur afa í sumarbústaðnum þegar við lékum okkur saman uppi á klettunum og vorum með gullinbú. Minningarnar sem ég á eru óendanlegar margar og allar jafnfallegar og dýrmætar.

Þú hefur haft svo mikil áhrif á líf mitt, mótað það og gert það miklu betra. Allur sá stuðningur sem þú hefur sýnt mér í náminu, þú hefur verið drifkrafturinn minn. Ég mun klára þetta langa nám fyrir þig elsku amma mín. Þú sagðir alltaf við mig: „Bára mín skildu bara smá pláss eftir á stólnum þínum og þá get ég komið og hjálpað þér með prófið ef þú þarft hjálp.“ Ég mun aldrei gleyma seinasta skiptinu sem ég heimsótti þig um páskana, þá sátum við tvær inni í eldhúsi og við gátum spjallað saman í marga klukkutíma við hlógum og höfðum gaman, oh, hvað ég á eftir að sakna þess. Við ákváðum að halda í sameiningu þessa svakaflottu fjölskylduveislu, þú varst svo ánægð með að allir ætluðu að hittast og eiga notalega og skemmtilega stund saman. Þú varst alltaf svo jákvæð og sást alltaf það góða í öllum. Ég er svo heppin að hafa átt yndislega ömmu eins og þig.

Ég dái þig fyrir hugrekki, baráttu, styrk, umhyggju, ást þína og góðvild. Þú ert fyrirmynd mín og ég vildi ekkert frekar í heiminum en að vera eins og þú. Ef allir væru eins og þú þá væri heimurinn fullkominn.

Þú og afi komuð oft til okkar austur á Egilsstaði við ferðuðumst um og áttum yndislegar stundir saman. Mánuði áður en litli bróðir fæddist þá komu þið afi austur, þú hjálpaðir okkur svo mikið þú þreifst, straujaðir og undirbjóst allt fyrir litla prinsinn áður en hann fæddist. Þetta er týpískt þú, þú varst allaf á fullu og stoppaðir aldrei og þér leið best þegar þú varst að hjálpa öðrum. Þó að næstum alla mína tíð hafi ég búið langt frá þér og það hafi verið erfitt þá er ég samt þakklát fyrir það að vissu leyti því þegar ég og mín fjölskylda komum til ykkar afa, þá vorum við saman, við borðuðum, við hlógum og göntuðumst og við áttum alltaf yndislegar stundir.

Þið mamma áttuð einstakt samband, þó að við byggjum austur á Egilsstöðum þá töluðuð þið saman oft á dag. Þið voruð ekki bara mæðgur heldur bestu vinkonur. Elsku amma ég skal hugsa jafnvel um mömmu og þú gerðir. Ég trúi ekki að það sé komið að því að þú kveðjir okkur. Þetta er það erfiðasta sem ég hef lent í, við vorum svo nánar og það var alltaf svo gott að leita til þín.

Það verður svo erfitt að lenda á Keflavíkurflugvelli og engin amma komi og taki á móti mér og fara með mig heim og haldi þessi svakakökuboð. Ég er svo þakklát fyrir allan tímann sem ég hef fengið að vera með þér.

 • Hver minning dýrmæt perla að liðnum
 • lífsins degi,
 • hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
 • Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
 • og gæfa var það öllum, er fengu að
 • kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Ég gæti ekki hugsað mér betri engil en þig. Ég elska þig, elsku yndislega amma mín, þín, Bára Rós.