Birgir Hallur Erlendsson skipstjóri

Birgir Erlendsson fæddist á Siglufirði 12. febrúar 1928. Hann andaðist á Landakoti í Reykjavík 15. mars 2018.

Foreldrar hans voru Valgerður Guðlaug Hallsdóttir frá Fáskrúðsfirði, f. 4. september 1904, d. 6. febrúar 1982, og Erlendur Þorsteinsson frá Fáskrúðsfirði, f. 12. júní 1906, d. 10. júlí 1981.

Bróðir Birgis var Bragi Valgarður Erlendsson, raforkuverkfræðingur, f. 20. júlí 1930, d. 24. desember 1996.

Hálfsystkini Birgis og Braga, samfeðra, voru

 • Gunnar Bachmann og
 • Helga Sigríður Bachmann, þau eru bæði látin.

Hinn 17. janúar 1952 kvæntist Birgir Sigrúnu Theódórsdóttur frá Reykjavík, f. 18. september 1932, d. 31. janúar 2015.

Birgir Erlendsson skipstjóri - Ljósm; ókunnur

Birgir Erlendsson skipstjóri - Ljósm; ókunnur

Foreldrar hennar voru Sigurlaug Sigurðardóttir, f. 8. júní 1903 í Súgandarfirði, d. 14. nóvember 1970, og Theódór Kristinn Guðmundsson, f. 25. júlí 1905 í Bolungarvík, d. 27. maí 1969.

Birgir og Sigrún eignuðust fjögur börn, þau eru

 • 1) Arndís, f. 3. júní 1951, maki Kristján Haraldsson, f. 30. janúar 1949, börn þeirra eru a) Sigrún, f. 1973, hennar synir eru Lárus Þór og Atli Freyr. b) Brynja, f. 1975, maki Baldur Jóhannsson, f. 1974, börn þeirra eru Bjarki, Arndís og Lilja, sonur Baldurs er Sindri Már, sambýliskona Berglind Una Unnsteinsdóttir, sonur þeirra er Kormákur Atlas. c) Birgir, f. 1982, maki Kristín Erla Þórisdóttir, f. 1984, börn þeirra eru Karítas og Dagur Kári.
 • 2) Erlendur Þorsteinn, f. 29. júní 1954.
 • 3) Hallur, f. 10. nóvember 1957, maki Kristín Dóra Karlsdóttir, f. 30. september 1957, dætur þeirra eru a) Stella, f. 1987, maki Guðjón Örn Helgason, f. 1984, sonur þeirra er Sigurlogi Karl. b) Tinna, f. 1992, sambýlismaður Manuel Schembri, f. 1994.
 • 4) Drengur andvana fæddur 11. desember 1966.

Birgir var uppalinn á Siglufirði á síldarárunum. Það hafði mikil áhrif á hans starfsvettvang, hann fór ungur á sjó, um 15 ára, á ýmsum bátum frá Siglufirði. Eftir gagnfræðaskóla fór hann í Skipstjóra- og stýrimannaskólann í Reykjavík.

Hélt því áfram á sjó eftir nám og starfaði mest sitt líf sem stýrimaður og skipstjóri, m.a. á Jóni Gunnlaugssyni GK 444, Margréti SI 4 og síðast á Eldborgu GK 13. Eftir sjómennsku um 1980 hóf hann störf hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og gerðist fiskeftirlitsmaður á ýmsum togurum úti á sjó. Fór hann síðan alfarið í land sem eftirlitsmaður hjá frystihúsum víða um land.

Á sjómannadeginum árið 2002 var Birgi veitt viðurkenning fyrir björgunarafrek, þegar Hamar GK 32 frá Sandgerði sökk í Faxaflóa í byrjun júlí 1962 á leið til síldveiða.
Afrek hans við að koma gúmmíbátnum á flot, þegar bátnum hvolfdi skyndilega, varð til þess að allir í áhöfninni björguðust.

Birgir gekk í Oddfellow-regluna í maí 1972 og var félagi í bræðrastúkunni Þorkeli Mána.

