Tengt Siglufirði
Björn Birgisson, fæddist á Siglufirði 12. ágúst 1949. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Mosfellsbæ 8. febrúar 2016.
Foreldrar hans voru
Birgir
Runólfsson bifreiðastjóri frá Kornsá í Vatnsdal og Margrét Hjördís Pálsdóttir frá Svarfaðardal í Eyjafirði.
Systkini Björns eru
Eftirlifandi eiginkona Björns er Álfhildur Þormóðsdóttir frá Siglufirði, þau hófu sambúð árið 1972 á Siglufirði.
Foreldrar hennar eru Þormóður Runólfsson, látinn,
og Gerða Pálsdóttir.
Börn Björns og Álfhildar eru:
Björn
fór snemma til sjós á síðutogaranum Hafliða frá Siglufirði, lærði rennismíði á verkstæði Síldarverksmiðja Ríkisins.
Flutti frá Siglufirði
1979 til Ólafsvíkur og hóf rekstur Vélsmiðjunnar Sindra. 1985 flutti hann til Ísafjarðar og vann þar ýmist við járnsmíði eða sjómennsku, meðal annars á Hálfdáni
í Búð.
Hann lærði vélstjórn við iðnskóladeild Menntaskólans á Ísafirði, stundaði sjómennsku eftir að námi lauk í nokkur ár. Seinni
ár flutti hann til Mosfellsbæjar og vann við ýmis störf, síðustu þrjú ár lífsins vann hann sem kennari í rennismíði við Tækniskóla Reykjavíkur.
Útför Björns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 18. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku hjartans Bjössi minn.
Nú þegar Guð ákvað að taka þig til sín, hlúa að þér og líkna, sit ég hér eftir og minnist þín og sakna. Takk fyrir börnin okkar, þrjú ljósin í lífi okkar, barnabörnin og barnabarnabörnin sem þú elskar.
Þau minnast þín meðal annars fyrir lygasögurnar sem þau vildu sko ekki missa af. Músíkina sem þú spilaðir með þeim. Gangan okkar saman var oft erfið, en við öðluðumst svo dýrmætan skilning og djúpa ást á því hvernig það er í raun að ganga saman lífsins veg, að gráta og hlæja saman.
Elsku Bjössi minn, þú bíður eftir mér og við sameinumst á ný, þangað til: góða ferð á nýjar slóðir þar sem þú verður umvafinn þeim sem elska þig.
Þín, Álfhildur Þormóðsdóttir.
---------------------------------------------------------
Elsku pabbi minn, nú kveðjumst við í bili. Takk fyrir öll skemmtilegu ferðalögin, örnefnakeppnirnar, brandarana, tónlistina, sögurnar og kaffibollana o.fl., o.fl.
Það er svo ótrúlega margs að minnast. Það þyrfti að skrifa sögurnar af uppátækjum og afrekum þínum í a.m.k. 7-8 bindum.
Pabbi minn, sama hvað bjátaði á og sama hvað það var sem felldi þig stóðst þú alltaf upp aftur og hélst áfram. Þegar eitthvað kom upp á í fjölskyldunni og við leituðum til þín, stóðst þú eins og klettur með okkur í gegnum allt. Þrátt fyrir að þú hafir glímt við eigin veikindi í gegnum tíðina þá hafðir þú samt alltaf tíma til að sinna þeim sem minna máttu sín.
Það er svo skrítið að sitja hérna í herberginu þínu og skrifa niður þessi orð, vitandi það að ég á aldrei eftir að heyra þig spila og búa til tónlist, setjast niður með þér og horfa á glæpamynd, fara með þér í fjallaferð, fá mér kaffi og Siríussúkkulaði, harðfisk á góðum dögum með þér. Ég hef verið að renna í gegnum safnið af upptökunum sem þú skildir eftir, sumt tilbúið, annað ekki.
Á leið minni í gegnum þetta safn kemur það svo bersýnilega í ljós hversu einlægur þú varst í því sem var þér svo kært, og falleg sál. Ég mun alltaf líta upp til þín fyrir einlægnina, húmorinn, útsjónarsemina, hæfileikana sem þú hafðir á svo mörgum sviðum, ást þína á landinu og tungumálinu, hversu traustur þú varst þegar á reyndi og einstaka hæfileika til að ná til fólks sem var allajafna erfitt að ná til.
