EIRÍKSÍNA ÁSGRÍMSDÓTTIR OG BJÖRN ZÓPHANÍAS SIGURÐSSON

Eiríksína Ásgrímsdóttir fæddist í Hólakoti í Fljótum 11. apríl 1897 og eru því 100 ár í dag 11. apríl 1997, frá fæðingu hennar.

Foreldrar hennar, Ásgrímur Björnsson og María Eiríksdóttir bjuggu þar.
Eiríksína missti föður sinn 1904 þegar hún var sjö ára gömul.
Móðir hennar fór þá í vinnumennsku, sem algengt var á þeim tíma, þegar fyrirvinnan féll frá. Eiríksína fylgdi móður sinni. Fyrstu tvö árin voru þær á Böggvisstöðum í Svarfaðardal en fluttu síðan að Utanverðunesi og loks að Ási í Hegranesi.

Frá Ási lá leiðin til Héðinsfjarðar þar sem Eiríksína kynntist mannsefni sínu, Birni Zóphaníasi Sigurðssyni. Björn og Eiríksína fluttu til Siglufjarðar 1916 og bjuggu þar til dauðadags.

Björn Sigurðsson og Eiríkssína Ásgrímsdóttir - Ljósm. ókunnur

Björn Sigurðsson og Eiríkssína Ásgrímsdóttir - Ljósm. ókunnur

Eiríksína lést 18. september 1960. Björn Sigurðsson fæddist í Vík í Héðinsfirði 14. nóvember 1892, en foreldrar hans, Sigurður Guðmundsson og Halldóra Björnsdóttir, bjuggu þar.

Björn fluttist með foreldrum sínum að Grundarkoti í Héðinsfirði 1897 og síðan að Vatnsenda í Héðinsfirði 1903. Björn átti heima í Héðinsfirði þar til hann flutti með konu sinni til Siglufjarðar. Björn lést 30. ágúst 1974.

Björn Sigurðsson skipstjóri og Eiríksína bjuggu á Siglufirði allan sinn búskap, eða frá árinu 1916 til dauðadags. Björn var skipstjóri á skipum frá Siglufirði í 30 ár. Eiríksína vann mikið að félagsmálum á Siglufirði, sérstaklega að slysavarnamálum, og var formaður kvennadeildarinnar Varnar um árabil.

Björn og Eiríksína eignuðust tíu börn. Þau voru

 • Sigurður Björnsson stýrimaður, f. 27.5. 1917, d. 12.2. 1944,
 • Ásbjörg Una Björnsdóttir kaupkona, f. 19.5. 1919, d. 4.9. 1972,
 • Halldóra Björnsdóttir húsmóðir, f. 5.7. 1921,
 • Sveinn Pétur sjómaður, f. 27.6. 1924,
 • Ásgrímur Björnsson vélstjóri f. 22.2. 1927,
 • Þorsteinn Björnsson skipstjóri, f. 30.5. 1929,
 • Björn verslunarstjóri, f. 9.8. 1930,
 • María Björnsdóttir saumakona, f. 13.9. 1931,
 • Svava Kristín Björndsdóttir verslunarstjóri, f. 10.11. 1932, og
 • Sigríður Björnsdóttir skrifstofustúlka, f. 17.8. 1934.
 • Auk þess ólu þau hjón upp sonarson sinn,
 • Sigurð Ásgrímsson, f. 3.12. 1951. Hann er tæknimaður hjá Landhelgisgæslunni.

 -----------------------------------------------

Eiríksína Ásgrímsdóttir og Björn Zóphanías Sigurðsson

Eiríksína Ásgrímsdóttir og Björn Zóphanías Sigurðsson Í tilefni af því að nú eru liðin 100 ár frá fæðingu tengdamóður minnar, Eiríksínu Ásgrímsdóttur, og tæp 105 ár frá fæðingu Björns Zóphaníasar Sigurðssonar, tengdaföður míns, langar mig til að minnast þessara heiðurshjóna með nokkrum orðum og segja lítillega frá lífshlaupi þeirra.

