Erlendur Magnússon vitavörður

Erlendur Magnússon fæddist á Siglunesi. 21. október 1930. Hann lést í Reykjavík 6. maí 2012.

Foreldrar hans voru Antonía Vilhelmína Guðbrandína Erlendsdóttir, f. 1901 á Ámá í Héðinsfirði, d. 1987, og Magnús Baldvinsson, f. 1895 á Siglunesi, d. 1956.

Systkini Erlendar:

  • Baldvina Magnúsdóttir, f. 1925, hún er látin.
  • Erla Guðlaug Magnúsdóttir, f. 1926, hún er látin.
  • Haraldur Magnússon, f. 1927.
  • Guðmundur Magnússon, f. 1929.
  • Hreinn Magnússon, f. 1932.

Hinn 29. júní 1951 giftist Erlendur Elfríði Ídu Emmu Pálsdóttur, f. 26. maí 1930 í Lübeck í Þýskalandi.
Foreldrar hennar voru Paul Fredrik Hemann, f. 1908, og Magdalena Anne Kristine, f. 1910.

Börn þeirra eru:

Erlendur Magnússon vitavörður -- Ljósm; ókunnur

Erlendur Magnússon vitavörður -- Ljósm; ókunnur

r félagsliði, f. 8. apríl, 1951. Maki Guðmundur Baldursson verkamaður, f. 1945. Þau eiga einn son.
1) Antonía Erlendsdótti
  • Guðmund Óskar.
    Antonía á þrjú börn frá fyrra hjónabandi,
  • Ólöfu Björgu,
  • Erlínu Emmu og
  • Baldur Regin, fyrrverandi maki er Jóhann Egilsson.
2) Regína Magdalena
Erlendsdóttir
húsmóðir, f. 3. september 1952. Maki Jóhann Egilsson sjómaður, f. 1950.
Þau eiga tvo syni, Erlend Magnús og Egil Stefán.
3) Helga Erla Erlendsdótti
r skólastjóri, f. 22. október 1953. Maki Björn Einar Gíslason verkamaður, f. 1957.
Þau eiga eina dóttur, Elfríði Idu.
4) Hörður Erlendsson
vélstjóri, f. 6. júní 1956. Maki Guðrún Ásgeirsdóttir kennari, f. 1964.
Þau eiga 3 börn. Ásgeir Rúnar, Vilhelm Þór og Salóme Rut.
veðurathugunarmaður, f. 20. febrúar 1960. Maki Heiðar Woodrow Jones loftskeytamaður, f. 1947.
5) Marsibil Erlendsdóttir
Þau eiga tvö börn, Einar Hafþór og Aðalheiði Elfríði. Fyrir átti Heiðar tvö börn, Karen Jennýju og Vigfús Þór.
6) Erna Jóhanna Erlendsdóttir
þjónustustjóri, f. 17. júní 1962.
Hún á einn son Mikael Helga. Sambýliskona Ernu er Bára Stefánsdóttir upplýsingafræðingur, f. 1969, hún á einn son Aron Smára. Erna býr á Egilsstöðum.
veðurathugunarmaður og bóndi, f. 23. maí 1967. Maki Jón Trausti Traustason bóndi, f. 1965. Þau eiga 3 börn, Hannibal Pál, Jódísi Ósk og Huldu Ellý. Erlendur og Elfríð eiga 10 barnabarnabörn.
7) Herdís Erlendsdóttir,

Erlendur, ólst upp á Siglunesi við Siglufjörð og hóf skólagöngu sína í farskóla en síðan dvaldi hann hjá vinafólki foreldra sinna á Siglufirði og gekk í Barnaskóla Siglufjarðar, seinna fór hann einn vetur á Héraðskólann í Reykholti. Erlendur og kona hans hófu búskap á Siglunesi 1952. Frá árinu 1958-1968 sá Erlendur um vitavörslu og veðurgæslu á Siglunesi.

