Erna Rósmundsdóttir

Erna Rósmundsdóttir fæddist á Siglufirði 16. október 1925. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði 20. desember 2014.

Foreldrar hennar voru Rósmundur Jónatan Guðnason, (Rósmundur Guðnason) fæddur á Þrastarstöðum á Höfðaströnd í Skagafirði árið 1900, dáinn 1967, og María Steinunn Jóhannsdóttir, (María Jóhannsdóttir)  fædd í Litlu-Gröf í Staðarhreppi (áður Reynistaðarhreppi) í Skagafirði árið 1891, dáin 1969.

Systkin Ernu eru

  • Hilmar Rósmundsson, f. 1925,
  • Regína Rósmundsdóttir, f. 1923, d. 2009,
  • Guðni Rósmundsson, f. 1926, d. 1953, og
  • Hafþór Rósmundsson, f. 1943.

Erna var á Siglufirði fyrstu æviár sín en fór í Skagafjörð sem barn og ólst upp hjá móðurbróður sínum, Þorsteini Jóhannssyni, og konu hans Mínervu Sveinsdóttur, til 9 eða 10 ára aldurs, fyrst í Stóru-Gröf og síðar í Varmahlíð, en kemur þá aftur til Siglufjarðar og býr svo þar upp frá því.

Erna Rósmundsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Erna Rósmundsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Eftir að lögbundnu námi lauk fór hún að vinna í mjólkurbúðinni hjá KFS, sem og í kjötbúðinni, og er þar í nokkur ár, eftir það í Ísafold, frá 1969 og í 12-15 ár, og svo á Sjúkrahúsi Siglufjarðar í svipaðan tíma. Og um tíma jafnframt á Hótel Hvanneyri og Hótel Höfn.

Eiginmaður Ernu var Jóhann Rögnvaldsson, vörubifreiðarstjóri, f. 1922, d. 1994.

Þau gengu í hjónaband 30. júlí 1952.
Börn Ernu eru

  • 1) Rosmary Vilhjálmsdóttir, f. 1944, d. 1999. Maki Þórir Sveinbjörsson, d. 2011.
    Þau eiga fimm syni og 11 barnabörn.
  • 2) Sigurður Ómar Hauksson, f. 1950. Maki Krístin Jónasdóttir.
    Þau eiga fjögur börn og tíu barnabörn.
    Og börn Ernu og Jóhanns eru:
  • 3) Guðbjörg Jóhannsdóttir, f. 1952. Maki Bjarni Árnason.
    Þau eiga þrjú börn og sex barnabörn.
  • 4) Þorsteinn Jóhannsson, f. 1953. Maki Jósefína Benediktsdóttir.
    Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.
  • 5) Rögnvaldur Guðni Jóhannsson, f. 1956, d. 1979.
  • 6) Skúli Jóhannsson, f. 1957.
    Hann á þrjár dætur og fimm barnabörn.
  • 7) Ingibjörg María Jóhannsddóttir, f. 1958. Maki Hjörtur Snorrason.
    Þau eiga tvær dætur.
  • 8) Jóhann Örn Jóhannsson, f. 1960. Maki Guðný Hauksdóttir.
    Þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn.
  • 9) Þór Jóhannsson, f. 1961.
  • 10) Aðalheiður Jóohannsdóttir, f. 1963. Maki Guðmundur Ævar Guðmundsson.
    Þau eiga tvo syni.
  • 11) Óðinn Rögnvaldsson, f. 1965. Maki Kristjana Sveinbjörnsdóttir.
    Þau eiga fimm börn og tvö barnabörn.

Erna var m.a. um árabil trúnaðarmaður og í stjórn verkalýðsfélagsins Vöku og í slysavarnadeildinni Vörn.

Útför hennar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 10. janúar 2015, kl. 14.
--------------------------------------------------

Elsku Erna amma, það er komið að kveðjustund.

Ég er svo lánsöm að hafa fengið að hafa þig í mínu lífi því minningarnar sem hafa orðið til eru yndislegar. Þú varst ein sterkasta kona sem ég hef kynnst, hikaðir ekki við að segja þína skoðun, stundum of hreinskilin, með þykkan skráp en samt þegar vel var að gáð varstu svo umhyggjusöm og með stórt og viðkvæmt hjarta og ekki má gleyma hversu glæsileg þú varst.

Elsku amma, lífið var frekar ósanngjarnt í þinn garð, þú misstir svo marga á þinni lífsleið og ég velti oft fyrir mér hvernig þú gast staðið upprétt en ekki yfirbuguð af sorg en alltaf sýndir þú hversu miklum styrkleika þú bjóst yfir þegar erfiðleikar voru.

Það var ævintýri líkast að heimsækja ykkur afa á Hverfisgötu 6 á Siglufirði þegar ég var að alast upp. Þar var svo margt að skoða og gera og var háaloftið í miklu uppáhaldi hjá mér en þar gramsaði ég í dótinu, lék mér og spilaði biljarð. Ég man ennþá lyktina þegar ég kom í forstofuna og stóra pottinn sem blasti við en pabbi sagði mér um daginn að þar hefðir þú m.a. þvegið föt og soðið slátur.

