Flóra Baldvinsdóttir

Flóra Baldvinsdóttir fæddist á Ási í Arnarneshreppi í Eyjafirði 28. júlí 1929.
Hún lést á heimili sínu í Hveragerði 25. ágúst 2003.

Foreldrar hennar voru hjónin Baldvin Jóhannesson, f. á Litla-Árskógssandi í Árskógshreppi í Eyjafirði 24. janúar 1883, d. 20. maí 1934, og Guðrún Magðalena Ólafsdóttir, f. á Ystabæ í Hrísey 14. ágúst 1896, d. 13. desember 1950.

Flóra var yngst sex systkina, hin eru:

 • Jóhannes Gunnlaugur, f. 21. maí 1913, d. 25. ágúst 1940,
 • Garðar, f. 3. júlí 1915, d. 3. apríl 1960,
 • Lára Dýrleif, f. 19. júní 1917, d. 1. júlí 1985,
 • Ólafur Helgi, f. 20. nóvember 1919, og
 • Jóhannes Elías, f. 27. nóvember 1922.

Eiginmaður Flóru er Valtýr Jónasson, f. á Siglufirði 9. september 1925.
Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jónasson, f. á Ökrum í Haganeshreppi í Skagafirði 3. mars 1892, d. 6. janúar 1962, og Jóhanna Jónsdóttir, f. á Illugastöðum í Holtshreppi í Skagafirði 27. júní 1889, d. 12. janúar 1941.

Flóra Baldvinsdóttir - ókunnr ljósmyndari

Flóra Baldvinsdóttir - ókunnr ljósmyndari

Börn Flóru og Valtýs eru fimm, þau eru:

3) Jónas, f. 7. desember 1951, maki Vigdís S. Sverrisdóttir. Börn:
 • a) Stefnir Kristjánsson,
 • b) Fríða Jónasdóttir, maki Sveinbjörn Sigurðsson, dóttir þeirra er Vigdís,
 • c) Elsa Karen Jónasdóttir, sambýlismaður Torfi Steinn Stefánsson, og
 • d) Valtýr Jónasson.
5) Baldvin, f. 30. september 1965, maki Laufey Ása Njálsdóttir,
börn þeirra eru
 • Flóra, Hjördís Lára og
 • Anna Björk.

Flóra missti föður sinn fjögurra ára gömul og ólst upp hjá móður sinni sem vann á ýmsum bæjum á Árskógsströnd og síðar settust þær að í Hrísey. Hún fluttist til Siglufjarðar 17 ára gömul. Áður en hún flutti til Siglufjarðar vann hún verkamannastörf í Flatey á Skjálfanda.

Á Siglufirði vann hún m.a. við verslunarstörf, síldarsöltun, í frystihúsi og var síðan starfsmaður Verkalýðsfélagsins Vöku til fjölda ára. Hún starfaði á yngri árum með Leikfélagi Siglufjarðar, Kvennakór Siglufjarðar, Kvenfélaginu Von, Kvenfélagi sjúkrahússins og Slysavarnadeildinni Vörn.

Síðar tók hún virkan þátt í Félagi eldri borgara á Siglufirði og söng með Vorboðanum, kór eldri borgara á Siglufirði, samdi oft efni fyrir skemmtanir og var einnig mikill náttúru- og músíkunnandi.

Flóra var í stjórn verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði áratugum saman og var gerð að heiðursfélaga þess árið 1999. Hún var Hollvinur Sjálfsbjargar, einnig virk í Alþýðubandalaginu og síðar Samfylkingunni. Flóra bjó á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði síðustu sjö árin.

Útför Flóru fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
---------------------------------------------

Elskuleg tengdamóðir mín er látin. Ég minnist hennar með hlýju og þakklæti. Okkar kynni hófust þegar ég var 15 ára táningur með fléttur í hárinu. Sonur hennar tók mig heim með sér svo að mamma gæti hitt þessa stúlku sem hann var svo hrifinn af. Alla tíð kom Flóra fram við mig sem dóttur sína. Aldrei bar skugga á samband okkar og reyndist hún mér vel og börnum mínum góð amma.

