Erla Finnsdóttir

Erla Finnsdóttir fæddist á Akureyri 18. janúar 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli að morgniaðfangadags 2004.

Foreldrar hennar voru Sigurey Sigurðardóttir og Finnur Níelsson.

Bróðir Erlu var Sigurður Finnsson útgerðarmaður á Siglufirði, f. 24. júlí 1927, d. 16. desember 2000. Sonur Finns og Hrafnhildar Þorsteinsdóttur, f. 26. júní 1932 er Arnar, f. 13. febrúar 1964.

Erla giftist árið 1954 Haukur Magnússon, f. í Görðum í Önundarfirði 5. febrúar 1932.
Börn þeirra eru:

1) Jóhanna Hauksdóttir f. 7. nóvember 1954.2) Finnur Hauksson, f. 10. nóvember 1955, d. 23. nóvember 1986, börn hans og Helga Óladóttir, f. 15. maí 1955 eru:
  • a) Dagný Finnsdóttir, f. 6. september 1978, dóttir hennar og Halldórs Boga Sigurðssonar, f. 27. ágúst 1972, er Sylvía Ósk, f. 28. júní 1997.
  • b) Sandra Finnsdóttir, f. 9. janúar 1983, í sambúð með Hjalti Gunnarsson, f. 12. febrúar 1982.
Erla Finnsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Erla Finnsdóttir - ókunnur ljósmyndari

3) Bára Hauksdóttir
f. 6. september 1962, sonur hennar og
Sigurður Jóhannesson
, f. 28. apríl 1965 er
  • Rósant Máni, f. 31. mars 1993.
4) Bylgja Hauksdótti
r, f. 29. maí 1964.

Áður átti Haukur; Ólafur Magnús Hauksson, f. 24. október 1952.

Erla og Haukur hófu búskap á Siglufirði 1954. Erla stundaði húsmóðurstörf fyrstu árin þeirra á Siglufirði en vann síðar við síldarsöltun og fiskvinnslu. Síðustu 20 starfsárin var hún matráðskona á Hótel Höfn á Siglufirði.

Útför Erlu verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
----------------------------------------------

Mig langar að minnast mömmu með örfáum orðum. Engri manneskju hef ég kynnst með jafn gott skap og mikið langlundargeð og henni mömmu minni. Það er ekki öllum gefið að ala upp trippi eins og mig. Ég er yngst fjögurra systkina og bjó heima á Sigló til 25 ára aldurs. Þar hugsaði mamma vel um mig, það er svo mikið til í þessum orðum "að maður uppskeri því sem maður sáir".

Þannig endaði mamma sitt æviskeið að við hugsuðum um hana eins og okkar eigið barn. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að hugsa um hana og gefa henni alla mína ást. Það mun hjálpa mér í gegn um það tóm sem mun myndast strax eftir útförina.

Góði Guð, ég bið þig um að gæta hennar fyrir mig, og ég veit að Finnur bróðir og Siggi frændi munu taka vel á móti henni.

Að lokum langar mig að þakka öllu starfsfólki á 5. hæð (vesturgangi) fyrir að hugsa vel um hana fyrir okkur í þessi tvö ár sem hún bjó á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Þín dóttir, Bylgja.
--------------------------------------------------

Í dag kveðjum við elsku ömmu Erlu.

Á aðfangadagsmorgun fengum við þær leiðu fréttir að amma væri farin. Þrátt fyrir þessar leiðu fréttir var þetta ákveðinn léttir, því hún var búin að vera veik lengi.

Þær eru ófáar minningarnar sem við eigum um ömmu.

Allar góðu stundirnar sem við systurnar áttum á Hafnartúni 4. Okkur fannst alltaf svo gaman að fá að gista hjá ömmu og afa því þá fengum við að taka videospólu, vaka frameftir og svo gerði amma alltaf handa okkur kakó-sjeikinn góða.