Björn fór fyrst til sjós á hákarlaskipið Fljóta-Víking 1908, aðeins á sextánda ári, en þessi veiðiskapur var kaldsamur og erfiður á þeim skipum sem þá þekktust svo einhver töggur hefur verið í honum þá strax þótt ungur væri. Næstu árin var Björn háseti á ýmsum skipum.

Hann tók skipstjórapróf á Akureyri 1914 og varð stýrimaður næstu tvö árin. Árið 1916 gerðist Björn skipstjóri á Kristjönu og var með hana til 1925, eða í níu ár, á hákarla- og síldveiðum. Strax á fyrsta ári varð Björn næsthæstur með afla yfir flotann. Næstu tvö árin var hann skipstjóri á Njáli, en frá 1927 til1 1945, eða í 18 ár, var hann skipstjóri á Hrönn.

Eftir að Björn tók við Hrönn var hann alla tíð kenndur við skip sitt og kallaður Björn á Hrönn. Trúlega kannast flestir sjómenn frá þessum árum við Björn á Hrönn. Árið 1946 varð Björn stýrimaður hjá yngri bróður sínum, Ásgrími, á Sigurði SI, sem þeir bræður, ásamt fleirum, létu smíða fyrir sig.

Árið 1958 fór Björn í land vegna lasleika. Þá hafði hann stundað sjóinn frá 1908, eða í 50 ár, þar af sex ár háseti, 14 ár stýrimaður og 30 ár skipstjóri, og geri aðrir betur. Eftir að Björn kom í land vann hann á netaverkstæði á Siglufirði fram yfir 1970.

Björn var farsæll skipstjóri og mannasæll og vel látinn af öllum. Hann var yfirleitt í tölu hæstu skipa með afla og menn töluðu um það að í lakari síldarárum hafi hann verið tiltölulega með meiri afla en ef mikil síld var, svo oft hafi verið furðu lítill munur á afla hjá honum milli ára, hvort sem almennt veiddist vel eða illa. Orð fór af Birni fyrir snyrtimennsku og nýtni á veiðarfærum og öðru því, sem honum var trúað fyrir, og ekki munu aðrir skipstjórar hafa skilað meiri arði. Mættu margir taka sér þennan eiginleika í atvinnurekstri til fyrirmyndar í dag.

Björn var fremur smávaxinn og grannur, léttur á fæti og léttur í lund, geðhægur og drengskaparmaður mikill og er ekki vitað til að hann hafi átt nokkurn óvildarmann. Hann sinnti ekki mikið félagsmálum, enda fer ekki vel saman að stunda sjó og sinna félagsmálum. Hann var þó einn af stofnendum málfundafélags, sem var undanfari verkamannafélags á Siglufirði.

Síðar gekkst hann fyrir stofnun skipstjórafélagsins Ægis og var lengi í stjórn þess, oftast ritari. Á þeim vettvangi lét hann ýmis málefni sjómanna til sín taka. Hann mun fyrstur manna hafa hreyft þeirri hugmynd opinberlega að byggja vita á Sauðanesi við Siglufjörð og auðnaðist að koma því nauðsynjamáli fram. Björn gekk í flokk framsóknarmanna við stofnun Framsóknarflokksins og var alla tíð trúr þeim flokki.

Eins og ég hef áður minnst á fluttust þau Björn og Eiríksína frá Héðinsfirði til Siglufjarðar árið 1916. Þau bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði, lengst af í litlu timburhúsi í Norðurgötu 17, niðri á eyrinni, en byggðu síðar stórt og mikið steinhús á Hverfisgötu 29 og fluttu í það 1948.

Eiríksína og Björn eignuðust tíu börn, svo geta má nærri að í nógu hafi verið að snúast hjá henni að ala upp börnin og sjá um heimilið, en heimilisfaðirinn oftast úti á sjó víðs fjarri. Auk þess tóku þau sonarson sinn, Sigurð Ásgrímsson, og ólu upp frá þriggja vikna aldri. Þrátt fyrir þetta gaf Eiríksína sér mikinn tíma til að sinna félagsmálum og var mjög virk á því sviði.