Fjölskyldan flutti á Dalatanga 1968 og þar var Erlendur vitavörður, veðurathugunarmaður og bóndi frá 1968-1994 og oddviti Mjóafjarðarhrepps frá 1978-1994. Erlendur og kona hans fluttu í Egilsstaði 1994 og bjuggu í Skógarseli 17a. Erlendur var mjög virkur í Félagi eldri borgara á Egilsstöðum og hann var m.a. gjaldkeri félagsins í 10 ár. Hugur Erlendar hneigðist snemma að búskap og hann var mikill áhugamaður um allan veiðiskap.

Útför Erlendar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 12. maí 2012, kl. 14.
----------------------------------------------

Elsku pabbi, það verður sárara en orð fá lýst að kveðja þig, það er svo margs að minnast. Allar skemmtilegu veiðiferðirnar upp að Þríhyrningsvatni með ykkur mömmu og á veturna fórstu með okkur að Urriðavatni og við veiddum í gegnum ís – þú áttir þennan fína bor til að bora göt. Þarna sátum við í marga klukkutíma og annaðhvort hringdir þú í okkur eða við í þig til að tilkynna aflann.

Á hverju hausti fóruð þið mamma á Dalatanga í berjatínslu, mikið er gott að eiga þá minningu um þig þegar við fórum saman í fyrrahaust að tína krækiber, því engin sáust nú bláberin, sem þér þótti svo góð. Pabba varð á orði: „Það hljóta að verða bláber næsta haust.“ Ég skal sjá til þess að mamma fái bláber í haust og komist í veiðiferðir. Svo ætla ég að sjá um að reyta arfa í kartöflugarðinum.

Kveð þig með orðum Joan Baez:

  • Maður fær ekki að velja
  • hvernig maður muni deyja
  • eða hvenær.
  • Maður getur bara ákveði
  • hvernig maður ætli að lifa
  • núna.

Þín dóttir, Antonía.
------------------------------------------

Ástkær faðir og traustur vinur hefur kvatt þennan heim.

Ég sakna þín sárt pabbi minn, en minningarnar um þig munu lifa um ókomin ár. Ástarþakkir fyrir ógleymanlega samveru, þú gafst mér svo mikið.

  • Ég gái út um gluggann minn
  • hvort gangir þú um hliðið inn.
  • Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
  • Ég rýni út um rifurnar.
  • Ég reyndar sé þig alls staðar.
  • Þá napurt er, það næðir hér
  • og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þín dóttir, Helga Erla.
-------------------------------------------------

Elsku pabbi. Það er varla að ég geti trúað því að þú sért farinn frá okkur. Það er svo stutt síðan við vorum að ræða um túrinn sem ég var að fara í. Enda varstu vanur að fylgjast með skipinu á AIS og yfirheyrðir mig svo vanalega þegar í land var komið um aflabrögð og veður. Þú vildir fylgjast með og það var gott að vita af því.

Þú varst svo hress í símanum um kvöldið en snemma um morguninn fékk ég fréttirnar. Það þyrmdi yfir mig, þú vildir gera svo margt en hjartað var veikt.

Það rifjast upp hvað þú varst mikil driffjöður í öllu hvar sem var í fjölskyldunni. Þú varst með okkur í uppbyggingunni á Siglunesi og bar gamla tímann oft á góma og gaman var að rifja upp þegar við bjuggum á nesinu. Þá passaðir þú vel að við Bjössi slóruðum ekki um of við smíðarnar og oft heyrðist þegar kaffitíminn var farinn að lengjast um of: „Það er drollið á ykkur strákar.“ Þú sást líka til þess að við hefðum nóg að borða, en það var þitt líf og yndi að ná í fisk í matinn.

Þú varst svo hress eftir aðgerðina sem tókst að sögn lækna vel. Við göntuðumst með að nú værirðu meira að segja eldklár í Tangahlaupið en elsku pabbi það fór á annan veg. Ég hugsa til þín í hlaupinu og það verður hlaupið þér til heiðurs í ár og þú gefur mér ofurkraft. Guð geymi þig elsku pabbi minn.