Birgir og Sigrún bjuggu fyrst í Kópavogi, í Melgerði 1 árin 1955-1966 og á Borgarholtsbraut 51 árin 1966-1983, síðan í Hafnarfirði, á Hjallabraut 86 árin 1983-2008 og að lokum á Hraunvangi 1 frá 2008.

Útför Birgis fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 27. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.
---------------------------------------------------------

Elsku pabbi minn, komið er að kveðjustund og leiðir okkar skilja að sinni.

Með miklum söknuði hugsa ég til þín nú en er samt svo óendanlega þakklát fyrir samveru okkar í gegnum lífið.

Í gegnum tíðina man ég þig alltaf vera að fara á sjóinn eða að vera að koma af sjónum enda varst þú sjómaður alla tíð. Þú lærðir til skipstjórnar- og stýrimannsréttinda og varðst svo sannarlega farsæll skipstjóri á hinum ýmsu skipum. Þú lentir í miklum sjávarháska er bátur þinn sökk mjög skyndilega hér í Faxaflóa 1962 en varðst þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga áhöfn þinni frá sjóskaða er þú kafaðir eftir björgunarbátnum og komst allri áhöfninni um borð en það var ekkert afrek eins og þú sagðir, það hefðu allir gert þetta í þessum sporum. En í dag, svo mörgum árum seinna, sé ég hve mikið afrek þetta var og lýsir þér svo vel, að hugsa fyrst um aðra og síðan sjálfan þig.

Mörg ferðalögin fórum við saman bæði innan- og utanlands og þá sérstaklega til Spánar í sælureitinn ykkar mömmu þar sem þið nutuð ykkar best í sólinni og með okkur börnunum þínum og þá ekki síst barnabörnunum, en þú varðst þeim einstaklega góður og umhyggjusamur afi. Einnig var alltaf yndislegt að skjótast í Skrúð í Vaðnesið og eiga þar góðar stundir, hvort sem það var yfir nótt eða í skamman tíma.

Þessa góðu minningar ylja mér nú og mun ég geyma þær í hjarta mínu.

Þú áttir góða ævi með mömmu þér við hlið og eins og sönn sjómannskona stóð hún við hlið þér í blíðu og stríðu. Eftir andlát hennar fyrir þremur árum fannst þér eins og það vantaði alltaf eitthvað eins og þú sagðir svo oft.

 • Þegar einhver fellur frá
 • fyllist hjartað tómi
 • en margur síðan mikið á
 • í minninganna hljómi.
 • Ef minning geymir ást og yl
 • hún yfir sorgum gnæfir
 • því alltaf verða tónar til
 • sem tíminn ekki svæfir.

(K.H.)

Elsku pabbi, ég þakka þér öll árin sem við áttum saman, væntumþykju þína og umhyggju fyrir mér og fjölskyldu minni.

Ég minnist þín veifandi til okkar úr brúnni á skipi þínu skælbrosandi, brosi sem alltaf lýsti allt upp í kringum sig eins og sólin.

Megi englarnir umvefja þig og Guð þig geyma,

Þín dóttir Arndís.
--------------------------------------------------

Í dag kveðjum við elsku afa okkar sem var svo hlýr og góður.

Alltaf tók hann á móti okkur með bros á vör og þótti honum sérstaklega gaman að fá okkur og barnabarnabörnin í heimsókn. Við minnumst hans öll með gleði í hjarta og erum þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með honum bæði hér heima, þá sérstaklega í sumarbústaðnum, og erlendis.

Þó að afi hafi verið orðinn fullorðinn hafði hann nú mikinn áhuga á að fylgja nýjustu tækni og var það ekki ósjaldan sem við systkinin aðstoðuðum hann við hin ýmsu tæknimál, svo sem að stilla símann, tölvuna og fjarstýringuna, og oft var mikið hlegið á þeim stundum.

 • En komin eru leiðarlok
 • og lífsins kerti brunnið
 • og þín er liðin æviönn
 • á enda skeiðið runnið.
 • Í hugann kemur minning mörg,
 • og myndir horfinna daga,
 • frá liðnum stundum læðist fram
 • mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Blessuð sé minning afa sem okkur þótti svo vænt um.

