Alfreð Lilliendahl símritari

Alfreð Lilliendahl f. 14. ágúst 1909 - d. 25.september 1969

EKKI grunaði mig þegar ég minntist sextugsafmælis míns gamla vinar og starfsbróður hér í blaðinu hinn 14. ágúst sl. að svo stutt yrði í dánardag hans, en hann andaðist á Sjúkrahúsi Akra ness 25. sept. 1969.

Alfreð Lilliendahl var fæddur 14. ágúst 1909 í Vopnafirði. Foreldrar hans voru Ágústa og Carl Lilliendahl kaupmaður. Þau fluttu til Akureyrar þegar hann var enn í æsku og þar hóf hann störf hjá Landsímanum árið 1925 sem sendisveinn. Sendisveinninn tók vel eftir hvernig símritararnir höguðu störfum sínum og æfði sig af kappi og lærði upp á eigin spýtur símritun á örskömmum tíma og náði strax mikilli leikni í starfi og tamdi sér frá byrjun frábæra vandvirkni og nákvæmni.

Og brátt kom að því að sendillinn á Akureyri var sendur í forföllum bæði til Siglufjarðar og Seyðisfjarðar um stuttan tíma, en hvarf síðan aftur að sínu fyrra starfi á Akureyri. Skömmu eftir 1930 losnaði starf símritara á Siglufirði. Tveir munu hafa sótt um það. Mér er í minni að faðir minni sagði: „Ég vildi miklu heldur fá sendilinn frá Akureyri."

Alfreð Lilliendahl símritari - Ljósm; ókunnur

Alfreð Lilliendahl símritari - Ljósm; ókunnur

Og það varð. Alfreð settist hér að og átti hér heima æ síðan. Stofnaði hann heimili með ágætri konu sinni, Ingunni Steingrímsdóttur, sem hann missti eftir skamma sambúð, frá þrem ungum börnum. Þegar hann hóf störf hjá Landsímanum ríkti kyrrð yfir vötnum og framfarir í símamálum voru litlar sem engar. Það var hin þunga hönd kreppunnar, sem átti stærstan þátt í því.

En smám saman birti til og forleikur hins mikla framfaratíma í símamálum landsins hefst um 1935 með opnun talsambands við útlönd , strandarstöðvar eru reistar hver af annarri, talsambandi við skip og báta komið á, fjölsímatækni ryður sér til rúms um 1940, o.s.frv. Síðan hefst annar þáttur þessarar miklu byltingar, sem nú er orðin að veruleika að miklu leyti. Ef til vill gera menn sér ekki grein fyrir hve mikið hefur verið gert í símamálum landsins frá 1956 til 1969.

Nú tengja radíófjölsambönd landshluta saman, tele printer sambönd komu í stað gamla ritsímans og síðast en ekki sízt, sjálfvirka símasambandið, sem nú er óðum að komast inn á hvert heimili, og tengir brátt allt landið saman í eina allsherjar símstöð. Allt þetta, sem ég hef talið upp, hefir ekki gerzt af sjálfu sér. Það hefur kostað feikna vinnu að

undirbúa þessa hluti, og gera símastofnunina hæfa til! að framkvæma og viðhalda öllu þessu. Alfreð tók öllum þessum breytingum með stakri ró og dálítilli tortryggni, en smám saman, ef hann sá að gagn mátti verða að nýrri tækni, tók hann hana í sína þjónustu og sátt. Hann gat sem sagt verið þó nokkuð íhaldssamur og íhaldssemin varð honum styrkur á vissan hátt og gerði honum kleift að melta allar breytingar í rólegheitum. Nú er þessi elskulegi og góði drengur og starfsfélagi allur.

Ég man hinn glæsilega frjálsíþróttamann, fjörmanninn glaða, frábærlega söngelskan og listfengan, sem söng gjarnan hárri og skærri rödd, þegar hann bragðaði vín í vinahópi, hrók alls fagnaðar, sem tók sinn toll af því glaða því, sem var á Siglufirði fyrr á árum, þar þekktu allir alla, útlendir sem innlendir, hann var hvarvetna aufúsugestur.

Hann fór suður á Akranes í byrjun ágúst sl. bæði til að vera með fjölskyldu sinni á sextugsafmælinu og eins að leita sér lækninga við sjúkdómi, sem hafði þjáð hann um allmörg ár. Þessi ferð var hans síðasta lífs, og í dag verður hann jarðsettur hér í Siglufirði, þar sem hann. starfaði öll sín manndómsár og batt svo mikla tryggð við. Missir okkar félaganna er sár, en enn sárara er fyrir dótturina ungu og synina tvo að kveðja ástkæran föður. Ég og samstarfsmenn mínir sendum kærar samúðarkveðjur til barnanna og biðjum guð að blessa góðan dreng.

Gunnar Jörgensen.