Tengt Siglufirði
Einar Guðmundsson fæddist á Siglufirði hinn 30. september 1933. Hann lést á heimili sínu hinn 16. mars síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Guðbjörg Magnea Franklínsdóttir, f. í Litla-Fjarðarhorni á Ströndum 19. október 1912, d. á Siglufirði 20. október 2005, og Guðmundur Konráð Einarsson, f. á Siglufirði 15. júní 1909, d. 20. janúar 2002.
Systkini Einars eru
Einar kvæntist 10. ágúst 1957 Sólveigu Kristinsdóttur, f. 2. janúar 1934, í Vestmannaeyjum.
Foreldrar hennar voru Helga Jónsdóttir, f. í Njarðvík á Borgarfirði eystra 1. janúar 1896, d. 10. desember 1989, og Kristinn Andrés Jónsson, f. á Hávarðsstöðum í Þistilfirði 28. janúar 1886, d. 1. ágúst 1967.
Börn þeirra eru:
Einar Guðmundsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1953 og prófi í vélaverkfræði frá tækniháskólanum í Darmstadt í Þýskalandi 1961. Hann var verkfræðingur hjá verkfræðistofu SÍS 1961, og starfrækti eigin verkfræðistofu í Reykjavík 1962–1964.
Hann var verkfræðingur hjá Landsmiðjunni frá 1964–1969, matsmaður fyrir Ríkisábyrgðarsjóð, Fiskveiðisjóð og fleiri aðila 1965–1972, meðdómari og matsmaður fyrir borgarfógetaembættið í Reykjavík 1967–1982, stundakennari við verkfræðideild Háskóla Íslands 1968–1971, og verkfræðingur hjá Íslenska álfélaginu hf. í Straumsvík (ISAL) 1969–1974.
Á árunum 1973–1974 starfaði hann hjá Alusuisse í Sviss og Þýskalandi. Hann var framleiðslustjóri hjá ISAL frá 1974 til 1984, deildarstjóri hjá framleiðsludeildum og á rannsóknarstofu Leichtmetall Gesellschaft í Essen í Þýskalandi 1985–1987, tæknilegur framkvæmdastjóri hjá ISAL 1987–1993, og framkvæmdastjóri ýmissa deilda ISAL og staðgengill forstjóra frá 1993–2003. Frá árinu 2004 aðstoðaði hann við skrásetningu sögu ISAL.
Einar átti sæti í stjórn Endurvinnslunnar frá stofnun hennar árið 1989 til æviloka. Áður hafði hann setið í undirbúningsnefnd að stofnun fyrirtækisins. Þegar Einar lauk störfum hjá ISAL var hann fenginn til ráðgjafar hjá hjá Blendi. Hann var síðar kosinn stjórnarformaður fyrirtækisins og gegndi hann því starfi til æviloka.
Einar verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
Á Klettinum við lygna Voginn stendur Vitinn minn. Ljósgeislar hans lýsa upp himininn og dansa eftir haffletinum svo langt sem augað eygir. Birtan frá ljósgeislunum er hlý og mild en samt nógu kraftmikil til að lýsa upp öll sker sem verða á siglingu minni gegnum lífið.
Ég er ekki sú eina sem nýti mér geisla Vitans, allir sem eiga leið hjá njóta góðs af ljósgeislum hans. Vitinn varpar ljósi sínu á skerin sem við þurfum að varast en lætur okkur eftir að velja hvaða leið við siglum fram hjá þeim. Ef við veljum ranga leið og steytum á skeri getum við aftur reitt okkur á ljósgeisla Vitans sem lýsa upp skemmdirnar á fleyinu, gefa okkur tækifæri til að meta aðstæður upp á nýtt, sinna viðgerðum á fleyinu og halda síðan áfram för okkar þegar flæðir að og fleyið okkar lyftist af skerinu.
Við göngum að Vitanum vísum á sínum stað dag og nótt, þegar veður gerast válynd sem á mildum sumardögum. Þegar á móti blæs í lífinu leitum við vars í Voginum og nýtum okkur skjólið af Klettinum og horfum til Vitans sem stendur af sér öll veður og tekur óhræddur á móti storminum. Alltaf getum við reitt okkur á Vitann. En dag einn dregur ský fyrir sólu og óveðursskýin hrannast upp og við það fer ljósið í Vitanum mínum að dofna. Aðeins nokkrum dögum síðar slokknar ljósið endanlega í Vitanum mínum.
