Sr. Bragi Reynir Friðriksson

Bragi Reynir Friðriksson fæddist á Ísafirði 15. mars 1927. Hann lést á Landspítalanum 27. maí 2010.

Foreldrar hans voru Ingibjörg Bjarnadóttir, húsfreyja á Sólvöllum í Mosfellssveit, f. 23. ágúst 1901, d. 1. júní 1979, og Friðrik Helgi Guðjónsson, útgerðarmaður á Siglufirði, f. 9. okt. 1901, d. 28. apríl 1991.

Systur Braga sammæðra eru

 • Ingunn, f. 14. apríl 1929,
 • Soffía Petra, f. 20. des. 1930,
 • Aðalheiður Auður, f. 24. mars 1936.
 • Systur Braga samfeðra eru
 • Kristín Ásta Friðriksdóttir, f. 26. júlí 1928, d. 13. ágúst 2008,
 • Gréta Friðriksdóttir, f. 28. ágúst 1929,
 • Steinunn Friðriksdóttir, f. 10. jan. 1934,
 • Gunnur Friðriksdóttir, f. 22. mars 1939,
 • Fjóla Friðriksdóttir, f. 4. nóv. 1957.
Bragi Friðriksson -- Ljósm: ókunnur

Bragi Friðriksson -- Ljósm: ókunnur

Barnsmóðir Braga var
Ólafía Margrét Guðjónsdóttir, f. 13. júní 1926, d. 28. júlí 1996. Börn þeirra:

 • 1) Guðrún, f. 13. apríl 1946, d. 8. ágúst 1946,
 • 2) drengur f. 13. apríl 1946, d. 13. apríl 1946.

Bragi kvæntist hinn 21. júní 1953 Katrínu Eyjólfsdóttur, f. 6. ágúst 1928 á Eskifirði.
Foreldrar hennar voru Oddný Jóhanna Eyjólfsdóttir, kaupkona, f. 16. des. 1896, d. 5. des. 1979, og Eyjólfur Magnússon, formaður og verkstjóri, f. 23. des. 1892, d. 16. nóv. 1960, búsett á Eskifirði og síðar í Hafnarfirði.

Börn Braga og Katrínar eru

 • 1) Ingibjörg, framhaldsskólakennari, f. 8. apríl 1954. Hún giftist Magnúsi H. Guðjónssyni. Þau skildu. Sonur þeirra er Bragi Hinrik í sambúð með Svandísi Magnúsdóttur, synir þeirra eru Fannar Logi og Magnús Hinrik.
 • 2) Eyjólfur R. Bragason, stjórnsýslufræðingur, f. 19. júní 1955. Hann kvæntist Svanhvíti Aðalsteinsdóttur. Þau skildu. Sonur þeirra er Aðalsteinn Reynir. Kona Eyjólfs er Hrönn Kjærnested, kennari. Börn þeirra eru Katrín, Sverrir og Hrannar Bragi.
 • 3) Auður Bragadóttir, deildarstjóri, f. 18. júlí 1958. Maki Sæmundur Hafsteinsson, sálfræðingur. Börn þeirra eru Bragi Reynir og Ragnheiður Helga, unnusti hennar er Hafsteinn Daníel.
 • 4) Oddur Helgi, leiðsögumaður, f. 16. des. 1963. Barnsmóðir hans er Soffía Þorleifsdóttir og er dóttir þeirra Gunnhildur Rós.

Bragi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1953. Sama ár var hann kallaður til prestsþjónustu í Kanada og vígðist það ár. Hann var frkvstj. Æskulýðsráðs Reykjavíkur frá 1957-1964 og var á sama árabili formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar.

Árið 1966 tók Bragi við Garðaprestakalli og árið 1977 var hann skipaður prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi. Árið 1997 var honum veitt lausn frá prests- og prófastsembætti. Bragi sinnti ýmsum trúnaðar-og félagsstörfum um ævina. Hann var fulltrúi þjóðkirkjunnar í Alþjóðakirkjuráðinu 1954, meðstofnandi Stjörnunnar í Garðabæ árið 1960 og formaður Þjóðræknisfélags Reykvíkinga árin 1974-1980.

Braga var veitt Paul Harris Fellow-viðurkenning Rótarýhreyfingarinnar 1996. Árið 1997 varð hann heiðursfélagi Rótarýklúbbsins Görðum og Skátafélagsins Vífils. 2010 var hann kjörinn heiðursfélagi Verndar fangahjálpar.