Þinn sonur, Hörður.
-----------------------------------------------

Elsku besti pabbi minn. Ég er ekki ennþá búin að átta mig á því að þú er dáinn og ég fæ ekki að sjá þig oftar sem er hræðilega sorglegt. Ég var farin að hlakka svo mikið til að taka á móti þér og mömmu á flugvellinum og sýna þér hvað kartöflugarðurinn var orðin flottur. Ég byrjaði strax um kvöldið 1. maí að setja niður og þá sá ég hvað þú hafðir lagt mikið á þig. Þú varst ekki bara búinn að stinga upp garðinn heldur líka tína úr honum stóra steina. Ég reyndi að hafa hryggina alveg beina og gerði þá með höndunum svo þú sæir að ég lagði mig líka fram.

En pabbi minn, ég bað þig um að bíða eftir mér. Við ætluðum að gera þetta saman en ég veit hvers vegna þú vildir klára garðinn. Við töluðum um 1. maí og þú sagðir við mig að það væri enga stund verið að gera þetta, það tæki aðeins um klukkustund. Þú varst svo drífandi í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, kannski um of.

Þegar ég kom heim 1. maí og sá sjúkrabílinn fyrir utan íbúðina mína þá brá mér svo mikið að ég veit ekki alveg hvar ég stoppaði bíllinn. Ég stökk út úr honum og hljóp í gegnum íbúðina og út á pallinn hjá mér. Þar sá ég þig sitjandi í stól og þegar þú sást mig fórstu að gráta. Elsku pabbi minn, ég græt í hjarta mínu. Það var erfitt að horfa á þig en ég sagði við þig: „Þetta verður allt í lagi, pabbi minn“. Svo tók ég utan um þig og kyssti þig á kinnina áður en þú varst settur á sjúkrabörur og fluttur á spítalann í Neskaupstað.

Þaðan varst þú svo sendur daginn eftir með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur í meiri rannsókn sem leiddi til þess að þú fórst í blástur og fóðringu á æðum við hjartað. Þú hringdir í mig eftir aðgerðina og sagðir að þú værir alveg eldhress og yrðir örugglega útskrifaður daginn eftir. Mamma og Bára náðu svo í þig á spítalann og við vorum svo glöð með hvað þetta heppnaðist vel með þig. Þegar Bára hringdi í mig á sunnudagsmorguninn og sagði við mig að þú værir dáinn þá gat ég ekki trúað því, þú gast ekki verið dáinn.

Pabbi minn, það eru erfiðir tímar fram undan hjá okkur í fjölskyldunni. Mamma er búin að gráta þig mikið enda voruð þið eins og eitt og gerðuð svo margt saman. Þið nutuð þess að fara í veiðiferðir og berjaferðir og það var svo yndislegt að sjá ykkur saman. Þó að þið væruð ekki alltaf sammála um hlutina rifust þið aldrei og fóruð alltaf sátt að sofa. Þið voruð ekki bara hjón heldur líka góðir vinir.

Pabbi minn, ég sakna þín svo sárt að það er ekki hægt að lýsa því með orðum. Hver á núna að laga kaffið sem ég drakk alltaf hjá þér klukkan 9 á morgnana? Ég kveð þið núna og hvíldu í friði. Við hugsum til þín, elsku pabbi.

Þín dóttir, Erna Jóhanna.

Elsku pabbi, rosalega er erfitt að kveðja þig en ég reyni að hugsa um allar góðu stundirnar sem við áttum saman þegar þið mamma bjugguð líka hérna á Tanganum. Einnig var alltaf voðalega gaman þegar þið komuð í heimsókn og fóruð í berjamó. Það var sko tínt þá og mallað úr berjunum, ekkert hálfkák.

En alltaf komstu með mér út í fjós að skoða kúna. Þú varst alltaf bóndi og hafðir gaman af að fylgjast með skepnum og koma með skemmtilegar athugasemdir. Það er bara svo margs að minnast. Það var líka gaman að spjalla við þig í síma. Þá var alltaf spurt um kúna og nytina í henni og veðrið á Tanganum. Já elsku pabbi ég hugsa til þín, þú varst góður maður.

