Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir (Rúna Viktors)

Geirrún Viktorsdóttir (Rúna Viktors) fæddist á Hóli í Siglufirði 13. júlí 1932. Hún lést á fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar hinn 17. febrúar síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Björg Þorsteinsdóttir frá Hamri í Fljótum f. 4. júní 1903, d. 22. nóvember 1981 og Sigurjón Viktor Finnbogason frá Hnífsdal f. 9. september 1907, d. 3. mars 1946. Bróðir Rúnu samfeðra var Sigurður Björn Viktorsson, f. 18. júní 1929, d. 20. apríl 2001. Bróðir sammæðra er Sigurður Þorsteinn Jóhannsson f. 29. nóvember 1945, kvæntur Helgu Jónu Lúðvíksdóttur f. 31. des. 1959.

Barnsfaðir Rúnu, Zophanías Márusson f. 23. desember 1919. Þeirra dóttir:

1) Björg Viktoría f. 28. maí 1952. Maki Sverrir Sævar Ólason f. 4. apríl 1949.

  • Börn þeirra eru. a) Björn, maki Una K. Árnadóttir, þau eiga tvö börn, fyrir átti Una tvö börn.
  • b) Óli Brynjar á þrjú börn og eina uppeldisdóttur.
  • c) Elva Dögg, sambýlismaður Ólafur Viggó Sigurðsson, þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Elva tvö börn af fyrra hjónabandi.
  • d) Heimir, sambýliskona Eygló Þóra Óttarsdóttir, þau eiga eina dóttur.
  • e) Karen Sif, maki Þórarinn Magnússon. Sambýlismaður Rúnu var Sigurður Kristjánsson f. 14. desember 1925, d. 19. mars 1987. Þeirra sonur er: 2) Jón Friðrik f. 4. desember 1953 sambýliskona Steinunn Jónsdóttir f. 21. júní 1955. Þeirra börn eru. a) Sigurður Ágúst, sambýliskona Hafdís Reynisdóttir, þau eiga þrjá syni. b) Særún Björg, sambýlismaður Þorgeir Valur Ellertsson og á hún einn son.
Geirrún Viktorsdóttir (Rúnna) Ljósm. ókunnur

Geirrún Viktorsdóttir (Rúnna) Ljósm. ókunnur

Hinn 30. desember 1970 kvæntist Rúna Sigurður Ágúst Jónson (Sigurður Þórarins) f. 13. maí, d. 16. ágúst 1993.
Foreldrar hans voru Jón Friðrik Marinó Þórarinsson f. 2. maí 1905, d. 20. mars 1979 og Sigrún Ólafía Markúsdóttir f. 27. okt. 1907, d. 2.okt. 1982.

Saman eiga þau börnin: 3) Sigurður Ólafur f. 30. desember 1959. Sambýliskona Margrét Bjarnadóttir f. 20. janúar 1964. Þeirra barn er: a) Ólöf Steinunn b) Geirrún Jóhanna úr fyrri sambúð með Guðbjörgu Aðalbjörnsdóttur og tvö uppeldisbörn, Bylgja og Aðalbjörn. Börn Margrétar úr fyrri sambúð eru Bjarni og Hansína.

4) Svala Hólmfríður f. 23. desember 1963. Synir hennar eru. a) Reynir Valdimar Freysson, sambýliskona Hafdís Gunnarsdóttir, þau eiga einn son. b) Kristinn Axel Sigurðarson, sambýliskona Sólveig Anna Brynjudóttir. c) Hlynur Geir Sigurðarson.

5) Steindóra Ágústa f. 14. október 1966, sambýlismaður Stefán Jón Stefánsson f. 16. september 1963. Börn hennar: a) Rúnar Óli Hjaltason. b) Vaka Rán Þórisdóttir c) Viktor Snær Þórisson.

Útför Rúnu Viktors fer fram frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 27. febrúar og hefst athöfnin kl. 14.

  • Mamma, elsku mamma,
  • man ég augun þín,
  • í þeim las ég alla
  • elskuna til mín.
  • Mamma, elsku mamma,
  • man ég þína hönd,
  • bar hún mig og benti
  • björt á dýrðarlönd.
  • Mamma, elsku mamma,
  • man ég brosið þitt;gengu hlýir geislar
  • gegnum hjarta mitt.
  • Mamma, elsku mamma,
  • mér í huga skín,
  • bjarmi þinna bæna,
  • blessuð versin þín.
  • Mamma, elsku mamma,
  • man ég lengst og best,
  • hjartað blíða, heita –
  • hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson.)

Hafðu hjartans þökk fyrir allt, elsku mamma.

