Ragnar Sveinsson rennismiður

Ragnar Sveinsson fæddist á Siglufirði 7. mars 1932. Hann lést á Sólvangi í Hafnarfirði 2. janúar 2012.

Foreldrar hans voru Freyja Jónsdóttir, húsmóðir, fædd í Reykjavík 22. september 1897, d. í Reykjavík 11. október 1984 og Sveinn Guðmundsson, síldarsaltandi og síldarkaupmaður á Siglufirði, fæddur á Tröðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi 18. mars 1897, d. á Siglufirði 27. ágúst 1937.

Systkini Ragnars eru:

 • Jón Gunnlaugur Sveinsson, (Jón Sveinsson) f. 1929, d. 2009,
 • Guðmundur Magnús Sveinsson, f. 1930,
 • Hólmfríður Guðrún Sveinsdóttir, f. 1935 og
 • Sveinn Sveinsson, f. 1936.
  Hálfbróðir Ragnars, samfeðra, var
 • Sverrir Sveinssson, f. 1921, sem er látinn.

Ragnar kvæntist 19. desember 1953 Erlu Þórðardóttur er fæddist á Siglufirði 10. nóvember 1933, dóttir hjónanna Málfríðar Pétursdóttur, f. 1901, d. 1937 og Þórðar Axels Guðmundssonar, (Þórður Guðmundsson) f. 1906, d. 1962.

Ragnar Sveinsson - ókunnur ljósmyndari

Ragnar Sveinsson - ókunnur ljósmyndari

Ragnar og Erla eignuðust fimm börn. Þau eru:

 • Fríða Sveinsdóttir, f. 1951, gift Hreiðari S. Sigurjónssyni.
 • Þórður Axel, f. 1954. Sambýliskona hans er Sigrún Edvardsdóttir.
 • Elísabet, f. 1959, gift Birni Gunnarssyni.
 • Ragnhildur, f. 1960. Sambýlismaður hennar er Ægir Lúðvíksson. Sveinn, f. 1966. Barnabörnin eru 11 og langafabörnin 5.

Fyrstu árin ólst Ragnar upp í foreldrahúsum en fór þá í sveit til hjónanna Elísabetar Júlíusdóttur og Rósmundar Sveinssonar, bónda á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal, Skagafirði. Hann lauk fullnaðarprófi frá Barnaskóla Hólahrepps og fermdist í Hóladómkirkju. Síðan lá leiðin aftur til Siglufjarðar.

Hann lauk námi við Iðnskóla Siglufjarðar 1953 og sveinsprófi í rennismíði frá vélaverkstæði S.R., Siglufirði, árið 1955. Síðan var haldið til frekara náms í Reykjavík og lauk Ragnar vélstjóraprófi frá Vélskólanum í Reykjavík árið 1957 og ári síðar prófi frá rafmagnsdeild þess sama skóla. Hann var vélstjóri hjá Bæjarútgerð Siglufjarðar á togaranum Hafliða árin 1958-1960 og öryggis- og vélaeftirlitsmaður hjá SR á Siglufirði næstu tvö ár á eftir.

Þá starfrækti hann eigið vélaverkstæði ásamt félaga sínum Jóni Dýrfjörð á Siglufirði frá 1962-1965. Árið 1965 flyst fjölskyldan til Hafnarfjarðar, í Stekkjarkinn 9, og síðar í Fjóluhlíð 1. Ragnar vann í vélsmiðjum í Hafnarfirði og Reykjavík árin 1965-1969 og við mælingar vegna Saltverksmiðju á Reykjanesi árið 1970. Árið 1974 hóf hann störf við eftirlit og viðhald á kæli- og frystitækjum hjá varnarliðinu á Keflavíkurvelli og vann þar uns starfsævi lauk, árið 2000. Síðustu æviárin dvaldi Ragnar á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi, þar sem hann naut góðrar aðhlynningar.

Útför Ragnars fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 10. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 13.
--------------------------------------------

Elsku pabbi minn.

