Bjarni Marinó Þorsteinsson

Bjarni Þorsteinsson fæddist á Rangárvöllum við Akureyri 12. mars 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 17. júní 2006-  

Foreldrar hans voru Sigurbjörg Bjarnadóttir, f. á Hlíðarhaga í Eyjafirði 7. september 1888, d. 30. desember 1932, og Þorsteinn Helgason, f. á Gröf í Kaupangssveit í Eyjafirði 5. júlí 1886, d. 22. júní 1970.

Árið 1926 fluttist Bjarni með foreldrum sínum og systkinum frá Rangárvöllum að Stóra-Holti í Fljótum þar sem hann ólst upp.

Hálfsystkini Bjarna samfeðra eru

 • Þuríður Helga, f. 1912, d. 1996,
 • Steingrímur, f. 1915, d. 1997, og
 • Sigríður, f. 1918, d. 1995.
  Móðir þeirra var María Guðmundsdóttir, f. 1885, d. 1921.
Bjarni Þorsteinsson

Bjarni Þorsteinsson

Árið 1947 hóf Bjarni sambúð með Fjólaa Guðfríður Þorsteinsdóttir frá Vatni á Höfðaströnd í Skagafirði, f. 10. ágúst 1925, d. 21. ágúst 2002.
Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir frá Skúfsstöðum í Hjaltadal og Þorsteinn Helgason frá Læk í Viðvíkursveit.

Börn Bjarna og Fjólu eru:

1) Sigurbjörg Bjarnadóttir,
Börn þeirra eru:
f. 2. janúar 1948, gift
Trausti Sveinsson
 f. 29. janúar 1943.
A) Bjarni Heimir Traustason, f. 1966, kvæntur Sigríði Sóleyju Kristinsdóttur,
þau eiga þrjú börn,
 • B) Sveinn Rúnar, f. 1969, í sambúð með Lísu Shannen,
  þau eiga þrjá syni og
 • C) Fjóla Guðbjörg, f. 1985, í sambúð með Eiði Ágústi Kristjánssyni.
2) Ingþór Bjarnason
, f. 15. júní 1950, sambýliskona Arndís Guðmundsdóttir, f. 24. júlí 1966. Börn Ingþórs eru:
 • A) Rögnvaldur Daði, f. 1968, í sambúð með Gerd Flodgren, þau eiga þrjú börn,
 • B) Ingunn Fjóla, f. 1976, gift Helga Vigni Bragasyni, þau eiga einn son og uppeldisdóttir Ingþórs er
 • C) Helga Vala Garðarsdóttir, f. 1995.
  Dætur Arndísar eru Védís, f. 1989, og Sunneva, f. 1991, Kjartansdætur.
3) Guðný Helga Bjarnadóttir
, f. 6. júní 1953, gift Óskari Pálmasyni, f. 12. desember 1948. Börn þeirra eru:
 • A) Jón Pálmi, f. 1972, kvæntur Hrönn Brynjarsdóttur, þau eiga tvo syni,
 • B) Dagur, f. 1977 og C) Magni Þór, f. 1987.
4) Þorsteinn Bjarnason, (m.n. 
Baldur) 
f. 31. desember 1969, kvæntur Aafke Roelfs, f. 23. maí 1968. Börn þeirra eru
 • Lára, f. 1999, og
 • Janus, f. 2001.

Bjarni lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar árið 1942. Eftir námið lagði hann stund á bókbandsnám á Akureyri en fluttist að því loknu til Siglufjarðar þar sem hann stofnaði heimili með Fjólu árið 1947. Framan af starfaði Bjarni sem verkamaður í síldar- og fiskvinnu, en gerðist síðan verkstjóri á síldarsöltunarstöðinni Pólstjörnunni hf. sem hann keypti ásamt Skúla Jónassyni byggingameistara árið 1965.

Hann gerðist meðeigandi í frystihúsinu Ísafold árið 1969, en stofnaði síðan Fiskverkun BMÞ árið 1971 sem hann rak til ársins 1989. Bjarni starfaði sem safnvörður við Síldarminjasafnið á Siglufirði fyrstu árin eftir stofnun þess. Bjarni var alla tíð virkur í félagsmálum á Siglufirði.

Hann var um skeið í stjórn Verkamannafélagsins Þróttar, sem síðar varð Vaka, og sat lengi sem fulltrúi framsóknarmanna í ýmsum nefndum og ráðum bæjarins. Hann sat til fjölda ára í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar. Hann var virkur félagi í landssamtökum saltfiskframleiðenda og sat í mörg ár í stjórn SÍF. Á síðari árum lagði Bjarni fyrir sig ljóðlist og liggja eftir hann fjórar ljóðabækur.

Útför Bjarna verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
-------------------------------------

Það er skrýtið að koma á Siglufjörð núna og vita að þú ert ekki þar, bíðandi eftir okkur með fullt borð af mat handa okkur og góðlega brosið þitt og hjartanlegu kveðjuna þegar þú bauðst okkur velkomin. Margar af mínum bestu stundum í lífinu átti ég á Sigló með ykkur ömmu. Allar gönguferðirnar sem við fórum upp í skógrækt og fram á fjörð renna mér aldrei úr minni.