Sr. Bragi var heiðursborgari Garðabæjar og útför hans, sem fer fram á vegum bæjarins, verður gerð frá Vídalínskirkju í dag, 8. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Á sólríkum og fallegum sumardegi þann 27. maí kvaddi þennan heim minn elskulegi tengdafaðir Bragi Reynir. Það var friður og ró yfir ásjónu hans þegar við fjölskyldan komum saman stuttu eftir andlát hans.

Bragi var á margan hátt einstakur maður og bjó yfir miklum mannkostum. Hann var góðviljaður mannvinur, glaðlyndur, mikill húmoristi, rómantískur og stundum svolítið stríðinn. Hann gat verið þrjóskur og fylginn sér þegar honum þótti ástæða til. Hann var grúskari af lífi og sál og hafði yfirgripsmikla þekkingu á órúlega mörgum sviðum. Hann var skapandi í hugsun og það var oft unun að hlusta á hann segja frá. En hann gat líka hlustað og það var oft gott að geta leitað til hans.

Það er bjart yfir minningum frá Faxatúni þar sem Katrín og Bragi bjuggu börnum sínum fallegt og kærleiksríkt heimili í rúm 50 ár. Þau seldu húsið sitt og keyptu sér nýja íbúð í Sjálandshverfi fyrir nokkrum árum. Þó svo að það hafi verið erfitt að fara úr gamla húsinu var þetta kærkomin breyting og þar leið þeim vel og áttu þau þar margar gleði- og ánægjustundir.

Katrín og Bragi voru mér góðir tengdaforeldrar. Við Katrín tengdumst fljótt sterkum böndum og urðum góðar vinkonur. Ég veit að Braga þótti mjög vænt um það og seinna þegar hann var hættur störfum kynntumst við enn betur. Oft kom ég ein við hjá þeim eftir kvöldmat og sat lengi.

Bragi var Katrínu mjög þakklátur fyrir allt það sem hún hafði gert fyrir hann og hann sagði mér að án hennar hefði hann ekki getað starfað og beitt sér á svo mörgum sviðum eins og hann gerði á sínum starfsferli. Hún var stóra ástin hans. Ég læt hér fylgja frásögn hans af þeirra samfylgd. „Katrín hefur veitt mér trausta fylgd frá fyrstu tíð. Hún gagnrýndi mig stundum, svo að undan sveið, en ætíð með rökum og af sanngirni.

Svo bar hún smyrsl á sárin með einlægri viðurkenningu, þegar henni þótti betur takast hjá mér og það varð mér hvatning um að leggja mig fram í lífi og starfi. Öll afstaða Katrínar átti rætur sínar í því, að henni stóð ekki á sama um málefni mín og framkvæmd þeirra og ekki síður það, að henni stóð ekki á sama um mig. Elska hennar og umhyggja réð afstöðu hennar hverju sinni. Það var mér með vaxandi árum síaukið þakkar- og hamingjuefni.“

Bragi var ekki eingöngu ástríkur faðir barna sinn heldur einnig vinur þeirra. Hann elskaði smáfólkið og var stoltur af barnabörnum og barnabarnabörnum sínum. Hann var í daglegu sambandi við flest þeirra og fylgdist vel með þeim og reyndi eins og hann best gat að styðja þau á ýmsan hátt.

Ég kveð minn kæra tengdaföður og vin. Ég þakka honum góða og kærleiksríka samfylgd og mun leggja mig fram um að hafa að leiðarljósi í mínu lífi svo margt það sem hann ræddi við mig og sýndi með sinni vegferð. Stundum ræddum við um dauðann og hvað biði okkar. Hann var ekki hræddur við að deyja. Hann átti sterka og lifandi trú og trúði því að þá færi hann heim. Núna er hann yndislegi Bragi Reynir kominn heim.

Guð blessi minningu hans og varðveiti.

Hrönn Kjærnested.
---------------------------------------------

Afi var skemmtilegasti maður sem ég þekkti. Ég man ekki eftir afa í fýlu. Hann var alltaf glaður að sjá mann. Afi var frábær prestur og mér þótti mjög vænt um að hann skírði mig og fermdi.

Ég var ávallt minntur á hversu góður afi minn var. Þegar ég var spurður hvort ég væri barnabarn séra Braga og ég játti því kom alltaf bros á viðmælanda minn. Ég tók sérstaklega eftir því eftir að hann dó og ég hitti fólk að það táraðist þegar það frétti af andláti hans.

Ég man þegar ég kom í Faxatúnið til ömmu og afa þá gaf afi frá sér eitthvert einkennilegt ýlfur sem erfitt er að lýsa með orðum. Það þýddi einfaldlega eitt, maður átti að koma til afa og kyssa hann. Síðan kreppti hann hnefana og lyfti þeim upp og hafði þá í stöðu líkt og hnefaleikakappi. Þetta þótti manni skemmtilegt.

