Aðalheiður Lovísa Rögnvaldsdóttir

Aðalheiður Rögnvaldsdóttir fæddist á Siglufirði 18. apríl 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Siglufirði 28. október 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin
Rögnvaldur Guðni Gottskálksson frá Dalabæ í Úlfsdölum við Siglufjörð, f. 1893, d. 1981, og Guðbjörg Kristín Aðalbjörnsdóttir frá Máná í Úlfsdölum við Siglufjörð, f. 1903, d. 1977.

Bræður Heiðu voru:

  • Jóhann Rögnbvaldsson, f. 1922, d. 1994,
  • Gottskálk Rögnvaldsson, f. 1927, d. 2015,
  • Aðalbjörn Rögnvaldsson, f. 1929, d. 2010, og
  • Meyvant Rögnvaldsson, f. 1933, d. 1991.

Heiða bjó alla tíð á Siglufirði. Hún starfaði við skrifstofu- og verslunarstörf. Hún var umboðsmaður HHÍ til fjölda ára.

Heiða var á sínum yngri árum mikið á skíðum og tók þátt í mörgum skíðamótum og hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum. Einnig var hún lengi í stjórn SSS. Þá tók hún mikinn þátt í starfi Sjálfsbjargar á Siglufirði.

Aðalheiður Rögnvaldsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

Aðalheiður Rögnvaldsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

Hún hafði líka mjög gaman af að spila á harmonikku.

Útför hennar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 9. nóvember 2019, klukkan 14.

Við andlát Heiðu er mér efst í huga þakklæti fyrir allar þær frábæru viðurgerningar sem ég og við hjónin nutum hjá Heiðu og Nýju. Þær höfðu rekið verslun saman og eftir lát Magnúsar, föðurbróður míns, Viðars og Magnúsar yngri, en þeir létust allir á sama árinu, hafði Heiða reynst Nýju ómetanlegur stuðningur og þær flutt saman í nýja notalega íbúð á Laugarveginum.

Það var hefð hjá okkur í mörg ár að fara til berja í Fljótin og gistum þá ævinlega hjá þeim stöllum. Það var glatt á hjalla og ekki höfðum við dvalið lengi þegar Árni, frændi Heiðu, kom til að bjóða okkur velkomin og spyrja frétta. Þetta var alveg einstakt samfélag. Ekki spillti fyrir þegar Heiða tók í nikkuna. Hún kom meira að segja með harmonikkufélaga sína í heimsókn í Heydalinn til mín þegar við vorum að hefja rekstur. Þá mátti með sanni segja að þröngt máttu sáttir „sofa“ en stemmningin var ógleymanleg.

Mér er sérstaklega í minni þegar við Pálmi áttum 20 ára brúðkaupsafmæli. Við vorum að koma af Landsmóti UMFÍ á Akureyri og ákváðum að ganga frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð í yndislegu veðri. Þegar við komum til baka beið okkar dýrindis veisluborð. Já, það var yndislegt að koma í Siglufjörð.

Mjög forvitnilegt hefur verið að fylgjast með breytingum bæjarins. Siglufjörður, sem fyrrum iðaði af síldarvinnslu yfir sumarið og aðeins var hægt að nálgast sjóleiðina yfir veturinn, hefur þróast í bæ sem fengið hefur nýja, glæsilega ásjónu og nýtt hlutverk. Þróun sem ég veit að Heiða gladdist yfir.

Blessuð sé minning Heiðu sem lét sér annt um svo marga.

Stella Guðmundsdóttir.
--------------------------------------

HINSTA KVEÐJA
Elsku Heiða mín.
Þú varst svo góð kona, bakaðir góðar pönnukökur. Þú varst mér svo góð og kenndir mér margt og mikið.

Takk fyrir allt gamalt og gott.
Þinn vinur og frændi,
Árni Heiðar.