Tengt Siglufirði
Ágúst Björnsson fæddist á Siglufirði 16. febrúar 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. maí 2011.
Foreldrar hans voru Björn Olsen Björnsson, verkamaður á Siglufirði, f. 11. sept. 1903, d. 29. maí 1976, og kona hans Konkordía Ingimarsdóttir húsmóðir, f. 14. júní 1905, d. 6. ágúst 1987.
Systkini Gústa voru:
Ágúst kvæntist 1. desember 1961 Þrúði Márusdóttur, f. 14. maí 1939 í Skagafirði. Foreldrar: Márus Guðmundsson, bóndi á Bjarnastöðum, Akrahreppi í Skagafirði, f. 25. júlí 1902, d. 18. nóv. 1982, og kona hans Hjörtína Tómasdóttir húsmóðir, f. 25. ágúst 1906, d. 26. ágúst 2002.
Ágúst hóf nám í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg
1. nóv. 1955 og lauk þar námi og tók sveinspróf sem prentari 17. jan. 1960.
Hann starfaði lengst af við þá iðn. Hann gerðist ungur félagi í Flugbjörgunarsveitinni í
Reykjavík og starfaði með henni í áratugi. Einnig var hann félagi í ÍR þar sem hann stundaði frjálsar íþróttir og skíði og var hann alla tíð mjög
virkur í starfi félagsins.
Jarðarför Ágústs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. júní 2011, kl. 13.
mbl.is/minningar
Í dag kveðjum við kæran vin og félaga, Ágúst Björnsson, eða Gústa eins og hann var jafnan kallaður. Alltaf er söknuðurinn mikill þegar góður drengur fellur frá. Gústi var sannarlega vinur vina sinna og hélt fast utan um hópinn. Upphafleg kynni hófust við samstarf fjögurra prentara sem unnu saman í Prentsmiðjunni Hilmi á sjöunda áratugnum. Í framhaldinu mynduðust sterk tengsl fjölskyldna okkar. Gústi og Þrúður urðu heimilisvinir og tengdust ekki síður börnum okkar og barnabörnum.
Eins og gefur að skilja er margs að minnast og mörgu væri hægt að segja frá. Ferðirnar voru ófáar, klifin voru fjöll og öslað yfir ár. Stundum kímdu menn góðlátlega þegar Gústa þótti nauðsynlegt að vaða árnar til að kanna vaðið áður en hinum var hleypt út í. Fjallaferðirnar urðu leikur einn með hann sér við hlið. Að sjálfsögðu var hann alltaf fyrstur á tindinn enda vel á sig kominn. En ekki voru allir jafn fráir á fæti og færi honum að leiðast biðin lét hann sig ekki muna um að stökkva niður aftur og draga konur í andnauð upp brekkurnar og stundum urðu ferðirnar niður fleiri en ein.
Þegar komið var í náttstað hóf Gústi upp raust sína og söng „Áfram veginn í vagninum ek ég“ með sinni fallegu tenórrödd, þá þögnuðum við hin og nutum augnabliksins. Fyrir rúmlega tuttugu árum kenndi Gústi sér þess meins sem að lokum sigraði hann, en allan þann tíma var hann jafn kátur og ef spurt var hvernig er heilsan? Var svarið ævinlega „Aldrei verið betri, ekkert að mér“.
Hann sá um að það væri aldrei langt á milli samverustunda, meðal annars sótti hópurinn okkar leikhús í áratugi og nú síðast þann 8. apríl s.l. Að lokinni sýningu var svo sest niður í Fellsmúlanum, spjallað og hlegið. Þetta var okkar síðasta samverustund með honum, því degi síðar var hann lagður inn á sjúkrahús og átti þaðan ekki afturkvæmt. Í annað sinn fækkar í hópnum því í júlí 2008 kvöddum við vin okkar Hrein Pálsson. Teljum við víst að þeir félagar muni á góðri stundu taka saman skagfirska stemmu. Með þessum orðum kveðjum við Ágúst vin okkar og þökkum fyrir allt það góða sem hann skilur eftir í minningunni.