Þau eru líka ofarlega í huga okkar öll aðfangadagskvöldin sem við áttum saman, þá komu Jóhanna, Bára, Bylgja og Siggi Finns alltaf heim á Sigló.

Við komum líka mjög oft við á Hótel Höfn þar sem amma vann til margra ára, þar fengum við alltaf að leika okkur á sviðinu og skoða okkur um baksviðs.

Aldrei fórum við svangar af hótelinu frá ömmu því amma var heimsins besti kokkur og var fræg fyrir béarnaisesósuna sína góðu, og ekki var hún síðri í bakstrinum.

Ekki má svo gleyma ferðinni til Portúgal sem við systurnar fórum með ömmu sumarið 1992 að heimsækja Báru og Jóhönnu. Þá var oft farið á ströndina, enda stutt að fara, bara rétt yfir götuna. Oft komum við heim með litla krabba sem við geymdum í fötu uppi á þaki. Eftir góðan dag á ströndinni röltum við á barinn þeirra Báru og Jóhönnu og fengum okkur kokkteil.

Svona gætum við haldið lengi áfram og rifjað upp allar góðu minningarnar sem við eigum um ömmu. Að lokum viljum við þakka þér, elsku amma, fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við eigum eftir að sakna þín sárt, en við vitum að pabbi mun taka vel á móti þér.

Minning þín er vel varðveitt í hjarta okkar um ókomna tíð.

Dagný og Sandra Finnsdætur.
------------------------------------------------------

Þau vóru þrjú systkinin frá Hallanda á Svalbarðsströnd sem settust að í Siglufirði á morgni 20. aldarinnar, Finnur, Friðbjörn og Sigurlína (Sjá Ætt Jóns Sigurðssonar á Draflastöðum í Ættir Þingeyinga). Bræðurnir Friðbjörn og Finnur vóru báðir skósmiðir að mennt og Sigurlína gift Sumarliða Guðmundssyni, skósmið.

Þetta fólk setti allt svip sinn á Siglufjörð í mótun - Siglufjörð sem höfuðstað síldveiða og síldariðnaðar í landinu. Skósmiðirnir Finnur og Friðbjörn héldu sig ekki við leistinn sinn og komu víða við sögu í atvinnuþróun staðarins. Finnur sá lengi um reikningshald fyrir úthald Ingvars Guðjónssonar og síðar Óskars Halldórssonar, sem báðir vóru stór nöfn í síldarævintýrinu.

Finnur átti tvö börn með konu sinni, Sigurey, Sigurðardóttur "Draupnisformanns og bónda á Hálsi í Svarfaðardal, síðar á Akureyri, Jónssonar" (ÆÞ): Sigurð, útgerðarmann, Siglufirði, og Erlu, sem við kveðjum í dag. Mjög var kært með þeim systkinum, Sigurði og Erlu, og fáar vóru þær stórhátíðir, ef nokkrar, sem Sigurður hélt ekki með Erlu systur sinni og Hauki mági sínum og börnum þeirra á heimili þeirra í Siglufirði.

Erla frænka mín var einkar vel gerð manneskja, harðdugleg og samvizkusöm. Þau verkefni, sem henni vóru falin, vóru vel af hendi leyst. Hún naut því vináttu og virðingar samferðarfólks síns. Hún var og farsæl í einkalífi, eignaðist góðan og traustan mann, Hauk Magnússon, kennara, indæl börn - og Sigurður bróðir hennar var aldrei langt undan meðan hann lifði.

Hún sigldi þó ekki ævinlega sléttan sjó. Missir einkasonar hennar, Finns, var henni mjög sár. Veikindi manns hennar og síðar hennar sjálfrar léku hana og hart. En sálarstyrkur hennar var mikill og eiginmaður og börn miklar hjálparhellur. Hvíldin var henni þó eflaust kærkomin.

