Fanney Sigurðardóttir

Fanney Sigurðardóttir fæddist á Siglufirði 30. október 1922. Hún lést 25. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru

Andrea Sæby, f. 24.10. 1883, d. 14.10. 1970, og Sigurður Jónsson, f. 23.12. 1875, d. 28.1. 1932.

Systkini hennar voru:

 • Kristján Sigurðsson, f. 4.11. 1902, d. 16.6. 1999,
 • Kristinn Sigurðsson, f. 24.12. 1904, d. 25.8. 1974,
 • Kristín Björg Sigurðardóttir, f. 6.6. 1906, d. 6.4. 1997,
 • Pálína Sigurðardóttir, f. 1.8. 1908, d. 4.5. 1992,
 • Jónína Sæunn Sigurðardóttir, f. 5.11. 1910, d. 11.4. 1985,
 • Jenný Sigurðardóttir, f. 6.3. 1913, d. 12.1. 1988,
 • Jón Sigurðasson, f. 17.6. 1914, d. 12.1. 1982,
 • Haraldur Sigurðsson, f. 17.6. 1917, d. 5.6. 1976.
  Tvö systkini létust í æsku:
 • Ágúst og Ágústa.
Fanney Sigurðardóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Fanney Sigurðardóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Fanney starfaði á sínum yngri árum við verslunarstörf og einnig við síldarsöltun. Hún vann einnig að félagsmálum. Hún var félagi í Sjálfsbjörg Siglufirði, Kvenfélaginu Von og Slysavarnadeildinni Vörn.

Fanney giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Þórarinn Vilbergsson, f. 11. júlí 1919 á Hvalnesi við Stöðvarfjörð, hinn 24. maí 1947.

Útför Fanneyjar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 6. ágúst 2016, og hefst athöfnin kl. 11.
-----------------------------------------------------

Elsku Fanna mín, það er komið að kveðjustund.

Mitt æskuheimili var við Laugarveg 13, neðri hæð, og á efri hæðinni bjugguð þið Þórarinn. Mikil vinátta ríkti á milli fjölskyldu minnar og ykkar og var nánast daglegur samgangur okkar á milli. Það var alltaf gott að koma á efri hæðina og heimsækja ykkur Þórarin. Hjá ykkur leið mér alltaf vel og ekki skemmdi fyrir að fá súkkulaðimola eða aðrar kræsingar.

Fanna var dásamleg kona, glaðlynd, umhyggjusöm, alltaf glæsileg til fara og þrátt fyrir mikinn aldursmun vorum við miklar vinkonur.

Sem krakki fór ég ófáar ferðir á efri hæðina, ef ég fór ekki á matmálstíma vissi ég að Fanna sat við borðið í stofunni og saumaði út. Ég sat alltaf góðan tíma og fylgdist með hvernig gekk í saumaskapnum en Fanna var mjög afkastamikil í handavinnu og skilur eftir sig óteljandi falleg verk.

Sú minning sem er mér hvað dýrmætust voru aðfangadagskvöldin en þau enduðum við fjölskyldan af neðri hæðinni alltaf á efri hæðinni hjá Fönnu og Þórarni.

Fanna sýndi okkur jólagjafirnar sem hún og Þórarinn höfðu fengið og það var yndislegt þegar þau sýndu okkur hvað þau höfðu gefið hvort öðru, þar var sko vandað til verka.

Ást ykkar Þórarins var einstök og náðuð þið 70 árum saman.

Ég var svo heppin að fylgjast með ykkur og taka þátt í lífi ykkar rúmlega helminginn af þessum tíma og aldrei hef ég orðið vitni að ást eins og ykkar, svo einlæg, sterk og falleg. Öll ykkar samskipti og allt sem þið gerðuð einkenndist af gagnkvæmri virðingu. Þið gáfuð mér gott veganesti hvað ástina varðar.

Elsku Fanna mín, ég sakna að heyra fótatakið þitt frá efri hæðinni þegar ég dvel hjá mömmu og pabba eða heyra dyrunum lokað á efri hæðinni og sjá þig nokkrum sekúndum síðar á neðri hæðinni. Ástarþakkir fyrir vináttuna, góðvildina og samveruna í öll þessi ár. Minningar okkar mun ég ávallt varðveita.

Þín Rósa Mary.