Hvíldu í friði, elsku afi, Sigrún, Brynja og Birgir.
--------------------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA

Elsku langafi,
ég horfi í himininn
sé stjörnu skína,
það er stjarnan þín.
Ég hugsa
til þín
man brosið þitt
hlátur
og allt það góða
sem þú gafst.
Og þegar sólin
kemur upp
vaxa blóm
af tárum okkar
kærleiksblóm.
(S.Ó.)

Þín langafabörn,
Lárus Þór, Atli Freyr, Bjarki, Arndís, Lilja,
Karítas og Dagur Kári.
----------------------------------------------------

-----------------------------------------------------

Birgir Erlendsson   Þjóðviljinn (frétt) 2. Júlí 1962

Enn hefur það gerst að bátur ferst með svo snöggum hætti, að áhöfninni gefst ekki tóm til að láta vita af sér. Stuðlabergsslysið í vetur er öllum í fersku minni. Þá tókst svo hörmulega til að öll áhöfnin fórst og enginn er til frásagnar um, með hvaða hætti það slys bar að Vélbáturinn Hamar frá Sandgerði, lagði af stað héðan úr Reykjavíkurhöfn um kl. 4 á laugardaginn var.

Ferðinni var heitið á síldarmiðin fyrir Norðurlandi og báturinn útbúinn með beztu tækjum, kraftblökk og leitartækjum. Hamar var 80 tonn að stærð, smíðaður úr eik árið 1946, en var að nokkru leyti endurbyggður fyrir vertíðina í vetur. Hann hét áður Askur og var í Keflavík, þar urðu á honum nokkrar skemmdir í bruna og eftir það var honum breytt, hann seldur til Sandgerðis og skýrður upp. í upphafi ferðarinnar gekk allt vel.

Vindur var af suðvestri, nálægt 6 vindstigum hefur staðið rétt aftanvið þvert á bátnum, sem stefndi fyrir Jökul. Ágætt ferðaveður á stórum báti. Þegar Hamar átti eftir sem svaraði rúmlega 3ja stunda siglingu að Malarrifi, gerðist það, sem engan skipsmanna óraði fyrir. Báturinn valt á stjórnborða, saup dálítinn sjó innfyrir borðstokkinn og í stað þess að rétta sig við hélt hann áfram að síga niður á stjórnborðssíðuna.

Í stýrishúsi voru staddir tveir menn og var stýrimaðurinn annar þeirra, skipstjóri var hinsvegar nýgenginn inn í kortaklefann. Þegar hann fann þennan mikla halla á skipinu snaraðist hann fram og var nú reynt að keyra skipið upp, sem kallað er. Það tókst ekki og var þá sýnt að hverju fór. Nótin lá á öllum bátapallinum og þegar báturinn fór að hallast byrjaði hún að renna út.

Rann hún að lokum öll út og losnaði við bátinn, sem rétti sig ekki að heldur. Einn maður var í káetu aftur í og tveir frammi í lúkar, hinir munu hafa verið staddir í borðsalnum, sem var aftur á. Allir komust þeir út og var báturinn þá kominn nær því á hliðina.

Skipstjórinn, Birgir Erlendsson, fór nú uppá brúarþakið til að losa gúmmíbátinn, en þar var erfitt um vik, því að kassinn var þá kominn á kaf í sjó. Skipsmenn bera það, að hefði ekki notið snarræðis Birgis við að losa bátinn hefði ekki orðið um neina björgun að ræða. Báturinn fór í sjóinn og blés út viðstöðulaust. Voru nú notaðar ýmsar aðferðir við að komast frá borði.

Sumir stukku í sjóinn, eða ofan á bátinn, en tveir klifruðu út eftir möstrunum, sem lágu nú alveg í sjó. Rétt eftir að þeir höfðu þannig bjargað sér frá borði sneri vélbáturinn Hamar GK kjölunum upp og sökk. Voru þá ekki liðnar nema u.þ.b. 15 mínútur frá því að hann byrjaði að leggjast. Þeir voru 11 í bátnum, það var þröngt en ekki er hægt að segja að illa hafi farið um þá.