Þín dóttir, Marsibil (Billa).
-----------------------------------------------

Mér finnst bæði svo dapurlegt og óraunverulegt að ég sé nú að skrifa minningargrein um hann pabba minn. Í minningunni mun pabbi ávallt verða mér svo kær og einstakur. Hann var sérstaklega góður maður í alla staði og var mér kærari en ég get lýst hér í fátæklegum orðum. Pabbi var mér ekki bara einstaklega ljúfur og áreiðanlegur faðir, heldur líka góður félagi og sannur vinur.

Eftir að ég eignaðist mann og börn fann ég að sambandið við pabba var áfram sterkur þáttur lífs míns. Hann og mamma pössuðu upp á að halda nánum tengslum við okkur krakkana bæði með símhringingum og heimsóknum er við vorum farin að lifa okkar eigin lífi. Pabbi var alltaf mikið náttúrubarn í sér og naut þess að lifa með náttúrunni. Hann var alltaf duglegur og áhugasamur um að aðstoða mömmu við að rækta ýmis blóm og jurtir.

Hans þáttur í því laut reyndar meira að því að útbúa aðstöðu fyrir ræktunina þar sem hann var handlaginn maður að eðlisfari. Dýrin voru honum líka ávallt kær og hann lagði metnað sinn í að búa þeim gott atlæti. Við nutum krafta hans í tengslum við litla búið okkar til margra ára. Pabbi var sjálfur ekki fordómafullur á þær nýjungar sem hafa komið fram í búskap nú upp á síðkastið en sagði þó stundum: „ja ekki hefði mönnum nú þótt þetta nauðsynlegt á Nesi hér áður“.

Pabbi var drífandi og vildi ekki „slugsa“ við hluti að óþörfu eins og hann orðaði það. Hann var einstaklega ósérhlífinn til allra verka. Þegar honum fannst við stundum taka það helst til rólega við einhver verk, sagði hann oft: „Jæja, krakkar, nú förum við að drífa þetta af.“ Ef þá var reynt að tala um að bíða mætti kannski aðeins lengur sagði pabbi: „Nei, nei, nei, nú er ekkert undanfæri.“

Þetta orðatiltæki heyrði ég hann nota oft þegar sambærileg atvik komu upp. Pabbi hafði sérstaklega gaman af því þegar góður vinur okkar, Hafsteinn heitinn Hólm, kom í heimsókn til okkar. Hafsteinn dó haustið 2010 þegar sláturtíð stóð sem hæst. Það má því segja að þeir félagar hafi báðir dáið þegar mest er um að vera í sambandi við kindurnar. Dýrin sem þeir dáðu hvað mest.

Pabbi var einmitt staddur hér hjá okkur þegar Hafsteinn dó. Eftir andlát Hafsteins hafði pabbi á orði að best væri að fá að fara eins og Hafsteinn, í svefni, og hafa engan grun um aðdragandann. Þar varð honum að ósk sinni. Þó að við sem eftir sitjum í þessum heimi berum djúp ör eftir að missa ástvini svona skyndilega og án fyrirvara, getum við ekki verið annað en sammála þessu, úr því að kallið er komið á annað borð.

Að endingu vil ég þakka pabba fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir mig sem barn og gert fyrir mig og fjölskyldu mína allt fram á síðasta dag. Við erum öll hálfdofin og hreinlega ekki búin að meðtaka það að svona sé í rauninni farið. Vorum búin að hlakka til og gera væntingar um að fá að sjá pabba nú um sauðburðinn eins og undanfarin mörg vor. Aldrei hefur mér fundist erfiðara að sætta mig við orðatiltækið hans pabba sem nú á víst því miður við: „Nú er ekkert undanfæri.“

Herdís og Jón Traustason, Sauðanesi.
---------------------------------------------------

Elsku afi. Það er sárt að þurfa að kveðja þig afi minn, svo hlýr, góður og traustur sem þú varst. Þú sem varst búinn að skipuleggja svo margt með ömmu þegar þú kæmir af spítalanum.