Eftir stendur Kletturinn berskjaldaðri en fyrr fyrir óveðrinu því birtunnar frá Vitanum nýtur ekki lengur við. Við vitum þó að stormurinn varir ekki að eilífu. Brátt tekur að birta á ný og við nýtum okkur birtuna til að lýsa upp minninguna um ljósgeisla Vitans. Veröld okkar sem eftir stöndum verður aldrei söm en við erum ríkari af því að við nutum leiðsagnar Vitans.
Berghildur Ýr.
----------------------------------------------
Ég kynntist Einari tengdaföður mínum í lok árs 1992. Gæfa mín að hafa þekkt hann í rúm 14 ár er mikil. Þó svo að tengdaforeldrum mínum hafi ef til vill brugðið þegar þau fóru að sjá ókunna herraskó í anddyrinu næturlangt var ég strax boðinn velkominn á heimilið. Fljótlega leið mér sem einum úr fjölskyldunni og var mér tekið sem einu af börnum þeirra hjóna.
Ég komst fljótt að því að vinnan í álinu átti hug hans allan. Oftar en ekki var spjallað um atburði dagsins yfir kvöldmatnum þar sem öll fjölskyldan tók þátt. Þá hafði tengdapabbi ávallt mikinn áhuga á því sem aðrir höfðu fyrir stafni. Sjálfur fór ég ekki varhluta af því, fyrst í námi og síðar í starfi.
Örlögin höguðu því þannig að starf mitt tengist áliðnaði á Íslandi töluvert. Það var því ákaflega gott að geta leitað í viskubrunn Einars þegar leita þurfti skýringa á ákveðnum atriðum. Kom það jafnvel fyrir að samstarfsmenn mínir báðu mig um að hringja nú í tengdapabba til að fá eitthvað á hreint. Þar var aldrei komið að tómum kofanum og alltaf var hann boðinn og búinn að aðstoða. Áttum við oft saman spjall, hvort heldur var í gagnkvæmum heimsóknum okkar eða í gegnum síma. Þessi samskipti okkar voru mér ákaflega mikilvæg og verða lengi í minnum höfð. Ég mun sakna þess mjög sárt að geta ekki leitað til tengdapabba í framtíðinni.
Einar var þrautseigur og uppgjöf var ekki til í hans orðaforða. Hann tókst á við hvert verkefni af æðruleysi og sá aldrei nein vandamál. Árið 1998 veiktist Einar alvarlega en í hans huga var aldrei spurning um hvort heldur hvenær honum tækist að sigra það stríð. Um sumarið þetta ár gengum við hjónin upp að altarinu og hafði Einar sett sér það takmark að ganga þangað með dóttur sinni. Þetta tókst honum og var þetta okkur hjónum afskaplega dýrmæt stund.
Tengdafaðir minn var með eindæmum barngóður maður. Barnabörnin áttu hug hans allan og hann vildi allt fyrir þau gera. Hafði hann hlakkað til að vera þeim til halds og trausts um ókomin ár. Sem dæmi gerði hann sér far um að heimsækja eldri son okkar hjóna á hverju kvöldi þær 5 vikur sem hann þurfti að dvelja á vökudeild LSH. Þangað kom hann til að fylgjast með daglegum framförum hjá honum, myndaði hann í bak og fyrir og sýndi öðrum í fjölskyldunni. Seinna meir kom það iðulega fyrir að sonur okkar vildi ekki fara heim með foreldrum sínum að afloknum heimsóknum í Hrauntunguna. Þá bauð Einar honum í afabíl, sem var að sjálfsögðu miklu meira spennandi en pabbabíll, og keyrði hann heim. Yfirleitt var ekki farin stysta leið heldur ekið meðfram sjónum og skipin skoðuð. Svona var tengdapabbi, vildi allt fyrir börnin gera og taldi ekkert eftir sér.
Nýlegt dæmi um velvilja hans í garð barnabarnanna er að um síðustu jól gaf hann 6 ára syni okkar golfsett og hafði í hyggju að fylgja honum á golfnámskeið næsta sumar. Golfsettið keypti hann erlendis í september í fyrra. Þar sá hann annað golfsett, ætlað þriggja ára börnum. Var hann mikið að velta fyrir sér hvort hann ætti að kaupa það fyrir yngri son okkar hjóna sem einmitt fæddist um þetta leyti. Ákvað hann þó að bíða með það að sinni og fara erlendis síðar í þessum erindagjörðum. Lýsir þetta vel þeim eldmóði sem hann bjó yfir en hann hafði uppi ýmis plön sem hann ætlaði að hrinda í framkvæmd á næstu árum þó svo að hann ætti í baráttu við erfið veikindi. Veikindin sem sigruðu hann að lokum.