Ég veit það, pabbi minn, þótt þú sért farinn þá muntu alltaf standa eins og klettur við hliðina á okkur, sama hvað. Ég gæti haldið endalaust áfram að skrifa um það sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina en við eigum eftir að spjalla meira saman. Bless í bili, elsku pabbi minn, sjáumst síðar. Þinn sonur,
Brynjar Páll (Binninn).
------------------------------------------------
Elsku pabbi minn.
Nú er áralangri baráttu lokið og þú ert kominn á betri stað. Það er óhemjumikið af minningum sem hrannast upp í höfði mér. Ég get ekki valið um hvað ég á að skrifa svo ég geymi þær með sjálfri mér. Ég á eftir að sakna þín svo mikið, pabbi minn.
Þó að við værum ekki alltaf sammála um allt, þá var samt alltaf gott að tala við þig og fá ráð. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa þegar svo bar undir. Ég trúi því að við hittumst á ný þegar ég fæ kallið. Hafðu þökk fyrir allt og hvíldu í friði, pabbi minn.
Þín dóttir, Gerða Björnsdóttir.
--------------------------------------------------------
Pabbi, ég segi bara eins og þú sagðir stundum þegar ég horfist núna í augu við það að þú ert farinn: Hvaða fíflalæti eru þetta? Heil ævi í eina minningargrein? Vonlaust.
Hlutir sem gerðust í æsku þinni lituðu allt líf þitt og sviptu þig þeim manni sem þú hefðir getað verið alla daga. Ég vil ekki minnast sársaukans, þó að hann hafi mótað okkur báða. Minnist þess frekar þegar falleg sál braust út úr tangarhaldi myrkursins og gaf öllum sem vildu ljós.
Þegar við hlustuðum saman á War of the Worlds, Bítlana og ógrynnin öll af músík. Keyrðum til Akureyrar, þú keyptir Voffann, á leiðinni heim til Sigló í gegnum Lágheiðina, Fljótin, hélt ég á Concorde, sem þú keyptir, við gluggann, þú sagðir mér að hún virtist fljúga hratt þegar ég horfði á hlíðarnar þeytast framhjá í bakgrunninum, þetta var góð ferð.
Kenndir mér að keyra í snjó, á malarvegum yfir holur, þegar við óðum skafla saman í gegnum tíðina, þá varstu alltaf mín súperhetja. Þú kenndir mér að meta alheiminn, vísindin, þú elskaðir landið þitt og fólkið svo heitt að stundum fórstu fram úr sjálfum þér. Þegar við unglingarnir vorum að verða foreldrar stóðst þú þétt við bakið á okkur báðum, aldrei reiddist þú eða tönnlaðist á ábyrgðarleysi, þú sagðir eins og mamma, búið og gert, mikilvægara er að ræða næstu skref.
Þegar ég varð veikur hringdir þú daglega, yfirvegaður, fullur af reynslu og ráðum. Þú hélst utan um Þorra bróður þinn í hans veikindum, frí í vinnu? Ekkert mál, ef bróðir þinn þurfti aðstoð var ekkert mikilvægara. Þú vildir vera eins og varðskip fyrir fjölskylduna, dólaðir fyrir utan, alltaf tilbúinn að sigla inn þegar flotann vantaði aðstoð, þú sást allt svo mikið eins og sjómaður, pabbi, ég elskaði það.
Úrræðagóður, lést ekki smá stýrisenda eyðileggja sumarfríið, bast bara endann inn aftur með farangursteygjum, svo var keyrt inn á næsta verkstæði. Þegar ég finn járnlykt hugsa ég til þín, ein af mínum fyrstu minningum, köflótta skyrtan með suðugötunum á, flottur pabbi.
Þú gafst mér margar góðar minningar, margt gott veganestið, varst afi og langafi sem munað verður eftir. Ég kveð ekki, enda veit ég að þú ert hér enn þó ég sjái þig ekki, dólandi við 200 mílurnar, passandi upp á flotann þinn.
