Bergsveinn Sigurðsson

Bergsveinn Sigurðsson fæddist á Ísafirði 21. apríl 1936. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 31. ágúst 2001.

Foreldrar Bergsveins voru Sigurður Pétursson, f. á Vatnsleysu í Gullbringusýslu 20. des. 1904, d. 1986, og Björg Sigríður Bergsveinsdóttir, f. á Ísafirði 17. feb 1911, d. 1958.

Bergsveinn ólst upp á Siglufirði hjá móðursystur sinni Ólína Bergsveinsdóttir og manni hennar Sigurður Sveinsson.

Bergsveinn átti tvo bræður,

 • Halldór og
 • Sigurð Einar, sem er látinn.
  Uppeldissystur hans eru
 • Lilly, Gunnhildur og
 • Nanna Björg.
  Hálfsystkini Bergsveins, samfeðra, eru
 • Guðlaug,
 • Sveinn,
 • Pétur,
 • Agnes og
 • Gunnar.
Bergsveinn Sigurðsson - ókunnur lósmyndari

Bergsveinn Sigurðsson - ókunnur lósmyndari

Hinn 21. september 1957 gekk Bergsveinn að eiga Kristín Ruth Jónsdóttir, f. 28. maí 1937. Foreldrar hennar voru Jón Pálsson, f. 3. maí 1913, d. 1986, og Sigríður Ingibjörg Kristinsdóttir, f. 23. ágúst 1905, d. 1973.

Börn Bergsveins og Kristínar Ruthar eru

1) Inga Jóna Bergsveinsdóttir,
 f. 22. des 1954, maki Steindór Guðmundsson, þeirra synir eru
 • Guðmundur Stefán og
 • Sigurður Páll. 
2) Guðrún Ólína Bersveinsdóttir
, f. 5. ágúst 1957, maki Guðmundur Ragnar Ólafsson, börn þeirra eru
 • Bergsveinn,
 • Steinunn Rut og
 • Ólafur Andrés. 
3) Jón Bergsveinsson,
f. 8. des. 1960, maki Ásdís Árnadóttir, þeirra börn eru
 • Sigurlaug,
 • Kristín Rut og
 • Árni Pétur. 
4) Björg Bersveinsdóttir
, f. 12. maí 1962, maki Eggert Dagbjartsson, þeirra börn eru
 • Nína Ruth,
 • Baldur Þór og
 • Hrafnhildur Sif. 
5) Bergsveinn Sigurður Bergsbeinsson
, maki Gígja Hrönn Eiðsdóttir, dætur þeirra eru
 • Katrín Erla og
 • Björg.

Bergsveinn var með meistarapróf í vélvirkjun. Hann starfaði við vélvirkjun í vélsmiðjunni Dynjanda um nokkurt skeið og síðan í vélsmiðjunni Kletti í Hafnarfirði á árunum 1960-1967, þar sem hann gegndi jafnframt verkstjórastöðu. Hann höf störf sem yfirverkstjóri Áhaldahúss Hafnarfjarðar 1967 og starfaði þar í rúm 30 ár.

Árið 1997 tók hann við starfi stöðvarstjóra Hreinsistöðvar Hafnarfjarðar, sem hann gegndi til síðasta dags. Bergsveinn var í stjórn Verkstjórafélags Hafnarfjarðar frá 1968-1993, ritari félagsins á árunum 1972-1983 og formaður frá 1983 til 1993.

Hann var gerður að heiðursfélaga Verkstjórafélags Hafnarfjarðar á 60 ára afmæli félagsins 2. desember síðastliðinn. Bergsveinn var í fjórtán ár í stjórn Verkstjórasambands Íslands, þar af var hann átta ár ritari og sat í samninganefnd VSSÍ í átta ár.

Árið 1988 var hann sæmdur gullmerki sambandsins á 50 ára afmæli þess. Hann var í stjórn lífeyrissjóðs verkstjóra samfleytt frá 1981-1996. Bergsveinn söng með Karlakórnum Þröstum í mörg ár og var einn af aðalhvatamönnum að stofnun Kórs eldri Þrasta, sem hann söng einnig með.

Útför Bergsveins fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði á morgun, mánudaginn 10. sept., og hefst athöfnin klukkan 13.30.

