Georg Andersen rennismiður m.fl.

Fæddur 20. nóvember 1886. Dáinn 1. . febrúar 1970

Kveðja frá Kristínu sonardóttur og börnum hennar.

Afi, nú margs er að minnast
mörgum frá stundum.
Þú varst mér æsku á árum
alltaf mjög góður.
Vinirnir mörgu það munu
minni í geyma
að vannstu hvert verk þitt
með prýði vandaður maður.

Börin mín ljúfur þú leiddir
lézt þau öll finna
kærleikans geisla,
þeir geymast góðum í hjörtum,
afa nú ástríkt þau kveðja
elska og sakna.
Biðja þig lífsins Guð leiði
á ljós heima vegi.

Inga mín, oft hjá þér dvaldi
á erfiðum stundum,
vildi þig verma og gleðja
í veikindum þínum,
gjöfina góðu hún þakkar,
gleymir þér eigi,
brosir hún blítt gegnum tárin
blessar hann afa.

Sólargeislar signa þitt leiði
sorgina þagga.
Minninga geislarnir geymast
gleðina auka.
Þökkum allt það okkur, varstu
þannig við kveðjum,
Vertu sæll ástkæri afi,
annist þig Drottinn.

G. G. frá Melgerði
-----------------------------------------------

Georg Andersen

Georg Andersen

Siglfirðingur -06.12.1956  

Georg Andersen vélsmíðameistari — sjötugur

Hinn 20. nóv. 1956 átti Georg Andersen, vélsmiðameistari, sjötugsafmæli. Hann er fæddur í Kaupmannahöfn 20. nóv. 1866, og ólst þar upp.

Ungur að árum lærði hann vélsmíði hjá Dan-vélaverksmiðjunum, en frá þeim verksmiðjum voru fyrstu bátavélarnar, sem fluttust hingað til landsins skömmu eftir síðustu aldamót. Um leið og verksmiðjurnar sendu vélarnar frá sér, þurfti vélmenntaðan mann til að setja þær í bátana og kenna mönnum á þær. Verksmiðjurnar völdu úr hóp sinna starfsmanna Georg Andersen, og til Eyjafjarðar kemur hann með fyrstu vélina vorið 1906.

Í fyrstu var ráð fyrir gert, að Andersen dveldi hér aðeins um þriggja mánaða skeið, en það fór nú svo, að hér á landi hefur hann * alltaf verið búsettur síðan. Það fór ört vaxandi, að útgerðarmenn við Eyjafjörð fengu sér vélar í báta sína og skip. Var þá leitað til Andersens með niðursetningu vélanna. Mátti segja, að á tímabili var Andersen eins og læknir.

Það var ekki nóg, að hann setti vélarnar niður og kæmi þeim vel í gang. Menn voru þeim ekki nægilega kunnugir, og voru ráðalitlir ef eitthvað bar út af, og þá var Andersen sóttur. — Var hann um skeið eini vélsmiðurinn á þessum slóðum og kom í flestar verstöðvarnar í viðgerðarerindum.

Annars var hann lengst af, meðan hann dvaldi á Eyjafirði, starfsmaður hjá útgerðarmönnunum O. Tulinius, Ásgeiri Péturssyni og Snorra Jónssyni. Svo hverfur Andersen af þessum slóðum, bregður sér til Reykjavíkur og verður aðalstarfsmaður hjá h.f. Hamar, þá nýstofnað, og mun hafa átt drjúgan þátt í skipulagningu vinnuvéla þar. Á þeim árum var hann fenginn til að setja niður nýjar vélar í Ísafoldarprentsmiðju.

Árið 1925 flytzt Andersen aftur til Norðurlands og setzt að á Siglufirði og setur upp vélaverkstæði og starfrækir í nokkur ár. Síðan vann hann um skeið á vélaverkstæði Olsens vélsmiðs og víðar þar til hann 1936 gekk í þjónustu Síldarverksmiðja ríkisins hér í bæ og hefur ávallt unnið þar síðan.
Það er ljóst mál, að Andersen hefur meginhluta dvalartíma síns hér unnið mikilvæg störf í þágu íslenzka sjávarútvegsins og fylgzt vel með þróun hans frá því hann kom með fyrstu bátavélina til Eyjafjarðar.

Andersen er tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kristín Kristinsdóttir, ágæt kona, látin fyrir mörg um árum. Þau eignuðust fimm mannvænleg börn.

