Eivor Viktoria Jónsson

Eivor Jónsson, fædd Karlsson, fæddist í Uppland í Svíþjóð 24. maí 1927. Hún lést 13. júní 2014.

Foreldrar hennar voru Karl Eskil Karlsson, f. 1894, d. 1955, og Elsa Karolina Karlsson, f. 1901, d. 1982. Systkini hennar voru Anna Lisa, Sigvard, Maj-Britt og Inga-Britt.

Árið 1949 giftist hún Páll Gísli Jónsson, f. 12. okt. 1917, d. 26. mars 1988.

Börn þeirra eru:

  • 1.Viola Pálsdóttir, f. 1950, d. 1999. Maki Kristinn Rögnvaldsson, f. 1945, d. 2003.
    Þau áttu þrjár dætur.
  • 2. Unnur Maj-Britt Pálsdóttir, maki Jóhannes Blöndal f. 1949.
    Þau eiga þrjár dætur.
  • 3. Jón Pálmi Pálsson, f. 1954, maki Katrín Leifsdóttir f. 1956,
    þau eiga fjögur börn.
  • 4. Karl Eskil Pálsson, f. 1957, maki Jóhanna Ragnarsdóttir, f. 1954,
    þau eiga einn son, fyrir átti Jóhanna þrjú börn.
  • 5. Björn Gunnar Pálsson, f. 1959, maki Jóhanna María Sveinsdóttir, f. 1959, d. 2001, þau áttu tvö börn, sambýliskona hans er Birthe Olsen.
  • 6. Erik Pálsson, f. 1964, maki Þórunn Helga Þorkelsdóttir, f. 1970,
    þau eiga þrjú börn.
Eivor Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Eivor Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Fyrir átti Páll Jónsson, Þórhildur Kristín Pálsdóttir, f. 1942, maki Kristján Lárentsínusson, f. 1938, þau eiga tvö börn, og Ingunni, f. 1947, maki Þórarinn Sveinn Guðbergsson, f. 1944, þau eiga þrjú börn.
Alls eru afkomendur Eivorar og Páls 94.

Eivor ólst upp í sveit, hún fór í vist 12 ára, þar sem mikil fátækt var í sveitum Svíþjóðar á millistríðsárunum. Hún vann ýmis störf í Uppsala, þar til hún kynntist Páli í Kaupmannahöfn er hann var þar við nám.

Þau hófu búskap á Siglufirði, þar bjó hún í tæp 50 ár. Eftir að Páll lést flutti hún til Akureyrar og bjó þar í nábýli við Karl Eskil og hans fjölskyldu. Hún vann hin ýmsu störf, svo sem síldarsöltun, og var með kostgangara á síldarárunum, ásamt stóru heimili.

Frá 2012 bjó Eivor á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri.

Eivor var annálaður bakari og nutu þess margir, hvaðanæva af landinu.

Mörgum eru minnisstæð boð sem hún hélt á bolludaginn á heimili sínu, þar sem öllum fyrirtækjum Siglufjarðar var boðið upp á bollur, með þakklæti fyrir góða þjónustu.

Eivor lét til sín taka í félagsmálum og má þar fyrst nefna Sjalfsbjörg, félag fatlaðra, þar var hún stofnfélagi. Einnig var hún virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum ásamt Páli.

Útför Eivorar var gerð í kyrrþey frá Siglufjarðarkirkju hinn 10. júlí.
-------------------------------------------

Tengdamóðir mín, Eivor, er látin. Hún var á margan hátt áhrifavaldur í lífi mínu og við fráfall hennar vakna minningar og hugsanir um samskipti okkar í gegnum tíðina.

Eivor var mjög ákveðin kona. Hún hafði skoðanir á flestum hlutum og lá ekki á þeim. Við vorum kannski ekki alltaf sömu skoðunar eða sammála um hlutina og stundum jafnvel sammála um að vera ósammála, en samskipti okkar voru góð og einkenndi gagnkvæm virðing samband okkar. Við vissum hvar við höfðum hvort annað. Við vorum góðir vinir og hún sagði oft að ég væri uppáhaldstengdasonur hennar en ég var reyndar sá eini.