Steindóra.

  • Vertu blessuð, elsku amma,
  • okkar hugsun með þér fer
  • yfir hafið hinum megin
  • horfnir vinir fagna þér.
  • Þó við dóminn skapa ei skiljum,
  • skýrist margt við kærleiks yl.
  • Lítil barnssál líka getur
  • leitað, saknað, fundið til.

(Höf. ók.)

Okkur langar að þakka fyrir allar þær stundir sem við áttum með henni og við munum geyma minningu hennar í hjörtum okkar.

Vaka Rán og Viktor Snær.
-------------------------------------------

Í dag kveð ég elskulegu ömmu mína.

Ég á margar skemmtilegar minningar um hana ömmu, eins og þegar við fórum á rúntinn, ég keyrði en amma stjórnaði hvert skyldi fara. Þetta gátu verið skemmtilegir og fróðlegir bíltúrar. Að eiga ömmu er það besta sem er hægt að hugsa sér því ömmur eru dýrgripir.

Síðustu stundirnar sem ég átti með ömmu voru þegar hún kvaddi og mikið var mikill friður yfir henni. Ég sakna þín sárt, elsku amma.

Það verða skrítin næstu jól og áramót þegar engin amma er.

  • Ég sendi þér kæra kveðju
  • nú komin er lífsins nótt,
  • þig umvefji blessun og bænir
  • ég bið að þú sofir rótt.
  • Þó svíði sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því´
  • þú laus ert úr veikinda viðjum
  • þín veröld er björt á ný.
  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér´
  • og það er svo margs að minnast
  • svo margt sem um hug minn fer,
  • þó þú sért horfinn úr heimi
  • ég hitti þig ekki um hríð,
  • þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.
  • (Þórunn Sigurðardóttir.)

Þinn ömmustrákur, Rúnar Óli.

Mig langar að minnast hennar Rúnu í fáeinum orðum. Ég hef þekkt Rúnu frá því að ég var krakki en hún var ein af vinkonum mömmu minnar. Rúna var vön að venja komur sínar til mömmu á fimmtudagskvöldum en það voru kvöldin sem sjónvarpsdagskráin lá niðri. Þær vinkonurnar voru vanar að hittast til að spjalla og grípa í spil.

Mér fannst ávallt spennandi þegar Rúna kom og fékk stundum að sitja hjá kellunum í eldhúsinu. Rúna kom yfirleitt með nýjustu fréttirnar og sagði skemmtilegar sögur og ég unglingurinn drakk í mig hverja söguna á fætur annarri. Mikið sem mér fannst Rúna alltaf fylgjast vel með því sem var að gerast í okkar litla samfélagi á Siglufirði.

Vinskapur þeirra mömmu hélst alla tíð þótt nú síðustu árin hafi orðið minna um samskipti sökum veikinda þeirra beggja. Rúna var þekkt fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og gat átt það til að vera harðorð þegar hún reiddist. Ég get þó ekki sagt að ég hafi þurft að þola slíkt af hálfu Rúnu þar sem okkur samdi alltaf vel.

Rúna var barngóð og þess urðu börnin mín vör þegar þau voru í kringum Rúnu því slíkt finna börn. Í nokkur ár vann Rúna í myndbandaleigunni sem rekin var í bænum og þegar krakkarnir mínir komu til að velja sér spólur tók Rúna ávallt vel á móti þeim og gaf sér tíma í að svara endalausum spurningum um hinar og þessar myndir.

Nú síðustu ár hefur Rúna ekki mikið farið út sökum heilsubrests og þau skipti sem ég hef hitt hana hefur það verið þegar hún hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahúsið hér í bæ. Þau skipti sem Rúna dvaldi á sjúkrahúsinu var hún vön að kíkja inn til mömmu sem þar liggur rúmföst og halda henni félagsskap í svolitla stund. Þar hitti ég Rúnu síðast í janúar síðastliðnum og átti við hana gott spjall. Síðan þá hef ég aðeins heyrt í henni í síma en við töluðum reglulega saman í gegnum símann.

Með þessum orðum kveð ég Rúnu og votta börnunum hennar Björgu, Jóni, Óla Sigga, Svölu og Dóru og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Guðrún Pálsdóttir.
---------------------------------------------

Ég kynntist henni Rúnu fyrst um vorið 1977 þegar ég bjó á Grundargötu 14, við hliðina á húsinu á horninu með skrýtnu svölunum þar sem hún bjó svo lengi. Við höfðum fram að þeim tíma aldrei átt orðastað og jafnvel litið hvort annað svolitlu hornauga.