Hún var einn af stofnendum kvenfélagsins Vonar og einnig einn af stofnendum verkakvennafélagsins Brynju og fyrsti formaður þess. Hún starfaði mikið í báðum þessum félögum. Hæst ber þó störf hennar að slysavarnamálum, en þau voru hennar hjartans mál. Hún varð formaður kvennadeildarinnar Varnar 1942 og gegndi því starfi til dauðadags. Framan af beindi hún kröftum mest að fjáröflun til smíða björgunarskútu Norðurlands.

Þeirri baráttu lauk með sigri þegar vs. Albert kom til starfa 1957. Eftir þetta tók hún til við ýmis önnur mál á sviði slysavarna. Hún kom fyrst fram með þá hugmynd að sett yrði talstöð í Siglufjarðarskarð, Héðinsfjörð og á Reyðará. Jafnframt þessu starfaði hún af áhuga að áfengisvarnamálum. Eiríksína tók einnig þátt í stjórnmálastörfum og var varabæjarfulltrúi á Siglufirði 1946­1950.

Eiríksína var meðalmanneskja á hæð, nokkuð feitlagin, stórskorin í andliti og sópaði að henni. Hún var hreinskiptin í öllum málum, sköruleg og drengileg í allri framkomu. Hún stóð föst fyrir á skoðunum sínum og ef á móti blés í félagsmálum hafði hún lag á að vinna sínum skoðunum fylgi.

Ég kynntist þessum heiðurshjónum árið 1956 þegar ég giftist dóttur þeirra, Svövu. Við giftum okkur á Siglufirði á Sjómanndaginn 2. júní 1956, eða fyrir tæpum 42 árum. Á þeim árum var ég stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og leið okkar á varðskipunum lá oft inn á Siglufjörð. Björn var þá enn á sjónum, var þá stýrimaður á Sigurði SI, en Ásgrímur, bróðir hans, sem var yngri, var skipstjórinn, en þeir bræður áttu bátinn ásamt þremur öðrum mönnum eins og ég sagði áðan. Sigurður SI var einn af svonefndum Svíþjóðarbátum, um 100 rúmlestir, og þótti stór á þessum tíma.

Ég kynntist Birni ekki mikið fyrstu árin, hann var oftast á sjó þegar ég kom til Siglufjarðar. Eiríksínu kynntist ég þeim mun betur. Við sátum mörg kvöld inni í stofu á Hverfisgötu 29. Umræðuefnið var að sjálfsögðu mikið um fólkið hennar, báðum megin heiða.

Á þessum árum var Eiríksína formaður kvennadeildar Slysavarnafélagsins á Siglufirði og hennar aðaláhugamál var að afla fjár fyrir málefnið. Nú var björgunarskútumálið komið í höfn og næsta verkefni var að safna fyrir talstöðvum, fyrst í björgunarskýlið uppi í Siglufjarðarskarði. Þá lá þjóðbraut til Siglufjarðar um Siglufjarðarskarð. Þetta er hátt og erfitt vegarstæði og tæki til að halda veginum opnum ekki eins öflug og í dag.

Var vegurinn ekki opinn nema fáa mánuði á ári og þó hann ætti að heita opinn gat hann lokast skyndilega og fólk á ferð lent í hrakningum. Í slíkum tilvikum var það að sjálfsögðu mikið öryggi að vita af björgunarskýlinu og að fólk, sem þangað þurfti að leita, gæti látið vita af sér. Umræðuefni okkar var að sjálfsögðu mikið um þessi störf hennar í slysavarnafélaginu. Nú ég fékk að vita um ýmislegt, sem var að gerast í bæjarlífinu, og kynntist ýmsum í gegnum hana þótt ég sæi þá e.t.v. aldrei, þannig að mér fannst ég eiga töluvert í Siglufirði.

Eiríksína var nokkuð pólitísk á yngri árum, er mér sagt, og sat hún sem varamaður í bæjarstjórn um tíma eins og áður sagði. Ég held þó að pólitík hafi ekki verið ofarlega í hennar huga þegar við kynntumst þótt hana bæri á góma og bæði hefðu gaman af. Hún var alla tíð framsóknarmanneskja.