Leiðir Flóru lágu til Siglufjarðar þegar hún var 17 ára og þar hitti hún eiginmann sinn Valtý Jónasson. Eignuðust þau fjögur börn en misstu Gunnlaug, elsta son sinn, ungan af slysförum.

Fyrir sjö árum fluttu þau í Hveragerði á Dvalarheimilið á Ási. Þó að erfitt hafi verið fyrir Flóru að flytja frá Siglufirði var gleðin mikil að vera komin nær barnabörnum sínum. "Börnin og barnabörnin eru stærsta gjöfin sem ég hef eignast," var lýsingin hennar á afkomendum sínum. Var sú ást og umhyggja sem hún sýndi þeim einstök. Hún prjónaði, bakaði, hringdi og fylgdist með öllu sem þau gerðu, laumaði að þeim umslagi, og fylgdist með árangri þeirra í skóla og starfi.

Síðustu tvö árin voru Flóru og okkur öllum erfið vegna veikinda hennar, en í vor leið henni betur. Kát og glöð hittumst við öll í stúdentsveislu í maí og síðan í afmælinu hennar 28. júlí. Hún fór í sína árlegu ferð til Siglufjarðar með Valtý og á æskuslóðir sínar í Eyjafirði.

Síðustu viku fyrir andlát sitt varð hún samferða mér og Jónasi til Reykjavíkur. Þar eyddi hún nokkrum dögum með Guðrúnu dóttur sinni, fór til Baldvins og var í sex ára afmæli sonardóttur sinnar. Hún vildi alltaf gera öllum jafnt undir höfði og mátti aldrei halla á neinn.

Þér geðjaðist ekki gum eða hrós, með góðleik tendraðir kærleiks ljós, ég gleymi því aldrei, móðir mín, hve mikil var fórnfýsi og umhyggjan þín við hjartkæra hópinn þinn stóra.

(Matthildur Guðmundsdóttir).
----------------------------------------------

Yndisleg kona, eiginkona, móðir, tengdamóðir, amma og langamma hefur kvatt okkur öll á sinn fallega hátt. Ég er þakklát fyrir það sem tengdamóðir mín hefur gefið mér. Blessuð sé minning hennar.

Vigdís Sverrisdóttir.
---------------------------------------------

Flóra, tengdamóðir mín, er nú fallin frá og skilur hún eftir sig ljúfar minningar hjá öllum sem þekktu hana. Hún var mér mjög kær enda einstaklega yndisleg manneskja, glaðværð, hlý og gefandi. Fyrstu kynni mín af Flóru voru þau að hún tók mig í faðminn og bauð mig velkomna. Þetta gerðist fyrir tólf árum þegar við Baddi, eiginmaður minn og yngsti sonur hennar, komum til Siglufjarðar frá Reykjavík en við höfðum kynnst stuttu áður. Það var einkennandi fyrir Flóru að taka fagnandi á móti fólki með opinn faðminn.

Það var gott að koma á Háveginn til Flóru og Valtýs. Þau voru mjög gestrisin og lagði Flóra mikið upp úr því að veita vel og fór enginn þaðan án þess að njóta góðra veitinga. Flóra bakaði mikið, meðal annars þær bestu pönnukökur sem ég hef smakkað sem og kleinur og soðið brauð sem voru í sérstöku uppáhaldi hjá barnabörnunum. Hún var alltaf svo viljug að senda af bakkelsi sínu og það kom svo sannarlega vel að eiga alltaf með kaffinu frá Flóru. Einnig var hún mjög dugleg við prjónaskap og eru þær ófáar peysurnar, sokkarnir og vettlingarnir sem hún hefur prjónað fyrir fjölskylduna.

