Guðbjörg M. Franklínsdóttir

Guðbjörg Franklínsdóttir fæddist í Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu 19. október 1912.  - Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar fimmtudaginn 20. október 2005.

Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson,bóndi í Litla-Fjarðarhorni, og kona hans Andrea Jónsdóttir húsfreyja.

Guðbjörg var eitt þrettán barna þeirra hjóna, og eru nú sjö þeirra á lífi. Hún ólst upp í Litla-Fjarðarhorni og dvaldist þar fram undir tvítugt, en réð sig þá til ráðskonustarfa í Reykjavík.

Árið 1931 fer hún til Siglufjarðar þar sem hún kynnist manni sínum, Guðmundi Konráð Einarssyni, f. á Siglufirði 15. júní 1909, d. 20. janúar 2002, sem lengi var starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins þar.

Guðbjörg og Guðmundur Einarsson eignuðust sjö börn.
Þau eru;

 • Einar Guðmundsson, f. 30. sept. 1933, kvæntur Sólveigu Kristinsdóttur, þau eiga fjögur börn,
 • Helga Guðmundsdóttir, f. 18. mars 1937, maki Haraldur Árnason, þau eiga tvö börn,
 • Maron Guðmundsson, f. 13. okt. 1940, d. 13.11. 2004, hann á tvö börn,
 • Guðrún Guðmundsdóttir, f. 9. nóv. 1941, gift Þráni Oddssyni, þau eiga fjögur börn,
 • Benedikt Guðmundsson, f. 2. nóv. 1942, hann á tvö börn,
 • Sigurður Guðmundsson, f. 26. nóv. 1949 og
 • Inga Guðmundsdóttir, f. 28. júlí 1952, í sambúð með Bjarna R. Harðarsyni, hún á tvö börn.
Guðbjörg Franklínsdóttir -- ókunnr ljósmyndari

Guðbjörg Franklínsdóttir -- ókunnr ljósmyndari

Auk þess að sinna heimilisstörfum tók Guðbjörg þátt í síldarævintýrinu á Siglufirði eins og algengt var að húsmæður gerðu á fyrri hluta síðustu aldar, meðan síldin veiddist fyrir Norðurlandi.

Útför Guðbjargar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
_______________________________________

Guðbjörg fæddist á Litla-Fjarðarhorni á Ströndum 19. október 1912, sjötta í röð þrettán systkina. Guðbjörg vann öll almenn sveitastörf á æskustöðvunum að Litla-Fjarðarhorni.

Eftir að hún kynntist eiginmanni sínum Guðmundi Einarssyni vélstjóra á Siglufirði vann hún flest þau störf sem til féllu í sjávarplássum eins og í Siglufirði, þ.e. við síldarsöltun og hvers konar fiskvinnslu.

Þegar Guðmundur tók að sér uppsetningu á verksmiðjum bæði á Vestfjörðum og Austjörðum fylgdi Guðbjörg honum og hafði umsjón með rekstri mötuneyta á stöðunum við góðan orðstír.

Guðbjörg tók þátt í baráttu fyrir betri kjörum verkafólks í Siglufirði á árum áður og var í stjórn verkalýðsfélagsins á staðnum.

Guðbjörg og Guðmundur eignuðust sjö börn og lifa sex þeirra móður sína en Guðmundur lést 2002. Guðbjörg var mikill öðlingur og ljúf og hlý persóna sem ég hefði viljað kynnast miklu fyrr á ævinni Þær stundir sem við sátum og spjölluðum um liðna tíð líða mér seint úr minni og þegar hún dró upp myndir úr minningunum frá barnæsku sinni á Ströndum varð mér ljóst hvílíkt hyldýpi er á milli þeirra aðstæðna sem voru á þessum tímum og eru í dag en henni var alltaf jafnhlýtt til æskustöðvanna.

Alltaf var ég jafnundrandi á hvílíkt minni Guðbjörg hafði og ég margsannfærðist um að það var oftast jafngott að fletta upp í hennar minni sem í hvers konar ritum um viðkomandi menn eða málefni. Ættfræðiáhugi var mikill hjá Guðbjörgu, ættræknin mikil og hún fylgdist eins náið með ættingjunum og hún hafði möguleika á.

Hún var mikill lestrarhestur sem hafði yndi af góðum bókum og var mjög víðlesin og fjölfróð. Guðbjörg hafði mikið yndi af alls konar hannyrðum og lék það allt í höndum hennar, hún var mikil félagsvera og var einn af stofnfélögum Félags eldri borgara í Siglufirði.

Nú á kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo yndislegri persónu sem hún var.

Blessuð sé minning Guðbjargar M. Franklínsdóttur.

Bjarni Rúnar Harðarson.
-----------------------------------------

Nú kveð ég þig, elsku amma.

Amma, þú sem alltaf varst svo kát og hress. Amma þú varst svo ung í anda þó að aldurinn færðist yfir. Nú ertu horfin okkur um stund, en minningarnar ljúfar lofa góðan endurfund.