Þær eru margar minningarnar sem streyma um hugann þegar kemur að kveðjustundinni.

Flestar eru frá Dalatanga þegar ég dvaldi hjá ykkur ömmu í lengri eða skemmri tíma. Mér þótti svo notalegt þegar við sátum saman í eldhúsinu á Tanganum og gæddum okkur á rúgbrauði með kæfu eftir morgunverkin í fjósinu. Þá vorum við krakkarnir búnir að sækja kýrnar og þú að mjólka og senda veðrið kl. sex. Þú varst alltaf árrisull og ég held að ég hafi fengið þann góða eiginleika frá þér, því „drjúg eru morgunverkin“ eins og þú sagðir oft.

Mér er einnig minnisstætt þegar ég öðlaðist kosningarétt. Þá fórst þú með mér á kjörstað því þér var mikið í mun að ég kysi rétt. Helst vildir þú fara með mér í kjörklefann. Auðvitað fór X-ið á réttan stað, þú veist hvað ég meina. Það var þér kappsmál að ala barnabörnin þín upp í að „kjósa rétt“ og ég held að það hafi tekist.

Þín verður sárt saknað í Tangahlaupinu, þú sem varst verndari hlaupsins. Hver á nú að vera fylgdarmaður og passa að enginn verði eftir ef við meiðum okkur eða gefumst upp? En ég veit þú munt fylgjast með okkur og hvetja okkur áfram og hrista hausinn yfir þessu öllu saman, ja uss, uss, uss.

Hvíl í friði elsku afi minn ég sakna þín svo mikið. Við gætum ömmu fyrir þig.

Þín dótturdóttir,  Erlín.
------------------------------------------------

Hann afi var einstakur maður; heiðarlegur, vinavænn, hjálpsamur, og mikill dugnaðarforkur sem þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Helst þá sem erfiðast og mest, því að ef maður svitnaði ekki duglega nú þá var maður ekki að vinna nógu mikið.

Maður getur einna helst minnst þess þegar maður kíkti í heimsókn á Egilsstöðum og gat ávallt fengið heimabakaðar vöfflur innan 10 mínútna frá því að maður steig inn úr dyrum. Og svo vantaði ekki súkkulaðið með, sem þurfti auðvitað að vera bullsjóðandi heitt; Annars var það víst ekki drekkandi að sögn hans afa.

Svo var alltaf hægt að detta inn í umræður um sveitina eða veðrið á meðan verið var að brenna á sér tunguna á blessuðu súkkulaðinu, en það vantaði ekki að reglulega heyrðist „Nú þetta er bara kalt!“

Það voru margir garðarnir stungnir upp saman, og margar ferðirnar farnar eftir skít í fötu. Nú, eða í poka. Það var alltaf endalaust hægt að dunda sér eitthvað með honum afa, þó það væri nú ekki nema að sofa yfir fréttunum saman.

Já, það eru margar góðar minningar um hann afa og það líður varla sá dagur sem maður notar ekki einhvern af hans eftirminnilegustu frösum eins og til dæmis; „Nú hvað er þetta kona?“

Elsku afi, við söknum þín af öllu hjarta en munum samt alltaf geta minnst þín með bros á vör. Helst hefðum við viljað fá fleiri stundir saman; Getað gert meira og sagt svo miklu meira, en tíminn stoppar ekki eða bíður eftir neinum. Það verður skrítið að geta ekki lengur truflað þig við að hlusta alltof hátt á fréttirnar til þess að geta kysst þig hæ eða bæ á hrjúfa kinnina og finna þessa vissu hugarró sem sá vani færði manni.

Hvíldu í friði, elsku besti afi.

