Arthúr Sumarliðason

 Arthur Sumarliðasion lest 5. janúar 2014 -- Nánar á mynd neðst á þessari síðu.

Sextugur: Arthúr Sumarliðason f rá Siglufirði  1980  

Arthúr Sumarliðason frá Siglufirði fæddist svo að segja inn í síldarævintýrið — þegar Siglufjörður var að vaxa úr fámennu og fátæku þorpi í höfuðstóðvar hinnar fyrstu stóriðju á íslandi: síldariðnaðarins.

Í uppvexti hans og á unglingsárum var Siglufjörður einn af hornsteinum útflutningsframleiðslu og gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins: bær verðmætasköpunar og vinnusemi. Og þangað sóttu „langskólamenn" fjármuni í hviku framleiðslunnar til að fjármagna nám sitt: margbreytilega sérþekkingu, sem komið hefur þjóðfélaginu að góðu gagni.

Tengslin við atvinnulífið urðu þeim þekkingar- og þroskagjafi og notadrjúgt vegarnesti. Arthúr Sumarliðason lifði og þá tíma, er síldin, undirstaða atvinnu og afkomu fólksins norður þar, var uppurin, m.a. vegna þess að veiðar og vinnsla héldust ekki í hendur við nauðsynlega þekkingu á stærð og eðlilegum afrakstri norsk-íslenzka síldarstofnsins.

Arthúr Sumarliðason - Ljósm; ókunnur

Arthúr Sumarliðason - Ljósm; ókunnur

Þá komu hin mögru árin og margur maðurinn, þar á meðal Arthúr, þurfti að kanna nýjar slóðir í sjálfsbjargarviðleitni sinni. íbúatala Siglufjarðar lækkaði um þriðjung á fáum árum, enda er Siglfirðinga víða að finna í nýjum heimkynnum. Arthúr Sumarliðason er fæddur 18. júlí 1920 í Siglufirði.

Foreldrar hans vóru Sigurlína Níelsdóttir, Þingeyingur að ætt, látin fyrir mörgum árum, og Sumarliði Guðmundsson, skósmiður, eyfirzkrar ættar, nú vistmaður að Grund í Reykjavík, rúmlega níræður að aldri.

Börn þeirra Sigurlínu og Sumarliða eru þrjú:

  • Kári (fæddur 1916), starfsmaður hjá Þormóði ramma hf. í Siglufirði, og
  • Hreinn (fæddur 1930), kaupmaður í Reykjavík,
  • auk Arthúrs.

Arthúr Sumarliðason starfaði lengi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins (á sumrin) og hjá Tunnuverksmiðju SUN (á vetrum). Ennfremur starfaði hann hjá Síldarsöltunarstöð 0. Henriksen (hjá Henriksenbræðrum), en hann hafði sérhæft sig sem síldarmatsmaður og beykir. Gat hann sér hvarvetna gott orð.

Á Siglufjarðarárum sínum starfaði Arthúr mikið að félagsmálum, ekki sízt á vettvangi íþrótta. Var hann um tíma formaður frjálsíþróttafélags, sem þá starfaði, og átti sæti í íþróttaráði staðarins. Þá starfaði Arthúr í Bridgefélagi Siglufjarðar og í samtökum sjálfstæðisfólks í Siglufirði. Minnist ég þess sérstaklega að þegar ég hafði með að gera „Siglfirðing", málgagn siglfirzkra sjálfstæðismanna, þá reit Arthúr af og til í blaðið, einkum  um verkalýðs- og íþróttamál.

Síðast en ekki sízt starfaði Arthúr innan Verkamannafélagsins Þróttar — og það þótti saga til næsta bæjar á þeirri tíð er hann, sjálfstæðismaðurinn, var kjörinn í trúnaðarráð félagsins, en flokkapólitík var oft hðrð nyrðra fyrrum. Árið 1960 flytur Arthúr frá Siglufirði.

Hann aflar sér starfsréttinda við fiskmat og verkstjórn í frystihúsum og starfar á þeim vettvangi um 15 ára skeið, m.a. í Sandgerði og á Akranesi. Eftir að hann settist að í Reykjavík hefur hann unnið hjá Pétri Snæland hf. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum hjá Iðju; átt sæti í fulltrúaráði samtakanna og verið þar endurskoðandi.

Arthúr kvæntist Stefanía Sigmundsdóttir frá Hofsósi árið 1942. Eignuðust þau eina dóttur,

  • Rósu, húsmóður í Reykjavík, sem fært hefur foreldrum sínum tvo efnilega dóttursyni.

Arthúr og Stefanía slitu samvistum fyrir nokkru. Á þessum tímamótum í ævi Arthúrs, er hann horfir fram á sjöunda áratuginn, vil ég fyrir hönd siglfirzkra kunningja og vina, heima og heiman, þakka liðin ár og samleið og árna honum heilla á vegferðinni framundan.
Gangi þér allt í haginn, góði vinur.
Stefán Friðbjarnarson.

Arthúr Sumarliðason - Ath: Arthúr er skráður Arthur Sumarliðason hér ofar. (gardur.is)

Arthúr Sumarliðason - Ath: Arthúr er skráður Arthur Sumarliðason hér ofar. (gardur.is)