Einar tengdapabbi var gamansamur og fannst fátt skemmtilegra en að stríða mér þegar hann kom því við. Til dæmis þreyttist hann seint á að benda mér á að veðrið í Kópavogi væri miklu betra en í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem við hjónin búum. Ástæðuna sagði hann þá að Kópavogur væri mun sunnar á hnettinum! Einnig néri hann mér því iðulega um nasir að KR spilaði í fangabúningum. Þá áttum við oft til að metast en mér varð snemma ljóst að hann átti alltaf betri og flottari græjur sama hvað ég reyndi að malda í móinn.
Ég mun sakna tengdaföður míns mikið. Verst þykir mér að barnabörnin fái ekki notið hans lengur en raun varð á. Ég veit þó að núna líður honum vel og að hann mun koma til með að vaka yfir okkur öllum um ókomna tíð.
Þinn tengdasonur, Haukur.
-----------------------------------------
Afi var alltaf góður við okkur og reiddist aldrei. Hann og amma fóru oft til útlanda. Þau keyptu alltaf eitthvað fínt fyrir okkur og afi var duglegur að skrifa á póstkort til okkar á meðan hann var í útlöndum. Hann valdi alltaf falleg kort og skrifaði skemmtilegar ferðasögur á þau. Á haustin fórum við oft í sumarbústað með ömmu og afa. Þar var stórt vatn og við fórum stundum að veiða og svo fórum við líka á bát út á vatnið.
Afi kom stundum með okkur út á bátinn. Í sumarbústaðaferðunum fórum við líka í berjamó öll saman og þá var mjög gaman. Við tíndum rosamikið af berjum og þegar við komum aftur í sumarbústaðinn fórum við beint í að hreinsa berin og tína öll laufin og mosann úr fötunum sem við settum berin í. Amma bjó til sultu úr berjunum og bakaði síðan pönnukökur. Það var eitt af því besta sem afi fékk; pönnukökur með rjóma og bláberjasultu. Afi kunni margar sögur sem hann sagði okkur, þegar hann var að passa okkur. Það verður öðruvísi að koma til ömmu þegar afi er ekki lengur þar. Ég verð döpur því ég sakna afa.
Ásdís Erla.
----------------------------------------------
Einari Guðmundssyni hefði ekki líkað það vel ef starfsfólk álversins í Straumsvík hefði breytt áformum sínum þegar fréttir bárust af andláti hans. Til stóð að halda samkvæmi í lok vinnudags og stappa stálinu hvert í annað í aðdraganda íbúakosninganna um framtíð álversins. Einar fylgdist vel með undirbúningi stækkunar álversins og var afar áhugasamur um að af henni gæti orðið. Við ákváðum því að halda áætlun en hófum samkomuna með því að lúta höfði, votta Einari virðingu okkar og minnast vinar og samstarfsmanns sem um margt var svo einstakur.
Einar réðst til starfa hjá álverinu fyrir tæpum fjörutíu árum, eða árið 1969 og nýtti verkfræðiþekkingu sína og fljúgandi greind í margvíslegum verkefnum sem komu inn á borð hans, sem tæknilegs framkvæmdastjóra og staðgengils forstjóra. Hann ræktaði af mikilli alúð samband sitt við fjölmarga starfsmenn í álverinu, hafði mikla yfirsýn yfir fjölbreytta starfsemi fyrirtækisins og fylgdist á hverjum degi jafnt með smáu og stóru í daglegum viðfangsefnum starfsfólksins.
Einar nýtti sér einfalt verkfæri til þess að rækta tengslin og halda góðri yfirsýn – símann. Hann var mikill símamaður ef svo mætti að orði komast. Hringdi látlaust í hina og þessa í verksmiðjunni, spjallaði mikið, spurði frétta og lagði inn góð ráð. Einar féllst í raun ekki á að vandamál væru til. Hins vegar væru til ýmis verkefni sem taka þyrfti á og þá væri best að einhenda sér í þau án tafar. Þetta einfalda sjónarhorn, þetta lífsviðhorf sem hann þreyttist ekki á að halda á lofti gagnvart sjálfum sér og samferðamönnum, var í senn gefandi og hvetjandi. Skaphöfn Einars, hreinskilni hans, glaðværð, jákvæði og þolinmæði, leiðbeindi okkur öllum og verður þeim sem mest unnu með honum leiðarljós um langa tíð.
