Einar Magnús Albertsson

Einar Albertsson fæddist á Búðarnesi í Súðavík 12. júlí 1923. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 9. mars 1998.

Foreldrar hans voru Þórdís Magnúsdóttir og Albert Einarsson.
Systkini Einars Albertssonar voru

  • Lúðvík, f. 13. júlí 1912, d. 8. ágúst 1987;
  • Ásgrímur, f. 9. ágúst 1914, d. 22. október 1996;
  • Sigríður, f. 18. júlí 1916, d. 22. júlí 1993, og tvíburasysturnar
  • Guðrún og
  • Margrét, f. 18. ágúst 1929.

Eftirlifandi kona Einars er Þórunn Guðmundsdóttir, ættuð frá Hjarðardal í Önundarfirði, f. 7. maí 1920.

Börn þeirra eru

  • 1) Albert Guðmundur Einarsson, f. 15. janúar 1949. Albert eignaðist tvö börn með Maríu Sveinsdóttur, Helgu Maríu og Einar Þór. Þau skildu. Núverandi eiginkona Alberts er Kari Mari Jonsmoen og eiga þau eina dóttur, Unni Lise.
  • 2) Sigríður Þórdís Einarsdóttit, f. 3. mars 1951. Hennar maður er Hörður Sigurbjarnarson og eiga þau þrjú börn, Heimi, Þórunni og Hildi.
Einar Albertsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Einar Albertsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Einar lærði skósmíði og starfaði við það um tíma en lengst af var hann póstfulltrúi á Pósthúsi Siglufjarðar. Útför Einars fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

----------------------------------------------

18. mars 1998   Einar M. Albertsson

Einar M. Albertsson Fréttin um fráfall Einars M. Albertssonar, fyrrv. póstfulltrúa á Siglufirði, kom flestum á óvart. Hann hafði alla ævi ástundað hófsemi og holla lifnaðarhætti og virst heilsuhraustur. Hann hafði að vísu kennt heilsubrests síðustu mánuði, en samt bjuggust fáir við að úrslitin réðust svo fljótt sem raun varð á.

Á kreppuárunum gafst fáum unglingum úr alþýðustétt tækifæri til langskólanáms og mikil heppni þótti að komast í iðnnám. Einar lærði skósmíði, vann nokkur ár í greininni, gerðist síðan starfsmaður á pósthúsinu á Siglufirði í fáein ár, þá starfsmaður Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins í mörg ár, réðst svo aftur til póstsins og vann þar til starfslokaaldurs.

Meðal þeirra fyrstu sem ég kynntist á Siglufirði þegar ég settist þar að 1944 voru bræðurnir Ásgrímur og Einar Albertssynir, sem báðir voru miklir áhugamenn um verkalýðsmál og stjórnmál á vinstri kantinum.

Ásgrímur fluttist burtu nokkrum árum síðar. Einar bjó áfram á Siglufirði og vann þar að viðgangi áhugamála sinna í hálfa öld. Þar ber ef til vill hæst rekstur hans á skrifstofu Sósíalistafélagsins og störf hans fyrir blaðið Mjölni. Þetta voru þreytandi störf, sífelld barátta fyrir að halda fjárhagnum í horfinu svo hægt væri að halda áfram.

Þegar ekki náðust saman peningar til að borga honum skilvíslega lága kaupið sem hann lét sér nægja hjá flokknum útvegaði hann sér aukastörf til að halda heimili sínu á floti. Í því sambandi kemur líka til álita hlutur eiginkonu hans, Þórunnar Guðmundsdóttur, einstæður dugnaður hennar og myndarskapur.

Verður sjálfsagt aldrei metið eins og sanngjarnt væri það umburðarlyndi sem hún sýndi gagnvart þeim óþægindum sem fjárskortur og vanskil á kaupgreiðslum til eiginmanns hennar hljóta að hafa valdið heimili þeirra, svo ekki sé minnst á öll þau störf sem hún vann líka fyrir sósíalistahreyfinguna og verkalýðssamtökin.

Einar Albertsson var greindur maður, ágætlega máli farinn og vel ritfær, og vann öll sín verk af undanbragðalausum heiðarleika. Hann átti talsvert safn góðra bóka, hafði mætur á tónlist og lék á hljóðfæri í lúðrasveit um árabil. Hann var félagslyndur, starfaði í mörgum félögum sem honum þóttu horfa til mannfélagsbóta, og gegndi mörgum trúnaðarstörfum, síðustu árin mun hann hafa verið ein helsta driffjöðrin í Félagi eldri borgara á Siglufirði.

Hann skorti þó eitt, sem stundum ber sæmilega gefna og starfshæfa menn drjúgt: metnað til að afla sjálfum sér frama, græða fé eða halda sér til mannvirðinga. Fyrir honum voru allir jafnir, hvaða stöðu sem þeir gegndu, og öll störf jöfn að því leyti að hægt var að vinna þau bæði vel og illa, en það sem máli skipti væri að leysa verk sín vel af hendi. Í það varði hann metnaði sínum, ef það tækist væri vitneskjan um það besta umbunin.

