Tengt Siglufirði
Sl. laugardag var til moldar borinn einn ágætasti borgari þessa bæjar, Guðlaugur Sigurðsson, skósmíðameistari. Guðlaugur heitinn var fæddur á Ölduhrygg í Svarfaðardal 20. júlí 1874.
Hingað til Siglufjarðar fluttist Guðlaugur 1917, ásamt konu sinni, Petrína Sigurðardóttir.
Þau hjónin eignuðust 5 börn, dóu
tvö ung, en hin 3 eru á lifi,
Guðlaugur heitinn var fróður maður og skynsamur vel og fær í sinni iðn. Hann var maður glaðlyndur, fyndinn og skemmtilegur félagi. Guðlaugur heitinn hafði átt við mikla vanheilsu að stríða, sem hann bar með sérstakri þolinmæði.
1. desember í vetur hætti hann með öllu að vinna á skósmíðaverkstæði þeirra feðga, og hafði þá unnið við iðn sína í rúm 59 ár.
Með Guðlaugi
Sigurðssyni er hniginn í valinn og til moldar borinn einn af þeim athafnamönnum, sem Siglufjörður stendur í ómetanlegri skuld við. Blessuð sé minning Guðlaugs Sigurðssonar. (Neisti)
---------------------------------------------
GUDLAUGUR SIGURÐSSON, skósmiður sjötugur.
20. júlí (1944) átti sjötugsafmæli einn af merkustu borgurum þessa bæjar, Guðlaugur
Sigurðsson, skósmiður.
Allir Siglfirðingar, sem komnir eru til vits og ára þekkja Guðlaug, og flestir munu hafa komið til hans á verkstæðið og heyrt hin glaðværu tilsvör hans
og hnyttni. Guðlaugur byrjaði að nema iðn sína ungur að aldri, aðeins 15 ára gamall. Hefur hann því stundað hana nú í samfleytt í 55 ár.
Fyrst átti hann heima á Akureyri. Þegar hann hafði lokið námi sigldi hann til Kaupmannahafnar til að kynna sér iðn sína betur. Dvaldi hann þar um nokkurt skeið. Það mun hafaverið fátítt í þá daga, að iðnaðarmenn færu til útlanda til menntunar og hefur þurft mikinn dugnað og áræði til. Flestir létu sér nægja að ljúka prófi hér heima og byrjuðu síðan á sjálfstæðum rekstri.
En Guðlaugi var það ekki nóg, að fá prófstimpilinn, honum nægði ekki minna en það, að hann hefði til brunns að, bera þá beztu þekkingu í iðn sinni, sem hægt var að veita sér. Eigum við Íslendingar mikið að þakka Guðlaugi og mönnum með hans hugsunarhátt. Það eru þeir, er fleytt hafa verklegri menningu okkar fram á leið, gerzt boðberar nýrra vinnuaðferða og framfara. Þann hugsunarhátt ber okkur að heiðra ekki síður nú í dag heldur en áður.
Árið 1917 fluttist Guðlaugur og kona hans Petrína Sigurðardóttir hingað til Siglufjarðar. Hafa þau búið ávallt hér síðan. Hefur heimili þeirra verið orðlagt fyrir myndarskap og gestrisni, enda eiga þau marga vini bæði hér í bæ og annarsstaðar. Guðlaugur er maður greindur vel og víðsýnn. Hefur hugur hans jafnan hneigst til fylgis við baráttu alþýðunnar og baráttu framfaraaflanna í þjóðfélaginu gegn kúgun og afturhaldi Honum er öðruvísi farið heldur en mörgum jafnöldrum hans, sem gerzt hafa bölsýnir og afturhaldssamir með aldrinum.
Það er eins og jafnvel, að hann hafi orðið frjálslyndari, skynjað betur hræringar hins nýja tíma eftir því, sem árin hafa færzt yfir hann. Það er hressandi að hitta fyrir sjötuga menn, sem ennþá eiga eld æskunnar, sem fylgjast af áhuga með baráttunni, er fram fer í kringum þá og eiga ennþá óslökkvandi þrá eftir sigri hins unga og framfarasinnaða. Það eru menn, sem ekki eldast, þótt árin færist yfir þá. Slíkur maður er Guðlaugur.
Mjölnir flytur Guðlaugi einlægustu árnaðaróskir í tilefni af .afmælinu og óskar honum langra lífdaga, svo að hann fái að sjá sem mest af ávöxtum þeirrar baráttu, er hann hefur jafnan fylgt af lífi og sál.