Einar Hafþór Heiðarsson  og Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir.
-------------------------------------------------------

Það er auðvelt að láta hugann reika þar sem ég sit í flugvél á leið vestur um haf og rifja upp minningar um hann afa minn, erfiðara reynist að koma öllum minningunum í orð á blaði. Afi var gull af manni, það skipti hann engu að ég væri ekki „alvöru“ afabarn hans, það yljaði sannanlega lítilli stelpuskottu að heyra þennan trausta mann lýsa tengslum okkar þannig: „Hún Karen, nú hún er næstelsta barnabarnið mitt.“ Og það þurfti ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég naut þeirra forréttinda að eyða sumrum mínum í sveit á Dalatanga, þangað sem hann pabbi minn flutti þegar ég var 7 ára, þar eignaðist ég heila fjölskyldu með Billu konu pabba og foreldra hennar þau Erlend og Elfríð í broddi fylkingar og ekki leið á löngu þar til ég var farin að kalla þau afa minn og ömmu. Og æskusumrin liðu þar við leik og störf og alltaf var afi nálægur, oft raulandi Katarína, Katarína, en það kallaði hann mig oft, og þegar ég stálpaðist bættust heimsóknir yfir jól við.

Þá kynntist ég nú alveg nýrri hlið á afa, þegar kom að því að spila vist. Hann og amma áttu sitt eigið tungumál þ.e. ef þau voru að spila saman og oft fannst afa maður vera of ragur við að segja, enda hikaði hann ekki við að segja hálfa eða heila ef svo bar undir, já hann afi minn var hugaður. Og ef amma spilaði eitthvað af sér þá gall í honum: Nú hvað varstu að hugsa kona? En að sjálfsögðu allt í góðu.

Það er erfitt, já nánast ekki hægt að tala um afa en ekki ömmu, þau voru jú svo samrýmd í gegnum öll þessi ár. Ein jólin sem ég dvaldi á Tanganum kom afi til mín rétt fyrir jól og spurði hvort ég gæti aðstoðað hann aðeins, sjálfsagt svaraði ég. Já það er þetta með að pakka inn jólagjöfunum til hennar ömmu þinnar frá mér, sagði afi og ég hugsaði með mér, hversu mikið mál getur það verið? Og svo kom afi með pokana, já pokana, þessi jól fékk amma alls kyns gjafir frá afa allt frá nýtísku ilmvatni til glerlistaverka, já svei mér þá ef hann afi var ekki bara rómantískur ofan á allt saman.

Seinni árin hafa samskiptin ekki verið eins mikil enda ég löngu hætt að fara í sveit á Tangann og þau afi og amma flutt þaðan á Egilsstaði en það er samt alltaf órjúfanlegur hluti þess að ferðast austur á land að koma við hjá afa og ömmu. Nú síðast kom ég við hjá þeim um þar síðustu helgi í skottúr austur og fékk ég gott faðmlag frá afa, það yljar mér nú þegar ég er fjarri fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.

Afi minn, þín minning lifir. 

Karen Jenný.
---------------------------------------------------

Mig langar til að minnast afa míns í stuttu máli en fyrir mér var hann einn besti og traustasti maður sem ég hef þekkt. Ég var yfirleitt hluta úr sumri hjá afa og ömmu á Dalatanga á mínum æskuárum. Þegar ég lít til baka voru það margar ómetanlegar stundir sem við afi áttum saman. Við spiluðum til dæmis mjög mikið á spil og afi hafði gaman af að stríða mér, sérstaklega á því, „að það væri nú bara heppni ef ég ynni spil“. Það féll reyndar ekki í kramið hjá mér en þetta var bara góðlátleg ertni, enda fannst mér alltaf afi minn skemmtilega stríðinn.

Einnig minnist ég þess þegar ég bjó hjá afa og ömmu á Egilsstöðum, og var í menntaskóla þar, en þann vetur var ég með hestana mína í sameiginlegu hesthúsi. Við fórum alltaf saman í hesthúsið og afi gaf hestunum og mokaði undan þeim með mér. Afi fékk þarna aðeins nasaþef af að hugsa um skepnur sem ég veit að gladdi hann mikið eftir að hann og amma fluttu í Egilsstaði.