Ég kynntist Einari þegar ég hóf störf í álverinu árið 1990 og var ein af þeim mörgu sem naut leiðsagnar hans og ráðlegginga frá fyrsta degi. Á náið og gott samstarf okkar reyndi enn frekar þegar ég tók við starfi forstjóra fyrirtækisins árið 1997. Einar studdi mig af alefli frá fyrsta degi og miðlaði af reynslu sinni hvenær sem ég leitaði til hans og hvenær sem honum þótti ástæða til að hnippa í mig eða stinga að mér heilræðum. Með okkur tókst góð vinátta og á hana bar aldrei skugga.
Þau vináttubönd náðu til heimila okkar og fjölskyldna. Við eigum góðar minningar um skemmtilega kvöldverði og notalegar samverustundir. Einar var alla tíð mikill fjölskyldumaður og þau Sólveig byggðu sér fallegt og hlýlegt heimili.
Enda þótt Einar léti formlega af störfum árið 2000 fór hann aldrei langt frá okkur. Hann var mættur til þess að leggja hönd á plóg þegar ákveðið var að hefjast handa við að skrifa sögu álversins. Ég leyfði mér líka að ræsa hann út mér til halds og trausts um miðja nótt síðastliðið sumar þegar slökkva þurfti á einum kerskálanna vegna rafmagnsbilunar. Þá voru milljarðar króna í húfi og einungis örfáar klukkustundir til þess að taka ákvarðanir og bregðast við. Einar kom á augabragði, eldskarpur og úrræðagóður að venju.
Fyrir hönd Alcan í Straumsvík og samstarfsmanna í álverinu votta ég Sólveigu og fjölskyldunni allri innilega samúð. Orðstír Einars mun lifa í gegnum ljúfar minningar okkar allra. Fyrir vináttu okkar og samstarf í öll þess ár vil ég þakka af heilum hug.
Rannveig Rist.
---------------------------------------------
Við andlát náins samstarfsmanns er margt sem kemur upp í hugann. Einari Guðmundssyni kynntist ég árið 1969 þegar álverið í Straumsvík tók til starfa. Í upphafi gegndi hann starfi yfirmanns á teiknistofu fyrirtækisins. Strax í byrjun þótti mér gott að leita til hans við úrlausn ýmissa verkefna. Samstarf okkar varaði á fjórða áratug eða þar til Einar lét af störfum fyrir þremur árum, þá sjötugur að aldri.
Fáir hafa þjónað fyrirtækinu af slíkri samviskusemi og fórnfýsi sem Einar. Á starfsævinni gegndi hann flestum helstu stjórnunarstörfum við álverið. Alkunna var hversu skjótt og vel hann tók á verkefnum líðandi stundar. Hann var úrræðagóður og tók virkan þátt í öllum helstu athöfnum fyrirtækisins. Hann var líka einkar laginn samningamaður og stjórnaði af lipurð og sanngirni.
Einn var sá hæfileiki sem Einar bjó yfir öðrum fremur, en það var óvenjugóður frásagnarhæfileiki. Þeir voru ýmsir atburðirnir sem hann sá í skemmtilegu ljósi og klæddi í lifandi búning. Eftir að Einar lét af störfum fór drjúgur hluti af tíma hans í að safna upplýsingum um fjörutíu ára sögu álversins. Hann lagði meðal annars land undir fót og endurnýjaði gömul kynni við fyrrum samstarfsmenn um leið og hann leitaði fanga um liðna atburði.
Stór þáttur í lífi Einars var fjölskyldan hans, Sólveig, og börnin. Gestrisni þeirra hjóna og myndarskapur er eftirminnilegur. Við minnumst góðs félaga og hörmum hið ótímabæra fráfall hans.
Við Erla færum Sólveigu, börnum og tengdasonum innilegar samúðarkveðjur og biðjum almættið að blessa minningu kærs vinar.
Því miður verðum við stödd á erlendri grundu á útfarardegi Einars en hugurinn verður hjá ykkur.
Ingvar Pálsson.
---------------------------------------
Flest okkar eiga sér einhvern samtíðarmann sem við getum talið að hafi verið örlagavaldur í lífi okkar, einhvern sem hefur haft þau áhrif að lífshlaupið tók aðra stefnu en það virtist hafa í byrjun. Oft gerir maður sér ekki grein fyrir þessu fyrr en sá er fallinn frá og maður rifjar upp samskiptin á liðnum árum. Nú þegar ég minnist Einars Guðmundssonar sannfærist ég um að hann hafi verið mér einn slíkur í hinni jákvæðustu merkingu þess orðs.
