Einar Ingimundarson, fyrrverandi alþingismaður, bæjarfógeti

 Einar Ingimundarson, fæddist 29. maí 1917 í Kaldárholti í Holtum, Rangárvallasýslu.

Hann andaðist 28. desember sl. 79 ára að aldri. Foreldrar hans voru hjónin Ingimundur Benediktsson, bóndi í Kaldárholti í Holtum, Rangárvallasýslu, síðar trésmiður í Reykjavík og Ingveldur Einarsdóttir húsfreyja í Kaldárholti í Holtum, síðar í Reykjavík. Hann var yngstur 8 barna foreldra sinna. Elst var

  • Steinunn, f. 1903, d. 1993, Kristín, f. 1904, d. 1973,
  • Benedikt, f. 1906, d. 1926,
  • Guðrún, f. 1907, d. 1935.

Eftirlifandi systur hans eru Jórunn, f. árið 1911, Ragnheiður, f. árið 1913 og Helga, f. árið 1914.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1944. Á námsárunum í Háskólanum var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, frá 1939-1940, formaður Stúdentaráðs 1941-1942, og Stúdentafélags Reykjavíkur 1944-1945.

Einar Ingimundarson -- Ljósmynd Kristfinnur

Einar Ingimundarson -- Ljósmynd Kristfinnur

Hann starfaði sem blaðamaður hjá dagblaðinu Vísi í Reykjavík á árinu 1944, var fulltrúi hjá tollstjóranum í Reykjavík frá 1. nóvember 1944 til hausts 1945, var fulltrúi hjá borgarfógetanum í Reykjavík frá hausti til ársloka 1945.

Hann var fulltrúi hjá sakadómaranum í Reykjavík frá 1. janúar 1946 til 1. júní 1952, en 3. júní 1952 var hann skipaður bæjarfógeti á Siglufirði. Einar Ingimundarson var þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Siglufjörð á árunum 1953-1956 og árið 1959 og þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra á árunum 1959-1966.

Hann var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1955. Hann var í sendinefnd íslenskra þingmanna hjá þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsríkja árið 1961 og árið 1962 og í stjórn Dómarafélags Íslands árið 1972-1973. Hann afsalaði sér þingmennsku árið 1966, þegar hann tók við embætti sýslumanns í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Hafnarfirði. Þá varð hann sýslumaður í Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði og Seltjarnarneskaupstað árið 1974, ennfremur bæjarfógeti í Garðakaupstað frá 1976. Árið 1987 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir.

Eiginkona hans (24. júní 1949) var Erla Axelsdóttir, fædd 19. apríl 1924, húsfreyja.
Hún lést árið 1985. Foreldrar hennar voru Axel Böðvarsson bankaritari í Reykjavík og Margrét Steindórsdóttir húsfreyja og bankamaður.
Börn Einars og Erlu eru:

  • 1) Valdís, hjúkrunarfræðingur í Hafnarfirði, fædd árið 1950 í Reykjavík.
    Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar eru Margrét, f. 1972, Ari, f. 1982, Gunnar, f. 1983 og Einar, f. 1988.
  • 2) Ingimundur, hæstaréttarlögmaður í Hafnarfirði, fæddur árið 1953 á Siglufirði. Eiginkona hans er Guðrún Hildur Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og eru börn þeirra Einar, f. 1974, Ragnar, f. 1979 og Erla Guðrún, f. 1987.
  • 3) Ingveldur, dómarafulltrúi í Héraðsdómi Reykjavíkur, fædd árið 1959 á Siglufirði. Eiginmaður hennar er Ársæll Friðriksson kennari og eru börn þeirra Friðrik, f. 1982 og Eiríkur, f. 1992.

Útför Einars fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.