Hetjunni okkar, henni Þrúði, vottum við okkar innilegustu samúð og biðjum henni styrks og blessunar.
Stella, Jóhanna, Guðrún, Sæmundur og Víðir.
------------------------------------------------
Kveðja frá Lávarðaflokki FBSR
Fallinn er frá einn af máttarstólpum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, Ágúst Björnsson. Gústi gekk í raðir Flugbjörgunarsveitarmanna 18. október 1961, átti því stutt eftir af 50 ára ferli. Þó hann hafi verið hættur í hefðbundnum björgunarstörfum lét hann sig starf sveitarinnar varða.
Hann mætti á allar uppákomur sveitarinnar fram á það síðasta og síðustu árin var hann virkur í Lávarðaflokki FBSR sem er flokkur eldri félaga innan sveitarinnar. Þegar Gústi tók að sér eitthvað þá var það klárað, ekkert hálfkák.
Hann hafði það hlutverk á sjöunda áratugnum að vera milligöngumaður Flugbjörgunarsveitarinnar og Skóverksmiðjunar Iðunnar á Akureyri vegna framleiðslu á gönguskóm. Það var ekki létt verk, menn höfðu jafnmargar skoðanir á skónum og þeir voru margir. Einhvern veginn tókst Gústa að lempa þessi mál svo útkoman var úrvals gönguskór sem einnig var hægt að smella á gönguskíði. Verður hans ætíð minnst með þakklæti fyrir þau störf.
Gústi kláraði öll verk sem hann tók að sér og má segja að stundum hafi hann aðeins farið fram úr sér. Hann hafði skoðanir og stóð og féll með þeim, oft gustaði í kring um hann, en hann kom aldrei aftan að neinum og var hreinn og beinn í öllum málum. Mislíkaði Gústa eitthvað þá fékk maður að heyra það, en svo var það líka búið.
Hann var líka eins og fuglinn sem varðveitir eggin sín hvað varðar einkennismerki sveitarinnar, en fáir eiga jafnmikinn heiður og hann af því að
við eigum okkar 60 ára einkennismerki nánast eins og það var í upphafi. Hann breiddi út vængina og umvafði merkið svo við því varð ekki hróflað. Meðan honum entist
heilsa til var Gústi mættur í útköll sveitarinnar og aðrar uppákomur.
Gæti hann ekki mætt þá hringdi hann að leita frétta. Þeir voru þrír bræðurnir
í Flugbjörgunarsveitinni, Ágúst, Björn og Erlendur sem lést um aldur fram fyrir nokkrum árum. Allir voru þeir bræðurnir góðir skíðamenn og hörkutól til allra verka.
Hann er stór hópurinn sem Gústi hefur kennt og þjálfað á gönguskíðum í gegn um árinn.
Árið 2000 var Gústi kjörinn heiðursfélagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík, það eru aðeins örfáir sem hljóta þann titil. Var hann vel að því kominn. Auk þess hafði hann verið sæmdur brons-, silfur- og gullorðum sveitarinnar í gegn um tíðina. Fyrir nokkrum árum fór heilsu hans að hraka og oft var talið að nú væri þetta búið hjá Gústa, en alltaf reis hann upp aftur.
Alltaf mætti hann í kaffið hjá Lávörðum á laugardögum þrátt fyrir að vera fárveikur. Var talað um að Gústi hefði mörg líf, en nú kom að því að þau voru ekki fleiri og þessi heiðursmaður lagði upp í sína síðustu för. Það verður mikill sjónarsviptir að Gústa brottgengnum. Við félagarnir í Lávarðaflokki FBSR sendum Þrúði og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð varðveita minningarnar um góðan og heiðarlegan dreng.
Grétar F. Felixson.
------------------------------------------------
Hugurinn leitar enn á ný til Siglufjarðar. Flest okkar eru fædd árið 1938 og lágu leiðir okkar saman frá blautu barnsbeini í gegn um Barnaskólann og Gagnfræðaskólann, en þaðan útskrifuðumst við vorið 1955, þá 17 ára gömul. Eftir það skildi leiðir og hópurinn tvístraðist eins og gengur. En hin sterku bönd, sem einkennt hafa Siglfirðinga og sú samheldni, sem þeir hafa ætíð sýnt, bæði búsettir og brottfluttir, endurspegluðust í þessum hópi.