Þegar trúmál bar á góma hafði hann ávallt svör og fræddi mig á einlægan og svo rökfastan hátt að ég hreifst með. Í fermingarfræðslu hjá séra Jónu Hrönn lærði ég mikið, ég fór líka oft til afa og hann fræddi mig um Jesú og hann sagði mér margt sem ég vissi ekki og það var gott.

Afi fylgdist með öllu hjá okkur sérstaklega tengdu íþróttum eða skóla. Þar var hann á heimavelli. „Handbolti hvað, þú átt að kasta kúlu,“ sagði hann oft í gamni.

Ég var í prófum þegar fréttin barst að afi minn væri dáinn. Ég starði á bókina. Þá rann allt upp fyrir mér það sem afi sagði mér í fermingarfræðslunni og ég grét.

Við fjölskyldan fórum á spítalann til þess að kveðja afa. Ég var rosalega sorgmæddur að hafa misst einn yndislegasta og fróðasta mann sem ég hef þekkt. Allt var í þoku. Ég heyrði hjúkkurnar tala um hann sem einstakan mann sem þær söknuðu þótt kynnin hefðu aðeins verið fáeinir dagar. Það sama sagði læknirinn hans. Hann var miður sín yfir að hafa misst hann og viðurkenndi fyrir okkur að þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir hve hjarta afa var veikt. Læknirinn sagði: „Það var eitthvað sérstakt við hann“. Afi sá það skoplega í svo mörgu ef ekki öllu. Afi dó nýbúinn að segja brandara og með bros á vör. Sem betur fer þjáðist hann ekkert.

Afi var svo friðsæll þegar hann lá á sjúkrabeði sínum og ég sá að hann var „kominn heim“. Hann sagði alltaf að hann færi heim þegar hann myndi deyja. Ég tók eftir því daginn sem hann dó að það var skýjað um morguninn en þegar hann dó þá var eins og himnaríki opnaðist og það varð heiðskírt.

Ég var viss um að afi yrði mjög gamall maður. Andlát hans nú kom á óvart. Það eru samt forréttindi að hafa þekkt hann þessi 15 ár sem ég hef lifað. Ég held að enginn mótmæli mér þegar ég segi að afi minn var yndislegur maður. Hann skildi alla og tók alltaf tillit til allra. Það gerði hann að frábærum manni og gerði það að verkum að allir elskuðu hann. Ég sakna afa míns rosalega mikið. Ég myndi gefa allt til þess að eiga stund með honum þar sem við ræddum djúpar hugsanir okkar og að ég myndi heyra þetta sérkennilega ýlfur sem hann sendi frá sér er hann bað um koss. Afi var „one of a kind“.

 • Amma mín, þú verður aldrei ein.
 • Hrannar Bragi Eyjólfsson.
 • Hjálpa mér að kveðja,
 • hjálpa mér að gráta,góði Guð.

(Bænabók barnanna)

Það er í innilegu þakklæti sem ég kveð kæran afa minn. Ljúfur maður, hár og breiður, ljós og fagur, blíðir kossar og mjúkur faðmur. Í þakklæti til hans minnist ég hlýju hans og visku sem ég hef verið aðnjótandi allt mitt líf. Elska hans var mikil og sönn þannig að aldrei efaðist ég um sjálfa mig í návist hans.

Þannig var afi okkur kær, með velvilja sínum og gæsku hvatti hann ljós hvers manns að skína skært og með hjálpsemi bætti hann þau verk mín sem ég vann að svo afastúlkan skildi við þau sátt og sæl. Það var það sem afi þráði, að mega fegra líf manna og göfga. Sannarlega tókst honum það allt fram á sinn síðasta dag er hann kvaddi þessa jörð með bros á vör.

Það var honum eðlislægt að brosa. Hann var jákvæður, glaður og þakklátur fyrir það sem honum var gefið. Það þigg ég frá honum og mun leitast við að hafa að leiðarljósi í lífi mínu. Hann var stöðuglyndur og samkvæmur sjálfum sér í einu og öllu. Hann kenndi mér margt, ráðlagði mér mikið, og með sinni lífsspeki lærði ég margt sem ég geymi í hjarta mínu og huga.

Afi var mjög rómantískur. Hann elskaði ástina sína hana Katrínu ömmu svo blítt og heitt að ég táraðist að fylgjast með. Að hlýða á hann söngla ástarsöngva og rifja upp fyrrum daga þeirra ömmu var yndisleg skemmtun. Hann orti til elskunnar sinnar hin fegurstu ljóð og til okkar allra við öll tímamót í lífi okkar. Rithönd hans var undurfögur líkt og orðin sem hann ritaði og hans ljóð eru okkur sem gersemi ein.