Líf tengdamóður minnar var ekki alltaf auðvelt. Hún var alin upp í fátækt í Upplöndum í Svíþjóð. Hún þurfti að ganga fimm kílómetra í öllum veðrum til að komast í skóla. Stundum var frostið allt að 25 stig og klæðnaður ekki alltaf upp á marga fiska; skinnskór og ullarföt.

Æska hennar setti á hana mark; hún leit ekki á efnisleg gæði sem sjálfsagðan hlut, hún lifði aldrei um efni fram, prjónaði og saumaði á sig og börnin, sultaði, bakaði og nýtti allt hráefni eins vel og hægt var. Hún var hagsýn húsmóðir í orðsins fyllstu merkingu og sparaði á allan hátt. Henni var mikilvægt að leggja fyrir til að eiga örugglega alltaf nóg fyrir sig og sína.

Eivor kynntist Páli, tengdaföður mínum, í Kaupmannahöfn, fluttist með honum til Íslands árið 1949 og leit aldrei til baka. Hér var heimili hennar. Lífið var ekki alltaf auðvelt eða sanngjarnt en hér ól hún upp sex börn sem voru stolt hennar og arfleifð.

Eivor var ekki allra en vildi öllum vel. Vinum sínum og fjölskyldu var hún stoð og stytta enda einstaklega rösk kona, dugleg og hjálpsöm. Þegar hún dvaldi hjá okkur Maj Britt í einhverja daga vildi hún leggja sitt af mörkum til heimilisins og bakaði „bullar“ og brauð svo flæddi úr frystikistunni. Henni fannst hins vegar óþarfi að hjálpa til við þrif, þar sem skíturinn væri eitt af fáu sem ekki hlypi frá manni. Þar kunni hún tengdamóðir mín að forgangsraða.

Þó að Eivor hafi nú kvatt lifa eftir minningar um góða samfylgd og líf hennar verður okkur sem næst henni vorum áminning um vinnusemi og ósérhlífni. Blessuð sé minning hennar.

Jóhannes.
-------------------------------------------------

Látin er, í hárri elli, Eivor okkar Jónsson. Eivor er síðust úr hópi tengdabarna Ljótsstaðahjónanna Jóns Björnssonar og Pálínar G. Pálsdóttur.

Eivor, sem var frá Uppsölum í Svíþjóð, og Páll móðurbróðir minn kynntust í Danmörku þegar Páll var þar við nám í húsasmíðum. Eftir heimkomu, árið 1949, fluttust Páll og Eivor til Siglufjarðar og bjuggu að Hvanneyrarbraut 6, Ljótsstöðum, í húsi foreldra Páls. Páll var sá eini af fimm systkinum sem bjó allan sinn aldur á Ljótsstöðum, fyrst sem ungur drengur á búi foreldra sinna á Höfðaströnd í Skagafirði, síðar í Siglufirði, en húsið að Hvanneyrarbraut 6 gekk jafnan undir nafninu Ljótsstaðir.

Undir styrkri stjórn Eivorar fékk „húsið“ að Hvanneyrarbraut framhaldslíf í lífi stórfjölskyldunnar. Aldraðir foreldrar Páls áttu heimili sitt þar en voru farin að draga sig í hlé, unga fólkið tók við. Líftími „hússins“ lengdist fyrir stórfjölskylduna, þangað var ætíð gott að koma. Stór þáttur í því var einstakir hæfileikar húsmóðurinnar og sköpunargleði í eldhúsinu.

Að kynnast sænskum matarhefðum var á þeim tíma algjör nýjung fyrir okkur hin. Heimili Eivorar og Palla var á þessum árum fastur punktur í tilverunni, og ég held að þau hafi skynjað þörf okkar hinna að eiga áfram rætur í húsi afa og ömmu.