Það er of langt að telja upp allar samverustundirnar með þér, elsku afi minn, en mig langar til að þakka fyrir þann tíma sem við höfum átt saman, hann er mér afar dýrmætur og ég mun sakna þín mikið. Afi og amma voru svo náin að maður talaði varla um þau sitt í hvoru lagi, enda gerðu þau flest saman og voru alltaf með eitthvert skipulagt. Þau voru búin að plana svo margt saman sem þau ætluðu að gera.

Afi minn var nýkominn af spítalanum eftir vel heppnaða aðgerð, þegar hann var skyndilega kallaður burtu úr þessum heimi. Það var því mikið áfall að fá tilkynningu um „að afi væri dáinn“, maður sem var alltaf til staðar fyrir fjölskylduna ef á reyndi. Ég þakka samt mikið fyrir að ég fékk að kveðja hann stuttu áður en hann lést, þó að ég hafi svo sannarlega ekki litið á það sem okkar síðustu kveðjustund, en það skiptir mig miklu máli núna.

Elsku amma, megir þú öðlast styrk sem kemur þér í gegnum þessa miklu sorg að missa manninn sem var þér allt í lífinu, en afi minn mun örugglega fylgjast með þér og gæta þín, hann mun lifa áfram meðal okkar og ég mun varðveita minningu hans eins vel og ég get.

Þín dótturdóttir, Elfríð Ída.
---------------------------------------------------

Elsku afi minn. Ég vildi að þú værir ekki farinn frá mér. Það var svo margt sem mig langaði að gera með þér. Núna get ég aldrei aftur komið til þín ef ég þarfnast þín. Komið í kaffi til þín og ömmu. Verið með þér í garðinum eða heyrt í þér tauta t.d. uss og svei. Vona bara að þér líði vel núna og hafir það gott.

Ástarkveðjur, Mikael – barnabarn.
--------------------------------------------------------

Ég er búinn að vera mikið á æskuslóðum afa á Siglunesi. Hef verið þar með Hödda frænda á ferðum hans í bústaðinn sem þau Helga eiga þar. Þau byggðu hann á grunni hússins sem afi og amma bjuggu í þegar þau áttu heima á Nesi. Þess vegna finnst mér erfitt að hafa ekki getað verið meira með honum og spjallað við hann um hvernig lífið hafi gengið fyrir sig á Siglunesi.

Sakna þess að geta ekki fengið meiri upplýsingar frá honum um gamla daga og búskapinn á Siglunesi. Það var alltaf svo gaman að tala við afa því hann var svo alltaf svo hress og kátur. Mér fannst gaman að vita það að honum líkaði ágætlega þegar ég kallaði hann „drenginn“. Ég mun reyna að hugsa til allra þeirra góðu stunda sem ég átti með afa og geyma þær í huga mínum. Afi var góður „drengur“.

Hannibal Páll. 
------------------------------------------

Elsku afi. Það er svo gaman að hugsa til þess þegar við fórum með ykkur ömmu að Þríhyrningsvatni, við stelpurnar komum með mikinn fisk heim úr ferðinni, þið hjálpuðuð okkur við það að draga inn fiskana og kennduð okkur á veiðimennskuna. Í kofanum sem við gistum í vorum við Hulda svo undrandi á því að það væri ekkert sjónvarp og enginn barnatími, og við þurftum að sætta okkur við það að vera sjónvarpslausar. Þrátt fyrir það var ferðin skemmtileg og eftirminnileg. Við erum svo glaðar að geta átt svona góðar minningar um þig.

Jódís og Hulda.
---------------------------------------------

Elsku afi minn er dáinn og allar minningar um svo góðan mann verða alltaf geymdar í hjörtum okkar sem eftir standa. Elsku amma það er svo erfitt að skilja að afi sé dáinn og komi aldrei aftur, þið voruð svo samrýnd í öllu sem þið gerðuð, hans verður sárt saknað af okkur öllum.

  • Hversvegna er leiknum lokið?
  • Ég leita en finn ekki svar.
  • Ég finn hjá mér þörf til að þakka
  • þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Ástarkveðja,  Baldur Reginn (Balli), Sigrún Arna, Fríða Carmen og Breki Hrafn.