Ekki get ég minnst Flóru nema skrifa um elsta son hennar Gunnlaug heitinn. Hann lést 1969 í hörmulegu slysi aðeins tvítugur að aldri. Þó að ég hafi aldrei hitt hann þá fannst mér ég þekkja Gulla vegna þess hve Flóra hélt minningu hans á lofti. En þessi reynsla Flóru hafði greinilega sett mark sitt á hana og lífsskoðanir hennar. Hún var til að mynda alltaf mjög hrædd um sitt fólk og var ekki róleg fyrr en við létum hana vita þegar við vorum komin á leiðarenda eftir ferðalög.

Flóra var mjög elsk að börnum og fengu barnabörnin að njóta þess en þau eru átta talsins. Alltaf breiddi hún út faðminn til að fagna þeim. Hún vildi hafa þau sem mest hjá sér og bar velferð þeirra ætíð fyrir brjósti. Flóra kenndi þeim margar vísur og var svo iðin við að syngja með þeim. Valtýr og Flóra lásu mikið fyrir krakkana sem varð þeim tvímælalaust gott veganesti. Elsta dóttir mín Flóra, alnafna ömmu sinnar, bjó sín fyrstu þrjú ár á Siglufirði. Hún naut góðs af þeirri hlýju og þeim áhuga sem Flóra og Valtýr sýndu henni og vildu þau hafa hana hjá sér eins og kostur var. Það var líkt Flóru að hún fékk breytt vinnutíma sínum til þess að geta passað nöfnu sína.

Árið 1995 fluttum við Baddi og Flóra yngri til Reykjavíkur. Aðskilnaðurinn var okkur öllum erfiður. Það var Flóru og Valtý sérstaklega erfitt að hafa ekki Flóru litlu meira hjá sér á þeim tíma. Valtýr og Flóra tóku þá erfiðu ákvörðun að flytja frá Siglufirði í Hveragerði til þess að geta verið nær fjölskyldunni sinni. Ég vissi að það voru Flóru þung spor að yfirgefa Siglufjörð og kveðja marga góða vini sína. En það er óhætt að segja að þau voru í meira sambandi við fjölskylduna sem þau settu ofar öllu. Eftir flutninginn bættust við tvö barnabörn, systur Flóru yngri, þær Hjördís Lára og Anna Björk og eitt barnabarnabarn hún Vigdís litla.

Systurnar þrjár Flóra, Hjördís Lára og Anna Björk fengu oft að gista hjá afa og ömmu í Hveragerði og þá ein í einu nú í seinni tíð og var gistingunum skipt jafnt á milli þeirra. Sú sem var í gistingu var borin á höndum þeirra og meðhöndluð eins og prinsessa. Einnig var mikill spenningur þegar amma gisti hjá okkur og var því einnig skipt bróðurlega á milli hver ætti að sofa upp í hjá ömmu. Þegar amma kom í heimsókn brást aldrei að hún kæmi með eitthvað handa prinsessunum sínum. Það var okkur mikil huggun og góð minning að amma Flóra var einmitt nýbúin að vera í slíkri heimsókn í tengslum við 6 ára afmæli Hjördísar Láru og gisti hún hjá okkur í nokkrar nætur.

Flóra átti við hjartasjúkdóm að stríða og var oft veik síðastliðinn vetur en var mun hressari í vor og sumar. Það er því ánægjulegt og huggun fyrir okkur aðstandendur að hugsa til þess að hún virtist njóta sumarsins vel. Þau hjónin fengu mikið af heimsóknum í sumar, bæði vina og ættingja og naut hún þeirra heimsóknar mjög. Daginn fyrir andlátið tók hún á móti gestum og það kvöldið fór hún á gospel tónleika, en hún hafði mikið yndi af söng. Ég held að Flóra hefði ekki viljað kveðja með öðrum hætti og á stundum fannst mér eins og hún væri að nýta sumarið sem best.