Það komst enginn fram hjá afa sínum án þess að gefa honum koss, ef hann ekki fékk nægju sína af kossum þá umlaði hann þangað til hann fékk sinn koss. Ó, hve ljúft það var að liggja í þínum faðmi og finna þína elsku umlykja mig.

Allt sem lifir hlýtur að visna og deyja. Ég finn fyrir eigingirni þegar ég rita þetta því sumt fólk vill maður eiga alla sína daga. En ég hugga mig við samtal er við áttum þegar ég leitaði ráðvillt til þín, afi minn. Þú sagðir mér að þegar við fæðumst og eignumst líf værum við í raun að hefja leið okkar heim. Nú ert þú, minn kæri afi, kominn heim, þú munt bíða okkar með blíðu augun þín og útbreiddan faðminn er við komum heim eitt og eitt og kyssum þig, elsku afi.

 • Já, þinn vil ég vera,
 • vígja þér mitt hjarta,
 • láta ljós þitt bjarta
 • leiða, blessa mig.

(Frostenson – Sbj. E.)

Í fyllstu einlægni minni, virðingu og stolti kveð ég afa minn, trúnaðarvin og fyrirmynd. Það var mér mikil blessun að fá að njóta návistar hans og hjartahlýju. Orð hans og elska munu eiga vísan stað í hjarta mínu alla mína tíð. Amma mín kæra og yndislega, afi er í okkur öllum og við erum hér hjá þér, ég elska ykkur af öllu mínu hjarta. Guð geymi afa Braga.

Katrín Eyjólfsdóttir.
-------------------------------------------

Ég var heima þegar pabbi kom og sagði okkur að afi væri dáinn. Tilfinningin sem helltist yfir mig var hræðileg. Þetta gat ekki verið. Ekkert gat komið fyrir afa minn, hann var svo sterkur. Þótt hann hefði kennt sér meins og farið á spítala átti enginn von á öðru en að hann kæmi heim, kátur og hress.

Það er erfitt að minnast afa í fáeinum orðum. Hann var svo mikill hluti af okkar fjölskyldu og lífi. Til hans leituðum við í raunum okkar og einnig í gleði.

Faxatúnið var hans heimavöllur og um leið og við birtumst heyrðist kunnuglegt hljóð, eitthvert sambland af breimi frá ketti og uummmi. Til að stöðva þetta (óhljóð) stökk maður til og kyssti hann. Eftir það hófust uppbyggilegar umræður, oftast um íþróttir. Ég æfði frjálsar íþróttir. Það hugnaðist afa mínum vel og hann fylgdi mér eftir þegar ég keppti, hvort sem það var úti á landi eða í Reykjavík. Þá hafði ég tvo þjálfara sem gáfu mér ráð. Báða góða.

Hann sveiaði oft yfir boltasprikli mínu eins og hann kallaði það, en ég vissi auðvitað að það gerði hann í gríni og til að stríða mér. Hann fylgdist með mér og spurði frétta af áhuga í hvert skipti sem hann vissi að ég var að keppa.

Afi var keppnismaður. Við boxuðum, við spiluðum fótbolta úti í garði og við spiluðum á spil. Þegar ég tapaði varð mér á að blóta. Þá sagði afi: „Sverrir minn, við tökum ósigri af karlmennsku og notum ekki svona orð,“ allt með stakri ró, en ég skildi sneiðina.

Afi var íþróttamaður og æfði á sinn hátt fram á síðasta dag. Eitt sem vakti mikla kátínu á meðal okkar barnabarnanna var þegar afi kom fram á morgnana eftir nætursvefn. Þá hófust morgunæfingar í eldhúsinu. Hann lagðist til atlögu við ísskápinn eins og hann hefði gert honum eitthvað, teygði sig og hljóp í skrefinu og fékk sér svo súrt slátur, krúska og lýsi, en áður en þessi ósköp hófust var hann búinn að knúsa ömmu og tjá henni ást sína.

Lífið verður skrýtið án afa. Kossabreimið horfið og nú fáum við ekki frumort ljóð á afmælisdegi okkar, en það gerði hann fyrir alla. Hann vakti okkur að morgni afmælisdags okkar og hóf sína raust. Mín uppáhaldsljóð hljóða svona:

 • Skora mörk og skjóta fast,
 • skemmtir best um vetur.
 • Hið konunglega kringlukast,
 • köppum hæfir betur.
 • Þegar ertu kappi knár
 • knúinn von og framasýn.
 • Bæn mín er að öll þín ár
 • ætíð vaxi gæfa þín.

