Erla Kristinsdóttir

Erla Kristinsdóttir fæddist á Siglufirði 5. júní 1937. Hún lést 3. apríl 2016 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Siglufirði.

Foreldrar hennar voru Ásta Ólafsdóttir, f. 11. júlí 1911 í Reykjavík, d. 10. mars 1990, og Kristinn Jón Guðmundsson, f. 29. febrúar 1912 að Tjörnum í Sléttuhlíð, Skagafirði, d. 24. ágúst 1955. Erla átti eina systur, Kötlu, f. 29. september 1943.

Erla giftist Guðlaugi Henrik Henriksen þann 9. apríl árið 1960.
Foreldrar hans voru Olav Sundfør Dybdahl Henriksen, f. 30. janúar 1903 í Noregi, d. 31. desember 1956, og Sigrún Guðlaugsdóttir Henriksen, f. 5. febrúar 1907 á Akureyri, d. 5. ágúst 1954.

Börn Erlu og Guðlaugs eru:

1) Sigrún Gðlaugsdóttir, f. 23. október 1961, eiginmaður Petter Stokke, f. 15. júlí 1953. Börn þeirra eru:
 • a) Henrik, f. 28. janúar 1989, sambýliskona Marianne Ask,
  sonur þeirra er
 • Mikkel, f. 7. maí 2015.
 • b) Rannveig, f. 15. júlí 1990.
 • c) Sunneva, f. 30. nóvember 1994. 
Erla Kristinsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Erla Kristinsdóttir - ókunnur ljósmyndari


2) Ásta Guðlaugsdóttir,
Synir hennar eru:
f. 29. desember 1964.
 • a) Daníel, f. 13. júní 1994.
 • b) Óskar, f. 28. mars 1999. 
3) Ólafur Hinrik Guðlaugsson
, f. 17. nóvember 1968, eiginkona Lilja Sveinsdóttir, f. 13. maí 1964.
4) Elín Guðlaugsdóttir,
Börn þeirra eru:
f. 14. janúar 1971, eiginmaður Bjarni Sv. Ellertsson, f. 24. nóvember 1969.
 • a) Bjarni Anton, f. 8. júní 2004.
 • b) Alexandra Elín, f. 13. október 2007.

Erla ólst upp á Siglufirði og gekk í barnaskóla þar. Hún stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti á unglingsárum auk þess sem hún stundaði nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði veturinn 1958-1959. Erla vann ýmis störf um ævina. Ung byrjaði hún í kaupavinnu auk þess sem hún vann við ýmis þjónustu- og fiskvinnslustörf.

Á meðan börnin voru að vaxa úr grasi var Erla heimavinnandi húsmóðir en hún lauk svo starfsferli sínum hjá Grunnskóla Siglufjarðar þar sem hún kenndi textílmennt í hartnær 20 ár. Erla hafði alla tíð mikla unun af klassískri tónlist. Ung að aldri söng hún með Kvennakór Siglufjarðar auk þess sem hún söng með Kirkjukór Siglufjarðarkirkju í fjöldamörg ár.

Jafnframt söng Erla með sönghópnum Fimmund, en sönghópurinn söng við ýmis tilefni, meðal annars á Þjóðlagahátíðinni. Erla söng með Íslandsdeild Heimskórsins, World Festival Choir, í nokkur ár og ferðaðist með kórnum til München og Óslóar þar sem Heimskórinn söng með Luciano Pavarotti og fleiri heimsfrægum einsöngvurum.

Útför Erlu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 16. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.
-------------------------------------------------

Elsku mamma.

Mikið er erfitt að venjast þeirri tilhugsun að ég eigi ekki eftir að heyra í þér eða hitta þig aftur. En á sama tíma er ég þakklát fyrir allar þær ánægju- og gleðistundir sem við áttum saman. Af mörgu er að taka er ég læt hugann reika og hugsa til baka til uppvaxtaráranna á Siglufirði. Fyrstu minningarnar eru fljótlega eftir að við fluttum úr Aðalgötunni á Laugarveginn.