Á þessum árum var síldarvinnsla með nokkrum blóma á Siglufirði. Til bæjarins kom fólk frá öðrum norrænum löndum sem naut gestrisni Palla og Eivorar. Ég held að þessi tími í lífi Eivorar hafi skipt hana miklu máli, vegna uppruna hennar, að geta verið í sambandi við aðra Norðurlandabúa. Betri stað en Siglufjörð gat Eivor ekki valið fyrst hún á annað borð fluttist til Íslands, því að Siglufjörður var á þessum árum fjölmenningarsamfélag.

Fáir bæir á Íslandi eiga jafn viðburðaríka sögu og Siglufjörður. Síldarævintýrinu sem stóð fram yfir miðja tuttugustu öldina tóku Eivor og Palli þátt í. En þau upplifðu einnig hnignunina sem Siglufjörður fór í gegnum. Þau voru trú sínum heimahögum, þar slógu hjörtun glöðust meðan starfsævi þeirra stóð sem hæst og barnahópurinn óx úr grasi. Í dag er Siglufjörður aftur að verða ein af perlum Norðurlands þrátt fyrir að síldin sé horfin. Menningin blómstrar og samgöngur hafa gjörbreyst. Þar hvíla þau nú, Palli og Eivor, dóttirin Víola og tengdasonurinn Kristinn.

Ég á enn minningarbrot frá fyrstu kynnum okkar Eivorar. Þá var hún nýflutt frá Svíþjóð og Palli frændi að kynna okkur fyrir henni, þá var ég 10 ára telpuhnokki. Mér fannst hún svo flott. Hún var glæsilega klædd, hávaxin, geislandi glöð og hamingjusöm. Virkaði svo sterk og sjálfstæð.

Fyrir þrem árum, sumarið 2011, var Eivor í heiðurssæti á ættarmóti Ljótsstaðarættarinnar að Hólum í Hjaltadal, þá áttatíu og fjögurra ára gömul. Þar var stolt og ánægð kona, hreykin af sinni stóru fjölskyldu sem nú telur hundrað og fjórtán manns.

Kynslóðir fara og kynslóðir koma. Nú er aldin höfðingskona kvödd, ævistarfinu er lokið með sóma. Eivor skilur eftir góðar minningar og ástúðlegar hugsanir okkar sem eftir eru.

Fari hún vel í Guðs friði.

Alda Halldórsdóttir.
--------------------------------------------

Elsku Eivor amma okkar sænska er látin.

Við systurnar erum á ýmsum aldri og eigum mismunandi minningar um Eivor ömmu. Við tvær elstu, Karlotta og Eivor Pála, munum eftir að hafa gist hjá þeim afa á Sigló en Stína á fleiri minningar úr Drápuhlíðinni.

Eivor amma var oft hjá okkur í Drápuhlíðinni þegar við vorum litlar. Þegar komið var heim úr skólanum tók hún á móti okkur með nýbakaðar pönnukökur með sykri og sítrónu, „kanelbullar“ eða hvítar bollur með „rauðu“ ofan á. Pönnukökurnar runnu niður nánast beint af pönnunni. Hún kenndi okkur handtökin og uppskriftirnar þó svo að meiri áhugi hafi verið fyrir því að innbyrða öll herlegheitin en að læra að búa þau til.

Þegar kom að því að fara með rútunni aftur norður á Akureyri fór hún frekar á puttanum til að spara sér eyrinn og kynnast fólki. Hún var dugleg að halda tengslum og stofna til vinskapar, hún var pennavinkona sænsku tengdamóður hennar Stínu alveg þar til heilsan gaf sig.

Eivor var síbakandi, síprjónandi ævintýramanneskja. Oftsinnis var hún fengin landshornanna á milli til að baka fyrir hina og þessa og fór þá oft á puttanum með sérkeyptan sænskan perlusykur í töskunni. Hún gaukaði að okkur ýmsu; tátiljum, vettlingum og karamellum, og kenndi okkur margt, t.d. að spila á spil. Hún gaf þó engan afslátt í spilum, var tapsár og fylgdist vel með því að ekki væri svindlað. Þegar hún vann hlakkaði í henni, „Sko! Nu er det Olsen!“ var hún vön að segja hlæjandi og kleip mann og knúsaði.