En allt breyttist þetta í einu vetfangi og það svo um munaði. Segja má að frá þeirri stundu sem hún rölti yfir og bauð hina nýju nágranna sína velkomna varð hún einfaldlega ómissandi. Alltaf tilbúin og til staðar ef hún taldi sig geta orðið að liði, sem var ósjaldan, svo óendanlega hjálpfús og því bæði kærkominn gestur og húsvinur.

Margt kvöldið var setið og rætt ýmist um hin dýpri eða grynnri gildi lífsins og tilverunnar, eða þá bara hvunndaginn og það sem honum tilheyrði. Á þessum árum komst ég að því sem ég hef vitað svo vel allar götur síðan, að undir svolítið hrjúfu yfirborðinu var að finna bæði ofurmjúka manneskju en ekki síður stórt hjarta. Þar var ávallt til staðar einlæg vinátta og velvild sem alla tíð síðan hefur reynst traust eins og klettur sem hin hvítfyssandi brotalda stórsjóanna vinnur ekki á.

Og kallið mikla kemur alltaf fyrr eða síðar. Því verðum við öll að svara og fáum um það engu ráðið hvort sem við teljum okkur tilbúin eður ei, hvort sem við teljum vitjunartímann sanngjarnan eða ótímabæran. Sorgin býr um sig í hjarta okkar um tíma og við þurfum að hlúa að henni. Deila henni með okkur sem syrgjum, en við megum samt ekki gleyma því að systir hennar er gleðin og henni ber líka sinn vitjunartími. Verum þakklát fyrir það sem var gott og það sem var gleðilegt. Góðu stundirnar sem liðu hjá og skildu eftir sig minningarnar sem eru svo dýrmætar.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera nágranni þinn, vinur og samferðamaður hluta af þeirri leið í þeim lífsins ólgusjó sem við öll velkjumst um í mislangan tíma. Ég vil þakka þér fyrir samfylgdina þá stund sem hún varaði. Nú er kominn tími á dulmögnun hinna dimmu vetrarnótta að senda norðurljósin í stórfiskaleik um himinhvolfið þér til heiðurs, sem og sólargeisla sumarsins bjarta að fylla okkur þeim kærleiksríku verðmætum sem munu varðveitast í hjartasjóði vorum í kærri minningu um þig.

Leó Reynir Ólason.
-----------------------------------------------

Vinkona mín Geirrún Viktorsdóttir eða Rúna eins og við kölluðum hana hér í Siglufirði er fallin frá. Við Rúna vorum ágætir vinir þó örugglega hafi stundum slegið í brýnu eins og gerist á milli vina. Fyrst man ég eftir henni sem strákur þar sem hún var nágranni okkar, síðan alla tíð, þar sem hún var ein af þeim sem settu svip á bæinn, en því miður fækkar þeim ört eins og íbúunum yfirleitt.

Ég á ekkert nema góðar minningar um Rúnu og okkar samskipti, þegar ég var í bæjarmálum og bæjarstjórn var hún oftast stuðningsmaður minn, einnig kitlaði það hégómagirnd mína þegar hús sagði að loknum athöfnum í kirkjunni: Það var auðheyrt að þú varst að syngja í kórnum, eða síðar ef við hittumst: Þú varst ekki að syngja, það var auðheyrt. Þetta var skemmtilegt að heyra og sagði ég félögum mínum í Kirkjukórnum óspart að Rúna væri langbesti gagnrýnandi kórsins.

Rúna vann hin ýmsu störf eins og gengur og gerist sjávarplássum, hún rak um tíma myndbandaleigu, vann í sjoppu og ekki síst var hún ákaflega hjálpleg við samborgarana, því kynntist ég einnig eftir að hún flutti að Skálarhlíð, þar sem móðir mín var fyrir, Rúna hafði tekið tölvutæknina í sínar hendur og prentaði út myndir sem hún sá og vörðuðu einhverja sem bjuggu í Skálarhlíð eða einhverja þeim nákomna, þetta kunni móðir mín vel að meta, svo ég tali nú ekki um allar þær stundir sem þær spiluðu á spil ásamt öðrum vinum í Skálarhlíð, fyrir þetta þakka ég af heilum hug nú á kveðjustund.

Rúna hugsaði vel um sína og hafði góða yfirsýn yfir það hvar þeir voru á hverjum tíma og hvað þeir voru að gera. Ég kveð vinkonu mína með virðingu og mun leggja mitt af mörkum við sönginn í kirkjunni og fyrir hana syngjum við Rósina eins vel og við mögulega getum.

Fjölskyldu Geirrúnar votta ég samúð mína.

Björn Jónasson.