Minningar um gönguskíðaferðir fram á fjörð, þar sem ég tók skóflur og fötur með mér og bjó til endalausar snjókökur og snjókastala meðan þú fórst nokkra hringi á gönguskíðunum í sólinni, báðar jafnsáttar. Góðar stundir úr kirkjustarfinu sem við tókum báðar töluverðan þátt í, þú með kirkjukórnum og ég að spila á þverflautuna. Það eru örugglega ekki margar mæðgur sem stundað hafa tónlistarnám á sama tíma, þú að læra á píanó og ég á þverflautu.

Þú lést gamlan draum rætast eftir miðjan aldur og fjárfestir í píanói, sem þig hafði lengi dreymt um að eignast, og hófst píanónám við Tónlistarskóla Siglufjarðar. Þú varst ekki búin að læra lengi er við vorum farnar að spila jólalögin í stofunni heima á Laugarveginum, ég spilaði laglínuna, þú sást um undirspilið og pabbi naut þess að hlusta.

Við áttum líka margar góðar stundir saman við eldhúsborðið þar sem við spjölluðum og saumuðum út langt fram eftir nóttu með óperutónlist á fóninum, en þú hafðir sérstakt dálæti á klassískri tónlist og fór þar stórtenórinn Luciano Pavarotti fremstur í flokki. Það er því ansi magnað að þú skulir í tvígang hafa staðið, með Heimskórnum, á sama sviði og sjálfur meistarinn, og sungið með honum. Á þeim tíma sem þú söngst með Heimskórnum ferðaðist þú bæði til München árið 1993 og Óslóar árið 1999 þar sem kórinn söng með Pavarotti og fleiri heimsfrægum einsöngvurum.

Minningarnar eru margar og erfitt að velja úr, en ást þín og væntumþykja í garð barnanna okkar Bjarna, þeirra Bjarna Antons og Alexöndru Elínar, sem við höfðum lengið beðið eftir var einstök. Í hverri heimsókn til okkar færðir þú þeim eitthvað af prjónunum, ýmist nýja sokka, vettlinga eða lopapeysur og alltaf var gaukað að þeim einhverju smálegu öðru sem gladdi smáfólkið. Þrátt fyrir fjarlægðina á milli okkar þá voru börnin ykkur pabba ávallt ofarlega í huga og myndir af þeim út um allt hús. Það var ykkar leið til að geta verið nær þeim.

Elsku mamma, takk fyrir allar góðu stundirnar, þær mun ég geyma í hjarta mér um ókomin ár.

Þín, Elín.
---------------------------------------------------

Nessun Dorma, Nessun Dorma.

Tjaldið dregið frá, á sviðinu stendur norðlensk síldarstúlka frá Siglufirði og flytur aríur úr þekktum óperum fyrir eina gestinn í salnum, sjálfan Pavarotti sem situr tárvotur um augun agndofa af hrifningu.

Myndbirting sem þessi var oftar en ekki í huga mér þegar ég heyrði elskulega tengdamóður mína, sem ég kveð nú í hinsta sinn, tala um ást sína á klassískri tónlist og meistaranum frá Modena.

Tæpur var ég í klassískum fræðum enda laglaus með eindæmum en mun meira til í að sitja tímunum saman og hlusta á hana skýra út, oft með tóndæmum, hve góð áhrif klassísk tónlist hefði á fólk. Ímyndaði mér að hún hafi oft lygnt aftur augunum og látið sig dreyma um slíka stund á meðan tenórinn þandi raddböndin og söng af heitri tilfinningu hverja aríuna af fætur annarri. Samleið þeirra var fyrir vikið ósvikin.

En samleið okkar Erlu tengdó hófst er ég kynntist yngstu dóttur hennar, í Menntaskólanum á Akureyri. Elín var varla skriðin út undan verndarvæng foreldra sinna og umhyggju en samt tilbúin að hefja lífsins göngu. Glöggt mátti þó sjá að hún var eftirlæti foreldra sinna sem ekki voru alveg tilbúin að sleppa henni í lífsins ólgusjó, sérstaklega móðir hennar, enda römm sú taug.