Afi minn takk fyrir allt. Ég gleymi þér aldrei og ég skal passa ömmu fyrir þig. Ég veit hve vænt þér þótti um hana. Ég er svo þakklátur fyrir þau tuttugu ár sem við áttum saman.

Trú þín var svo sterk og þú kenndir mér að Guð væri það bjarg sem við skyldum standa á. Nú ert þú kominn heim. Ég veit þú tekur vel á móti mér þegar ég verð kallaður heim.

Sverrir Eyjólfsson.
-------------------------------------------------

Elsku afi minn kvaddi sviplega þann 27. maí síðastliðinn. Við afi vorum perluvinir og í miklum samskiptum frá degi til dags. Reyndar vorum við meira að segja pennavinir og skrifuðumst á um leið og það skapaðist einhver tímabundin fjarlægð á milli okkar. Af honum hef ég lært og notið svo óendanlega margs. Jesús sagði: „Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum“ (Jóh. 15:5).

Það eru orð að sönnu og eiga svo vel við um líf og starf afa míns. Hann er og verður fyrirmynd og klettur í lífi mínu. Mig tekur það svo sárt að sjá af honum. Svo sárt að mig verkjar á sál og líkama. En þó ég finni til mikils trega þá fagna ég um leið þeirri mildi og gæfu að hafa átt hann að. Ég á svo margar bjartar og dásamlegar minningar um afa sem eru mér svo dýrmætar. Ótal samverustundir. Óþrjótandi kærleikur og umhyggja.

Heilræði og hugsjónir sem ég geymi innra með mér og á aldrei eftir að gleyma. Fyrir það verð ég ævina á enda innilega þakklát. Afi kvaddi með reisn. Hann dó með kímni og gamanmál á vörum. Og svo friðsæll var hann að það yljaði mér innanbrjósts. Enda þótt jarðvistinni sé lokið heldur minningin áfram að bera ávöxt í starfi svo margra og hér verður hann áfram, yfir og allt um kring, og lifir með okkur á meðan minningin lifir í hugum okkar og hjörtum.

Afi minn. Nú ertu kominn heim. Þaðan heldur þú áfram að gera líf mitt ríkara með hverjum deginum sem líður. Ég elska þig af öllu hjarta og sakna þín sárar en orð geta tjáð. Hafðu hjartans þökk fyrir allt og allt.

Þín afastelpa, Ragnheiður Helga Sæmundsdóttir.
----------------------------------------------

Bragi Reynir Friðriksson fyrrverandi prófastur er allur. Bragi var giftur Katrínu Eyjólfsdóttur föðursystur minni. Á uppvaxtarárunum í Garðahreppi var samgangur á milli fjölskyldnanna. Svo skemmtilega atvikaðist að barnasamsetning þeirra Katrínar og pabba var sú sama. Þau eignuðust fjögur börn hvort um sig og svo einkennilega vildi til að elsta barnið var í báðum tilvikum stelpa og síðan strákur svo stelpa og að lokum strákur.

Þannig áttum við margt sameiginlegt, börnin, þó einhver aldursmunur væri á barnahópnum. Góðar minningar eru frá jólunum en þá skiptust systkinin á að halda kvöldverðarboð á jóladag. Minnistætt er þegar eldri sonur Katrínar og Braga fiktaði með eld nálægt jólaskreytingu meðan á kvöldverðinum stóð í Silfurtúninu. Gekk mikið á hjá Braga og pabba að slökkva eldinn. Engin slys urðu á fólki og skemmdir sáralitlar.

Bragi kenndi kristinfræði í Barnaskólanum í Garðahreppi og gekk mér þokkalega með námið. Man ég eftir vorprófi í kristinfræði sem ég taldi að hefði gengið nokkuð vel. Bragi kom niður í Lyngás nokkuð þungur á brún (en brosmildur til augnanna) fljótlega eftir prófið og vildi tala við mig og mömmu. Sagði hann að prófið hefði ekki gengið nógu vel. Einungis væri hægt að gefa mér 9,5 í einkunn. Þorgeir hefði svarað einni spurningunni rangt. Mamma spurði: Hver var spurningin? Um fæðingarstað Jesú, svaraði prestur.

Og hverju svaraði sonurinn? Hann sagði Jesú fæddan í Nazaret. Mamma sneri sér þá að mér og spurði með nokkurri áherslu í röddinni: Manstu ekki eftir sálminum „Í Betlehem er barn oss fætt.“ Ef jörðin gæti bara gleypt mig man ég að ég hugsaði á meðan kinnarnar brunnu. Síðan skellihlógu presturinn og mamma.