Við höfum alltaf haldið tengslunum og fylgst náið hvert með öðru auk þess að hittast a.m.k. einu sinni á ári og nú seinni árin einu sinni í mánuði og rifja upp gamlar minningar. Þær eru ófáar ferðirnar, sem við höfum farið á gömlu slóðirnar, og fyrir sex árum síðan þegar við áttum 50 ára gagnfræðaafmæli efndum við til mikils kaffihlaðborðs á Dvalarheimili aldraðra á Siglufirði, enda voru þar upp til hópa okkar gömlu kunningjar og vinir.
Nú er enn einu sinni höggvið skarð í þennan góða hóp. Ágúst Björnsson, vinur okkar, er fallinn frá og er hann sá áttundi í áðurnefndum hópi. Við minnumst hans með mikilli gleði. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð okkar allra og einn aðaldrifkrafturinn í því að halda okkur saman, skipuleggja ferðalögin og uppákomurnar og sjá um að allt færi vel fram. Þá var hann einstaklega ljúfur og hjálpsamur við þau okkar, sem af einhverjum ástæðum áttu við vandamál að stríða.
Hann gekk nú ekki alveg heill til skógar sjálfur, þar sem hann er búinn að eiga í veikindum sl. 25 ár, en það var til fyrirmyndar hvernig hann tókst á við þessi veikindi og kvartaði aldrei. Oft höfðum við áhyggjur af því að farin væri að styttast hjá honum lífsgangan, en alltaf reis Gústi upp og hélt áfram að berjast. Hann hafði ekki bara níu líf, heldur miklu fleiri, og enda þótt hann hafi sjaldan verið eins veikur og undanfarnar vikur sögðum við okkar í milli að hann myndi enn einu sinni harka af sér og rísa upp. En það fór á annan veg og nú hefur hann fengið þá hvíld, sem hann á skilið eftir flekklausa lífsgöngu.
Ágúst var ekki fæddur með gullskeið í munni. En vegna dugnaðar og mikils metnaðar náði hann markmiðum sínum í námi og var prentiðn hans fag, sem hann starfaði lengi við. Okkur er kunnugt um að hann sá vel um sína og er það einn besti vitnisburður, sem nokkur maður getur fengið.
Við kveðjum nú kæran vin og óskum honum velfarnaðar á ókunnum stígum. Þar mun hann veita öðrum hjálp og umhyggju á sama hátt og hann gerði í þessu lífi.
Við sendum Þrúði og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum allar góðu samverustundirnar og biðjum góðan guð að varðveita minningu hans.
Fyrir hönd bekkjarsystkina frá Siglufirði,
Sveinn Gústavsson og
Gunnar Ragnars.
-------------------------------------------------------------
Ágúst Kristinn Guðlaugur Björnsson fæddist á Siglufirði 16. febrúar 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. maí 2011.
Foreldrar hans voru Björn Olsen Björnsson, verkamaður á Siglufirði, f. 11. sept. 1903, d. 29. maí 1976, og kona hans Konkordía Ingimarsdóttir húsmóðir, f. 14. júní 1905, d. 6. ágúst 1987.
Systkini:
Ágúst kvæntist 1. desember 1961 Þrúði Márusdóttur, f. 14. maí 1939 í Skagafirði. Foreldrar: Márus Guðmundsson, bóndi á Bjarnastöðum, Akrahreppi í Skagafirði, f. 25. júlí 1902, d. 18. nóv. 1982, og kona hans Hjörtína Tómasdóttir húsmóðir, f. 25. ágúst 1906, d. 26. ágúst 2002. Ágúst hóf nám í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg 1. nóv. 1955 og lauk þar námi og tók sveinspróf sem prentari 17. jan. 1960. Hann starfaði lengst af við þá iðn. Hann gerðist ungur félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og starfaði með henni í áratugi. Einnig var hann félagi í ÍR þar sem hann stundaði frjálsar íþróttir og skíði og var hann alla tíð mjög virkur í starfi félagsins. Jarðarför Ágústs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. júní 2011, kl. 13.