Nú þegar þú ert farinn í þitt hinsta ferðalag er gott að minnast allra góðu stundanna sem við áttum.

Á Siglufirði sem var þér svo kær, varst það þú sem baðaðir okkur yngri systurnar og þá var kallað „Nu ska jag vaske dig“ og síðan var okkur sögð sagan af Rauðhettu á hverju kvöldi. Aldrei vildi ég neina aðra sögu, og ef þú reyndir að breyta henni þá var mótmælt.

Þær voru margar næturnar sem ég vaknaði á nóttunni vegna verkja í fótunum, kallaði inn til ykkar mömmu „Ég er að koma“ og þú nuddaðir á mér fæturna þar til ég sofnaði aftur, og skipti það þá engu máli þótt þú þyrftir að vakna til vinnu daginn eftir. Alltaf til staðar fyrir mig.

Þau voru ófá ferðalögin og útilegurnar sem við systkinin fórum í með ykkur um landið, enda höfðuð þið mamma unun af því að ferðast um Ísland, og var þá hossast í gamla willis-jeppanum eða „stóra bílnum“ eins og ég kallaði hann. Enginn tjaldvagn eða hjólhýsi, heldur gamla hvíta tjaldið með reimunum, sem var svo skipt út fyrir gula tjaldið með bláa himninum. Yndislegur tími sem gott er að minnast í dag.

Eftir að við fluttum suður og við systkinin urðum eldri var alltaf hægt að leita til þín með aðstoð af öllu tagi. Hvort sem þurfti að smíða, bora, skipta um dekk eða laga eitthvað, alltaf var hægt að leita til þín, enda lék allt í höndunum á þér.

Á einum tímamótum í mínu lífi þegar ég þurfti aðstoð með ýmislegt og leitaði til þín, var það auðsótt mál, en nú skyldi ég gera þetta sjálf. Komst þú þá færandi hendi með verkfærakistu sem þú gafst mér, fulla af verkfærum. Nú skyldi yngsta dóttirin læra að nota verkfæri. Þú kenndir mér á þau, horfðir á mig vinna verkin, og get ég þakkað þér það að ég er fullfær um að bjarga mér þegar kemur að því að nota sagir, borvélar og önnur verkfæri.

Í Stekkjarkinn í Hafnarfirði, bjugguð þið mamma lengst af og var unun að horfa á það hversu samhent þið voruð í því sem þið voruð að gera. Garðurinn verðlaunaður, húsinu vel við haldið og þú í bílskúrnum að „dytta að hlutunum“ eins og þú orðaðir það.

Fyrir nokkrum árum veiktist þú og var það ójafn leikur. Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi eyddir þú síðustu árunum, en helst af öllu vildir þú bara fara heim til mömmu eða til Siglufjarðar.

Þann 2 janúar kvaddir þú svo og ég efa það ekki að hún amma Freyja hafi tekið þér fagnandi.

Ég á eftir að sakna þín mikið en ég veit að þú munt vaka yfir okkur alla tíð.

 • Ég sendi þér kæra kveðju
 • nú komin er lífsins nótt,
 • þig umvefji blessun og bænir
 • ég bið að þú sofir rótt.
 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því,
 • þú laus ert úr veikinda viðjum
 • þín veröld er björt á ný.
 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast
 • svo margt sem um hug minn fer,
 • þó þú sért horfinn úr heimi
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku pabbi minn, hvíl í friði.

Þín dóttir, Ragnhildur.
---------------------------------------------

Elsku pabbi minn.

Þær eru margar minningarnar sem hrannast upp á kveðjustund.

Ég var stelpan sem átti pabbann sem kom með fullt fangið af útrunnum neyðarblysum togarans, og hægt var að skjóta upp um áramótin.

Ég átti þann sem bjó til útiseríur úr tómum þvolbrúsum. Það kenndi mér nýtni. Hann keypti líka dúkkuvagn í útlöndum, sem er ennþá til því hann kenndi mér að fara vel með.