Ég man líka old spice-lyktina hans afa á baðherberginu, kindarhausinn sem hékk á veggnum, brakið í gólfinu áður en gengið var inn í stofuna, þú með rúllur í hárinu og slæðu yfir þeim, standandi yfir grautarpottinum en fullt af svona smáatriðum sem skipta mig miklu máli þegar ég hugsa til ykkar afa. Í seinni tíð fannst mér svo gaman að hlusta á þig segja sögur af prakkarastrikum pabba og bræðra hans en það hefur gengið á ýmsu enda stórt heimili og eflaust ansi uppátækjasamir bræður.

Þú varst nú ekki mikið fyrir að slaka á og í minningunni varstu alltaf að brasa eitthvað, heimilið var alltaf fallegt og garðurinn einnig. Rauða húsið og sumarbústaðurinn geyma líka fullt af minningum um þig, elsku amma mín, og mun ég minnast þín í hvert skipti sem ég keyri framhjá bústaðnum eða horfi á rauða húsið.

Þegar ég eignaðist mínar stelpur varstu alltaf dugleg að fylgjast með okkur og spurðir frétta og þannig var það með alla þína afkomendur sem eru orðnir ansi margir.

Stundin sem við áttum saman á sjúkrahúsinu á Akureyri í nóvember síðastliðnum er mér afar dýrmæt. Við áttum saman gott spjall, töluðum um Rósmarý sem þú saknaðir svo sárt, ferðalögin sem voru þitt líf og yndi og ýmsa liðna atburði. Ég held að það lýsi þínum persónuleika best þegar þú sagðir mér söguna þegar Rósmarý frænka var skírð.

Það var ekki leyfilegt að heita Rósmarý þar sem það taldist erlent nafn en þú sagðir mér að þú hefðir sagt við prestinn: „Ég ætla bara að láta þig vita það að hún mun aldrei heita neitt annað en Rósmarý“ og þannig var það. Svo bættirðu við: „Og þú heitir líka Rósmarý,“ en sama sagan var með mig, ég mátti ekki heita Rósmarý og var því skírð Rósa Mary en þú kallaðir mig aldrei neitt annað en Rósmarý og það þótti mér ósköp vænt um.

Elsku amma, ég kveð þið með tár á hvarmi og söknuð í hjarta en veit að núna ertu komin til afa Guðna, Rósmarý og allra sem kvöddu allt of snemma.

Þín Rós(a)Mary.
-----------------------------------------------

Elsku kerlingin okkar.

Nú hefur þú kvatt þennan heim á fallegum degi í firðinum fagra þann 20. desember sl. á 90 ára afmælisdegi Rósu vinkonu þinnar sem var svo lánsöm að fá frá þér lítinn dreng aðeins tveggja daga gamlan fyrir tæpum 65 árum, sem síðar varð faðir minn.

Þú hefur alltaf átt stað í hjarta okkar og fyrir það erum við þakklát. Við tengdumst svo enn sterkari böndum þegar ég og Isabella Ósk fluttum í blokkina til ykkar Þórs fyrir sex árum. Það var gott að hafa ykkur hér við næstu dyr, þú varst boðin og búin til að líta eftir skvísunni ef ég þurfti eitthvað að skjótast, þá höfðum við bara dyrnar opnar fram á gang eða þú komst og sast hjá okkur.

Isabellu fannst voða gott að skreppa yfir í smá spjall og fá eitthvað smá úr nammiskálinni og á laugardögum var mjög oft grjónagrautur og ekki var það síðra.

Við áttum líka oft gott spjall yfir kaffi þegar ég var búin að þrífa eða bara seinnipart dags, þú varst nú svolítið þrjósk stundum og við vorum ekki alltaf sammála, en það var auðvitað bara hluti af lífinu að hafa sínar skoðanir og geta rætt málin og hlegið svolítið með.

Ég kom reglulega við hjá þér á spítalanum síðustu mánuðina, þú sagðir við mig í byrjun aðventunnar: ertu nokkuð búin að setja upp seríuna á stigaganginn? Ég svaraði því játandi. Nú, þá er ég glöð, svaraði sú gamla.

Serían er enn í glugganum og verður þar þangað til eftir útför þína. Og auðvitað þríf ég stigaganginn svo allt verði hreint og fínt eins og þú vildir hafa það.

Það var gott að geta komið og kysst þig á kinnina áður en þú sofnaðir svefninum langa í friði og ró eftir að hafa verið mikið lasin síðustu vikur og fyrir það er ég þakklát.

Við Isabella söknum þín mikið og það er tómlegt hjá okkur án þín, en nú vitum við að þér líður vel og ert komin til Jóa þíns og annarra ástvina sem kvatt hafa þennan heim.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við stórfjölskyldunni þinni.

Hvíldu í friði. Þínar  Eva Björk Ómarsdóttir og Isabella Ósk Stefánsdóttir.