Að hitta tengdaforeldra sína í fyrsta skipti getur í senn verið kvíðvænlegt og jafnframt ánægjulegt. Í mínu tilfelli keyrði ég í fimm tíma frá Hólminum á Sigló á bíl afa míns og hafði því nægan tíma til að taka úr mér mesta hrollinn. Þegar í hlað var komið var tekið afar vel á móti mér, strákurinn drifinn í bakkelsi og kökur, spurður svo spjörunum úr hvað væri að frétta almennra tíðinda og upp frá þeirri stundu var framtíðin innsigluð.

Erla tengdamóðir mín var afar glettin og góðhjörtuð kona, með stórt hjarta, sem auðvelt var að vera í kringum eða laðast að. Hún hafði lag á að halda uppi samræðum við fólk um allskonar málefni þótt hugur hennar leitaði alltaf til þess að ræða um tónlist. Draumur ungu síldarstúlkunnar rættist loks er hún stóð á sama sviði og stórtenórinn með Heimskórnum að syngja saman Messa di Requiem eftir Verdi. Þar var hápunktinum náð. En nú er enginn lengur í salnum, sviðið stendur autt og tjaldið fellur að lokum en fallegar og ljúfar minningar um tengdamóður mína munu ylja um ókomna framtíð.

Elsku besta Erla mín, þakka þér fyrir hlýlegt viðmót og eintóm elskulegheit í minn garð, mér fannst ég alltaf vera velkominn frá fyrsta degi og reyndi eftir fremsta megni að vera ljúfur og traustur tengdasonur sem hægt væri að treysta fyrir dóttur þinni. Er nokkuð viss, Erla, að þú munt samstilla og syngja með englakórnum í efra. Megi Guð varðveita þig.

Elsku Gulli, Sigrún, Ásta, Óli og Elín mín. Missir ykkar er mikill en eftir stendur minningin um ljúfa eiginkonu og móður sem vildi fjölskyldu sinni það allra besta. Votta ykkur mína dýpstu samúð. Arrivederci.

Bjarni Sveinbjörn Ellertsson.
---------------------------------------------------

Elsku amma.

Takk fyrir að vera svona góð amma, það var alltaf gaman að koma á Sigló til ykkar afa, vera með þér, fá góðan mat og nýja vettlinga.

Við söknum þín.

Bjarni Anton og Alexandra Elín.
--------------------------------------------------

Nú er hún Erla vinkona farin yfir í aðra veröld sem vonandi hefur tekið á móti henni með söng og gleði. Söngur og tónlist, aðallega klassísk, voru hennar ær og kýr. Hún þreyttist ekki á að segja mér frá honum Pavarotti sem hún hitti og söng með ásamt Heimskórnum hér um árið. Það var upplifun fyrir konu norðan úr firði undir heimskautsbaug að hitta hinn blóðheita og fjallmyndarlega ítalska söngvara og taka lagið.

Kannski þau hittist fyrir hinum megin. Við brölluðum ýmislegt saman, við Erla. Við kenndum í mörg ár við Grunnskóla Siglufjarðar, sungum saman í kirkjukórnum og í litla kórnum Fimmund sem við stofnuðum ásamt Pétri skólastjóra, Hörpu söngsystur og svo komu til nokkrir tenórar, nú síðast Jóhann Már stórtenór úr Skagafirði. Þetta var góður hópur sem kom fram bæði hér á Siglufirði, á Akureyri og í Skagafirði og söng íslensk lög.

Ekki má gleyma Rögnvaldi organista sem var okkur innan handar með undirleik og fleira. Svo fór fólk að eldast og heilsan að bila svo söngurinn hefur smá hljóðnað. En skemmtilegar og góðar minningar eigum við um söngæfingar heima hjá Pétri í Grundargötunni. Eitt árið ákváðum við Erla að vera með atriði á þorrablóti kennara. Við ætluðum að spila saman tvö lög, hún á hljómborð og ég á þverflautu.

Þetta átti að vera mjög menningarlegt atriði og við bárum það undir Elías tónlistarstjóra hvort gengi að koma með svona alvarlegt atriði inn í dagskrána og hann hélt það nú. Þar með fórum við að æfa og ein æfingin var svo stíf að ég rak höfuðið í horn á hillu og fékk gat sem úr blæddi. Fall er fararheill. Við mættum svo galvaskar upp á svið og byrjuðum að spila. Ég annað lagið, Erla hitt! Þegar ég heyri það þá stoppa ég og segi hálfhátt við Erlu að við séum ekki með sama lagið.