Leiðir okkar lágu saman er ég fyrir einum 30 árum hóf störf við álverið í Straumsvík. Þar var Einar einn af æðstu stjórnendum og þar með yfirmaður minn lengst af en síðustu árin stöfuðum við saman í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Er ég minnist Einars sem stjórnanda er leiðbeinandinn mér efst í huga. Stjórnun hans var í formi fræðslu og leiðsagnar kryddaðrar með góðlátlegu gríni og gamansögum.
Við rekstur á stórum fyrirtækjum, og álverum sérstaklega, geta komið upp atvik sem í senn eru alvarleg og uggvænleg. Við þær aðstæður skiptir sköpum að til komi einstaklingar sem hafa víðtæka tæknilega þekkingu og skapa það andrúmsloft að liðsandi þess hóps, sem vinnur við neyðarástand, sé þannig að hæfileiki hvers og eins nýtist sem best til lausnar. Einar sýndi á margri ögurstundu með yfirvegun og góðum úrræðum að hann var slíkur leiðtogi.
Ljúfleiki og létt lund var Einari svo eðlislæg að ekki mátti merkja að hin erfiða sjúkdómsganga næði að höggva þar eitthvað í, og því huldi hans stöðuga ylhýra viðmót manni hvað sjúkómurinn lagðist þungt á hann.Í dag kveð ég vin minn og samstarfsfélaga, Einar Guðmundsson.
Við vorum svo lánsamir að fá Einar okkur til halds og trausts á árdögum fyrirtækis okkar í Blendi. Þetta byrjaði þannig að við fórum á fund hans heima hjá honum og báðum hann um að koma með okkur í stutta viðskiptaferð til Noregs. Það tók Einar ekki langa stund að hugsa sig um og slóst hann í för með okkur. Sú ferð gekk með ágætum og varð mér þá strax ljóst hve mikill fengur væri í Einari þar sem hann gjörsamlega þekkti alla og var svo vel kynntur hvar sem við fórum.
Í framhaldi af ferð þessari tók Einar að sér forsvar og stjórnarformennsku í fyrirtækinu.
Undir handleiðslu Einars urðu farsælar breytingar á fyrirtækinu og rekstri þess.
Einar var álmaður í húð og hár. Þegar ég kynntist Einari vann hann sem framkvæmdastjóri tæknisviðs og staðgengill forstjóra álversins í Straumsvík. Hann hafði mikinn áhuga á að sjá sprotafyrirtæki vaxa og dafna í kringum áliðnaðinn á Íslandi og notaði hvert tækifæri til að tala um og segja frá þeim fjölda fyrirtækja sem hafa orðið til vegna áliðnaðar hér á landi.
Á árinu 2005 var fyrirtæki okkar tilnefnt til umhverfisverðlauna umhverfisráðherra. Af því tilefni tókum við Einar á móti nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins sem átti að taka út fyrirtæki okkar og starfsemina, til að ákveða hver skyldi hljóta verðlaunin. Þegar við Einar ræddum við sendinefndina notaði hann jafnmikinn tíma til að ræða um okkar fyrirtæki sem og önnur sprotafyrirtæki í álgeiranum sem honum voru svo mjög hugleikin. Ekki unnum við verðlaunin – en vorum ansi nálægt því.
Nú þegar ég lít til baka rifjast upp fyrir mér að vinnuferðir okkar Einars erlendis urðu margar og skemmtilegar. Einar hafði frá svo mörgu að segja, hafði farið svo víða og þekkti alla staði. Hann hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum. Hann var vel kynntur og sérstaklega boðinn velkominn hvar sem okkur bar niður í verksmiðjum erlendis.
Seint á síðasta ári réðumst við í verkefni við vélakaup í Þýskalandi. Ekki er að spyrja að því að Einar var þar í aðalhlutverki. Í upphafi ársins fórum við saman utan til samninga um kaup og tilhögun. Þar varð mér ljóst að Einar var orðinn mjög veikur þótt hann léti á engu bera. Þegar heimfarardagur kom þá hafði ég orð á því við hann hvort rétt væri að fara í flug nú. En honum varð ekki haggað, á heimleið var hann.
Stuttu síðar fóru menn á vegum fyrirtækisins utan að undirbúa flutning á verksmiðjunni heim. Við óvæntar uppákomur og vandræði voru ráðin ein að hringja heim til Einars, þar var vandinn leystur.
Nú er foringi fallinn, eftir langan og farsælan starfsferil, og vafalítið er hann farinn að leysa önnur vandamál á öðrum stöðum. Illa þekki ég Einar ef svo er ekki.
Hans verður saknað og minnst. Öll þau góðu ráð og heilræði eru vel geymd og verða sem leiðarljós á minni starfsævi svo lengi sem hún varir. Hafðu hjartans þakkir fyrir.