Þegar ég lít til baka minnist ég þess að það vóru ekki einungis frændsemisbönd milli mín og Erlu og Hauks. Við áttum öll samleið í Félagi ungra sjálfstæðismanna í Siglufirði fyrir margt löngu - á þeim árum þegar það var ekki beinlínis "inn" norður þar að vera hægra megin miðju í þjóðmálunum. Ég minnist þeirra tíma og allra kynna minna af Erlu og Hauki með hlýju og þakklæti.

Með Erlu Finnsdóttur er gengin sérstæð og góð kona. Megi hún eiga góða heimkomu. Ég og fjölskylda mín sendi Hauki og dætrum þeirra Erlu innilegar samúðar- og vináttukveðjur.

Stefán Friðbjarnarson.
--------------------------------------------------

Það er áreiðanlega logn á Siglufirði núna, snjóug fjöllin speglast í fletinum, og drúpa höfði á þessum degi - útfarardegi Erlu Finns. Fáir unnu Siglufirði jafnheitt og hún, eða tóku sér nær að yfirgefa fæðingarbæinn sinn. Það var ekki fyrr en veikindin fóru að segja til sín fyrir alvöru að henni var nauðugur einn kostur, að flytja burtu, það hafa verið þung spor.

En Erla var ekki þeirrar gerðar að æðrast yfir hlutunum, sjúkdóm sinn bar hún eins og hetja, og hélt jákvæðri ró sinni þar til yfir lauk, þó þjáningar hennar til margra ára væru oft hverjum venjulegum manni ofviða.

Kunningsskapur okkar Erlu hófst þegar báðar vorum á unglingsaldri á Akureyri, þar sem við dvöldum um tíma hjá skyldfólki okkar, og hélst ætíð síðan að undanteknum nokkrum árum.

Eftir að hún eignaðist fjölskyldu og settist að á Siglufirði endurnýjaðist vináttan öðru sinni. Á hverju sumri í mörg ár brunaði ég og mitt fólk norður, venjulega í ágúst, því þá voru öll Fljótin eins og þau lögðu sig löðrandi í berjum og fiskurinn spriklandi í ánni. Við Erla fórum með krakkana í berjamó, en karlarnir héldu til veiða í Fljótánni, sem er afar spennandi veiðistaður að þeirra sögn og annarra.

Og oft var afraksturinn þaðan glæsilegur þó ekki kæmist hann í hálfkvisti við full berjaílátin okkar Erlu úr Hraunalandi.

Aldrei gleymum við móttökum þeirra Erlu og Hauks á Siglufirði, enda bæði hjónin einstakar rausnar manneskjur, hún afbragðs matselja og víðkunnur tertumeistari, en hann frysti silungana sem hann veiddi sjálfur og ekki að tala um annað en þeir bættust við hinn aflann og færu með suður.

Og alltaf fórum við heim með hlaðið farangursrýmið af aðalbláberjum og silungi, en hjartað fullt af þakklæti til allra á Siglufirði, þeim heillandi stað, þar sem síldarsagan leynist í hverjum krók og kima, og náttúrufegurðin á sér fáa líka.

Haukur og Erla áttu mörg góð ár á Siglufirði þó oft hafi á móti blásið. Hann veiktist skyndilega af alvarlegum sjúkdómi um fertugt og varð að hætta kennslu sem var hans aðal atvinna. Einkasonur þeirra, efnismaður hinn mesti og tveggja barna faðir, lést af slysförum á hafi úti rúmlega þrítugur að aldri, sjálf fór Erla að finna fyrir veikindum sínum um sextugsaldurinn. En þau voru ekki ein, dætur þeirra hafa hlúð að foreldrum sínum af svo mikilli alúð og nærgætni að fágætt mun vera.

Og Erla fékk að vera heima eins lengi og tök voru á með hjálp manns síns og dætra, en síðasta árið naut hún umönnunar á Skjóli hér í Reykjavík, þar fór vel um hana hjá yndislegu starfsfólki sem allt vildi fyrir hana gera.