Allt í lagi, segir Erla, leyfðu mér bara að klára. Svo klárar mín kerling lagið undir flissi og hlátrasköllum því fólkinu í salnum fannst þetta afar fyndin uppákoma og hafa kannski haldið að þetta ætti að vera svona. Svo þetta menningarlega atriði okkar varð eitt fyndnasta atriði kvöldsins. Það er gott að eiga góðar minningar um samferðafólkið sitt. Erla var alltaf með eitthvað á prjónunum og nú held ég að einhver lítil börn í Austur-Evrópu sakni þess að fá ekki skókassann sinn með leistum og vettlingum prjónuðum á Laugarveginum á Siglufirði. Hvíl í friði Erla mín og takk fyrir samfylgdina.

Guðný Pálsdóttir.
-------------------------------------------------

Við mæðgurnar kynntumst Erlu þegar þau Gulli fluttu með börnin sín fjögur í nýbyggt hús að Laugarvegi 22 á Siglufirði árið 1974 og urðu nágrannar okkar. Mikill samgangur varð á milli heimilanna í gegnum vinskap Ölmu og Sigrúnar, elstu dótturinnar. Erla var alla tíð góður granni, vakandi fyrir umhverfi sínu og umhyggjusöm.

Margir kaffibollarnir voru drukknir við eldhúsborðið og oftar en ekki var heimabakað bakkelsi með, því Erla var myndarleg húsmóðir. Við minnumst Erlu ekki síst fyrir það hve hún var skemmtileg kona, mikill húmoristi og alltaf stutt í spaug og hnyttin tilsvör eða athugasemdir. Hún var brosmild og hláturmild og hafði einstaklega góða nærveru.

Erla hafði fágaðan smekk og sá þess merki bæði í klæðaburði hennar og á heimilinu sem var fallega búið húsgögnum. Hún var köttur þrifin og heimilið jafnan óaðfinnanlegt. Hún hafði unun af blómum og garðrækt og ræktaði sinn garð, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu en Erla var góð móðir og síðan ættmóðir. Börnin eru fjögur, öll vel menntuð og góðir einstaklingar, ömmubörnin eru orðin sjö og eitt langömmubarn.

Barnabörnin feta sig nú eftir menntaveginum og voru augasteinar ömmu sinnar. Erla vakti alla tíð yfir hópnum sínum og var stolt af velgengni þeirra og menntun sem hún lagði mikla áherslu á. Hún fylgdist einnig vel með vinum barna sinna og hafði ósjaldan á orði, með glampann í augunum, hve Siglfirðingarnir stæðu sig nú alltaf vel. Erla var afar flink í höndunum og tók að sér handavinnukennslu í grunnskóla Siglufjarðar um árabil. Við það stækkaði nú aldeilis hópurinn sem hún lét sér annt um og fylgdist með alla tíð.

Þótt Erla byggi á Siglufirði og þætti vænt um bæinn sinn var hún í raun heimsborgari. Hún hafði gaman af að ferðast og hafði unun af listum, ekki síst óperum og söng. Hún hafði fagra söngrödd og söng um árabil bæði með Kirkjukór og Kvennakór Siglufjarðar auk þess sem hún átti safn af hljómplötum og góð hljómflutningstæki sem veittu henni margar ánægjustundir. Erla gekk í Heimskórinn og lét það ekki aftra sér að sækja þurfti æfingar til Reykjavíkur. Hún söng með Heimskórnum í München árið 1993 og í Osló árið 1999 þar sem kórinn söng með uppáhaldssöngvara hennar, sjálfum Pavarotti. Þetta voru minningar sem hún yljaði sér við á ævikvöldinu.

En nú er komið að leiðarlokum hjá þessari skemmtilegu og mætu konu. Við mæðgurnar þökkum Erlu fyrir samfylgdina. Eiginmanni, börnum og barnabörnum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

 • Dagurinn líður –
 • Hægan himni frá
 • höfgi fellur angurvær
 • á dalblómin smá.
 • Og hvítir svanir svífa hægt til fjalla
 • með söng, er deyr í fjarska.

