Óskar Garibaldason, verkalýðsleiðtogi

Óskar Garibaldason var fæddur á Engidal á Úlfsdölum við Siglufjörð 1. ágúst 1908. D. 1. ágúst 1984

Foreldrar hans voru Garibaldi Einarsson, f. 1. júní 1864 á Grímsnesi á Látraströnd, og Margrét Petrína Pétursdóttir, f. 13. okt. 1869.

Þau tóku sig upp frá þokkalegri jörð, Miðhóli í Sléttuhlíð, vorið 1908 og settust að á Engidal. Hún bar þá Óskar undir belti. Engidalur var engin kostajörð en ástæður þess að þau fluttu munu hafa verið, að Garibaldi vildi vera nær Siglufirði, sem var mikill hákarlaútgerðarstaður á þeim tíma. Hann var kominn af miklum sjósóknurum og bændum í báðar ættir. Hann var lengi formaður á bátnum Emmu á hákarlaveiðunum. Þær gáfu mun meiri tekjur en búskapur í sveit og það mun hafa verið ástæða flutningsins.

Óskar Garibaldason var yngstur níu systkina. Hin voru

  • Einar Kristbjörn, f. 1889,
  • Pétur Garibaldason, f. 1891,
  • Hallur Garibaldason, f. 1893,
  • Guðmundur Jóhann, f. 1895,
  • Sigríður Pálína, f. 1897,
  • Málfríður Anna, f. 1900,
  • Ásgrímur, f. 1901, og
  • Indíana Guðbjörg, f. 1904.

Jafnframt búskapnum var sjómennska stunduð af karlmönnunum þegar aldur leyfði og þá sérstaklega hákarlaveiðarnar.

Garibaldi varð ekki langlífur, dó 54 ára gamall úr krabbameini á 10. afmælisdegi Óskars, 1. ágúst 1918. Margrét hélt áfram búi með börnum sínum sem heima voru.

Óskar og Anney

Óskar og Anney

Óskar fór haustið 1918 til Siglufjarðar í barnaskóla og dvaldi þá hjá Halli bróður sínum og Sigríði Jónsdóttur mágkonu sinni en þau höfðu gift sig þá um vorið og hafið búskap á Siglufirði. Indíana systir þeirra bræðra var einnig á Siglufirði þennan vetur og var í vist hjá Jónínu Tómasdóttur og Kjartani Jónssyni.

Mikill harmleikur helltist yfir fjölskylduna einhvern tíma á milli 12. og 15. apríl vorið 1919 þegar snjóflóð féll yfir bæinn Engidal og eirði engu nema hundinum Skoppu, í miklu stórviðri, sem gekk yfir landið.

Þar fórst Margrét móðir Óskars og þrjú börn hennar, Pétur, Pálína og Anna og maður Önnu, Gísli Gottskálksson, fóstra Margrétar, Halldóra Guðmundsdóttir og lítil stúlka, Kristólína Kristinsdóttir, sem var í fóstri hjá Margréti, alls 7 manns. Það má leiða líkur að því að þessir atburðir hafi rist djúp spor í sálarlíf 10 ára snáða.

Bræðurnir Hallur, Jóhann og Ásgrímur voru á hákarlaveiðum þegar þessir atburðir gerðust og hélt skip þeirra inn til Ísafjarðar undan stórviðrinu. Einar var orðinn búsettur á Ísafirði.

Í einni svipan var Óskar orðinn bæði föður- og móðurlaus en hann átti góða að, því að Hallur og Sigríður gengu honum í föður og móður stað. Hjá þeim dvaldi hann til fullorðinsára ásamt jafnaldra sínum Jóhannesi Jósefssyni, sem kom í fóstur til þeirra hjóna á sama tíma og dvaldi sömuleiðis til fullorðins ára.

Þó að skólaganga yrði ekki löng var Óskar mjög námfús og var nánast alla ævi að nema í sjálfsnámi það sem hugurinn beindist að hverju sinni.

Eitt sinn var það þýska og annað sinn sænska og bjargaði hann sér vel á báðum málunum. Einnig sökkti hann sér niður í esperanto um tíma.

Óskar var töluglöggur vel og lá bókhald mjög vel fyrir honum.

Þegar hann var um tvítugt var hann að vinna á síldarplani og þar var einnig ung glæsileg og harðdugleg stúlka frá Ólafsfirði við söltun. Góð kynni tókust með þeim og ferðir voru farnar inn í Ólafsfjörð til frekari kynna. Stúlkan hét Anney Ólfjörð Jónsdóttir, f. 20. júní 1912, og var dóttir hjónanna Jóns Hanssonar sjómanns og Svövu Guðvarðardóttur.