Ég hef ekki unnið lengur eða nánar með neinum en Einari Albertssyni, og enginn hefur reynst mér betri samstarfsmaður, enda var maðurinn fágætlega réttsýnn, orðheldinn og fórnfús. Flestir hafa bresti, sem gerir samstarf við þá misjafnlega skemmtilegt. En ég fann aldrei neinn slíkan brest hjá Einari. Enda bar aldrei skugga á margra áratuga samstarf okkar, amk. ekki fyrir hans atgerðir.

Þeim fækkar nú óðum, gömlu félögunum, sem tóku út þroska sinn í umbrotum kreppunnar milli heimsstyrjaldanna. Í hvert sinn sem einhver þeirra kveður er eins og heimur okkar sem enn stöndum uppi skreppi saman um spönn. Þannig hygg ég að flestum vinum og félögum Einars Albertssonar sé innanbrjósts nú, þegar hann kveður félagssystkini sín að loknu farsælu ævistarfi.

Við Fríða vottum Dúddu, Albert, Siggu Dísu og öðru vandafólki Einars innilega samúð, með þakklæti fyrir vináttuna, samstarfið og sálufélagið.

Benedikt Sigurðsson.
------------------------------------------------  

17. mars 1998 | Einar M. Albertsson

Einar M. Albertsson Þeim fækkar óðum gömlu samborgurunum frá Siglufjarðarárum mínum. Og nú er Einar M. Albertsson látinn. Satt best að segja kom andlát hans mér nokkuð á óvart og mér brá ónotalega. En hér sannaðist hið margsagða að enginn veit ævina fyrr en öll er. Einar M. Albertsson og Dúdda (Þórunn) kona hans voru sannkallaðir vinir mínir frá fyrstu kynnum.

Og þegar ég gifti mig og stofnaði heimili með Rósu konu minni færðist þessi vinátta yfir á hana. Enda varð henni fljótlega ljóst hvílíkar afbragðs manneskjur voru hér á ferð. Milli heimila okkar mynduðust því töluverð samskipti sem hér verða ekki tíunduð. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna bílferðir okkar um landið með tjöld og útileguútbúnað.

Lengsta ferðin var án efa ferðin kringum Snæfellsnes og um Vestfirði, allt til Hjarðardals innri í Önundarfirði, sem voru æskustöðvar Dúddu. Þetta var ógleymanlegt ferðalag sem geymist í minni til hinstu stundar og vonandi máist ekki af þeim ljósmyndum sem þá voru teknar.

Satt best að segja man ég ekki hvenær fundum okkar Einars bar fyrst saman, en ég held það hljóti að hafa verið í pólitíkinni í Sósíalistafélagi Siglufjarðar. Einar var starfsmaður þessa félags um margra ára skeið og hafði lág laun sem oft borguðust seint. En starf hans var óaðfinnanlegt, unnið af snyrtimennsku og þeirri alúð sem honum var einum lagin.

Og ég gerði mér fljótlega ljóst að hann var í þessu starfi af hugsjón en ekki af pólitísku framapoti. Þessi hægláti og umtalsgóði maður var þeirrar gerðar að hörð pólitík taldi sig ekki hafa þörf fyrir hann í allra fremstu víglínu. Samt sem áður naut hann virðingar bæði flokksfélaga og andstæðinga af því hann var góður og vandaður drengur. Þegar Einar hætti sem starfsmaður hjá Sósíalistafélaginu hóf hann vinnu hjá Pósti og síma.

Þar á bæ voru menn ekki lengi að sjá hvers konar úrvals starfskraftur hann var, vandaður, tryggur og réttsýnn. Honum voru því falin margs konar trúnaðarstörf, og það utan Siglufjarðar ef nauðsyn þótti. Mér er kunnugt um það að honum buðust betur launuð störf, og kannske virðingarmeiri, hjá Pósti og síma, en hann hafnaði því. Á Siglufirði vildu þau hjón vera.

Einar hætti vinnu hjá Pósti og síma þegar hann var sjötugur eins og lög gera ráð fyrir. En sú lífsskoðun að verða samferðafólkinu að gagni í lífsbaráttunni var ekki alveg útdauð því hann og Dúdda fóru að vinna að málefnum aldraðra í Siglufirði. Einar var í stjórn félags þeirra í mörg ár. Einnig fór hann að vinna að iðn þeirri sem hann lærði þegar hann kom fyrst til Siglufjarðar, skósmíðinni, eða réttara sagt skóviðgerðum. Þá var enginn slíkur í Siglufirði.

Verkstæðið var í bílskúr, sem hann kom sér upp, gegnt heimilinu við Hólaveg. Ég er alveg viss um að mínum gömlu samborgurum hefur þótt þetta þörf starfsemi og verðið fyrir vinnuna hefur áreiðanlega ekki fælt þá frá viðskiptunum.

Ég og Rósa kveðjum þetta tryggðatröll með mikilli virðingu og þakklæti fyrir liðnar stundir. Við færum Dúddu, börnum þeirra Alberti og Siggu Dísu, sem og öðrum nánum aðstandendum, okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum þeim farsældar á ókomnum árum. Minningin um góðan dreng lifir svo lengi sem öndin blaktir í brjóstum okkar.

Eiríkur Eiríksson.

Add to Phrasebook
No word lists for Icelandic -> Icelandic...