Þjáningunum og verkefninu hér er lokið, þín bíður annað hinum megin, kannski þarf að sjóða í Gullna hliðið eftir aukið álag síðustu misseri. Ekki vera sorgmæddur yfir því sem ekki kláraðist eða var ekki á hreinu þegar þú fórst, við reynum að vera það ekki heldur, gleðjumst yfir því sem við þó áorkuðum. Kærleikurinn sem var þér svo hugleikinn sigrar, ljósið lifir í hjörtum okkar sem eftir eru, vex í gegnum verk okkar, einn geisla í einu, eitt skref í einu. Við sjáumst seinna, ég kem með kaffi með mér, við hellum upp á, ræðum um allt og ekkert. Ég lýk með bæn sem skiptir okkur öllu máli:
(Reinhold Niebuhr.)
Guð geymi þig og umvefji þig ljósi, pabbi.
Þinn sonur, Eiríkur
Sverrir Björnsson.
----------------------------------------
Elsku minn.
Það var mikið áfall að fá fréttirnar af andláti þínu, þó svo að þú værir búinn að glíma við veikindi lengi þá stóðst þú alltaf upp aftur, jaxlinn sem þú varst, og ég var næstum því byrjuð að trúa því að þú værir ódauðlegur.
Ég á eftir að sakna þín svo mikið. Stóru handanna þinna sem veittu mér alltaf öryggi og þegar ég sat í sófanum við hliðina á þér og þú lagðir höndina á sófaarminn og beiðst eftir að ég setti höndina í lófann þinn. Þegar ég knúsaði þig reyndir þú alltaf að hafa þau sem lengst og þegar ég sagði „aaa“ í eyrað þitt þegar ég knúsaði þig þá sagðir þú alltaf „hvað kemur næst?“ Þá hélt ég áfram að knúsa þig: „b, c, d, e, f, g ...“ og svo nuddaði ég nefinu í yfirvaraskeggið þitt og fann kaffilyktina sem yljaði mér alltaf um hjartarætur.
Ég á eftir að sakna þess að sitja við matarborðið og heyra: „Herdís sjáðu“ og líta við og sjá þig borða sviðakjamma og hlusta á þig hlæja að því hvað mér fannst það ógeðslegt.
Þú varst mín fyrsta föðurímynd þar sem pabbi var svo ungur þegar ég fæddist og ég er þér svo óendanlega þakklát fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, hvort sem það var lífið mitt, bílahjálp, andleg leiðsögn eða að keyra með mér hálfa leiðina vestur af því að ég var hrædd að keyra ein, þá varst þú alltaf tilbúinn til þess að hjálpa til og berjast fyrir mér.
Nú ert þú farinn á betri stað og eftir stendur stórt skarð í fjölskyldunni, en eins og Eiríkur segir þá fórst þú glaður upp gullstigann í tunglið og Tristan segir að þú sért að borða fullt af ís þar, ég lofa að sjá til þess að þeir muni eftir afa ísbirni.
Ég get ekki knúsað þig lengur, ég get ekki hvíslað a, b, c ... í eyrað þitt og það er engin kaffilykt í skegginu þínu, ég get aldrei heyrt „ámm bless“ í lok símtala aftur en ég er og verð alltaf þakklát fyrir minningarnar sem við bjuggum til saman og að hafa fengið að vera afastelpan þín.
Hvíldu í friði, elsku afi minn, þín verður sárt saknað. Þín afastelpa,
Herdís Mjöll Eiríksdóttir.
------------------------------------------------------
Við Bjössi bróðir vorum vinir, jafningar, pólitískir samherjar og pólitískir andstæðingar.
Hann var listamaður, heimspekingur,
uppfinningamaður, rennismiður og sjómaður og oftast ákaflega skemmtilegur, minnugur vel og bráðvel gefinn. Við leituðum oft hvor til annars með vandamál, verkefni, ræddum um gleðina, sorgina
og lífið.