Hann kýldi líka örugglega allra lengst af öllum pöbbunum í „slábolta“ á Hverfisgötunni á Siglufirði, beint fyrir neðan aðventistakirkjuna, sem hann keypti og notaði fyrir geymslu og verkstæði. Þá sá ég að maður verður aldrei of gamall til að leika sér.

Hann múraði líparítflögur úr Drápuhlíðarfjallinu á vegginn í herberginu mínu af því að dyntóttu unglingsstelpunni hans þótti það svo töff og leyfði mér að mála andblæ Afríku á veggina við rúmið mitt.

Bannaði mér ekki að fara til útlanda með síldarbáti og enga sumarvinnu vísa, amaðist ekki yfir villiköttum sem ég dró að, né hvítu músunum og umbar einhverja kærasta.

Pabbi minn sagði manninum mínum að það þýddi ekkert að skila mér, svo við hjónin höfum reynt að takast á við vandamálin sjálf.

Hann hafði ákveðnar skoðanir á mörgum hlutum, var stífur á sinni meiningu en lét svo oft undan, það kenndi mér ákveðið umburðarlyndi, sem á þó langt í land.

Hann gladdist yfir hverju barnabarni, dekraði þau hæfilega í æsku, dáði þau þegar þau fóru að mannast og sýna dug í verki. Ég ætla að reyna að gera það sama við mín.

Pabbi minn sagðist ætla að verða erfitt gamalmenni, en hann gaf mér síðustu árin með sér á flandri um Hafnarfjörðinn sem aldrei komst í hálfkvisti við Siglufjörðinn hans. Hann varð ekki erfitt gamalmenni. Þá gaf hann mér mest.

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina. Sofðu sæll.

Stóra stelpan þín, Fríða. 
----------------------------------------------------

Kæri bróðir og mágur.

Minningar okkar snúast mest um æskuár okkar og uppeldi á Siglufirði.

Okkur er minnisstætt er þú komst úr sveitinni þar sem þú dvaldist eftir fráfall föður okkar um árabil, en hann lést þegar þú varst 5 ára gamall.

Þetta voru slæmir tímar við fráfall föðurins, en hann lést frá stórri fjölskyldu, konu og 5 börnum. Það elsta 8 ára og það yngsta á fyrsta ári. Þá var ekkert um annað að ræða fyrir móðurina en að koma börnunum sínum í sveit yfir sumar og jafnvel yfir vetur, sem var raunin í þínu tilviki.

Upp úr fermingu komst þú til Siglufjarðar og fórst í gagnfræðaskóla og síðar vannstu í konfektsgerð Bjarna Jóhannssonar þar til leiðin lá til starfa á Vélaverkstæði Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Upp úr því fórstu í Vélstjóraskólann í Reykjavík og laukst þaðan vélstjóraprófi og varð verkstæðisvinna í Hafnarfirði og Keflavíkurvelli aðalstarfsvettvangur þinn til starfsloka.

Árið 1953 giftist Ragnar Erlu Þórðardóttur og eignuðust þau 5 börn.

Á þeim árum stofnuðu þau heimili á Siglufirði og eignuðust 4 fyrstu börnin en 5 barnið fæðist eftir að þau eru flutt til Hafnarfjarðar og hefur búseta þeirra síðan verið þar.

Heimilið þeirra hefur ávallt verið opið ættingjum og vinum sem hafa notið þess að koma og spjalla um heima og geima, því bæði voru vel lesin og fróð um menn og málefni svo maður tali nú ekki um öll þau framúrskarandi handverk, sem þið hjónin unnuð á heimili og í garði.

Ragnar minn, ötull varstu við að gera húsið og bílskúrinn þannig að allir hlutir áttu sinn stað í skúffum og skápum allt frá stærstu verkfærum niður í flokkaðar skrúfur. Þú varst einnig góður bókbindari og undir þér við þá iðju síðustu árin sem starfsgeta þín leyfði.