"Einstakur" er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. "Einstakur" lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. "Einstakur" á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. "Einstakur" er orð sem best lýsir þér. (Terri Fernandes.)

Það var mikið áfall þegar Bergsveinn greindist með krabbamein seinnipart síðastliðins vetrar og hófst þá erfið barátta. Hann stóð eins og klettur meðan stætt var og tók hverju áfallinu af öðru með æðruleysi og kjarki.

Bergsveinn hafði rólegt yfirbragð. Hann var hávaxinn og myndarlegur. Hann var mikið snyrtimenni, hafði yndi af að sýsla við hluti og var mjög laghentur. Það var mikið sem hann var búinn að dytta að og byggja upp fyrir austan í "Kotinu", en þar höfðu þau hjónin byggt upp lítinn unaðsreit þar sem þau undu sér vel yfir sumartímann.

Ef einhver stóð í framkvæmdum í fjölskyldunni var gott að leita til hans með ráðleggingar og var hann boðinn og búinn að rétta fram aðstoð og hjálpa til við að leysa úr vandamálum. Er skemmst að minnast á húsbyggingu í fjölskyldunni sem hann fylgdist með af áhuga í veikindunum og kom í reglulegar eftirlitsferðir meðan heilsan leyfði. Barnelskur var hann og hafði gaman af að gefa barnabörnunum smá nammi og snúast í kringum þau. Ég minnist jólaboðanna hér áður fyrr þegar afi lumaði á glaðningi í poka í formi smá pakka til hvers og eins.

Hann var vakinn og sofinn yfir velferð sonar míns sem hann var óþreytandi að leika við ásamt því að útbúa sérútbúna leikhluti til að auðvelda leikinn og gera hann skemmtilegri.

Ég kveð Bergsvein tengdaföður minn með hlýjum huga og vil að leiðarlokum þakka honum samfylgdina. Blessuð sé minning hans.

Ásdís.
-------------------------------

Kæri Bergsveinn.

Því miður náðum við ekki að kynnast eins vel og ég hefði viljað en okkar tengsl voru og eru í gegnum fólk sem þótti afskaplega vænt um þig. Þú varst ljós í lífi þeirra og í návist þinni fundu þau huggun og hlýju vitandi að vegna þín væri heimurinn betri staður. Hér er ég að tala um dóttur þína og börnin mín þrjú, sem öll litu mjög upp til þín.

Ég vildi að þú hefðir ekki farið svona fljótt frá okkur, því ég hafði gert ráð fyrir þér hér með okkur og það getur enginn komið í þinn stað. Ég hefði átt að segja þér þetta allt fyrr. Ég vildi líka að ég hefði þakkað þér fyrir þinn hlut í að koma Björgu inn í þennan heim. Hún er stærsta uppspretta hamingju minnar og án þín væri hún ekki hér og ég væri fátækari fyrir vikið.

Ég veit að ég ætti í raun að kveðja þig með orðunum "hvíldu í friði" en það ætla ég ekki að gera. Í staðinn vona ég að þú sért á betri stað núna þar sem þú getur litið eftir okkur við og við. Okkur þætti vænt um að þú heimsæktir okkur þegar þú heldur að við þurfum á ráðleggingum og aðstoð að halda. Þú ert ávallt velkominn í heimsókn.

Þinn tengdasonur, Eggert Dagbjartsson.
----------------------------------------

Elsku afi, mikið finnst mér leiðinlegt að þú sért farinn frá okkur og við hittum þig ekki aftur. Mér fannst svo gaman að koma í heimsókn á sunnudögum að leika við þig og fá smánammi. Þú smíðaðir þetta flotta mark handa mér sem við höfðum uppi á borði og svo lékum við okkur í handbolta í hvert sinn sem ég kom.

Takk fyrir allt, elsku besti afi. Árni Pétur.
----------------------------------------------------

Nú ertu farinn og það er svo ofboðslega skrítið. Við vitum að þér líður betur þar sem þú ert núna. En það er bara svo erfitt að sætta sig við það að fá aldrei að sjá þig aftur.

Við viljum þakka þér, elsku afi, fyrir allt það sem þú hefur kennt okkur og gert fyrir okkur. Þú varst alltaf svo góður við okkur öll og aldrei var langt í grínið hjá þér. Við munum aldrei gleyma því þegar þú keyrðir með okkur á pallbíl niður Strandgötuna, eldsnemma á laugardagsmorgni, syngjandi afmælissönginn til Nonna.