Við vorum ólíkir en samt samrýmdir og virtum okkar framkomu og hegðun. Báðir hressir piltar (held ég), fórum oft í fýlu hvor út í annan, tókum okkur pásu og lögðumst í þagnarbindindi í nokkrar vikur stundum. En alltaf var þráðurinn tekinn upp, málin rædd, tónlist sett á fóninn, vísur kveðnar og oft farið í hugarleikfimi um tilveru okkar og annarra hér á jörð. Við þóttumst vera svo skemmtilegir, en vorum samt hálf-skrýtnir eða hvað?
Bjössi skipti um vinnu fyrir nokkrum árum, gerðist kennari í Tækniskólanum, vélstjóradeild, varð kennari í rennismíði o.fl. Hann hafði aldrei kennt í alvöru skóla, bara í skóla lífsins. Hann ræddi þetta við mig, hvað mér fyndist um þessa nýju áætlun hans. Mér leist bara nokkuð vel á bróður, þarna væri hann sannarlega á heimavelli.
En það var kvíði í honum, hann hafði aldrei fyrr kennt, get ég þetta? Kann ég þetta? voru spurningar sem hann lagði fyrir mig. Svarið var ofur einfalt: Bjössi, þetta eru litlir strákaormar sem ekkert kunna, spenntir og kvíðnir að hitta læriföður sinn. Ég sagði við Bjössa: þú ert yfirfullur af reynslu og hæfileikum, þetta verður létt verkefni, en gerðu það fyrir mig að segja engar sögur af pabba okkar fyrstu tvo mánuðina, hann stóð örugglega ekki við það, því hann varð að stimpla sig inn sem fyrst. Bjössi var nefnilega stóra bókin af sögum um fólkið á Siglufirði, af pabba og samferðafólki í gegnum tíðina, frábær sögumaður, frábær tónlistamaður og ákaflega góður drengur.
Ég kveð bróður minn með miklum söknuði, góðum minningum, hann var vinur vina sinna, greiðvikinn og yndislegur. Takk fyrir mig.
Til ykkar Álfhildur og fjölskylda:
Þorsteinn (Steini).
-------------------------------------------------
Við Bjössi kynntumst vegna sameiginlegs áhuga okkar á tónlist. Bítlaæðið rann í æðum okkar fyrir tilstilli útvarpsstöðvanna Karólínu og Lúxemborgar. Öll kvöld reyndum við að ná betri og betri upptökum af vinsælustu lögunum á segulbandstækin okkar og Bjössi hafði oftast vinninginn, hann var á togara og fór í siglingar og á Norðursjónum var gott samband.
Við söfnuðum hári og hippatímabilið gekk í garð og allir elskuðu alla og tónlistin og ástin var svo mikil og allt um kring, að við gátum ekki látið okkar eftir liggja og stofnuðum hljómsveitina Enterprize sem æfði í stofunni heima hjá Bjössa, föður hans til mikillar ánægju, og í saumaherberginu hjá Gunnu Finna í næsta húsi. Bjössi var mikill aðdáandi bresku hljómsveitarinnar Searchers og bar kynningarlag okkar mikinn keim af því ágæta bandi.
Frægðarferill Enterprize náði aldrei út fyrir æfingarsvæðin en um þetta leyti var Bjössi að fullkomna ljóð sitt um Önnu Láru og með því snilldarverki tókst frægðarsól hans á loft. Í hvert sinn sem Siglfirðingar hefja upp raust sína og syngja firðinum fagra til dýrðar er skylda að syngja um þær Önnu Láru, Bryndísi, Báru og Lalla Blöndal. Ljóð verða ekki siglfirskari.
Við vorum oft saman á sjónum, á togaranum Hafliða og ógleymanlega vertíð á Hólmanesinu á Eskifirði, hvar eymdin og fiskileysið var slíkt að ef Bjössi hefði ekki látið reka sig, af því að hann þurfti að sjá Doctor Zivagó í tíunda skiptið, og komist nokkra túra á Jón Kjartansson, væri ég sennilega enn fyrir austan.
Svo skildu leiðir, en þá var penninn tekinn upp og skrifast á og ruglaðri skrif finnast vart. Á næturgöltri okkar á Siglufirði áttum við það til að elda okkur súpur og í einu bréfinu frá Bjössa er einmitt uppskrift að einni slíkri, hann nefndi hana Örlögin og hún er svona: „Fíll saxaður undir smásjá, helst í slag við franska flugu á svipuðu reiki. Sex vekjaraklukkur. Tvö límbönd útsteypt í Rauðu hundunum. Tveir tígulásar, helst úr sama bunkanum.