Við Bragi áttum eftir að kynnast betur þegar árin liðu og var það okkur Kristínu farsælt að Bragi skyldi gefa okkur saman í hjónaband og síðan í fyllingu tímans skíra börnin okkar tvö. Seinna skírði hann tvo af þremur drengjum sonar okkar. Síðasta prestsverkið fyrir fjölskylduna vann hann 28. desember 2008 þegar hann skírði Lýð Þór í höfuðið á föður sínum og fór athöfnin fram í Garðakirkju sem okkur þykir svo vænt um og margar fallegar minningar eru bundnar við.

Ég minnist Braga með hlýhug þegar hann bauð mér að koma með sér á Hrafnistu í Hafnarfirði að heimsækja gamlan samstarfsfélaga og barnaskólakennarinn minn, hann Leif Eiríksson, 102 ára að aldri. Áttum við þar saman góða stund þar sem Leifur lék á als oddi og hafði engu gleymt. Að skilnaði gaf Leifur mér ljóðabók sína sem hann áritaði á staðnum. Leifur heitinn hafði afar fallega rithönd og var gefandi að sjá hann árita bókina með sinni fallegu skrift.

Síðast hittum við Braga 7. febrúar sl. þegar hann og Katrín áttu saman ánægjustund með okkur afkomendum pabba í tilefni af 90 ára afmæli hans. Við Kristín og börnin vottum ykkur, elsku Katrín og fjölskylda, djúpa samúð okkar og sendum ykkur okkar bestu kveðjur á þessum erfiðu tímamótum. Megi Guð halda verndarhendi yfir ykkur.

Þorgeir Eyjólfsson.
---------------------------------------------------------

Ég sá hann fyrst á svölum haustmorgni. Við höfðum þyrpst saman í anddyrinu í Barnaskóla Siglufjarðar og biðum þess að hringt yrði inn. Vinur minn einn benti mér á afar hávaxinn dreng sem stóð hljóðlátur í miðjum hópnum. Við virtum hann fyrir okkur og þótti með ólíkindum að slíkt stórmenni ætti að fara í okkar skóla, líklega hefði hann villst, ætlað í gagnfræðaskólann á kirkjuloftinu. Bjallan hringdi og við tókum eftir því að hann bar höfuð og herðar yfir kennarann sem hleypti okkur inn.

Fljótlega komumst við að því að risi þessi var á réttum stað, að vísu kominn tveim bekkjum lengra en við en bróðir bekkjarsystur okkar og vinkonu, Stellu, sem var grönn og lítil, glöð og hláturmild. Þarna var sem sé mættur á svæðið Bragi Friðriksson. Ekki hafði Bragi dvalist lengi á Siglufirði þegar við vinirnir gerðum okkur ljóst að hann var einstakt ljúfmenni, hlýr og notalegur við okkur smámennin og hinn besti drengur. Hann var ekki gamall þegar í ljós kom að hann var óvenju vel íþróttum búinn, einkum og sér í lagi slyngur í kastgreinum.

Bragi hélt til náms í Menntaskólanum á Akureyri og lauk stúdentsprófi með hópnum góða sem þeim áfanga náði 1949. Eftir stúdentspróf hóf hann nám í guðfræði og hefur síðan verið dyggur þjónn Guðs kristni bæði hér á landi og meðal Íslendinga vestanhafs. Hann var hátt á áttræðisaldri þegar hann lauk meistaranámi í guðfræði við Háskóla Íslands með ritgerð um séra Pál Þorláksson prest í Vesturheimi. Mér veittist sú ánægja að lesa ritgerðina í handriti og kynntist við þann lestur enn betur en fyrr elju sr. Braga, smekkvísi og dugnaði.

Sr. Bragi var vel kvæntur. Frú Katrín, sem á rætur austur á Eskifirði eins og margt gott fólk, er hin ágætasta kona. Það var gott og gaman með þeim að vera, ekki síst á fallegu heimili þeirra. Og notalegt var að hafa þau í hópi Perluvina á sólarströnd Spánar. Henni og ástvinum þeirra öllum sendum við samstúdentar sr. Braga hugheilar samúðarkveðjur um leið og við minnumst góðs drengs með virðingu og þökk.

Síðast sá ég sr. Braga í hópi Perluvina fyrir nokkrum vikum. Nokkuð var af honum dregið en vinarþelið og hlýjan var söm og fyrr þegar hann spurði um fjölskyldu mína. Og hin forna reisn brást honum ekki öldnum fremur en þegar hann stóð ungur í hópi krakkanna á Siglufirði.