Við hjónin kveðjum hana með þakklæti fyrir alla vináttuna, gestrisnina og góðlyndið sem var hennar aðalsmerki.

Hauki, dætrum og barnabörnum vottum við samúð okkar og virðingu.

Edda.
-------------------------------------------

Tilhlökkun jólanna hverfur ekki þó að árin færist yfir. Síðasta undirbúningnum er lokið, nú er bara að bíða kvöldsins. Gott er að vera inni því úti hamast norðanbylur. Þá berst mér sú fregn að hún Erla vinkona mín sé dáin. Mig setur hljóða, þó að vitað hafi verið að hverju stefndi, eins er með okkur öll, en því miður erum við aldrei viðbúin. Huggunin er sú að nú dvelur hún hjá ástvinum sínum, sem farnir eru yfir móðuna miklu.

Margs er að minnast eftir rúmlega hálfrar aldar vináttu og margt ber að þakka.

Ég og fjölskylda mín þökkum sambúðina í Hafnartúni 4. Sjálfsbjörg á Siglufirði þakkar allan stuðning á liðnum árum. Við sendum eiginmanni, dætrum og fjölskyldunni hugheilar samúðarkveðjur.

Valey.
----------------------------------------------------

Hún hefur orðið hvíldinni fegin var það sem í hug mér kom þegar ég frétti andlát Erlu, en síðast hitti ég hana með dóttur sinni í verslunarmiðstöð í Reykjavík og var Erla þá í hjólastól þrotin kröftum.

Við vorum saman í barnaskóla Siglufjarðar og fylgdumst með lífsgöngu hvort annars eins og títt er með skólasystkin á litlum stað eins og Siglufirði.

Ég minnist hennar á dansleik í Alþýðuhúsinu á Siglufirði þegar hún kynnti mig fyrir kærastanum sínum, Hauki Magnússyni kennara. Á Siglufirði áttu þau sín bestu ár, stofnuðu heimili, eignuðust þrjár indælar dætur og einn son. En þrátt fyrir mikla gleði drap sorgin einnig á dyr, Haukur veiktist þannig að hann átti erfitt með kennslu og varð að hætta. Einnig misstu þau son sinn Finn sem tók út af togaranum Stálvík.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika lét Erla ekki bugast, og eftir að Haukur flutti til Reykjavíkur vann hún nokkur ár á Siglufirði lengst af við matseld á Hótel Læk þar til hún flutti til Reykjavíkur.

Erla átti eldri bróður Sigurð sem er látinn, voru þau mjög samrýnd og börn Erlu í miklu uppáhaldi hjá honum.

Sigurður var lærður loftskeytamaður, hann var lengi í siglingum og einnig á íslenskum togurum.

Þegar Sigurður hóf sína eigin útgerð lágu okkar leiðir saman, og var ég með honum í stjórn Togskipa hf. meðan hann rak það fyrirtæki.

Hann saknaði Finns mikið og hóf að safna fé til að láta gera minnismerki um drukknaða sjómenn frá Siglufirði.

Ragnar Kjartansson gerði þetta minnismerki sem var valinn staður á lóð Þormóðs ramma og afhjúpað á sjómannadaginn.

Veit ég að Erlu þótti mjög vænt um þetta framtak hans.

Sigurður var mikið á heimili Erlu og Hauks sem var alltaf opið fyrir honum og þó allir stjórnarmenn Togskipa væru með í för. Fyrir það er mér ljúft að þakka nú þegar við kveðjum Erlu.

Siglufjörður hefur nú misst mæta konu sem lifði við það hlutskipti að sjá á bak syni sínum í hafið, það er mikil reynsla að lifa með.

Ég sendi Hauki og dætrum þeirra og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson.

Add to Phrasebook
No word lists for Icelandic -> Icelandic...