Bjarni Jóhannsson

Bjarni Jóhannsson f. 10 október 1910 - d. 28. júní 1970

Þegar ég í fjarlægð frétti hið sviplega fráfall Bjarna Jóhannssonar útsölustjóra, komu mér fyrst í hug orðin: Óhamingju Íslands verður allt að vopni. Það var Siglufjörður er fyrst kom í huga minn og þeir miklu erfiðleikar, sem Siglfirðingar hafa orðið að glíma við á síðustu árum.

Mér fannst, eins og þeim, er um hafði tilvitnuð orð um Ísland, að „óhamingja" Siglufjarðar hefði þegar fengið næg vopn, þótt ekki bættist við, að burtu væri svipt, fyrir aldur fram, þeim úr framvarðarsveit í vörn og sókn Siglufjarðar, sem enn stóðu þar báðum fótum; ódeigur, bjartsýnn og úrræðagóður á hverju sem gekk. En því skyldi svo mælt á tungu tilfinninganna.

Hafði ekki Bjarni Jóhannsson með störfum sínum hér í Siglufirði, um 35 ára skeið, lag það mikið af mörkum fyrir samborgara og bæjarfélag, að aðrir höfðu ekki betur að unnið, og meira var en mátti krefjast. Jú, rótt er það, en þörfin er svo mikil og mannvalið svo fátt, af mönnum eins og Bjarna, að erfitt er að sætta sig við mannskaðann á skjótan hátt.

Bjarni Jóhannsson

Bjarni Jóhannsson

En sízt myndi það að skapi Bjarna vinar míns að sýta og kvarta, heldur safna liði og starfa, því merkið stendur þótt maðurinn falli, og lífið heldur sinn gang. — Og svo mundi Bjarna bezt þakkað, að þeir, sem nú taka við störfum hans, á hvaða vettvangi sem er, störfuðu að þeim með réttsýni, bjartsýni og dugnaði Bjarna, sem öllu vildi til vegs koma, er mátti verða samborgurunum og Siglufirði til framdráttar.

Ég mun ekki hér rekja ætt Bjarna, æviferil eða einstök störf. Það mun gert á öðrum vettvangi, sem verðugt er. Þessi fáu orð eru aðeins kveðja mín og annarra samherja Bjarna hér í Siglufirði. Konu Bjarna, Guðlaugu Þorgilsdóttur, þakka ég hennar góða hlut í störfum manns hennar og stuðning við hin mörgu góðu málefni, er hún lagði mikið að. Eg bið henni, fjölskyldu þeirra Bjarna, svo og öllu ættfólki, Guðs blessunar.

Jóhann Þorvaldsson
------------------------------------------------

Morgunblaðið - 05. júlí 1970

Bjarni Jóhannesson fyrrv. bæjarfulltrúi MÖRG skörð hafa verið höggvin í raðir Siglfirðinga liðin missiri og margur þurft að mæta sorg og hugarangri. Og enn megum við sjá á bak vini, sem kallaður var óvænt, á góðum starfsaldri, Bjarna Jóhannssyni, fyrrv. bæjarfulltrúa, einum traustasta og bezta borgara bæjarins.

Bjarni Jóhannsson var fæddur að Auðkúlu í Arnarfirði 10. október 1910, sonur hjónanna Bjarneyjar Friðriksdóttur og Jóhanns Jónssonar.

Sama árið og Bjarni kvæntist eftirlifandi konu sinni, frú Guðlaugu Þorgilsdóttur frá Fróð á í Snæfellssýslu, 1934, flytzt hann til Siglufjarðar og hér hafa þau átt heima síðan.
Bjarni Jóhannsson réðst hingað, sem yfirlögregluþjónn og gegndi því starfi fram á sumar 1947, er hann tók við forstjórastarfi Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins hér, en því starfi gegndi hann meðan ævin entist.

Bjarni Jóhannsson var kjörinn í bæjarstjórn Siglufjarðar 31. janúar 1954, síðan 27. maí 1962 og 22. maí 1966 og sat hann í bæjarstjórn til síðustu bæjarstjórnarkosninga, samtals 215 bæjarstjórnarfundi. Jafnframt átti hann sæti í fjölmörgum nefndum bæjarstjórnar. Var hann í bæjarmálastarfi sínu, sem og í öðrum störfum, ráðhollir og traustur, og naut virðingar og vináttu allra, sem með honum störfuðu eða höfðu við hann einher samskipti. Bjarni heitinn var og meðlimur ýmissa félagasamtaka hér í bæ og hvarvetna sami drengurinn, hjálpfús og starfssamur.

Með honum var gott að dvelja, bæði í gleði og alvöru þessa lífa. Ég átti margháttað samstarf við Bjarna heitinn Jóhannsson, bæði á vettvangi bæjarmála, og innan félagasamtaka, sem báðir voru í, mat hann mjög mikils og á honum mikið að þakka. Siglufjörður hefur mikið misst, er Bjarni Jóhannsson er allur, og bæjarbúar þakka honum störfin öll, er hann vann fyrir Siglufjörð, og ekki síður þá viðkynningu, sem seint mun gleymast.

Við vottum ástvinum hans, eftirlifandi konu og kjörbörnum, samúð í sorg þeirra, og biðjum Bjarna Jóhannssyni blessunar og velferðar á nýjum slóðum. Megi þar skína sól ofar Hólshyrnu, fjöll speglast í sléttum sjávarfleti á lognkyrrum sumardögum og minna á bæinn hans og okkar, fjörðinn, sem hann unni og hefur nú lagzt til hvílu í.