Ólafur Haukur Árnason.
-------------------------------------------------------

Tæpur aldarfjórðungur er liðinn síðan fundum okkar séra Braga Friðrikssonar bar saman fyrst. Hann var mikill á velli og hávaxinn, brosmildur í andliti og óvenjuhlýr í fasi. Djúp og hæglát röddin bauð mig velkominn til starfa með kröftugu og þéttu handtaki. Nú við leiðarlok, þegar litið er til baka, verður manni ljóst, að séra Bragi hefur verið kletturinn í samfélagi Garðbæinga í tæpa hálfa öld.

Hann setti sannarlega svip á sína samtíð, heilsteyptur hæfileikamaður, prúðmennið og reglumaðurinn, sem lagði alúð við hvert sinna smæstu verka. Hvergi var kastað til höndum. Harðfylgi og lipurð fóru saman. Grómlaus glettni og glöggskyggn rökfesta fylgdust að. Vafalaust hafa þeir eðliskostir séra Braga átt sinn þátt í því, að hann kaus það ævistarf, sem gerði honum kleift að þjóna Guði og mönnum. Kirkjan og söfnuður hennar hefur því verið starfsvettvangur hans. En kirkjan er ekki húsið, ekki hússkrokkurinn – heldur sálir manna, er haft eftir einum postulanna. Og víst er um það, að þótt við reisum veglegar hallir, þá er slíkt fánýtt hjá því að vinna að andlegum vexti og þroska mannanna.

Séra Bragi kom til starfa í Garðaprestakalli árið 1966. Það er auðvelt að sjá fyrir sér fylkingu safnaðarbarnanna, sem hann hefur þjónað á þeim tíma. Við sjáum þau ganga fram hjá í tæpa hálfa öld; tugi, hundruð og raunar þúsundir. Líf þessa fólks ber vitni um hið mikilvæga og stórbrotna starf, sem séra Bragi og Katrín kona hans hafa unnið fyrir okkar ágæta samfélag. Í tæpa hálfa öld hafa þau veitt forstöðu smíði á andlegu stórhýsi. Í tæpa hálfa öld hafa þau helgað sóknarbörnum Garðasóknar krafta sína. Tilvera, þroski og framtíðarstörf, vöxtur og gæfa sóknarbarnanna eru þau laun, sem bíða þeirra heiðurshjóna að loknu dagsverki. Öll heiðursmerki, öll virðingartákn, öll veisluhöld – allt er það hégómi einn hjá slíkum launum.

Í Garðabæ hefur séra Bragi komið víðar við en í safnaðarstarfinu. Hann hefur verið brautryðjandi og drjúgur liðsmaður í fjölmörgum framfaramálum. Þar ber sérstaklega að nefna þátt hans í stofnun UMF. Stjörnunnar og forystu hans í þróun og uppbyggingu grunnskóla bæjarins sem formaður skólanefndar um árabil. Frásögn og ummæli samferðarmanna hans sýna það glögglega, að á þessum sviðum og mörgum öðrum eiga fjölmargir honum þakkarskuld að gjalda. Það er sannarlega gæfa að hafa með lífi sínu og starfi áunnið sér þökk og virðingu samborgara sinna. Má vissulega með sanni segja, að hann hafi staðist byljina og vaxið með stormunum, og það sem mest er um vert – veitt ungum gróðri skjól og þroska.

Frá fyrstu kynnum hefur fjölskylda mín notið vináttu og umhyggju þeirra heiðurshjóna, Katrínar og séra Braga. Fyrir það og samfylgdina alla er ljúft að þakka á skilnaðarstund. Vináttunnar verður ekki lengur notið nema í minningunni. En þar er hún líka hlý eins og fyrsta handtakið. Katrínu, börnum sem og öðrum ástvinum sendum við Hallveig innilegar samúðarkveðjur með ósk um að þeim veitist huggun og styrkur í þungum harmi.

Ingimundur Sigurpálsson.
---------------------------------------------

Þegar ég hitti sr. Braga uppi á Vífilsstöðum í ágústmánuði árið 1968 var hann að ganga þar stofugang. Hann kom mér oft á óvart. Í mörg ár höfðu þeir, hann og Helgi frændi minn gengið vikulega saman stofugang á þessari virðulegu stofnun. Lítil kynni hafði ég haft til þessa af guðskristni eða prestum.

Sr. Bragi var þægilegur maður í allri viðkynningu og fljótlega varð okkur ljóst að ég var óhæfur til að ganga með honum stofugang. Fjöldi sjúklinga virtist eingöngu hugsa um hvenær hans væri von, jafnvel gallharðir og guðlausir stalínistar biðu komu hans í ofvæni og oft mátti heyra þar líflegar umræður. Seint munu þeir 6 menn er voru við útför Kristínar frænku minnar gleyma þeirri athöfn. Sr. Bragi og Gunnar Eyjólfsson sáu um hana.