Hún var gáfuð kona og fjölhæf til munns og handa. Hún hafði yndi af allri handavinnu, hekli og skrautsaumi, og að búa eitthvað til. Þegar hún var unglingsstúlka lærði hún að vefa. Eftir að um hægðist hjá henni setti hún upp vefstól í kjallaranum hjá sér. Hún fékk kennara að sunnan, eins og það var kallað, og stóð fyrir vefnaðarnámskeiðum til að sem flestar konur gætu numið þessi fræði.

Björn kom mér þannig fyrir sjónir að hann væri mjög dagfarsprúður og fámáll. Þrátt fyrir það gat hann verið glaður á góðri stund. Hann gat tekið glas í vinahópi og orðið léttur, en það mikill hófsmaður að aldrei sást vín á honum. Eitt sinn vorum við hjónin stödd á Siglufirði. Það voru fleiri gestir á Hverfisgötu 29.

Mig minnir að ásamt okkur hafi það verið skyldfólk fjölskyldunnar frá Hvammstanga. Þetta var eftir að Eiríksína lést en Hansína, tengdadóttir hennar, sá um kaffið. Meðan við vorum að drekka kaffið dró Björn fram staup og skenkti fólkinu koníak. Þegar röðin kom að Svövu, litlu dóttur hans, sem reyndar var þá um þrítugt, sagði hann: "Þú þarft ekkert, Svava mín." Og Svava litla fékk ekkert koníak, bara kaffi. Þetta lýsir Birni nokkuð vel.

Á góðum stundum bar Héðinsfjörð oft á góma og var þá stundum tekið lagið. Uppáhaldsvísa Björns var vísa úr gamanbrag, sem sunginn hafði verið einhvern tímann á skemmtun á Siglufirði og að sjálfsögðu var sungið um síldina, sem allt snerist um, og þá sem voru fremstir í flokki að veiða hana. Fengu ýmsir vísu.

Björn fékk vísu, sem hljóðar þannig:

 • Hugrekkið staðreynd, þó höndin sé grönn,
 • heillakarlinn - heillakarlinn.
 • Djarfur til sóknar var herrann á Hrönn,
 • Héðins - firð - ingur - inn.
 • Ánægjubjarma á andlitið sló,
 • ef einhverja leit hann, sem ekki var mjó.
 • Suður í Vík, í Grindavík,
 • Sandgerði og Keflavík.

Mig langar til að segja smásögu af Birni. Árið 1956 áttu Björn og Eiríksína 40 ára brúðkaupsafmæli.

Eiríksína var mikil bindindismanneskja og lagði blátt bann við að nokkurt vín yrði veitt í brúðkaupsafmælinu. Björn tók þessu fálega og hvorki neitaði né játaði að hann ætlaði að veita vín þegar margir skipsfélagar og vinir til áratuga kæmu til að heiðra þau hjón. Nú, þegar líða tekur á veisluna fer Björn að ganga á milli manna og spyrja þá hvort hann eigi ekki að vikta þá, en Eiríksína átti vikt inni í svefnherbergi. Jú, jú, menn vildu gjarnan láta vikta sig, svo hann tekur einn og einn inn í svefnherbergi til að láta þá stíga á viktina. Og svo einkennilega vildi til að menn komu sínu glaðari út en þeir höfðu farið inn og því kátari sem þeir voru oftar viktaðir.

Eftir að þrekið þraut til vinnu hjá Birni sat hann löngum á daginn, þegar hann var ekki að ganga úti, í litla herberginu á Hverfisgötu 29, þar sem sá yfir fjörðinn og höfnina og fylgdist með því sem var að gerast þar. Björn hafði yndi af að fara í gegnum skákir, sem birtust í blöðunum, aðallega Tímanum, ef ég man rétt, og spreyta sig á að leysa skákþrautir. Hann fylgdist einnig vel með því sem var að gerast í landinu. Ég held samt að sjósókn og aflabrögð hafi verið efst í huga hans. Hann var áskrifandi að tímaritinu Ægi, sem Fiskifélagið gefur út, og las það spjaldanna á milli og mér er nær að halda að hann hafi kunnað sum blöðin utanbókar.

