Aldís Dúa Þórarinsdóttir

Dúa Þórarinsdóttir fæddist 23. september 1921 í Reykjavík. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 23. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru Benedikt Þórarinn Dúason, f. 19.5. 1895, d. 19.8. 1976, og Theodóra Oddsdóttir, f. 8.11. 1898, d. 20.4. 1980.
Systkini Dúu eru:

 • Ásgeir, f. 27.10. 1922, látinn,
 • Brynja, f. 4.9. 1924.
 • Ása Hafdís, f. 28.8. 1928, látin.

Fyrri eiginmaður hennar var Sigtryggur Flóventsson, f. 20.2. 1916, d. 1974. Þau skildu.
Dóttir þeirra er

Unnur Sigtryggsdóttir, f. 4.8. 1945. Eiginmaður hennar er Ásgrímur Ingólfsson, f. 27.2. 1944. Synir þeirra eru Ívar Ásgrímsson, f. 11.5. 1965, eiginkona hans er Björk Sigurjónsdóttir og
Dúa Þórarinsdóttir - ljósmyndari ókunnur

Dúa Þórarinsdóttir - ljósmyndari ókunnur

börn þeirra
 • Alex Óli Ívarsson,
 • Arnór Bjarki Ívarsson,
 • Sigurjón Unnar Ívarsson og
Davíð Ásgrímsson, f. 9.10. 1977, sambýliskona hans er Ragnheiður Kristinsdóttir og börn þeirra
 • Áslaug Rún Davíðsdóttir og
 • Guðni Snær Davíðsson.

Seinni maður hennar var Baldur T. Eiríksson. f. 14.6. 1913 á Ísafirði, d. 13.8. 1988.

Börn hans af fyrra hjónabandi:

 • Birgir (látinn), Kristín, m.
 • Jóhannes Friðriksson,
 • Daníel, m. Þórleif Alexandersdóttir,
 • Elsa, m. Ólafur Matthíasson,
 • Anna Þóra, m. Magnús Ólafsson,
 • Eiríkur, m. Erna Árnadóttir

Dúa fluttist til Siglufjarðar þegar hún var 19 ára gömul, ásamt foreldrum og systkinum. Hún starfaði fyrst við Hertervigs-bakarí, síðan í Apóteki Siglufjarðar og loks á Sýsluskrifstofunni áður en hún fluttist ásamt Baldri til Akraness. Þar vann hún á Skrifstofu Akraneskaupstaðar til starfsloka. Árið 2002 flutti hún til Hafnarfjarðar og síðustu æviár sín dvaldi hún á Hrafnistu Hafnarfirði.

Útför Aldísar Dúu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 1. september 2016, og hefst athöfnin kl. 15.
-----------------------------------------------

Kæra amma.

Eftir nær áratugsbaráttu við erfið veikindi hefur þú loks fundið frið.

Við þessi tímamót í lífi okkar settumst við dóttursynir þínir niður og rifjuðum upp kynni okkar af þér. Fljótlega kom í ljós að Skaginn var okkur öllum mjög hjartfólginn og þá sérstaklega minningar um stóra túnið fyrir utan heimili þitt á Mánagötunni. Þar var hægt að koma saman og spila fótbolta og auðvitað voru snúrustaurarnir notaðir sem mörk.

Eini gallinn var að ef menn vönduðu sig ekki þá þurfti að senda afa Baldur niður í Sementsverksmiðju að sækja boltann.

Annað sem kom fljótlega upp í umræðunni voru bíltúrar um allan Borgarfjörð og jafnvel lengra ef afi Baldur var í stuði. Keyrt var um stóran hluta Vesturlands og fróðleikurinn sem þið sögðuð okkur um fjöll og firnindi hefur fylgt okkur öllum í gegnum ævina.

Einnig voru heimsóknir þínar í Hafnarfjörð ávallt efni tilhlökkunar, yfirleitt fylgdu ykkur litlar en dýrmætar gjafir sem glöddu lítil hjörtu.

Eftir að þú fluttir á Miðvanginn í Hafnarfirði þá var nú alltaf opið hús fyrir langömmubörnin þín og komu þau oft við á leið heim úr skólanum og fengu sér að borða og tóku oft í spil með þér.

Það er með söknuð í hjarta sem við kveðjum þig elsku amma.

Sigtryggur Ásgrímsson, Ívar Ásgrímsson og Davíð Ásgrímsson.
----------------------------------------------

Aldís Dúa, eða Dúa, eins og hún var ævinlega kölluð, kom inn í líf mitt þegar ég var á 15. aldursári er hún varð sambýliskona og síðar eiginkona föður míns. Kynni okkar urðu þó ekki mikil fyrr en við Magnús fluttum til Akraness þar sem við bjuggum um skeið, en þangað höfðu þau pabbi og Dúa flust frá Siglufirði. Á Svíþjóðarárum okkar dvöldum við á Akranesi af og til í leyfum og nutum þá gestrisni Dúu og margvíslegrar aðstoðar eins og endranær og æ síðan.

Dúa var glæsileg kona og virðuleg í fasi. Hún hafði fágaðan smekk og bar hlýlegt heimili þeirra pabba og síðar heimili hennar í Hafnarfirði þess glögg merki. Hún var vandvirk og nákvæm í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og hafði einkar fallega rithönd. Hún saumaði út og heklaði sérstaklega fallega og er ég svo heppin að eiga nokkur stykki sem hún gerði.

Sjaldnast var komið að tómum kofunum í samræðum við Dúu, hún var víðlesin og vel að sér um menn og málefni enda ævisögur ofarlega á leslista hennar. Hún fylgdist vel með vinum og vandamönnum og í samtölum kom fram hversu annt hún lét sér um fjölskylduna, ömmu- og langömmubörnin voru henni æ ofarlega í huga.

 • Svo er því farið:
 • Sá er eftir lifir
 • deyr þeim sem deyr
 • en hinn dáni lifir
 • í hjarta og minni
 • manna er hans sakna.
 • Þeir eru himnarnir
 • honum yfir.

(Hannes Pétursson.)

Ég minnist Dúu með hlýju og vil að leiðarlokum þakka fyrir velvild í minn garð og fjölskyldu minnar. Við sendum Unni, Ásgrími, strákunum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur okkar.

Anna Þóra Baldursdóttir.