Það var sumarið 1962, þegar tólf ára stúlkubarn utan af landi kom í fyrsta sinn til höfuðborgarinnar. Á móti henni tekur móðurbróðir hennar Ágúst Björnsson, sem búsettur var þá ásamt konu sinni Þrúði á Lokastíg 17. Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta sinn, sem þau hjónin tóku á móti ættingjum utan af landi. Næsta minning mín er tengist Ágústi og Þrúði er eftir að ég kom hingað til náms 16 ára gömul.
Ágúst og Þrúður voru fasti punkturinn í tilverunni og eitt sinn er aumingja sveitastelpan var eitthvað einmana þá kom Ágúst frændi og bauð henni í Örævaferð. Ferðinni var heitið yfir óbrúaðar stórár á leið austur í Örævasveit. Tekið skal fram að á heimili ungu stúlkunnar hafði aldrei verið til bíll og lengsta ferðin sem hún hafði farið til þessa var til höfuðborgarinnar. Þessi ævintýraferð varð ungu stúlkunni því ógleymanleg.
Hún sá og kynntist útlendingum í fyrsta skiptið. Hún upplifði í fyrsta skiptið að einstaklingi gat liðið það illa að hann gat hugsað sér að taka sitt eigið líf. Hún sá ást kvikna og varð sjálf skotin í einum af ferðalöngunum. Minningarnar eru óteljandi og flestar tengjast þær mannkostum Ágústar frænda sem lýsa honum best: þrautseigja, óeigingirni og umhyggja. Umhyggja ekki bara fyrir fjölskyldu og vinum, heldur öllum sem áttu erfitt vegna veikinda eða af öðrum orsökum. Í mörg ár tók hann þátt í ásamt öðru góðu fólki að gera ungum rúmliggjandi börnum á Barnadeild Landspítalans lífið léttara með heimsóknum ýmissra skemmtikrafta.
Ágúst frændi átti mörg áhugamál. Eitt af þeim var skíðaíþróttin. Hann ferðaðist um landið til að kenna ungmennum á gönguskíði. Hann starfaði líka lengi með Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Sú þátttaka virðist hafa smitað út frá sér í stórfjölskyldunni, því á tímabili voru sex fjölskyldumeðlimir starfandi félagsmenn í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þess má og geta að Þrúður kona hans var einn af stofnendum Kvennadeildar Flugbjörgunarsveitarinnar og skipaði sveitin stóran sess í lífi þeirra. Nýlega var Ágúst gerður að heiðursfélaga sveitarinnar.
Ágúst frændi var reglumaður, hann hvorki drakk áfengi né reykti. Hann var okkur öllum í stórfjölskyldunni góð fyrirmynd. Það var því mikið áfall þegar hann fyrir rúmum tuttugu árum greindist með lungnakrabbamein. Hann gekk í gegnum erfiða lyfjameðferð en að lokum virtist hann hafa sigrað krabbameinið. En þessi illskeytti sjúkdómur lét ekki að sér hæða og birtist aftur og aftur. Ágúst lét ekki bugast og lagði að baki marga orrustuna.
Á þessum langa tíma sem hann var að berjast við þennan vágest var hann samt alltaf að. Hann var lærður prentari og vann lengst af við það. Veikindin tóku smám saman sinn toll og hann varð að hætta í prentinu, en hann var ekki iðjulaus og fann sér alltaf eitthvað að sýsla. Þrautseigjan og baráttuþrekið var ótrúleg.
Unga sveitastúlkan er nú kona á besta aldri, á þrjú börn og tvö barnabörn. Hún og fjölskylda hennar þakka Ágústi og Þrúði fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum með þeim. Ágúst var “límið„ í stórfjölskyldunni. Hann hringdi alltaf á afmælisdögum okkar systkinabarnanna og heimsótti okkur öll reglulega hvar sem við bjuggum á landinu.
Guð blessi þig frændi, þín verður sárt saknað. Heimurinn væri betri ef fleiri væru eins og þú.