Vindur var vestlægur eins og áður er sagt og bátinn rak inn Faxaflóa. Alla nóttina voru þeir á reki og um hádegi á sunnudag sjá þeir til lands í eyjar þær, sem Hvalseyjar heita norðarlega á Mýrum. Nokkurt brim var við eyjarnar, en með tveim skilrúmsfjölum, sem brakinu á slysstaðnum gátu þeir stefnt  bátnum á þann eina stað á Húsey, þar sem lending var viðráðanleg.

Voru þeir komnir þar í land um klukkan hálfeitt. Eyja þessi er óbyggð og alllangt frá landi. Veður hafði lægt og sól skein um miðjan daginn svo ekki væsti um þá. Var nú neytt allra tiltækra ráða til að vekja athygli Mýramanna á því að sjóhraktir menn hefðu tekið land í nágrenni við þá. Þeir skutu neyðarrakettum, kveiktu bál með rekaviði og komu sér upp flaggstöng og fána. Allt kom fyrir ekki og um ellefu leytið um kvöldið hélt skipstjóri til lands í gúmmíbátnum við fimmta mann, það ferðalag gekk vel og tóku þeir land þar undan sem heitir að Ökrum, það er kirkjustaður. Var nú vakið þar upp um kl. hálftvö.

Heimafólkið varð vægast sagt mjög undrandi á þessari heimsókn, en gestrisni þess og hjálpsemi fá skipverjar ekki með orðum lýst. Húsmóðirin gekk strax í að elda handa þeim mat og hita kaffi, síðan gekk fólkið úr rúmum fyrir þá, jafnframt þeir höfðu gripið með sér úr síðu því sem gerðar voru ráðstafanir til að ná í mennina sem eftir urðu í eynni. Þeir voru sóttir frá bænum Tröð. Þá var hringt í Miðnes h.f., sem er útgerð Hamars og sendi forstjórinn þá strax bíl áleiðis uppeftir til að sækja þá.

Þeir sem fóru að Ökrum höfðu þá verið að hrekjast í um 28 klst. Þar af 15 klst. í gúmmíbátnum  og ekki á þeim þurr þráður. Hinir sem seinna komu í land höfðu þá haft rúml. 30 klst. útivist. Skipbrotsmennirnir komu svo til Reykjavíkur um kl. 11 í gærdag og fór þá hver til síns heima.

Birgir Erlendsson skipstjóri á Hamri er 34 ára gamall og sonur Erlends Þorsteinssonar hjá Síldarútvegsnefnd. Hann býr á Meltröð 1 í Kópavogi, kvæntur maður og á 3 börn. Við heimsóttum. hann í gærkvöld og fengum að spjalla dálitið við hann og er frásögnin hér á undan byggð á því spjalli. Birgir tók það fram, að mennirnir hefðu sýnt undraverða stillingu og létt þannig mjög björgunina.

Enginn hefði sýnt merki æru eða fáts. Hann gat þess ennfremur, að hefði þá ekki rekið til lands heldur til hafs, dytti engum í hug annað en þeir væru komnir á miðin og farnir að fiska. Það sem tilfinnanlegast vantaði í gúmmíbátana var litið senditæki, sem hægt væri að miða út, í bátunum er vatn á dósum og einskonar kex, að líkindum vítamínbætt, þá eru þar rakettur. Hann sagði að við þetta mætti bæta auk sendisins, ullarteppum svo menn gætu frekar haldið á sér hita.

Enginn tími gafst til að senda út neyðarkall áður en Hamar sökk. Birgir sagðist ekki geta gert sér neina grein fyrir því, hvernig óhappið hafi viljað til, eða orsökunum fyrir því að svona fór. Allt var með fullkomlega eðlilegum hætti um borð 0og báturinn á engan hátt öðruvísi en hann átti að sér að vera. Hann sagðist raunar ekki vera farinn að trú þessu enn og á meðan þeir voru á reki í gúmmíbátnum bjóst hann alveg eins við því að vakna í kojunni upp frá vondum draumi. Birgir hefur verið skipstjóri á bátum síðan 1952.