Hálfur skýjabólstri. Ein og hálf teskeið af roðflettum hana. 5 kíló af flóðhestasmjöri, sjóðist við hálfan hita frá sólu í næturfrosti þangað til allt góssið gufar upp.“
Bjössi var maður með húmorinn í lagi og ímyndunarafl á hæsta plani.
Við stofnuðum Hafliðafélagið ásamt fleirum fyrir um 12 árum. Því var ætlað að framkvæma eina af hugmyndum Bjössa – að láta smíða líkan af togaranum Hafliða SI 2. Með djörfung og dug gekk þetta eftir og af því að við vorum í stuði létum við líka smíða líkan af togaranum Elliða SI 1, og við vorum líka stofnfélagar í Kótilettufélagi togarajaxla sem starfaði jafnhliða Hafliðafélaginu.
Bjössi var skapmikill og mikil tilfinningavera, mátti ekkert aumt sjá og hann gat varla talað illa um nokkurn mann.
Hann átti yndislega konu og saman áttu þau þrjú börn og fullt af barnabörnum sem Bjössi var afar stoltur af.
Hans verður sárt saknað.
Álfhildur, Eiríkur, Gerða, Brynjar og aðrir vandamenn; mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Kristján S. Elíasson.
---------------------------------------------------------
Látinn er í Mosfellsbæ vinur minn og félagi, Bjössi Birgis. Ekki að það hafi komið á óvart. Ég var búinn að bíða eftir tíðindunum lengi. Hann hafði átt við vanheilsu að stríða í mörg ár. Hjartað orðið veikt af kökuáti og kleinum.
Ég man fyrst eftir Bjössa á Sigló þegar honum hafði eftir ársdvöl í Keflavík tekist að safna þvílíku bítlahári að eftir var tekið.
Það voru fimm ár á milli okkar í aldri. Þegar mæður okkar yngri drengjanna gengu ríkt eftir því að rakararnir Jónas og Ægir snyrtu okkur vel og leyfðu enga villimannhárgreiðslur gekk Bjössi um með makka og lét eintómar skvísur í stuttum pilsum og hvítum klossum sjá um að snyrta það. Kom ekki nærri rakarastofum bæjarins.
Þessi drengur þeirra Möggu og Bigga Run spilaði líka á gítar og það vakti athygli mína á honum. Hann var farinn að smakka það og gerði hann ennþá meira spennandi.
Leiðir okkar skildi þegar ég flutti suður og hann vestur á Ólafsvík og síðar á Ísafjörð. Við drukkum báðir brennivín ótæpilega en tókum upp þráðinn þegar af okkur rann og þau Álfhildur fluttu í Mosfellsbæinn.
Við rifjuðum þá upp gamla daga og náðum vel saman í músíkinni eins og forðum. Hér er partur úr ræðu sem ég flutti þegar við Hafliðamenn: Kjartan Ásmundsson, Kristján Elíasson, Guðbjörn Haraldsson og Leifur heitinn Jónsson, Erlingur Björnsson og Birgir Ingimarsson afhentum líkan af Hafliða SI-2 á Sigló á Síldarævintýri 2008:
„Bjössi var aðalhvatamaðurinn að stofnun félags um smíði líkans af Hafliða SI-2. Það fór heldur ekkert á milli mála þegar Hafliðamenn komu til þessa samkvæmis á vörubílspalli. Hugmyndin vaknaði þegar menn rifjuðu upp að áðurnefndur Björn Birgisson fékk þá snilldarhugmynd fyrir um það bil 40 árum um verslunarmannhelgi og engan leigubíl var að fá að hringja í Jóa Valda og fá þennan gamalreynda vörubílstjóra til að keyra sig um göturnar. Stássstofa Möggu og Birgis var hreinsuð af sófasetti, sófaborði og standlampa.