Stefán Friðbjarnarson.
-------------------------------------------------------

Þjóðviljinn - 04. júlí 1970

Bjarni Jóhannsson Siglufirði  - Fæddur 10. okt. 1910 — látinn 28. júní 1970

Þegar mér barst sú fregn að Bjarni Jóhannsson, útsölustjóri Áfenigisverzlunar ríkisins, Eyrargötu 25 Siglufirði, væri dáinn, brá mér ónotalega við. Við vorum búnir að þekkjast í tugi ára, starfa saman að ýmsum sameiginlegum áhugamálum um árabil o.s.frv.

Á milli okkar hafði verið ágætur kunningsskapur sem jókst eftir því sem árin liðu, Við voruna andstæðingar í pólitík og ræddum oft um þau mál, án þess að um deilur væri að ræða. Við vissum það báðir að þar varð engu um, þokað á hvorugan mann. Bjarni heitinn Jóhannsson var frekar frjálslyndur í skoðunum. Á mannfundum hélt hann vel og skörulega á þeim málum sem hann beitti sér fyrir.

Hann var laus við að bera órökstuddar getsakir á menn og málefni. Framkoma Bjarna á mannfundum var á margan hátt til fyrirmyndar. Bjarni Jóhannsson var mikill unnandi íslenzkrar náttúru. Fögur og tignarleg fjöll, fossar í fögru umhverfi og fagrar sveitir heilluðu hann, enda lífsskoðanir hans meira tengdar sveit en bæ.

Eftir að ég hætti störfum hjá verkalýðsfélögunum og afskiptum  af opinberum málum gafst betri tími til að sinna ýmsum þeim málum öðrum sem ég hafði áhuga á en hafði af skiljanlegum ástæðum ekki getað starfað að nema að litlu leyti. Um flest slík mal vorum við Bjarni sammála, og gerði það kunningsskap okkar nánari en áður fyrr. Ég var eins og hann alltaf hálfgerður sveitamaður og undi mér hvergi betur en í sveit í fögru umhverfi. Bjarni var, mikill áhugamaður um veiðiskap í ám og vötnum, enda mikill laxveiðimaður og hafði mikla ánægju af slíku.

Ef maður leit inn til hans meðan á veiðitímabilinu stóð, var oft spurt: Hefurðu ekki farið inn í Fljótá? Ég á dag á morgun. Þú getur komið með; við veiðum bara, í félagi. Ég var mesti klaufi við veiðar, fékk aldrei nema silungsbröndu. En Bjarni, fékk oftast lax. Þegar veiði var hætt var skipt til helminga og ríflega það. Það var ekki spurt um það hvar hefði veiddi fiskinn. Bjarni Jóhannsson var myndarmaður að vallarsýn.

Hann var drengur góður og vildi hvers manns vandræði leysa sem til hans leitaði, en þeir  voru víst æði margir, enda maðurinn vel látinn af öllum sem þekktu hann bezt. Heimsóknir mínar og konu minnar á heimili þeirra hjóna, Bjarna og Guðlaugar, eru okkur ógleymanlegar. Þar réði gestrisni og skemmtileg framkoma húsbændanna beggja öllu um. Og nú, þegar Bjarni Jóhannsson er allur, færum við honum bezta þakklæti fyrir góða samfylgd og þó alveg sérstaklega fyrir margskonar greiða okkur til handa, meðal annars við: flutning okkar frá Siglufirði.

Ferð Bjarma Jóhannssonar yfir móðuna miklu er lokið. Hvað þar hefur tekið við er mér ráðgáta sem ég tel mig ekki færan um að leysa úr. Við sendum eftirlifandi konu hans, Guðlaugu Þorgilsdóttur, börnum þeirra og öðrum venzlamönnum og vinum okkar, innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar S. Jóhannsson.
------------------------------------------------------------  

Mjölnir - 24. júlí 1970

Siglufjörð hinn 28. júní s. l., að Bjarni Jóhannsson útsölustjóri væri látinn, mun flesta hafa sett hljóða. Að vísu vissu margir, að hann var ekki heill heilsu. En samt virtist það ótrúlegt, að þessi hraustlegi, glaðværi og drengilegi maður væri allt í einu horfinn af sviðinu.

Ég kynntist ekki Bjarna að neinu ráði fyrr en við urðum samstarfsmenn í minnihluta bæjarstjórnar Siglufjarðar 1962. Eftir það ræddumst við of t við og fór oftast vel með okkur. Bjarni var mikill flokksmaður, og hélt vel á málstað síns flokks og varð gott til fylgis. Samt held ég, að fortölur og áróður hafi ekki aflað honum stuðningsmanna umfram marga aðra, en hinsvegar hafi margir átt erfitt með að standast persónuleika hans.

Oft urðu deilur í bæjarstjórn inni þessi ár, sem við störfuðum þar saman, stundum talsvert harkalegar. Sjaldan kom þó fyrir, að Bjarni lenti í illvígum deilum, og hélt hann þó jafnan fast á sínum málstað. Ekki var þó orsökin sú, að hann væri svo illskeyttur, að menn veigruðu sér við að deila við hann af þeirri ástæðu; þvert á móti, hann flutti sitt mál alltaf af drengskap og heiðarleika.

Ástæðan mun einfaldlega hafa verið sú, að öllum var persónulega hlýtt til hins vingjarnlega, greiðvikna og skemmtilega félaga. Hér verður ekki rakinn æviferill Bjarna né störf hans hér í bænum, enda hafa önnur blöð gert það. Tilgangur þessara orða er aðeins sá, að þakka við vegamótin ánægjulega samfylgd og votta eftirlifandi konu hans, Guðlaugu Þorgilsdóttur og börnum þeirra, innilegustu samúð.

B. S.  -- (Benedikt Sigurðsson: sennilega)