Þó hætti hann um tíma meðan hann var að staðfesta ráð sitt og koma upp þaki yfir höfuðið, en sl. 5—6 ár hefur hann verið óslitið með báta. Aldrei hefur neitt komið fyrir hann á sjómannsferlinum. Hann sagðist ekki einu sinni muna til þess að hann hafi dottið í sjóinn fyrr. Á Hamri voru 10 menn auk Birgis: Eðvald Eyjólfsson, stýrimaður, Friðrik Sigurðsson 1. vélstjóri, Tómas Þorkelsson 2. vélstjóri, Jón Gunnarsson matsveinn, Georg Georgsson, Erlingur Ríkarð Guðbrandsson, Sigurður Jónsson, Björn Ragnarsson, Guðmundur Friðriksson og Gísli Ólafsson hásetar.
------------------------------------------

Vísir 2. Júlí 1962

Ellefu skipbrotsmenn á reki í fimmtán tíma í Faxaflóanum

Sá furðulegi atburður gerðist hér á miðjum Faxaflóa, að glæsilegu, nýuppgerðu 80 tonna fiskiskipi, Hamri frá Sandgerði hvolfdi allt í einu og hann sökk á svo skömmum tíma að skipverjarnir ellefu að tölu komust aðeins naumlega í gúmmíbjörgunarbát. Og það sem er enn furðulegra. Það var ekki fyrr en kl. 2 síðastliðna nótt, sem menn höfðu nokkra hugmynd um þetta sjóslys. Þá komu sex af skipbrotsmönnunum á land á Mýrum, fóru heim að bænum Ökrum og gerðu vart við sig.

KONAN FÆR FRÉTTIRNAR

Þegar Vísir frétti um þetta slys snemma í morgun, hringdi fréttamaður blaðsins í frú Sigrúnu Theódórsdóttur konu Birgis Erlendssonar skipstjóra á Hamri og spurði hana hvort hún hefði frétt nokkuð af bátnum. — Nei, ekkert sérstakt, svaraði hún. Hann á að koma á miðin í dag og byrja að veiða. — Hafið þér ekki heyrt það að báturinn sökk á laugardaginn en allir mennirnir björguðust? — Nei, það hef ég ekki heyrt. En er það öruggt að allir hafi bjargast. — Já, það er öruggt, þeir eru allir ellefu talsins á leið til bæjarins í bíl. — Guði sé lof, sagði konan.

SKIPBROTSMENN KOMA í BÆINN.

Fréttamenn Vísis sátu fyrir rútubíl frá Akranesi, sem hafði farið upp á Mýrar til að sækja skipbrotsmennina. Hann kom í bæinn skömmu fyrir kl. 11 í morgun. í honum sátu allir hinir ellefu skipbrotsmenn. Þeir voru enn flestir á sokkaleistunum, en útgerðin hafði I flýti sent þeim nauðsynleg föt. Það var enginn tími til að klæða sig í fötin, sögðu skipbrotsmennirnir. — Ég kom út á stuttum nærbuxum og bol, sagði Friðrik Sigurðsson 1. vélstjóri. Hinir voru sumir á nærfötum og flestir skólausir. — Hvernig bar slysið að, spurði fréttamaður Vísis skipstjórann Birgir Erlendsson (en hann er sonur Erlends Þorsteinssonar í Síldarútvegsnefnd).

BÁTNUM HVOLFDI SKYNDILEGA

Það voru vaktaskipti og aðeins tveir menn voru í brúnni. Það var nokkur stormur, en þó ekki svo að nein hætta væri á ferðum. Allt í einu fór báturinn á stjórnborðshliðina. Ég kom þá fram og reyndum við fyrst að stýra bátnum og sigla honum upp, en það bar engan árangur. Hann lá á hliðinni og möstrin fóru í sjóinn. --Hvernig heldurðu að hafi stað ið á því að bátnum hvolfdi.  — Það get ég ekki sagt. Hann var tómur.  — Heldurðu að það geti verið að  hann hafi orðið yfirhlaðinn vegna þess, að sjór hafi safnazt í nótina og hún þyngzt þannig? — Nei, það held ég að komi ekki til mála.

SNARRÆÐI SKIPSTJÓRANS.

Skipverjarnir segja fréttamanni blaðsins að þeir eigi snarræði skipstjórans mest að þakka, að þeir, standa nú hér lifandi. Það munaði j vissulega mjög mjóu. Því að báturinn sökk á svo skömmum tíma. Skipstjórinn fór og klifraði upp eða réttara sagt niður á þak stýris1 hússins þar sem kassinn með  gúmmíbátnum var geymdur.