Óskar og Anney Jónsdóttir gengu í hjónaband fyrsta vetrardag 1930. Þau settust að á Siglufirði og varð þeim sex barna auðið.
Þau eru

  • Hörður Sævar íþróttakennari, f. 1932,
  • Erla hjúkrunarfræðingur, f. 1936,
  • Hlynur Sævar tónlistarkennari, f. 1942,
  • Hallvarður Sævar málarameistari, f. 1944,
  • Hólmgeir Sævar húsasmíðameistari, f. 1945, og
  • Sigurður Helgi Sævar, f. 1950, en hann dó 18. febrúar 1961, efnilegur drengur og upprennandi tónlistarmaður.

Óskar og Anney voru mjög samhent í uppeldi barna sinna og hvetjandi til náms og þroska.

Óskar stundaði allskonar vinnu sem til féll. Hann var eftirsóttur dixilmaður á síldarplönum en svo voru þeir menn kallaðir sem settu lok á fullar síldartunnur og lokuðu síðan með gjörðum. Til þessa verks voru notaðir dixlar og drifholt og þaðan er nafngiftin dregin.

Hann var verkstjóri á síldarplani. Um tíma átti hann vörubíl og stundaði vörubílaakstur. Hann vann einnig á trésmíðaverkstæði Kristjáns Sigtryggssonar um hríð. Haust eitt fór hann með sænskum vinum sínum á síldveiðiskipi til Svíþjóðar og var vetrarlangt og var Hörður sonur hans með honum í þeirri ferð. Sumarið eftir voru þeir með Svíunum á reknetaveiðum fyrir Norðurlandi.

Óskar var þeirrar gerðar að hann mátti aldrei aumt sjá, þá var hann kominn til að aðstoða. Lítil dæmisaga um Óskar: Rottur komust inn í kjallara húss hans og setti hann upp gildru til að ná þeim. Jú, jú, rottur komu í gildruna. Hann gat ekki hugsað sér að drepa þær og labbaði með gildruna með rottunum í árla morguns fyrir fótaferð manna niður í fjöru hjá flóðvarnargarðinum og sleppti rottunum úr gildrunni þar.

Ungur tók hann virkan þátt í verkalýðshreyfingunni til að bæta kjör verkafólks. Hann var um árabil í stjórn og síðar formaður og starfsmaður Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði.

Einn er sá þáttur sem ekki skal gleymast í minningu Óskars og Anneyjar en það er tónlistarþátturinn. Óskar spilaði á sög og mandólín og snerti einnig á fiðlu en Anney spilaði á orgel og hafði fína altrödd. Þau voru bráð-músikölsk. Þau fundu til þess að börn og unglingar á Siglufirði fengu ekki nægilega tónlistaruppfræðslu.

Þau tóku sig til með vinum sínum Kristjáni Sigtryggssyni og Hafliða Guðmundssyni og fleirum og stofnuðu Tónskóla Siglufjarðar. Eldhuginn Sigursveinn D. Kristinsson tónskáld var fenginn til að veita skólanum forstöðu. Anney heimsótti alla síldarsaltendur og önnur fyrirtæki á Siglufirði og bað um framlög til skólans.

Ég hygg að enginn hafi neitað henni um framlag, svo gott var þetta mál í kynningu Anneyjar. Verkalýðsfélagið Vaka studdi skólann af myndarskap. Óskar aflaði hljóðfæra fyrir skólann, m.a. frá Þýskalandi og flutti inn sjálfur. Skólinn var gríðarleg upplyfting fyrir menningarlífið á Siglufirði og gaf börnum og ungu fólki tækifæri til ríkara menningarlífs.

Anney lést 28. nóvember 1975. Eftir lát hennar bjó Óskar einn í húsi sínu. Hann kynntist svæðanuddi í Þýskalandi á fullorðinsaldri og hóf þá að kynna sér allt um svæðanudd. Hann fékk sér nuddbekk og þegar fólk frétti það þá leitaði það til hans um nuddmeðferð. Margur fór af fundi hans með betri líðan.

Óskar lést daginn eftir 76 ára afmælið sitt 2. ágúst 1984.

Blessuð sé minning hans. Jón Hallsson.

-------------------------------------------

Óskar Garibaldason

Fyrir um það bil tuttugu árum átti ég erindi við Valdimar Jóhannesson bókaútgefanda í Reykjavík. Þegar samtali okkar um það var lokið vék Valdimar að Siglufirði. Hann sagðist fáum Siglfirðingum hafa kynnst, en sér væri þó alltaf minnisstæður maður frá Siglufirði er hann hefði kynnst á Kristneshæli þar sem þeir voru báðir til lækninga.

Þessi maður hét Óskar, hafði eitthvert sjaldgæft föðurnafn, og virtist alltaf vera uppteknari af líðan annarra sjúklinga en sínum eigin veikindum, og önnum kafinn við að hjálpa þeim og gera þeim greiða.