Fjölskyldu Einars votta ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Valdimar Ó. Jónasson.
Það er söknuður í hjarta margra í dag þegar góðu vinur Einar Guðmundsson verður lagður til hinstu hvílu. Ég kynntist Einari Guðmundssyni árið 2003 þegar ég hóf störf hjá álverinu í Straumsvík og tók við starfi hans sem framkvæmdastjóri Tæknisviðs. Ég var svo heppin að Einar vann áfram í hálfu starfi í nokkra mánuði eftir að ég byrjaði og því kynntist ég honum því vel. Þessi kynni voru ómetanlegur stuðningur í nýju starfi fyrir utan það að vera ógleymanlega skemmtileg.
Einar var verkfræðingur að mennt og hafði lært í Þýskalandi, ég komst fljótt að því að þar var á ferð afburðarmaður. Einar bar lengi vel ábyrgð á tæknimálum álversins í Straumsvík. Góður rekstur verksmiðjunnar í dag ber vott um þá framsýni sem gætt var við uppbyggingu og ákvarðanatöku við rekstur verksmiðjunnar á árum áður og átti Einar stóran þátt í því. Minni hans var óbrigðult og hann kunni ávallt að skýra af hverju hinar ýmsu ákvarðanir voru teknar varðandi tæknibúnað í verksmiðjunni sem og aðrar ákvarðanir.
Það var gaman að vinna með Einari. Hann virtist hafa óþrjótandi orku og af honum stafaði ætíð smitandi vinnugleði, sem fylgdi honum þrátt fyrir erfið veikindi. Andleg snerpa hans og áhugi á öllu í umhverfinu var alltaf til staðar. Einar bar mikla virðingu og umhyggju fyrir samferðamönnum sínum og var einn af þeim sem höfðu mikið að gera, en hann hafði samt sem áður alltaf nægan tíma til að tala við fólk.
Einar hafði ótrúlegt minni, bæði um menn og málefni. Hann var gæddur mikilli frásagnargáfu og hafði gaman af því að segja frá skemmtilegum uppákomum. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að síðustu ár hefur hann verið lykilmaður í að safna gögnum fyrir söguritun ISAL.
Það var gott að leita til Einars til að ræða ýmis mál enda úrræðagóður með eindæmum. Þau voru mörg heilræðin sem Einar gaf mér á skömmum tíma. Ég hugsa oft til Einars þessa dagana og orða hans þegar mér fannst mikið liggja við en þá sagði hann gjarnan við mig. "Mundu það, Birna mín, að það er aldrei borðað jafn heitt og það er soðið".
Minningin um Einar lifir áfram í hjarta okkar og yljar okkur um hjartarætur. Ég votta fjölskyldu og vinum Einars mína dýpstu samúð.
Birna Pála Kristinsdóttir.
------------------------------------------------
Það var fyrir rúmum fimmtíu árum, sem við þrjár samstarfskonur á Morgunblaðinu áttum það til að bregða undir okkur betri fætinum og fara á "gömlu dansana" í Breiðfirðingabúð. Þarna hófust oft fyrstu kynni, sem síðar urðu að ævilöngu hjónabandi. Og þannig fór fyrir vinkonum mínum báðum.
Sólveig hafði hitt ungan mann í Breiðfirðingabúð sem bauð henni síðan á kaffihús.
Ekki var nú kjarkurinn meiri en svo hjá vinkonu minni að hún fékk leyfi hjá unga manninum til að hafa mig með sér, til trausts og halds. Þessi ungi maður var Einar Guðmundsson, ættaður frá Siglufirði, og var hann í verkfræðinámi í Darmstadt í Þýskalandi.
Þarna sá ég fyrst vin okkar hjóna, hann Einar hennar Sollu eins og við kölluðum hann jafnan. Einar og Sólveig giftu sig og hún fór með honum til Þýskalands og að námi loknu komu þau heim með frumburðinn, hann Guðmund Konráð. Síðar bættust dæturnar þrjár í hópinn, þær Helga, Kristín Andrea og Berghildur Ýr.
Það hefur aldrei verið auðvelt að byggja, en á sjöunda áratug síðustu aldar jafnaðist það á við þrekvirki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það var erfitt að fá lóð þá, ekki síður en nú á dögum. Við hjónin höfðum verið svo heppin að hreppa lóð og þegar Einar og Sólveig komu að líta á framkvæmdir hjá okkur vildi svo vel til að hálfbyggt hús var til sölu í okkar lengju í Sigvaldahverfinu í Kópavogi. Þannig atvikaðist það að Einar og Sólveig urðu Kópavogsbúar og nágrannar okkar í 35 ár og börnin okkar leikfélagar í því frjóa umhverfi sem bauðst til leikja, áður en gengið var frá görðum og götum.