Við söknum þín sárt, elsku besti afi. Sofðu rótt.

Rut og Ólafur.
--------------------------------------

Elsku afi minn. Núna þegar þú ert fallinn frá og kominn á annan stað langar mig til að kveðja þig með nokkrum línum. Þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gefið mér, þær stundir sem við höfum átt saman, þann styrk sem þú hefur veitt mér frá því að ég var smástrumpur og þá alúð sem þú hefur ávallt sýnt mér.

Einhvern veginn veit ég, afi minn, að þú átt alltaf eftir að vaka yfir mér og leiðbeina mér því það hefur þú gert síðan ég fæddist. Ég á aldrei eftir að geta þakkað þér nóg fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir mig í gegnum tíðina en minninguna um þig mun ég varðveita innst í hjarta mér og ég mun aldrei gleyma þér.

Er það mín heitasta ósk af öllum að þú njótir verndar guðs almáttugs á þeim stað þar sem þú ert núna gegn þeim meinum sem hrjáðu þig hér á jarðríki undir lokin. Það að vita að þér líði vel og sért umvafinn ást og hlýju æðri máttar gerir mér kleift að brosa og hugsa til þín með hlýju í hjarta.

Vertu bless, elsku afi minn.

Þinn Bergsveinn.
-----------------------------------------

Góður vinur og fyrrverandi samstarfsmaður hjá Hafnarfjarðarbæ, Bergsveinn Sigurðsson, er fallinn frá á besta aldri eftir harða og snarpa baráttu við hinn illvíga sjúkdóm sem krabbameinið er.

Þeir eru sennilega fáir, Hafnfirðingarnir sem komnir eru til vits og ára, sem þekktu ekki til þessa háa og myndarlega manns, sem stýrði áhaldahúsi bæjarins með miklum skörungsskap um áratugaskeið. Hann átti samskipti við þúsundir bæjarbúa á þessum árum. Að vera í forsvari til margra áratuga fyrir rekstri fjölþættrar þjónustustofnunar eins og áhaldahúsið er reynir á skipulagshæfileika, frumkvæði og dugnað.

Og af þessum eiginleikum hafði Bergsveinn nóg. Fastir starfsmenn áhaldahússins skiptu fleiri tugum, og enn fleiri yfir sumarmánuðina, og verksviðið var býsna breitt - gerð og viðhald gatna, framkvæmdir við og umsjón með vatnsveitu og holræsakerfi, stjórn fegrunarframkvæmda af ýmsum toga, framkvæmd snjómoksturs, viðhald og eftirlit með mannvirkjum í eigu bæjarfélagsins, auk smárra og stórra viðvika fyrir bæjarbúa og atvinnufyrirtæki í bænum.

Af þessari upptalningu, sem er engan veginn tæmandi, má því ljóst vera að starfssvið Bergsveins og samstarfsmanna hans í áhaldahúsi bæjarins snerti í raun velflest þau svið, sem lúta að almennri grundvallarþjónustu við íbúa eins bæjarfélags. Og þessi fjölþættu verkefni léku í höndum Bergsveins. Hann þekkti vel til staðhátta í bænum og jafnframt til þarfa bæjarbúa og þeir á sama hátt til hans traustu og góðu starfa.

Vafalaust var Bergsveinn Sigurðsson ekki alltaf allra. Hann gat verið býsna fastur fyrir, ef því var að skipta, jafnvel þrjóskur, eins og dugnaðarforka er stundum háttur. Hann vildi láta hlutina ganga fram hratt og örugglega og án útúrdúra. En sanngirnin var honum jafnframt í blóð borin.

Við sem þessum línur ritum áttum þess báðir kost að vera yfirmenn Bergsveins á stóli bæjarstjóra á árunum 1986-1998. En þó öllu fremur samstarfsmenn, því samskipti bæjarstjóra og yfirverkstjóra áhaldahússins á þessum árum lutu aldrei hinum formlegu lögmálum yfirmanns og undirmanns. Menn ræddust við á jafnréttisgrundvelli. Þar var á ferðinni gagnkvæmt traust sem þróaðist í vináttu.