Við sendum bróður og mági okkar hinstu kveðju.

Erlu og fjölskyldu sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hólmfríður Sveinsdóttir, bræður og mágkonur.
----------------------------------------------------------------

Ragnar, tengdafaðir minn, lést á Sólvangi 2. janúar sl. Ég segi tengdafaðir því að í mínum huga var hann það þó að við sonur hans slitum samvistum fyrir 8 árum. Ragnar var fæddur á Siglufirði og hann var fyrst og fremst Siglfirðingur þó að hann hafi búið í Hafnarfirði meirihluta ævinnar.

Ragnar gat virst hrjúfur við fyrstu kynni en eftir því sem ég kynntist honum betur sá ég og fann að svo var alls ekki. Ragnar var í raun hlýr maður og sannur vinur. Best kynntist ég honum þegar ég og Þórður, sonur hans, bjuggum á Hveravöllum. Þá komu þau Erla stundum í heimsókn og einn veturinn dvöldu þau hjá mér í viku á meðan Þórður var í burtu. Það voru góðir dagar. Hann hjálpaði mér við veðurathuganirnar, náði í úrkomubrúsann, skipti um blað í sólskinsmælinum, mældi snjódýpt og ísingu og passaði ljósavélarnar – allt var jafn sjálfsagt ef það létti undir með mér.

Þegar við Þórður bjuggum við Skeiðsfoss, komu þau Ragnar og Erla til okkar og dvöldu nokkra daga í senn. Þaðan er stutt til Siglufjarðar og fóru þau Erla oft þangað í bíltúr eða til að hitta ættingja og vini. Það var alltaf gaman að fá þau og oft sátum við Ragnar ein í eldhúsinu á morgnana og fengum okkur kaffi. Þá var spjallað og þá voru sagðar sögur. Ragnar hafði gaman af að segja frá liðnum atburðum, sérstaklega frá Siglufirði og lífinu þar þegar hann var yngri.

Á þessum árum útskrifaðist ég sem kennari frá Kennaraháskólanum og í tilefni þess hélt ég smá fjölskylduboð. Þar kvaddi Ragnar sér hljóðs og sagðist ætla að gefa mér svolítið sem hann var með í lítilli öskju. Í öskjunni var lítið vélstjóramerki úr silfri og svo sagði Ragnar: „Mér er alveg sama hvað þú lærir mikið og tekur mörg próf, í mínum huga ertu og verður alltaf vélstjóri.“ Þetta þótti mér afar vænt um.

Ragnar var safnari og það mátti helst engu henda – það væri hugsanlega hægt að nota það síðar. Og auðvitað var það þannig, það var alveg sama hvað þurfti að smíða eða gera við þá átti Ragnar eitthvað sem passaði, bæði verkfæri og varahluti og ef ekki þá bjó hann það bara til. Hann safnaði líka bókum, barmmerkjum og einu sem er kannski svolítið sérstakt; hollenska Delft postulíninu og átti úr því marga fallega og skemmtilega hluti.

Það er ekki hægt að tala um Ragnar án þess að minnast á Erlu konu hans, sem lifir mann sinn. Það var nánast aldrei talað um þau sitt í hvoru lagi, það var alltaf Ragnar og Erla eða eins og krakkarnir segja; Ragnar afi og Erla amma. Mér fannst eins og þau væru alltaf saman og gerðu allt saman.

Elsku Ragnar, ég þakka þér samfylgdina og ætla að enda með þessu litla kvæði, sem mér finnst lýsa síðustu árunum þínum svo vel.

 • Ég kvíði ei lengur
 • komandi tíma.
 • Ég hættur er að starfa
 • og tekinn að bíða.
 • Ég horfi í ljósið
 • sem lýsir fram á veginn.
 • Held göngunni áfram
 • verð hvíldinni feginn.

(höf. ókunnur)

Guðný Lára.