Á þessum árum þótti það ekkert tiltökumál að hús væri á byggingarstigi í nokkur ár. Það var nánast útilokað að fá peninga til íbúðabygginga í bönkum og húsnæðislán frá ríkinu voru mjög skorin við nögl. Við þessar aðstæður kom það sér mjög vel að vera handlaginn og þúsundþjalasmiður og ekki var verra að hafa verkfræðimenntun. Þannig tókst honum Einari að byggja hús yfir fjölskylduna í Hrauntungu 37 og þar hafa börn, tengdabörn og barnabörnin fjögur átt athvarf alla tíð.
Einar var lánsamur maður í einkalífinu og mikill fjölskyldufaðir. Þau hjón voru einstaklega samrýnd og þau áttu miklu barnaláni að fagna. Við minnumst margra ánægjustunda sem við deildum saman á heimilum okkar og í sumarbústað okkar hjóna austur í Biskupstungum.
Ferðalög voru líf og yndi Einars og höfðu þau hjónin oft ferðast vestur til Kyrrahafsstrandar Ameríku og austur til Asíu auk allra ferða þeirra til Evrópu, en þar voru þau nánast á heimavelli.
Eftir að Einar veiktist fyrra sinnið fyrir níu árum hefur hann notið aðstoðar sonar síns í ríkum mæli. Þannig hefur fjölskylda Einars staðið saman í blíðu og stríðu.
Nú þegar hann Einar vinur okkar hefur fengið hvíldina eftir harða baráttu í annað sinn við óvæginn sjúkdóm er aðeins hægt að þakka fyrir það að hann fékk tækifæri til að dvelja heima í faðmi fjölskyldunnar til hinstu stundar.
Við hjónin vottum fjölskyldu Einars okkar dýpstu samúð.
Blessuð
sé minning Einars Guðmundssonar. Arndís og Fjölnir.
-------------------------------------------------------
Einar Guðmundsson var einn af ármönnum áliðju á Íslandi, hóf störf hjá Ísal sumarið 1969 þegar fyrsta álið var brætt í Straumsvík og Armstrong steig fæti á tunglið: Eitt lítið skref fyrir mann, risastökk fyrir mannkyn, sagði Armstrong. Áliðja var okkar risastökk inn í nútímann. Þjórsá var beisluð við Búrfell og álver reis við Straum.
Við fluttum inn hönnuði og verktaka því þjóðin kunni ekki til verka. Þannig var Ísland þegar 92% af útflutningstekjum landsmanna voru fiskafurðir; sjávarafli svipull – síldin hvarf, þorskstofninn hrundi og fiskverð hríðféll. Þúsundir landsmanna flýðu til Skandinavíu og Ástralíu. Stóriðja batt enda á landflótta og varð mikilvægasta uppspretta tækni- og verkþekkingar landsmanna.
Ungi verkfræðingurinn sem hafði numið í Vestur-Þýskalandi skipaði sér í framvarðasveit Ísal. Fyrir tuttugu árum varð Einar fyrstur Íslendinga til að gegna stöðu tæknilegs framkvæmdastjóra Ísal þegar hann var kallaður heim frá Ruhr-héraði. Fram að því höfðu útlendingar einvörðungu gegnt þessu lykilembætti. Einar kom mjög við sögu við stækkun Ísal 1995. Þá voru tæplega átta þúsund manns án atvinnu. Íslensk þjóð á stóriðju mikið að þakka en hættir til að gleyma því.
Einar Guðmundsson er eitt af þremur stóru íslensku nöfnunum í sögu Ísal: á bekk með Ragnari Halldórssyni, fyrsta forstjóra, og Rannveigu Rist, núverandi forstjóra. Af útlendingum skulu nefndir frumkvöðlarnir Emanuel Meyer og Paul Müller sem fengu hugmyndina að álveri í flugvél yfir Íslandi haustið 1960. Engum útlendum mönnum á íslensk þjóð jafn mikið að þakka. Engum.