Svo fékk maður sér bullar. Hún á líka heiðurinn af lummuhefð sem vert er að halda á lofti og hún er sú að hvað eina sem afgangs er úr hádeginu, s.s. grjónagrautur, makkarónusúpa eða mannagrjónagrautur, ratar í lummur síðdegis. Við gátum samt ítrekað verið hissa á því að sjá makkarónur í lummunum. Þannig munum við eftir henni á Siglufirði þau skipti sem við gistum hjá þeim afa, hún að baksa í eldhúsinu á meðan Andrésblöðin voru lesin í litla barnaholinu undir stiganum og afi að blunda yfir hádegisfréttunum. Önnur minning sem stendur ljóslifandi er af ömmu í skærri sólarbirtu, liggjandi úti í snjóskafli, í sólbaði. Fáir dýrkuðu sólina jafn heitt og hún.

Amma okkar var ævintýragjörn og hvatvís, en hún fluttist 18 ára til Íslands eftir að hafa kynnst afa okkar á balli. Hún heimsótti Karlottu til Malmö og þær fóru um Kaupmannahöfn, þar sem hún sagði sögur af því hvernig hún kynntist afa rétt eftir stríð. Hún hafði séð hóp glæsilegra ungra manna á kaffihúsi og beðið þá um eld, þó svo að hún reykti ekki, fannst þessir íslensku strákar spennandi og Ísland var jú á leiðinni til Ameríku. Þau afi hittust svo aftur á balli stuttu seinna og þá varð ekki aftur snúið, hún sló til og fór með afa á skipinu til Siglufjarðar og þar með hófst saga okkar, afkomenda hennar.

Það er með þakklæti og virðingu sem við kveðjum Eivor ömmu okkar og hugsum til hennar með hlýju fyrir allar góðu stundirnar, skemmtunina og allt sem við höfum fengið að læra af henni. Hvíl í friði, elsku amma.

Karlotta J. Blöndal, Eivor Pála J. Blöndal og Anna Kristín B. Jóhannesdóttir.
-------------------------------------------

Elsku amma. Ekkert fær því lýst hve sárt það var þegar kallið kom, þó svo að við höfum vitað hvert þú hafðir hugsað þér að fara.

Föstudagskvöldið 13. júní er kvöld sem við munum aldrei gleyma. Minningarnar sem koma upp í kollinn á okkur eru endalausar. Snúðarnir, bollurnar og frosin mjólk, nammið frá Svíþjóð, prjónarnir, fiðrildi og Leiðarljós. Við munum heldur aldrei gleyma því hversu stolt þú varst af okkur og notaðir öll tækifæri til að monta þig af öllum afkomendum þínum. Þessar minningar hlýja okkur svo sannarlega og að vita að nú ert þú komin á betri stað og situr í fanginu á afa. Við viljum enda þetta á ljóði sem okkur finnst passa vel við þig, elsku amma;

  • Hvernig er hægt að þakka,
  • það sem verður aldrei nægjanlega þakkað.
  • Hvers vegna að kveðja,
  • þann sem aldrei fer.
  • Við grátum af sorg og söknuði
  • en í rauninni ertu alltaf hér.
  • Höndin sem leiddi mig í æsku
  • mun gæta mín áfram minn veg.
  • Ég veit þó að víddin sé önnur
  • er nærveran nálægt mér.
  • Og sólin hún lýsir lífið
  • eins og sólin sem lýsti frá þér.
  • Þegar stjörnurnar blika á himnum
  • finn ég bænirnar,sem þú baðst fyrir mér.
  • Þegar morgunbirtan kyssir daginn,
  • finn ég kossana líka frá þér.
  • Þegar æskan spyr mig ráða,
  • man ég orðin sem þú sagðir mér.
  • Vegna alls þessa þerra ég tárin
  • því í hjarta mínu finn ég það,
  • að Guð hann þig amma mín geymir
  • á alheimsins besta stað.
  • Ótti minn er því enginn
  • er ég geng áfram lífsins leið.
  • Því með nestið sem amma mín gaf mér,
  • veit ég að gatan hún verður greið.
  • Og þegar sú stundin hún líður
  • að verki mínu er lokið hér.
  • Þá veit ég að amma mín bíður
  • og með Guði tekur við mér.