Þessi lýsing gat ekki átt við neinn annan en Óskar Garibaldason og kom mér ekki á óvart. Óskar var alla ævi önnum kafinn að hjálpa meðbræðrum sínum og systrum, gera þeim tilveruna léttbærari, bæta samfélagið, berjast fyrir betri kjörum til handa þeim sem fátækastir voru og áttu erfiðast uppdráttar, styðja fólk sem stóð höllum fæti í lífsbaráttunni, koma á fót menningar- og hjálparsamtökum af ýmsu tagi og stuðla að því að þau næðu markmiðum sínum.

Og ekki var hann fyrr hættur sínu daglega brauðstriti vegna aldurs en hann tók að leggja fyrir sig svonefnt svæðanudd, en það er óhefðbundin lækningaaðferð sem er stunduð víða um heim, hliðstæð nálastungu, grasalækningum og fleiri áþekkum lækningaaðferðum. Kunnáttuna hygg ég að hann hafi aðallega sótt í bækur, meðal annars í tvo hnausþykka doðranta á þýsku sem ég sá einu sinni heima hjá honum. Hann virtist ná árangri og sumir sögðu að hann hefði meiri „praksis“ en læknarnir í bænum samanlagt. Ekki veit ég hvort hann tók nokkurn tíma eyri fyrir þetta; mér er næst að halda að hann hafi aldrei gert það.

Meðal þess sem einkenndi Óskar var hve opinn og einlægur hann var. Á fundi í fulltrúaráði Sósíalistafélags Siglufjarðar skömmu eftir að Gunnar Jóhannsson var kjörinn á þing var rætt um hvern félagið ætti að styðja til forustu í Verkamannafélaginu Þrótti. Þóroddur Guðmundsson stakk upp á því að haft yrði samband við Óskar, sem þá var sjómaður á sænsku skipi, og hann beðinn að taka að sér rekstur félagsins.

Eitthvað var síðan rætt um Óskar og hæfni hans til starfsins. Það eina sem einhver hafði út á hann að setja var að hann ætti ekki til þau pólitísku klókindi, sem stundum þyrfti að beita gegn erfiðum mótherjum. En engin önnur uppástunga kom fram og enginn dró í efa getu hans til að vinna þau verk sem starfið útheimti og aldrei var ýjað að því að hann notaði aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku. Og engin dæmi veit ég þess að neinn hafi beðið hnekki vegna þess hvað Óskar var opinn, einlægur og hreinn og beinn í samskiptum.

Í Dettifossslagnum svonefnda 1932 var Óskar einna harðast leikinn, og lauk svo að honum var hrundið í sjóinn, en hann tók tvo af þeim sem harðast sóttu að honum með sér. Voru þeir báðir ósyndir, en Óskar allgóður sundmaður, og bjargaði þeim til lands. Eftir slaginn var kommúnistum úthúðað rækilega í málgögnum andstæðinganna – nema einum manni, Óskari Garibaldasyni. Í einni greininni var honum meira að segja hrósað fyrir drengilega baráttu og fordæmt hve illa hann var leikinn í slagnum.

Óskar var mjög fjölhæfur maður; öll vinna á sjó og landi lék í höndum hans. Hann var góður og nákvæmur bókhaldsmaður og hafði gott yfirlit yfir rekstur og fjármál. Þá var hann fær í öllum norrænu málunum, skildi þau og talaði, einnig vel mæltur á þýsku. Ekki veit ég hvar eða hvenær hann tileinkaði sér þessa kunnáttu, nema þýskuna, sem hann sagðist hafa lært af þýskum vélfræðingum sem hann vann með við að setja niður verksmiðjuvélar í síldarverksmiðju.

Svo starfhæfur maður sem Óskar komst ekki undan því að á hann væri hlaðið trúnaðarstörfum. Hann sat í bæjarstjórn Siglufjarðar, stjórn norðlenskra verkalýðssamtaka, stjórn Alþýðusambandsins og var í ótal samninganefndum. Þá var hann helsta driffjöðrin í stofnun og rekstri Tónskóla Siglufjarðar meðan hann starfaði, svo fátt sé nefnt.

Auk þessa kom svo forsjá heimilis og stórrar fjölskyldu, en um það verkefni – og raunar líka um mörg þau störf sem nefnd voru hér að framan, átti hann afburðatraustan félaga, þar sem var kona hans, Anney Jónsdóttir.

Flestir vinir mínir og samferðarmenn frá æskuárunum á Austurlandi og fullorðinsárunum á Siglufirði eru horfnir af vettvangi og aðeins minningin um þá eftir til að ylja sálinni. Óskar Garibaldason er einn þeirra sem notalegast er að minnast.

 Benedikt Sigurðsson. 

Add to Phrasebook
No word lists for Icelandic -> Icelandic...