Mig langar til að ljúka þessari grein með einni af þeim fjölmörgu bænum sem Flóra kenndi stelpunum mínum og var í uppáhaldi hjá henni.

 • Leiddu mína litlu hendi,
 • ljúfi Jesús, þér ég sendi
 • bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
 • blíði Jesús, að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson.)
-----------------------------------------------------

Flóru vil ég þakka fyrir áralöng góð kynni og bið guð að blessa minningu hennar.

Laufey Ása.
-------------------------------------------

Það eru margar ljúfar minningar sem koma upp í huga okkar systkina við andlát okkar elskulegu ömmu Flóru. Þessar minningar eru flestar tengdar Siglufirði en þar bjuggu amma Flóra og afi Valli í nær 50 ár og voru fastur punktur í okkar tilveru.

Það voru dýrðardagar þegar við systkinin vorum send til Siglufjarðar sem börn, stundum saman og stundum hvert í sínu lagi. Barnabörnin voru ömmu allt og henni fannst þessar heimsóknir okkar yndislegar og hún gerði allt fyrir okkur til að okkur liði sem best á Háveginum.

Amma Flóra sá til þess að við borðuðum vel á matmálstímum, sem voru fimm sinnum á dag að siglfirskum sið. Hún hafði alltaf áhyggjur af því að okkur væri kalt og yljaði okkur með því að nudda hendur og tær og var sífellt að prjóna á okkur þykka ullarsokka og vettlinga.

Það var árstíðabundið hvað var gert okkur til skemmtunar á Sigló. Á páskum fórum við á skíði upp í Skarð með kleinur í poka frá ömmu. Á sumrin fórum við í sund á Sólgörðum og í bíltúr um Haganesvík. Einnig var vinsælt að fara með okkur í bíltúr fram á fjörð og út á gamla flugvöllinn. Á sólardögum lágum við í sólbaði á pallinum og borðuðum frostpinna, sem voru alltaf til í frystinum. Á meðan rótaði amma í blómabeðunum sínum. Á haustin var svo farið með okkur í berjamó inn í Fljót og var amma ótrúlega dugleg að tína ber. Á kvöldin lásum við Tinnabækur og borðuðum frosinn bíóís, örbylgjupopp eða freyju-staur.

Á þessum árum var drukkið sodastream með öllum mat og borðað hrært skyr í hádeginu sem amma keypti í Kaupfélaginu. Stundum fórum við með ömmu í vinnuna á Vökuskrifstofuna og fengum að pikka á ritvél á skrifstofunni hennar. Amma var alltaf óróleg þegar við vorum að ferðast til og frá Siglufirði og var ekki í rónni fyrr en við vorum komin á áfangastað. Það var alltaf okkar fyrsta verk að hringja norður og tilkynna að við værum komin heilu og höldnu heim eftir þessar Siglóferðir.

Við fengum margar góðar sendingar frá Sigló á afmælum og jólum og amma skrifaði alltaf sérstaklega fallegar kveðjur í öll kort sem hún sendi til okkar. Einnig var fastur liður að fá súkkulaðidagatal í desember og páskaegg á páskum frá ömmu og afa á Sigló.

Það er langt á milli Siglufjarðar og Reykjavíkur svo amma og afi fluttu til Hveragerðis fyrir sjö árum til þess að vera nær fjölskyldunni. Þá var hægt að skreppa í stuttan bíltúr til Hveragerðis í heimsókn og borða kleinur, soðið brauð og brúnköku inni í eldhúsi hjá ömmu.

Hin síðari ár voru samskipti hennar við Stefni bróður okkar henni sérstaklega mikils virði. Það var henni einnig mikil gleði að verða langamma. Hún hélt mikið upp á litla langömmubarnið sitt en bað samt um að vera bara áfram kölluð amma Flóra, en ekki langamma, því eins og hún sagði; "ég er bara amma Flóra".