Ég og þú vorum ævinlega mestu mátar þó svo að það væri mikið skap í okkur báðum og við höfðum líka gaman af því að rífast um ýmsa hluti og stundum gerðirðu í því að vera ósammála mér til þess að ná mér upp. En við deildum líka sameiginlegum áhugamálum eins og fótbolta, stjórnmálum og sögu.

Ég mun ætíð muna eftir því þegar þú fræddir mig um allt í sambandi við stóru styrjaldirnar á 20. öld, síldarárin á Siglufirði þegar þú varst allt í öllu á síldarplönunum og kenndir mér að meta sveitarómantíkina sem eitt sinn var ríkjandi í Framsóknarflokknum. Það er ekki hægt að segja annað en að þú hafir verið nokkuð hress alveg fram í það síðasta og ég man hvað var það síðasta sem þú sagðir við mig áður en ég kvaddi þig.

Þú spurðir mig hvernig prófin hefðu farið hjá mér og ég sagði þér einkunnirnar mínar og þú sagðir að ég stæði mig vel og það ætti eftir að rætast vel úr mér. Elsku afi minn, ég veit að þú ert kominn á betri stað núna með ömmu, mömmu þinni sem dó frá þér þegar þú varst níu ára gamall og öllum systkinum þínum. Vitur maður sagði eitt sinn: "Ég syrgi hann ekki en ég sakna hans." Þessi orð vil ég gera að mínum.

Þinn Magni Þór.
-----------------------------------

 • Við verðum nú að skilja
 • þó söknuður sé sár.
 • Þá grær oft yfir sporin þegar vorar.
 • Við verðum þá að finna
 • í okkar eigin sál
 • ástina sem inni í okkur logar.

Elsku afi, þessar línur þykir mér hvað vænst um af því sem þú ortir. Engar aðrar gætu lýst betur tilfinningum mínum núna. Söknuðurinn er mikill en aðallega er ég þó leið yfir að hafa ekki náð að kveðja þig. Þegar við skildum um hvítasunnuna var ég alveg viss um að ég fengi að sjá þig aftur. Svona er lífið brigðult.

Ótrúlegt finnst mér að ég fái aldrei aftur að faðma þig, halda í höndina á þér og hlæja með þér. Ég man svo vel eftir dögunum á Sigló, hjá ykkur ömmu. Þegar við Magni sátum á eldhúsbekknum og horfðum á ljósið í vitanum hinum megin við fjörðinn, gönguferðirnar í skógræktinni og bíltúrarnir með harmónikkuspil í tækinu.

En lífið heldur áfram þó að það verði aldrei samt aftur, nú þegar þú ert farinn. En þú ert loksins kominn til ömmu, alsæll, og þið fylgist með okkur hérna niðri. Ég veit að þið gerið það.

Þakka þér fyrir allt afi minn. Þakka þér fyrir hlýjuna, ástúðina og væntumþykjuna. Þakka þér fyrir sumrin sem ég bjó hjá þér, þeim mun ég seint gleyma. Síðast en ekki síst, þakka þér fyrir að vera þú. Ég gleymi þér aldrei.

Fjóla Guðbjörg.
---------------------------------------

"Þetta mun allt ganga vel," sagði Bjarni M. Þorsteinsson er ég heimsótti hann á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þrátt fyrir að vera ekki heill heilsu var hugur hans eftir sem áður hjá félögum sínum í Framsóknarflokknum. Flokknum sem hann vann fyrir af hugsjón og heilindum um áratuga skeið.

Fyrstu kynni mín af Bjarna voru á skrifstofu Framsóknarflokksins í Siglufirði í kosningum fyrir um 16-20 árum. Var mér þá ljóst, ungum drengnum, að þar var á ferðinni mikill keppnismaður. Enda var það svo að Bjarna var oft falið að stýra kosningabaráttunni og fór það ekki fram hjá nokkrum manni hver var þar við stjórnvölinn.

Síðar, þegar ég fór að skipta mér af stjórnmálum, áttum við Bjarni ágætt samstarf. Hann hafði ákveðnar skoðanir á þjóðfélagsmálum og fór ekki í grafgötur með þær. Með árunum fór heilsan að bila og undir lokin var hans aðsetur á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar. Það aftraði þó ekki Bjarna frá að mæta í kosningakaffi á kjördag og urðu þá fagnaðarfundir. Og kosningarnar fóru vel eins og Bjarni hafði áður sagt.

Við framsóknarfólk í Siglufirði þökkum fyrir áralangt starf Bjarna M. Þorsteinssonar í þágu Framsóknarflokksins. Fjölskyldu Bjarna votta ég samúð mína á þessum tímamótum.

Birkir J. Jónsson.

Add to Phrasebook
No word lists for Icelandic -> Icelandic...