Við fundum það báðir, að Bergsveinn hafði full tök á þeim verkefnum sem á hans könnu voru, hann hafði jákvæðan metnað fyrir áhaldahúsinu, var annt um karlana sína og gerði sér jafnframt glögga grein fyrir mikilvægi góðra samskipta við bæjarbúa. Hann gætti þess einnig í hvívetna að halda kostnaði niðri við þau verkefni sem í var ráðist. Það reyndi því aldrei á boðvald okkar bæjarstjóranna yfir þessum undirmanni. Bergsveinn einfaldlega hófst handa við verkefnin, þegar um þau hafði verið tekin ákvörðun, og lauk þeim hratt og vel. Það var gott að eiga Bergsvein að.

Bergsveinn var mikill fjölskyldumaður. Honum var annt um fólkið sitt. Eiginkona hans, Ruth Jónsdóttir, var honum kær eins og börnin fimm, Ólína, Jón, Björg, Bergsveinn og Inga Jóna, sem og makar þeirra og barnabörn. Þeirra missir er mikill og sár. Þeim og öðrum ástvinum Bergsveins Sigurðssonar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

En minningin um góðan mann lifir áfram.

Guðmundur Árni Stefánsson, Ingvar Viktorsson.
----------------------------------------

Elsku afi. Það verður skrítið að koma til Íslands og enginn afi til að heimsækja á sjöundu hæðinni, enginn afi til að skreppa með okkur út í sjoppu og enginn afi til að fara með í vinnuna. Það var svo gott að vera nálægt þér. Þú sást ávallt jákvæðu hliðarnar á málunum og alltaf tilbúinn að grínast með hlutina.

Elsku afi okkar, við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér en við hefðum viljað fá að hafa þig lengur hérna hjá okkur. Við munum sakna þín.

Nína Ruth, Baldur Þór og Hrafnhildur Sif.
----------------------------------------

Það húmar að kvöldi og sumri tekur að halla. Söngur fuglanna er ekki jafnþróttmikill og áður og blómin eru sum hver farin að drúpa höfði í mánaskini síðsumarsins. Já, víst líður sumarið alltaf of skjótt. Og lífið sjálft líður á stundum fram í takt við árstíðirnar. Við tökumst á við verkefni hvers dags full eftirvæntingar og reynum hvert á sinn hátt að njóta stundarinnar í leik og starfi. En lífið er hverfult. Andlátsfregn berst.

Bergsveinn Sigurðsson verkstjóri er allur. Stuttu en snörpu veikindastríði er lokið. Komið er að kveðjustund. Hafnarfjarðarbær kveður nú einn sinn traustasta starfsmann. Bergsveinn Sigurðsson var yfirverkstjóri í Áhaldahúsi Hafnarfjarðar í áratugi. Þar fór Bergsveinn fremstur í flokki. Traustur og vandaður yfirmaður sem naut hylli samstarfsmanna og þeirra sem þurftu á þjónustu Áhaldahússins að halda.

Öflugt og ört stækkandi bæjarfélag þarf að hafa í þjónustu sinni gott starfsfólk. Á nóttu sem degi var Bergsveini og mönnum hans treyst til margvíslegra þjónustustarfa í þágu bæjarfélagsins, og þegar annasömum starfsferli lauk í Áhaldahúsi Hafnarfjarðar tók hann að sér að hafa yfirumsjón með hreinsistöð bæjarins við suðurbakka hafnarinnar.

Öllum sínum störfum fyrir Hafnarfjarðarbæ sinnti hann af miklum dugnaði og samviskusemi. Fyrir það er þakkað. Bergsveinn Sigurðsson giftist ungur Kristínu Ruth Jónsdóttur og duldist engum að þar fóru samhent hjón sem lögðu sig fram um að rækta garðinn sinn. Börnin uxu úr grasi, barnabörn komu í heiminn hvert af öðru og stórfjölskyldan var samhent í leik og starfi. Ferðir Bergsveins og Ruthar í fagra sunnlenska sveit verða ekki fleiri en megi minningar liðins tíma verða fjársjóður þeim sem syrgja. Ruth mín, megi góður guð styrkja þig og fjölskyldu þína á þessari sorgarstundu.

Far í friði, vinur.