Við minnumst ömmu sem alveg einstakrar manneskju sem fyllti líf okkar af hlýju og ást. Skapstyrkur hennar og röggsemi verður okkur innblástur um ókomin ár. Minningin um ömmu Flóru mun skipa stóran sess í hjörtum okkar systkina og við kveðjum ömmu með söknuði, en erum þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum saman.

Fríða, Elsa Karen og Valtýr.
--------------------------------------------------

Elsku amma, ég sakna þín afar mikið og hef ákveðið að kveðja þig með nokkrum af þeim afar mörgu minningum sem þú hefur skilið eftir.

Ekkert var skemmtilegra en að fara til ömmu og afa á Sigló. Ég fór til þeirra þegar ég fékk frí frá skóla hvort sem um var að ræða sumar- eða vetrarfrí, þar tók amma manni ætíð opnum örmum með mat og frostpinna. Amma varðist, henni fannst pottréttur, lambalæri og hangikjöt mun betri matur en hamborgarar og pizzur borgarinnar og sá til þess að við fengjum nóg af almennilegum mat. Enda fannst henni alltaf barnabörnin vera grindhoruð og í hverri heimsókn var byrjað á því að vigta mann inn svo að það væri hægt að vitna í árangur þegar farið var heim aftur og hún búin að bæta einhverjum grömmum á mann.

Amma stjórnaði heimilinu af röggsemi og eitt sinn skipaði hún mér og afa að koma flugunum í suðurglugganum út úr húsi. Sem og við gerðum með lítilli handryksugu. Við vöktum enga sérstaka aðdáun þegar aðgerðin heppnaðist ekki betur en svo að þegar við slökktum á ryksugunni þá flugu þær allar út aftur.

Amma var síprjónandi og þegar ég var yngri átti ég alltaf lager af peysum, sokkum og vettlingum frá ömmu. Enda fylgdi hún því vel eftir að maður færi almennilega klæddur út á veturna. Hún tók vel á móti manni með kakói eða einhverju heitu hvort sem maður kom kaldur úr snjóhúsinu eða af skíðum.

Á sumrin var farið í ferðir í kringum Siglufjörð og skoðað umhverfið og sest út í náttúruna. Á haustin var farið í berjamó með að sjálfsögðu nóg nesti fyrir alla og vel það.

Alltaf var hægt að stóla á að fá veitingar og faðmlag hjá ömmu. Eitt sinn hringdi ég í hana þegar ég var 10 mínútur frá Hveragerði en samt fékk ég kótilettur með öllu tilheyrandi þegar þangað var komið.

Elsku amma, ég þakka þér allar samverustundirnar og hlýjuna sem virtist vera ótakmörkuð.

Takk fyrir allt. Þinn Gunnlaugur.
----------------------------------------------

Fyrsta minning mín um þig eru fallega skrifuð bréf sem við fengum um hver jól. Ég sat og horfði á þessa fallegu rithönd og mig dreymdi um að þegar ég yrði stór myndi ég skrifa eins og þú. Þú varst fyrsti tengiliðurinn við föðurætt mína, ég hafði ekki hitt þig en af myndum vissi ég hvernig þú leist út. Þegar ég var orðin fullorðin heimsótti ég þig, fyrst á Siglufjörð og hin síðari ár í Hveragerði.

Þú tókst á móti mér af þinni einstöku hlýju, glaðværð og kærleik sem einkenndi öll þau skipti sem við hittumst, mikið var hlegið og grínast. Þá sýndirðu mér myndir og fræddir mig um föðurfjölskyldu mína, og einnig um pabba sem ég náði ekki að kynnast almennilega. Mig langar til að þakka fyrir bréfin sem þú sendir mér við þau tækifæri sem við gátum ekki hist, nú síðast við andlát mömmu fyrir rúmu ári. Enn þá var skriftin þín falleg, ég næ henni aldrei. Takk fyrir allt. Samúðarkveðjur til Valtýs, barnanna og fjölskyldna þeirra.

Fríður Garðarsdóttir.