Næstu 30 árin gekk hann vikulega stofugang og að lokinni messu á jóladag leit hann inn hjá okkur hjónum. Honum var það hvíld í jólaösinni, en okkur til ánægju. Við smökkuðum á reyktu sauðakjöti úr Mývatnssveit og okkur leið vel.

En kynni mín af sr. Braga voru ekki bundin við Vífilsstaði. Árum saman heimsótti ég þau hjón einu sinni til tvisvar í mánuði, hann var betur giftur en flestir aðrir menn er ég þekki, líklega var það Katrín vinkona mín sem átti frumkvæðið að þessum heimsóknum. Nýjar bækur voru alltaf til umræðu, en þau hjón voru bæði víðlesin og vellesin, og mörgum góðum bita laumuðu þau að mér. Stundum átti ég eitthvað í pokahorninu handa þeim. Ekki fæ ég séð hvað kemur í stað þessara stunda. Hann var hógvær maður og kurteis, hann vissi að ég var áhugalítill um trúarbrögð og aldrei datt honum í hug að ræða slík málefni við mig.

Ég kveð kæran vin með þökkum fyrir tryggð og langa samfylgd. Láti Guð honum nú raun lofi betri.

Hrafnkell Helgason.
----------------------------------------

Þegar símtal barst með þeim fréttum að Bragi okkar Friðriksson, heiðursborgari Garðabæjar, væri látinn komu fram tilfinningar mikils söknuðar, en líka tilfinningar virðingar og lotningar yfir ævistarfi þessa mikla manns, í ólíkum skilningi þeirra orða. Sr. Bragi var stór vexti, hann var glæsimenni og persónuleiki hans stór og umfaðmandi.

Hann var útnefndur heiðursborgari Garðabæjar fyrstur manna, á hátíðarfundi bæjarstjórnar 4. janúar 2001 í tilefni aldarfjórðungs kaupstaðarafmælis bæjarins. Sr. Bragi var kjörinn sóknarprestur í Garðaprestakalli árið 1966 og var alla tíð síðan sem klettur í bænum okkar. Það er á engan hallað þótt því sé haldið fram að tilkoma sr. Braga í starf sóknarprests hafi verið mikil lyftistöng fyrir það samfélag sem var á þessum árum að verða til í Garðahreppi og síðar Garðabæ.

Hann hélt utan um söfnuðinn á tíma mikillar uppbyggingar með kærleiksríku viðmóti sínu, góðri kímnigáfu og krafti. En hann var ekki aðeins virtur prestur heldur vann hann mikið frumkvöðlastarf á ýmsum sviðum bæjarlífsins og átti gildan þátt í stofnun ýmissa félaga sem enn lifa góðu lífi í bænum og móta okkar bæjarbrag. Sr. Bragi var „fórnfús frumherji“ í Garðabæ. Starf hans er ómetanlegt fyrir samfélagið Garðabæ.

Ég var aðeins 25 ára gamall þegar ég tók við starfi æskulýðsfulltrúa hjá Garðabæ. Ég man vel þau hvatningarorð sem Bragi lét falla á okkar fyrsta fundi. „Óttast ekkert, Gunnar minn, sæktu fram fyrir unga fólkið, þá fer allt vel,“ sagði þessi mikli velgjörðarmaður. Sr. Bragi var mér hvatning og stoð í starfi alla tíð. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.

Ég vil líka þakka honum fyrir hönd bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir hans miklu störf í þágu Garðabæjar og Garðbæinga í gegnum tíðina. Það ber líka að þakka Katrínu Eyjólfsdóttur, eiginkonu Braga fyrir hennar þátttöku í starfinu með honum. Ævistarf sr. Braga sýnir og sannar að hann átti gott með að sannfæra og hrífa fólk með sér til góðra verka. Hann var útsjónarsamur, þrautseigur og fylginn sér.

En hann var líka blíður, kærleiksríkur, jákvæður og gamansamur. Þegar þetta allt fer saman og tilgangurinn góður, þá er næsta ómögulegt að vera í andstöðu. Maður hreifst með. Blessuð sé minning sr. Braga. Minningin um stóran, kærleiksríkan frumherja sem hafði þann tilgang einan að láta gott af sér leiða. Ég votta Katrínu og fjölskyldu samúð mína, megi almáttugur Guð leiða ykkur í gegnum sorgina.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.