Undanfarin misser i hef ég unnið með Einari Guðmundssyni að ritun sögu Ísal. Það hefur verið gefandi. Einar var einstakur maður, þekkti öðrum betur sögu félagsins, stálminnugur og fróður. Á lífsleiðinni hittir maður fólk sem hefur djúp áhrif svo varir lífið. Einar var slíkur maður. Verkfræðingurinn veitti aðra sýn en ég hafði átt að venjast á lífsgöngunni. Að vinna með Matthíasi Johannessen á Morgunblaðinu hafði djúpstæð áhrif; skáldið fremstur íslenskra blaðamanna á 20. öld ásamt Valtý Stefánssyni. Á heimili mínu hangir málverk Sveins Björnssonar við brot úr kvæði Matthíasar í Tveggja bakka veðri:
Þær láta ekki mikið yfir sér en lýsa djúpri visku, kærleik og mennsku; dyggðir sem prýddu Einar í ríkum mæli. Annar sem breytir lífshlaupi er Gunnar Dal:
(Brihadaranyaka Upanishad IV. 4.5.)
Það er djúp viska í þýðingu heimspekingsins. Einar Guðmundsson var eldhugi sem fylgdi löngun sinni. Vilji hans skapaði verk- og tæknikunnáttu. Verkin sköpuðu honum örlög; að standa í fylkingarbrjósti framfarasóknar íslenskrar þjóðar á ofanverðri 20. öld. Einar skipti máli í þroskasögu þjóðar. Það er gjöfult lífsverk, vart hægt að biðja um meira. Ég votta Sólveigu, börnum og barnabörnum mína dýpstu samúð. Einar Guðmundsson var drengur góður.
Hallur Hallsson.
---------------------------------------------------
Mig langar að minnast Einars Guðmundssonar, góðs vinar okkar hjónanna, með nokkrum orðum. Einar var einstakur maður, góður og trygglyndur, sem átti mikinn þátt í því hvernig líf okkar Ingvars þróaðist. Þeir voru skólabræður frá MA, þó var Einar einum bekk á undan Ingvari í skóla. Ingvar byrjaði í Háskóla Íslands eftir stúdentspróf, en fann sig ekki alveg þar. Þá mætti hann Einari á götu sem var búinn að vera eitt ár í Háskólanum í Darmstadt í Þýskalandi og líkaði þar mjög vel og benti Ingvari á að koma til Darmstadt sem hann og gerði. Ég og dóttir okkar, sem var á fyrsta ári, komum svo hálfu ári seinna. Í Darmstadt voru fyrir nokkrir íslenskir stúdentar en allir voru þeir ógiftir og barnlausir.
Okkar dóttir naut þar mikilla forréttinda og ekki vantaði okkur pössun.
Eitt kvöld er við komum heim eftir að hafa skroppið í bíó var Óskar, sem passaði það kvöldið, mjög stoltur yfir því að hafa skipt á barninu. Já, en Einar þvær bleiurnar líka, var haft eftir Ingvari. Það lýsir Einari, hann var fullkominn. Síðan fóru strákarnir að koma heiman frá Íslandi með unnustur eða eiginkonur, þar á meðal Einar sem kom með Sólveigu sína. Þar gerði Einar líka rétt, ég hef enn ekki kynnst samheldnari hjónum, því þau áttu svo vel saman og var gott að umgangast þau bæði.
Þar sem við Ingvar ílengdumst í útlöndum hittumst við ekki oft á þeim árum, en þegar við komum heim í frí var heimili Sólveigar og Einars alltaf opið og nutum við í stórum mæli gestrisni þeirra, matargerðar Sólveigar, sem er þekkt, og þeirra fallega og hlýlega heimilis.
Þau kunnu að láta gestum sínum líða vel. Eftir að við fluttum heim fyrir 20 árum hittumst við oftar þar sem við og tvenn önnur hjón frá Darmstadt stofnuðum matarklúbb og hittumst á heimilum okkar til skiptis. Við hlökkuðum alltaf til þessara kvölda og var mikið rifjað upp o g mikils að minnast frá Darmstadt-árunum.
Við komum til með að sakna Einars Guðmundssonar mikið. Hann var tryggur og góður vinur, hjálpsamur og maður gat alltaf reitt sig á hann. En sárast er þetta fyrir Sólveigu og börnin og ekki síst barnabörnin, sem hann elskaði mjög og þau fara mikils á mis að fá ekki að hafa afa lengur hjá sér. Sólveig og Einar áttu margt eftir ógert, það er þó smáhuggun í því hvað þau voru dugleg að ferðast saman, en þó áttu þau margar ferðir ófarnar.
Elsku Sólveig, Guðmundur, Helga, Kristín, Berghildur, tengdasynir og barnabörn, þið hafið misst mikið, en við vonum að tíminn hjálpi til að græða dýpstu sárin.
Anna og Ingvar.