Af tíu börnum Eiríksínu og Björns eru tvö látin. Sigurður, sem lést 1944, og Ásbjörg Una, sem lést 1974. Blessuð sé minning þeirra.

Afkomendur þeirra hjóna eru orðnir margir. Þau eignuðust tíu börn, 36 barnabörn, 93 barnabarnabörn og 11 barnabarnabarnabörn. Afkomendurnir eru nú orðnir 150.

Að lokum vil ég minna á að fyrirhugað er að halda ættarmót á Siglufirði dagana 18., 19. og 20. júlí nk. og hvet ég alla afkomendur Eiríksínu og Björns og maka að mæta.

Hrafnkell Guðjónsson. 
-------------------------------------------------

Hinn 18. sept. s.l. andaðist frú Eiríksína Ásgrímsdóttir í sjúkrahúsinu á Akureyri eftir fárra daga legu. Eiríksína var fædd 11. apríl 1897 að Hólakoti í Austur-Fljótum. Hún var dóttir hjónanna, er þar bjuggu, Ásgríms Björnssonar og Maríu Eiríksdóttur frá Utanverðunesi. — Föður sinn missti Eiríksína er hún var sjö ára. —

Fórst hann með FJjótavíkimni, er hún var í bátalalegu. Eftir föðurmissinn fluttist Eiríksína með móður sinni að Utanverðunesi og ólst þar upp.

Árið 1916 fluttist hún svo til Siglufjarðar og giftist eftirlifandi manni sínum, Birni Sigurðssyni, skipstjóra, frá Vatnsenda í Héðinsfirði. Ekki munu efnin hafa verið mikil hjá hinum ungu hjónum, en með ráðdeild og hagsýni byggðu þau sér þó íbúðarhús, — enda er Björn Sigurðsson alkunnur dugnaðar og aflamaður, er margan vænan feng hefur sótt í fang Ægis.

Þau Eiríksína og Björn eignuðust 10 mannvænleg börn, er öll komust til fullorðins ára. Það var því ekkert lítið heimili, er Eiríksína þurfti að annast, enda var hún oft bæði bóndinn og búsfreyjan, er maður hennar var langdvölum á sjónum. En starfssvið hennar náiði lengra, því hún tók snemma mikinn þátt í félagsstörfum. Eiríksína var frjálslynd og umbótasinnuð kona, er sá meinsemdir þjóðfélagsins víða og vildi leggja krafta sína fram til úrbóta.

Eiríksína var ein af stofnendum Kvenfélagsins „Vonar" og fyrsti formaður verkakvennafélaginu „Brynju", og starfaði hún mikið í báðum þessum félögum. En mest mun Eiríksína þó hafa starfað fyrir slysavarnadeildina „Vörn" á Siglufirði, enda var hún formaður hennar um tuttugu ára skeið. — Slysavarnamálin voru hennar hjartansmál, enda skildi hún vel, sem sjómannskona, hve þau eru þýðingarmikil. Sat hún oft sem fulltrúi á þingum Slysavarnafélags Íslands og var í stjórn björgunarskúturáðs Norðurlands.

Að öllum þessum störfum vann hún af lifandi áhuga og sannfæringarkrafti, minnug þess, að með samhug og samtakamætti er hægt að lyfta Grettistaki samferðafólkinu og eftirkomendum til heilla. Eiríksína var gáfuð kona og bókelsk og átti létt með að setja hugsanir sínar fram í ræðu og riti. Þurfti hún oft á því að halda vegna félagsstarfa sinna. Kom hún ávalt fram á þingum og öðrum mannfundum sem glæsilegur fulltrúi kvenþjóðarinnar.

Með Eiríksínu er horfinn ein mætasta húsmóðir í Siglufirði og ein af þeim konum, sem settu svip sinn á bæinn — og nú þegar Eiríksína er farin yfir móðuna miklu, er þungur harmur kveðinn að manni hennar, börnum, fóstursyni og barnabörnum. Öll hafa þau mikið misst. En þá er ljúft að minnast ástríkrar og umhyggjusamrar eiginkonu og móður og hennar fórnfúsu starfa fyrir góðum málstað.

Ragnar Jóhannesson