(Tómas Guðmundsson)

Blessuð sé minning Erlu Kristinsdóttur, megi hún hvíla í friði.

Alma D. Möller, Helena Sigtryggsdóttir.
---------------------------------------------------------

Erla Kristinsdóttir hóf störf við Grunnskóla Siglufjarðar haustið 1985 og kenndi þar handavinnu í nítján ár. Hún vann með æði mörgum, bæði nemendum og kennurum. Erla ætlaði upphaflega að kenna handavinnu við skólann í eitt ár, en það fór á annan veg. Hún hélt handverki að ungu fólki á Siglufirði í tæpa tvo áratugi.

Það lá gjarnan vel á Erlu, hún var mannblendin og skrafhreifin. Hún tók virkan þátt í félagslífi kennarahópsins, lét sig ekki vanta þegar gera átti sér glaðan dag eða fara í heimsóknir í aðra skóla. Hún var einnig mjög menningarsinnuð og söngelsk, ætíð vel tilhöfð og á stundum fannst okkur hún vera heimsborgari.

Við í kennaraliðinu höfðum gaman af frásögnum hennar, hnyttnum tilsvörum og skoplegum vangaveltum um lífið og tilveruna. Nú hefur Erla kvatt þennan heim og er líklega komin á vit nýrra ævintýra. Um leið og við þökkum Erlu fyrir gamalt og gott samstarf sendum við Gulla og afkomendunum samúðarkveðjur.

Jónína Magnúsdóttir, Ríkey Sigurbjörnsdóttir.
-------------------------------------

 • Sagan er tré
 • með rætur
 • í minningum manna,stofn
 • þar sem atvikin lifa,
 • laufblöð úr orðum.

(Einar Már Guðmundsson)

Erla Kristinsdóttir ólst upp á Siglufirði og giftist Guðlaugi Henriksen, móðurbróður mínum og átti með honum Sigrúnu, Ástu, Elínu og Óla, sem eru ekki aðeins frænkur mínar og frændur heldur einnig leikfélagar og vinir gegnum lífið.

Fyrstu minningar mínar um Erlu tengjast jólunum; þegar jólapakkar bárust til Þýskalands frá Siglufirði og alltaf kom eitthvað gott upp úr þeim frá Erlu og fjölskyldu. Þá eru óteljandi skiptin þar sem gestrisni hennar og velgjörnings var notið á Siglufirði.

Reyndar er gefandi nokkuð sem lýsir Erlu vel, hún gaf mikið af sér og var höfðingi heim að sækja; mikil húsmóðir og móðir, sem stóð vörð um velferð fjölskyldu sinnar, ekki aðeins sinna nánustu, heldur einnig stórfjölskyldunnar. Hún var ávallt stoð og stytta í hverju svo sem við frændsystkinin tókum okkur fyrir hendur. Erla var falleg og góð, ákveðin, myndarleg fram úr hófi og er sárt saknað.

 • Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna
 • og varst þér sjálfri hlífðarlaus
 • og hörð.
 • Þú vaktir yfir velferð barna þinna,
 • þú vildir rækta þeirra ættarjörð.
 • Frá æsku varstu gædd þeim
 • góða anda, sem gefur þjóðum ást til sinna landa,
 • og eykur þeirra afl og trú,
 • en það er eðli mjúkra móðurhanda
 • að miðla gjöfum eins og þú.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Gulli, Sigrún, Ásta, Ella, Óli og fjölskyldur, megi Guð veita ykkur styrk í sorg ykkar.

Guð blessi minningu Erlu Kristinsdóttur.

Ragnheiður Jónsdóttir.
------------------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA
Við kveðjum þig hinstu kveðju, elsku systir, mágkona og frænka. Þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar.

 • Lát huggast, ástvinur hryggur!
 • Nú hætti þinn grátur að streyma!
 • Því dauðinn er leið sú er liggur
 • til lífsins og ódáinsheima
 • Nær bergstuðlar jarðríkis braka
 • og básúnur englanna hljóma,
 • mun alvaldur eign sína taka
 • til yngingar, dýrðar og blóma.

(APC/Þýð. JH)

Þín systir Katla, Guðmundur og fjölskylda.