Björgvin Dalmann Jónsson

Björgvin Dalmann Jónsson fæddist á Siglufirði 25. maí 1929. d. 4. ágúst 2003

Hann lést í Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 4. ágúst 2003.

Foreldrar hans voru hjónin Stefanía Guðrún Stefánsdóttir, f. 14.7. 1890, d. 1.5. 1936, og Jón Kristjánsson, fv. rafveitustjóri á Siglufirði, f. 21.4. 1890, d. 27.6. 1969.

Alsystkini Björgvins Dalmanns voru

 • Sæmundur, látinn,
 • Hulda Regína,
 • Björg Dagmar
 • Bára, látin,
 • Kristján Ægir Jónsson, látinn,
 • Ríkharð Gústaf, látinn,
 • Laufey Alda, lést nokkurra mánaða,
 • Sigurlaug Jónsdóttir og
 • Kristín Alda, látin.
 • Hálfsystkini Björgvins Dalmanns,
  börn Jóns og Anna Sigmundsdóttir, eru
 • Páll, lést fimm daga gamall,
 • Erling Þór Jónsson (Erljing Jónsson vélsmiður) og
 • Edda Magnea.
Björgvin Dalmann Jónsson

Björgvin Dalmann Jónsson

Björgvin Dalmann vann ýmis störf, m.a. hjá SR á Siglufirði, var matsveinn á Tungufossi, Haferninum og í Sandgerði, kennari við Tónskóla Siglufjarðar og stjórnaði um tíma lúðrasveit skólans.

Vegna veikinda var Björgvin Dalmann frá vinnu í nokkur ár en fór síðan að starfa í þvottahúsi Sjúkrahúss Siglufjarðar um tíma. Einnig vann hann við hannyrðir meðan heilsa leyfði.

Útför Björgvins Dalmanns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elskulegur vinur minn, Björgvin Dalmann, eða Dalli eins og hann var ætíð kallaður, yfirgaf þennan heim þegar Siglufjörður skartaði sínu fegursta og leyndardómurinn beið handan við fjöllin.

Ég var svo gæfusöm að eiga Dalla að frá ungaaldri. Þegar ég var lítil bjó hann inni á heimili mínu og hugsaði um okkur systkinin þegar foreldrar okkar voru í vinnu. Það var eins og Dalli ætti mig, hann sýndi mér mikla ástúð og umhyggju og var mér svo góður.

Hann hafði einstaka hæfileika og var margt til lista lagt. Hann spilaði á píanó og kenndi okkur systkinunum að spila fjórhent, eldaði veislumat, spáði í bolla, saumaði myndir sem líktust fegurstu málverkum. Allt sem hann gerði varð fallegt í höndum hans.

Dalli var ekki mikið fyrir margmenni og sérstakur að mörgu leyti. Hins vegar var alltaf stutt í glettnina og átti hann til hnyttin tilsvör og ekki vantaði ævintýrablæinn í sögurnar hjá honum.

Þegar ég flutti að heiman sá Dalli til þess að ég ætti það nauðsynlegasta í búið og gaf hann mér m.a. 12 manna matarstell sem fyrirfram brúðargjöf og ég þá aðeins 16 ára gömul. Hann fylgdist vel með öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og var alltaf jafnyndislegt að koma til hans þegar ég fór norður.

Dalli var sem einn úr fjölskyldunni og þökkum við Guði fyrir þennan elskulega vin sem var okkur svo kær og gaf okkur svo margt. Minningarnar eru dýrmætar og mun Dalli ætíð eiga sinn sérstaka stað í hjarta okkar.

Guð geymi þig, elsku vinur.

Guðbjörg Jóna.