Seinni kona hans, Margrét Jónsdóttir, ágæt kona, hefur alið honum sex börn, myndarleg og góð og búið honum gott og aðlaðandi heimili. Andersen leggur á margt gjörva hönd. Sjaldan er hann iðjulaus, þegar heim kemur eftir lokna dagvinnu. Á veggjum setustofu hans hangir fjöldi mynda í alla vega útskornum og útsöguðum römmum, sem hann hefur sjálfur gjört í tómstundum sínum. Þá má sjá borðlampa og fánastöng fagurgerða úr kopar. Einnig hefur hann skorið út líkön af skipum, húsum og jafnvel mönnum og smáþorpum, og komið því fyrir með fallegum bakgrunni innan í glerhylkjum eða venjulegum glærum flöskum.

Er þetta allt hin mesta listasmíði, sem lofar meistarann. Eru mörg af þessum listaverkum hans komin víðsvegar um landið. Hann hefur yndi af öðru en því, sem höndin gerir. Hann er mjög músikalskur og veitir sönglistin honum mikinn unað. Hann varð snemma styrktarfélagi Karlakórsins Vísis og lagði þar sinn skerf til þess mikla menningarþáttar bæjarins. Hann er talsvert fróður í þessum efnum og lendir ekki út á þekju, þó talað sé við hann um tónsnillinga heimsins og sum verk þeirra.  

Ein tómstundavinna Andersens er ákaflega merkileg, en það er frímerkjasöfnun hans. Hann á nú stærsta frímerkjasafn í einstaklingseign hér á landi, eða um eða yfir 30 þúsund. Má segja, að hann sé mikill fræðimaður í þessum efnum. Hann hefur haft sambönd við frímerkjasafnara víða um heim. Frímerkjasöfnun Andersens hefur vakið mjög mikla athygli erlendis, og hefur hann fengið víða kauptilboð í safnið.

En Andersen er tregur að selja, og er enn fullur áhuga fyrir að safna meira, og hyggst auka verðgildi þess. Áhugi hans á þessu verki hefur verið og er enn óbilandi. Um leið og hann hóf þetta verk, nam hann af sjálfsdáðum nokkur erlend tungumál, svo hann gæti haft bréfaviðskipti við sína viðskiptavini erlendis. Er auðvitað, að hann hefur lagt mjög mikið á sig til að koma þessu verki sínu áleiðis, svo að nokkurt vit væri í, og það hefur honum tekizt.

Þrír mánuðir áttu dvalartími Andersens að vera í fyrstu hér á landi, en það breyttist. Dvalartíminn er þegar orðinn 50 ár og verður vonandi lengur. Frá fjölbreyttu, iðandi lífi stórborgarinnar kom hann hingað í fásinnið og fátæktina. En hinn unga mann snart litauðgi, margbreytileg fegurð hinnar íslenzku náttúru, tign hennar og hrikaleikur, og dró hug hans allan til sín.

Honum samdi vel við íbúana og samdi sig að siðum þeirra og háttum, og bast strax órjúfandi vináttuböndum við land og þjóð. Vegna meðfæddrar greindrar og íhygli, skyggndist hann skjótt um á sviði hugðarefna þjóðarinnar og gerðist þátttakandi sem innlendur maður. Hann fylgdist vel með í frelsisbaráttu þjóðarinnar, og vildi þar hag og heill hennar. Spori því, sem stigið var í þeim efnum 1. des. 1918 fagnaði hann og með fölskvalausri gleði og ánægju greiddi hann atkvæði með lýðveldisstofnuninni. —

Hann hefur ávallt fylgzt vel með í þjóðmálum, og hefur sínar skoðanir þar, frábrugðnar öllu skrumi eða glamri. Andersen hefur náð furðulegum tökum á íslenzkri tungu og eignast þar r/.kinn orðaforða og talar eins og innborinn maður. En jafnhliða heldur hann sínu gamla móðurmáli óskertu. Er slíkt nokkuð fátítt. Æði mörgum útlendingum verður á að tapa sínu móðurmáli og læra ekki íslenzku neitt að ráði, og tala þá blending úr báðum málum. Það leikur ekki á tveim tungum,. að íslenzka þjóðin hefir í Andersen eignast ágætan og þjóðhollan fósturson. En þrátt fyrir þessa löngu dvöl í fósturlandinu, ber hann hlýjan hug til fósturlands síns og fylgist þar vel með málum.

Smellið Hér >>  http://www.sk2102.com/436649715 Lesið meia um Andersen