Franz Jónatansson

Þriðjudagurinn 24. ágúst 1948 – Blaðið Siglfirðingur

I DAG er sjötíu og fimm ára Franz Jónatansson hér í bæ.

Franz er fæddur á Siglunesi 24.ágúst árið 1873, sonur hjónanna Jónatans Jónatanssonar og Guðnýjar Björnsdóttur, sem þar bjuggu þá búi sínu. Þau hjónin fluttust búferlum að Bæ á Höfðaströnd, þegar Franz var á fyrsta árinu og bjuggu þar til 1889. Hjá þeim að Bæ var Franz öll sín uppvaxtarár.

Hann giftist árið 1895 Jóhanna Gunnarsdóttir frá Vatni, og eignuðust þau hjónin þrjú börn, tvær dætur og einn son, sem fórst af slysförum. Dætur þeirra eru báðar giftar, Guðlaug Verónika er gift Eiði Sigurjónssyni á Skálá og Jóna Guðný er gift Kristjáni Sigfússyni, Rauðhóli. Þau Franz og Jóhanna, kona hans, bjuggu í tvö ár á Vatni, en fluttust þaðan að Garðhúsi við Höfðavatn, en svo nefndu- þau hjón nýbýli, er þau reistu sér, en þaðan fluttu þau til Málmeyjar og bjuggu þar í fjögur ár eða til 1914, að þau fluttu að Skálá. —

Franz Jónatansson - ókunnur ljjósmyndari

Franz Jónatansson - ókunnur ljjósmyndari

Meðan Franz var á Skálá var hann oddviti um fjögurra ára skeið, en annars var aðalstarf hans hvorki búskapur né oddvitastarfið. Hann hóf á unga aldri kennslustörf, sem hann starfaði áð af viðurkenndum dugnaði og samvizkusemi í um 40 ár. I fyrstu var hann farkennari, en síðar kenndi hann að Bæ og í Hofsósi og þá að Skálá og „heima í Málmey frá 1919", eins og hann sjálfur kemst að orði. Hann bjó nú í Málmey í 22 ár samfleytt eða til ársins 1941, að hann flutti hingað til Siglufjarðar.
----------------------------

Franz Jónatansson, bjó miklu búi í Málmey. Voru þar oftast 12—15 manns í heimilinu og hinn mesti rausnarbrag á öllum búrekstri. Hann bjó þar lengur en nokkur annar maður hefur gert, „og þar líkaði mér bezt", segir hann, „og það tekur mig sárt að sjá Málmey í eyði." Franz Jónatansson fékkst einnig við útgerð. Um tíma gerði hann út 2 þilbáta ásamt öðrum, en frá Málmey reri hann á vélbáti. Hann var og frábær og rómuð skytta.

Flestir Siglfirðingar hafa nokkuð kynnzt Franz þau sjö ár, er hann hefur dvalið hér í bænum, og vafalaust enginn að öðru en góðu. Hann er hvers manns hugljúfi og við allra vanda leysa. Engum má betur treysta fyrir málefnum sínum en honum, og hvert orð, er hann mælir stendur sem stafur á bók.

Hann er nú gamall að árum en ungur í anda. Hann fylgist með öllu því, er fram fer í þjóðmálum og heimsmálum og fellir réttmæta dóma, enda hinn greindasti og skarpskyggnasti maður. Franz dvelur nú hjá skyldfólki sínu í Skagafirði, og er ekki að efa, að margir munu óska honum gengis og gæfu á þessum merkisdegi, og miklu er sú þakkarskuld, sem „Siglfirðingur", og þar með Sjálfstæðismenn þessa bæjar, standa í við hann, vegna starfa hans var blaðið.

Það þakklæti verður ekki tjáð í orðum, en blaðið óskar honum þó aUra heilla og langra og góðra lífdaga. Og sér óskar það þess, að hans trúverðuga starfs megi sem lengst njóta við.
---------------------------------------------

Ég man vel eftir þessum hressilega karli, sem var dyravörður við svalirnar í Nýja Bíó í mörg ár hjá Thorarensen - (þá var ég unglingur, raunar barn) Frans var smár en þéttvaxinn, hann var með "stalínskegg", sem ég held þó að hafi ekki á neinn hátt tengst pólitík. Góður karl og barngóður.
Steingrímur Kristinsson