Kassinn var þá kominn undir sjó og var það þrekvirki hjá skipstjóranum að opna hann, en gúmmíbáturinn opnaði sig strax og við komumst í hann. — Eruð þið allir syndir? — Já, við erum allir syndir segir Friðrik, 1. vélstjóri, nema ég. Ég lærði í gamla daga að synda, en hef ekkert iðkað það. Flestir skipverjarnir fóru í sjóinn til að komast út í bátinn og urðu blautir, en tveir klifruðu þó út eftir mastrinu og út í bátinn. Allt gerðist þetta með svo skömmum hætti að enginn tími vannst til að senda út neyðarskeyti.

15 KLSTUNDIR Á REKI

Voruð þið svo lengi í gúmmíbátnum?  — Okkur var að reka á honum í 15 klst. segir skipstjórinn. Það er mikil mildi að veðrið var á vestan svo okkur bar að landi, en jafnvel það hefði getað farið illa, ef okkur hefði borið upp á sker. — Hvernig var aðbúnaðurinn á bátum? — Það var þröngt í honum, við vorum ellefu á tíu manna bát. Verst að sumir voru illa klæddir. —

Höfðuð þið nokkuð til að borða? — Það voru venjulegar matarbirgðir í bátnum, en við borðuðum ekkert. Við höfum náð í fjalir úr þilfarsmilligerð og gátum örlítið róið okkur áfram með þeim. Það bjargaði okkur kannski, því að þegar okkur bar um hádegið á sunnudag upp að Hvalsey við Mýrar virtist alls staðar ólendandi fyrir skerjum og brimi, nema á einum stað, þar sem læna virtist út frá eynni og gátum við róið okkur að henni með þessum spýtum.

ENGINN SÁ BÁLIÐ. —

Reynduð þið ekki að gera vart við ykkur, þegar þið komuð upp í Hvalsey? — Jú, við reyndum öll ráð. Við skutum neyðarrakettum og blysum, kveiktum bál úr rekavið sem stóð í margar klst. og settum upp hvít flögg, en allt kom fyrir ekki. Það var slæmt í sjóinn svo að við lögðum ekki aftur af stað á gúmmí bátnum, enda segja bændur á Mýrum okkur nú, að það hefði getað orðið okkar bani, því að mikið brim var við ströndina.

KOMIÐ Á BÆ UM NÓTTINA.

Þegar veðrið lægði og sjórinn stilltist í gærkvöldi fórum við svo sex saman á gúmbátnum í land og komum að Ökrum á Mýrum um kl. 2 um nóttina. Þar vöktum við upp. Bóndinn á Ökrum, Ólafur Þórðarson og fólk hans tók ákaflega vel á móti okkur, gaf okkur mat og gekk úr rúmi fyrir okkur. Ólafur bóndi á Mýrum hafði ekki bát tiltækan en hafði samband við Helga Gíslason í Tröðum á Mýrum og sagði honum að skipbrotsmenn væru úti í Hvalsey. Helgi brá þegar við á bát sínum og sótti skipbrotsmennina.

MEÐ NÝ OG FULLKOMIN TÆKI.

Þeir komu sem fyrr segir til Reykjavíkur um 11 leytið í morgun. Þeir kváðust skilja það, að þeir væru úr helju heimtir. Og þegar þeir fóru að minnast á skipið, mátti heyra trega í rödd þeirra — Það var auman að þetta skyldi koma fyrir eftir alla fyrirhöfnina við að útbúa skipið á síldveiðar. Það var nýuppgert, skipið og öll tæki í því ný og fullkomin. Splunkuný síldarleitarttæki og kraftblökk. Þar með erum við búnir að missa af síldarvertíðinni. Það er sannarlega- mikið áfall. En getið þið ekki komizt á önnur skip? — Það er ólíklegt, svöruðu þeir, það er ekki auðvelt að komast í skipsrúm á síldarbátum nú.

Vísir 2. Júlí 1962

Vísir 2. Júlí 1962