(Sigga Dúa)

Með ást og söknuði. Þín ömmubörn,

Stefanía Karen, Þorkell Ingi og Vilborg Pála Eriksbörn.
----------------------------------------------------

Skömmu eftir að ég flutti til Siglufjarðar frá Reykjavík dvaldist ég um tíma á efri hæð hornhússins hennar Jóhönnu Þórðardóttur. Hún var frænka Kristins Þórs, sem ég bjó með í Reykjavík í tvö ár á meðan ég lærði íslensku í háskólanum. Jóhanna skaut yfir mig skjólshúsi þar til ég fékk varanlegan samastað – í íbúð steinsnar frá, á jarðhæð Lækjargötu 6 sem Sigurjóna Einarsdóttir á hæðinni fyrir ofan átti.

Ég man ekki hvort ég kynntist fyrst Gunnari norska og hann kynnti mig svo fyrir Þórunni og Elínu í Síon eða öfugt. Í öllu falli hitti ég Eivoru Jónsson fyrst í Síon. Hún talaði íslensku á þann hátt að mér hvarf öll feimni! Hún var ævinlega hlý, hjálpleg og kát í fasi.

Dag nokkurn kom svo Eivor til mín og bað mig um að annast fjölskylduna hennar á meðan hún færi til Reykjavíkur. Ég átti aðallega að sjá um að hafa til mat þegar börnin kæmu úr skólanum og Páll úr vinnunni. „Ekkert of fínt.“ Ef ég hefði vitað að Páll var um tíma matsveinn á skipum eða að hún sjálf væri dásamlegur kokkur hefði ég aldrei látið tilleiðast. En enginn kvartaði, að minnsta kosti ekki í mín eyru.

Mér er sérstaklega minnisstætt atvik sem tengist konunni sem átti búðina á horninu hjá bankanum. Mig minnir að hún hafi heitið Anna Lára. Um þessar mundir voru konur farnar að klæðast buxnadrögtum og því hafði Anna Lára pantað tvær slíkar – aðra handa sjálfri sér. Eivoru þótti flíkin falleg og keypti því hina dragtina. Ég er viss um að öllum í bænum þótti dragtin klæða Eivoru frábærlega.

Eivor var ekki aðeins góður kokkur heldur líka bráðsnjall bakari. Pönnukökurnar hennar með sítrónu og sykri voru lostæti, svo ekki sé minnst á sænsku snúðana.

Ég var mjög hissa þegar ég sá hana í fyrsta sinn laga bláa flík með rauðum tvinna. Skýringin lá samt í augum uppi: Nú gætu allir séð hve góð viðgerðin væri. Í 31. kafla Orðskviðanna er sagt frá dugmiklu konunni – mér dettur alltaf Eivor í hug þegar ég les þann kafla.

Árið 2007 heimsótti ég Ísland í tilefni 65 ára afmælis míns, 35 árum eftir að ég fór þaðan. Ég var svo lánsöm að dvelja í nokkra daga á Akureyri hjá Eivoru, bæði fyrir og eftir heimsókn mína til Siglufjarðar. Hún var þá við góða heilsu og því gátum við rifjað upp liðna tíð og spjallað saman án truflunar. Hún sagði mér frá áhuga sínum á trúboði og hvernig hún hefði stutt við starfið í áranna rás. Hún sagði mér líka frá ævi sinni og fráfalli Páls og Violu. Loks lét hún í ljós þá von að öll fjölskyldan myndi einhvern tímann fæðast á ný í Jesú Kristi og koma saman í himnaríki. Megi Guð verða við þeirri ósk.

Jóhanna Kalbac.
---------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA
Kæra Eivor, ég er þakklát yfir því að ég fékk að vera pennavinkona þín.
Bréf þín voru litrík, orðin jafn falleg og hljómfögur sem rödd þín.

Vér erum þelið sem draumar spinnast úr, vor ævi er stutt og umkringd svefni.
(William Shakespeare.)
Ann Järvstad.

Add to Phrasebook
No word lists for Icelandic -> Icelandic...