Magnús Gunnarsson bæjarstjóri.
---------------------------------------------------------

Kveðja frá Verkstjórafélagi Hafnarfjarðar

 • "Einstakur" er orð
 • sem notað er þegar lýsa á
 • því sem engu öðru er líkt,
 • faðmlagi
 • eða sólarlagi
 • eða manni sem veitir ástúð
 • með brosi eða vinsemd.
 • "Einstakur" lýsir fólki
 • sem stjórnast af rödd síns hjarta
 • og hefur í huga hjörtu annarra.
 • "Einstakur" á við þá
 • sem eru dáðir og dýrmætir
 • og hverra skarð verður aldrei fyllt.
 • "Einstakur" er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandes.)

Bergsveinn Sigurðsson gerðist félagi í Verkstjórafélagi Hafnarfjarðar árið 1967. Hann var kosinn í stjórn árið 1968. Kosinn ritari félagsins 1972 og sinnti því til ársins 1983. Formaður var hann frá 1983 til 1993. Alls sinnti hann því stjórnarstörfum fyrir félagið í 25 ár.

Jafnframt stjórnarsetu vann hann mörg trúnaðarstörf fyrir félagið.

Sat hann í stjórn verkstjórasamtakanna sem varamaður í tvö ár og aðalstjórnarmaður í 12 ár. Hann var gerður að heiðursfélaga Verkstjórasambands Íslands á 50 ára afmæli þess 1988. Hann var gerður að heiðursfélaga Verkstjórafélags Hafnarfjarðar á 60 ára afmæli félagsins 2. desember sl.

Stjórn og félagar Verkstjórafélags Hafnarfjarðar kveðja góðan vin og félaga. Bergsveinn var réttlátur, víðsýnn og rökfastur stjórnandi. Hann var úrræðagóður og virkur í félagsstarfi í Verkstjórafélagi Hafnarfjarðar og Verkstjórasambandi Íslands.

Það var ekki síst fyrir hans tilstilli að farið var út í að byggja upp sumarbústað á Knappstöðum í Fljótum og í Svartagili í Borgarfirði. Þeir félagar sem unnu þetta uppbyggingastarf með honum og seinna undir hans stjórn fylltust með honum slíkum eldmóði að ekkert virtist ómögulegt, vandamál eru einfaldlega til þess að leysa þau. Við þökkum góðum félaga samferðina og biðjum góðan Guð að geyma hann.

Kæra Ruth, Guð blessi þig og fjölskylduna og gefi ykkur styrk í sorginni.

Steindór Gunnarsson formaður.
--------------------------------------------------------

Ævidegi vinar okkar, Bergsveins, er lokið.

Hans er einlæglega saknað vegna mannkosta hans og góðrar nærveru af fjölda fólks sem hefur gengið með honum lífsbrautina.

Hann var afbragðs heimilisfaðir, sérlega greiðasamur og hlýr í viðmóti og hugsaði fyrst og fremst um velferð samferðafólks og ekki síst þeirra sem minna mega sín. Í meira en fjörutíu ár höfum við hjónin átt samleið með honum og hans fjölskyldu, bæði í leik og starfi, og alltaf var hann sami góði og velviljaði vinurinn.

Nú við þessi tímamót rifjast svo margt upp, margar glaðar stundir frá því við vorum ung að byrja að búa við lítil efni en því meiri bjartsýni og gleði. Þá unnu Kjartan og Bergsveinn saman í járnsmiðjunni Kletti og við Ruth vorum saman í saumaklúbb.

Þeir unnu einnig saman á Seyðisfirði og gátu rifjað upp þessi ár með góðum vinum endalaust og hlógu alltaf jafn mikið.

Síðast unnu þeir saman hjá Hafnarfjarðarbæ í sex ár en Bergsveinn var þar verkstjóri yfir þrjátíu ár.

Bergsveinn og Ruth voru afar náin og samheldin og bjuggu sér frá fyrstu tíð fallegt heimili.

Það var sama hvar þau bjuggu, alltaf var snyrtimennska og góður heimilisbragur það sem einkenndi heimili þeirra.

Við söknum mikið góðs vinar en erum þakklát fyrir minningarnar.

Við sendum allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í þungri sorg.

Lóa og Kjartan, Ásdís.