Tengt Siglufirði
ln memoriam Inger Schiöth Þórðarson
F. 24. maí 1925. D. 15. nóv. 1961 SÚ harmafregn barst um Háskólann fyrir tæpri viku, að frú Inger Þórðarson, kona prófessors Þóris Þórðarsonar, væri látin. Sú fregn kom að vísu ekki alls kostar á óvart, því að frú Inger hafði lengi átt við alvarlegan sjúkdóm að stríða, en hinir mörgu vinir þeirra hjóna héldu í lengstu lög í þá von, að viljastyrkur frú Inger, lífsgleði hennar og lífsþróttur myndi vinna bug á sjúkdómnum.
Frú Inger Þórðarson var fædd á Akureyri 24. maí 1925, og var því aðeins 36 ára, er hún lézt. Hún var dóttir Age Schiöth, lyfsala og konu hans Guðrún, f. Julsö.
Frú Inger ólst að mestu leyti upp á Akureyri hjá ömmu sinni og afa, er alla stund voru henni mjög kær. Frá fyrstu tíð hafa kynni mín af Inger verið mér hugstæð og hugþekk. Ég kynntist henni fyrst fyrir 23 árum, er ég var nemandi í Menntaskólanum á Akureyri og kenndi henni undir inntökupróf í skólann.
Mun ég seint gleyma henni eins og hún var þá, broshýrri og brosmildri, glettinni og geislandi af lífsfjöri, en jafnframt prúðri og háttvísri, svo að af bar. Í menntaskólanum reyndist hún mjög góður nemandi, og var henni sérstaklega sýnt um málfræði og tungumál. Stúdentsprófi lauk hún frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1944 með mjög góðum vitnisburði. Fylgdist ég með námsferli þessa geðþekka nemanda míns, og var kunnugt um, að hún var í miklum metum hjá skólameistara og öðrum kennurum skólans.
Fljótlega að loknu stúdentsprófi hélt Inger til Svíþjóðar til náms og starfa, og dvaldist þar hjá frænku sinni í 3 ár, 1945—1948. Lagði hún þar m.a. stund á tungumál. Á árunum 1948—1951 starfaði hún hér heima á skrifstofu. Var hún mjög fær til allra skrifstðfustarfa og hafði ágætan undirbúning undir þau störf.
Sumarið 1951 giftist Inger Þórir Kr. Þórðarson, er lokið hafði þá um vorið embættisprófi í guðfræði með miklum ágætum.
Fóru þessi ungu, glæsilegu og gáfuðu hjón til Bandaríkjanna þá um haustið, þar sem Þórir stundaði framhaldsnám í fræðigrein sinni í Chicago. Undu þau vel hag sínum þar, og báðum varð þeim mikið úr dvölinni, enda voru þau bæði óvenju skyggn á menntunar- og menningarfæri erlendra þjóðfélaga og kunnu að hagnýta sér þau.
Tók Inger mikinn þátt í hinu erfiða námi manns síns og varð honum þá sem jafnan síðar mikil stoð og styrkur. Þau hjónin komu hingað heim, er Þórir var skipaður dósent í guðfræði við Háskóla Íslands 1954. Þau dvöldust að nýju í Chicago 1957— 1959, þar sem prófessor Þórir var við kennslu og sérfræðilegar rannsóknir og lauk doktorsprófi í guðfræði. Voru þau hjón vissulega hinir ágætustu fulltrúar lands síns á erlendum vettvangi og eignuðust þar fjölda vina. Frú Inger bjó manni sínum vistlegt og ágætt heimili hér í Reykjavík.
Eru þeir margir, sem þar hafa verið heimilisvinir, og á ég því láni að fagna að vera einn í þeirra hópi. Hin gáfaða húsfreyja lagði þar mikið til mála í viðræðum um menningarmál samtímans, enda var hún vel menntuð og víðsýn og bjó yfir mikilli sálrænni innsýn í mannheima. Hún var fágætlega áhugasöm um kennslustörf manns síns og almenn umbótamál í hinum unga háskóla vorum. Stúdentar leituðu mjög á heimili þeirra, og lét frú Inger sér umhugað um þá, þ. á m. erlenda stúdenta, er hér dvöldust við nám.
Er það ómetanlegur styrkur hverjum skóla — og þá ekki sízt háskóla — að konur kennaranna séu áhugasamar um störf eiginmanna sinna og um málefni stofnunarinnar. Er háskóla vorum því mikil eftirsjá að frú Inger. Að frú Inger Þórðarson er mikill mannskaði. Hún var óvenju vel gerð kona, greind, geðfelld og góðviljuð, hreinlynd og trygglynd. Hún var heilsteyptur persónuleiki, að sumu leyti dul og var stundum sem tregi byggi undir glaðværð á ytra borði. Þykir mér líklegt, að það verði rakið til þess mikla áfalls, að hún missti barnung móður sína.
Hún hafði skýrt mótaða lífsstefnu, sem henni var mikill styrkur að í sjúkdómi sínum, en honum tók hún með sálarró og viljaþreki þroskaðrar konu. Frú Inger var fjarskalega barngóð, og hændust börn mjög að henni. Trega börn á heimilum vina þeirra hjóna nú sárt Inger, sem alltaf var aufúsugestur, er hafði frá mörgu að segja og hafði óvenju næman skilning á börnum, í gleði þeirra og raun. Þessi smávinir munu aldrei gleyma Inger, „sem var svo góð og skemmtileg", eins og einn þessara vina hennar lýsti henni látinni.
Við fráfall frú Inger er meiri harmur kveðinn að eiginmanni hennar og öðrum vandamönnum en svo að hér verði rætt. I hinum mikla harmi er þess að minnast, hve bjart er og fagurt um minningu hennar, hve góðan orðstír hún gat sér hjá öllum þeim, er af henni höfðu kynni og hve hlýtt þeim er öllum til hennar. Vér geymum minningu hennar í þakklátum huga. Kennarar háskólans og aðrir starfsmenn senda prófessor Þóri Þórðarsyni, svo og föður frú Inger og öðrum vandamönnum innilegar samúðarkveðjur.
Requiescat in pace. - Ármann Snævarr.