Björn og gestir hans áttu þarna góðan dag og eflaust þeir bæjarbúar sem horfðu undrandi á hersinguna syngja Önnu Láru og Bryndísi Báru, frænku hans og líka Lalla Blöndal.
En draumurinn hans Bjössa um líkan rættist öfugt við margan þann sem varð til um borð í Hafliða í den.“
Bjössi steig þar á stokk við afhendinguna á líkani Elliða 2012 og söng þá lagið sitt um Önnu Láru, Bryndísi Báru, frænku sína og Lalla Blöndal. Sem var hans einkennislag og mun halda nafni hans á lofti.
Eftir líkansmíðina breyttist þetta félag í kótelettufélag sem kemur saman á tveggja mánaða fresti og snæðir eðalmat og heldur herrakvöld einu sinni á ári.
Ég þakka Bjössa samfylgdina og allan hláturinn. Líka fyrir dimmu dagana og þunglyndið sem þjáði hann. Því án þeirra hefði ekki verið svona gaman að hlæja eftir á þegar sólin braust í gegn.
Við vottum svo Álfhildi og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Hafliðafélagið þakkar fyrir félagsskapinn, brandarana, vísurnar og músíkina. Þín verður minnst í hvert skipti sem við fáum okkur kótelettur.
Gunnar Trausti, aðalritari.
------------------------------------------------
Björn Birgisson rennismiður réðst til Véltækniskóla Tækniskólans haustið 2012 sem rennismíðakennari. Þó Björn gengi inn í nýtt og tiltölulega framandi umhverfi sem fræðari og samstarfsmaður ungmenna fann hann sig fljótt í starfi og ávann sér hylli nemenda með fjölbreyttri þekkingu og alltaf tilbúinn að útskýra verkefnin með skírskotun í fyrri reynslu og störf.
Þannig vildi hann bæði fræða nemendur og tengja dagleg störf í kennslustofunni við störfin sem bíða þeirra að námi loknu.
Björn var hugmyndaríkur og hafði ýmsar hugmyndir um hvernig hann vildi breyta og þróa kennsluna svo nemendur hefðu sem mest gagn af náminu.
Því miður entist honum ekki aldur til að hrinda þeim verkum öllum í framkvæmd.
Þó að Björn hafi átt við nokkur veikindi að stríða undanfarnar vikur kom okkur samstarfsfólki hans andlát hans mjög á óvart, enda var hann lífsglaður og vildi komast sem fyrst aftur til kennslu.
Fyrir hönd samstarfsfólks og nemenda vil ég þakka Birni samstarf og ánægjuleg kynni og votta Álfhildi, börnum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.
Egill Guðmundsson, skólastjóri.
-------------------------------------------------------
HINSTA KVEÐJA
Elsku afi minn.
Ég sakna þín rosalega mikið. Ég sakna hjálpsemi þinnar og kærleika. Og afi, þú
varst rosalega góður. En nú ert þú farinn á betri stað þar sem þú finnur enga verki. Takk fyrir allt, heimsins besti afi minn.
Kveðja, litla afastelpan þín, Múndarína,
Alexandra Ósk Gerðudóttir.
-----------------------------------------
Elsku langafi. Ég sagði við afa, að þó þú værir dáinn, þá yrði hann að
muna að hann ætti enn mömmu. Ég stappa í hann stálinu, langafi. Takk fyrir allt saman, við elskum þig, langafastrákarnir,
Tristan Máni og Eiríkur Natan.
-------------------------------------------
Elsku afi okkar. Takk fyrir músíkina, Lion King, vínberin, ísrúnta, óteljandi lygasögur, snúðana, faðmlögin, skutlið. Þú gafst okkur margar góðar minningar og varst frábær afi. Það hefur líklega vantað afa fyrir einhvern í himnaríki, það er líklega vöntun á góðum lygasögum, enda kann Guð ekki að ljúga, þú bætir úr því, afi.
Við sjáumst svo seinna, miklu seinna og lesum nýjan sagnabálk um beljur sem framleiða kókómjólk, skip sem eru svo stór að það þarf
geimferjur til að skipta um perur í mastrinu. Takk afi fyrir allt,
Þormóður Eiríksson og Björn Dagur Eiríksson.