 • Nú legg ég augun aftur,
 • ó, Guð, þinn náðarkraftur
 • mín veri vörn í nótt.
 • Æ, virst mig að þér taka,
 • mér yfir láttu vaka
 • þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Guðrún Maronsdóttir.
-------------------------------------------------------

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að venja komur mínar á Suðurgötu 12 til Buggu og Munda til að leika við frændsystkini mín og þiggja eitthvað í gogginn í leiðinni. Ekki fúlsaði ég við neinu af því sem á borð var borið og einhverra hluta vegna bragðaðist allur matur þar vel sem hún lagði fyrir mann og meira að segja það sem ég ekki vildi í öðrum húsum borðaði ég með bestu lyst hjá henni.

Oftar en ekki sátum við krakkarnir með námsbækurnar á eldhúsborðinu á Suðurgötunni og lærðum fyrir morgundaginn og Bugga hélt okkur við efnið og hjálpaði til við skilninginn. Fyrir kom ef ekki voru alveg klár svör við gátum dagsins að hún sló á þráðinn til Guðbrands kennara til að sannreyna hlutina svo við færum með réttu lausnirnar í skólann.

Það hefur verið fastur liður í heimsóknum mínum til Siglufjarðar að líta inn til Buggu til að rifja upp liðna tíð og þiggja hjá henni einhvern viðurgjörning í leiðinni. Ekki var nú verra að reka inn nefið á sunnudegi eða á öðrum tyllidögum því þá voru gjarnan landsins bestu pönnukökur á borðum og sulta og þeyttur rjómi í ísskápnum. Þá var nú hátíð. Ég veit hvar hún skildi eftir pönnuna og galdurinn við baksturinn og ég hlakka til að koma norður.

Alla tíð var Bugga eitthvað að sýsla með garn og prjóna en handverkið hennar var alveg framúrskarandi. Síðast þegar við hittumst núna síðla sumars þá var hún að sýna mér hvað hún var með á prjónunum. Og svo var sérrí í skápnum. Það er sennilega það eina sem ég hef ekki þegið af henni á lífsleiðinni.

 • Hver sem undir þaki þínu
 • þáði gisting eitthvert sinn,
 • ævilangt á sinni sínu
 • signet andans ber og mínu.
 • Svo er styrkur þanki þinn.

(Steinn Steinarr.)

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir öll faðmlögin og vangastrokurnar frá fyrstu tíð til hinstu stundar. Ég þykist vita að Mundi bíður eftir henni og vonandi er hann með pennann góða. Börnum hennar, fjölskyldum þeirra og afkomendum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur frá okkur bræðrum og fjölskyldum okkar.

Guðmundur J. Albertsson.
-------------------------------------------------

Elsku amma. Margar minningar um þig á ég úr barnæsku, enda kenndir þú mér að lesa, skrifa, reikna og seinna að þylja utan að skólaljóðin sem mér þótti hvorki gaman né auðvelt. Þú kenndir mér að tefla og spila, og hafðir síst minna gaman af en ég sem lítill snáði. Þú komst mér í sund, sást til að ég fengi skíði og hvattir mig frekar en lattir til fótboltaiðkunar þó ekki kæmi ég alltaf á réttum tíma í mat. Minningarnar eru margar frá æskudögunum á Siglufirði.

Þú fæddir mig eins og fleiri, oft af litlum efnum en af þeim mun meiri alúð; kleinurnar og tíglarnir verða mér ávallt minnisstæðir ekki síður en súra slátrið og hafragrauturinn. Þú klæddir mig eins og reyndar mun fleiri, mjög ríkmannlega; allar handprjónuðu peysurnar, sokkarnir, húfurnar og vettlingarnir gleymast ekki. Skjólið sem þú veittir, fellur hvorki mér né öðrum úr minni; fæstir hafa jú búið í "höll".

Ævi þín eins og fleiri sem fæddust snemma á síðustu öld hefur örugglega ekki alltaf verið auðveld. Að eignast svo mörg börn er út af fyrir sig afrek og ekki síður að koma þeim á legg þegar hugtök eins og "samfélagslegur stuðningur" hefur tæpast verið til. Þú talaðir alltaf eins og þín stærstu auðæfi og eftirlaun væru börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin. Að því búum við öll.

Frístundir áttir þú ekki margar og ferðalög til útlanda tæpast efst í huga. Þegar stund gafst á milli stríða var tekið slátur, sultað, bakað eða prjónað. Prjónaframleiðsla og sala ykkar systra er bara lítið dæmi um sjálfsbjargarviðleitnina og dugnaðinn. Iðjusemin og ósérhlífnin verður okkur ætíð fyrirmynd.

Að gera ekki meir úr vandamálum eða þrautum en efni standa til er vægt til orða tekið þegar reynt er að lýsa æðruleysi sem ávallt einkenndi þig. Sá þig varla bregða skapi eða lýsa þjáningum, lést frekar eins og ekkert væri að eða hentir að því grín. Ávallt bjartsýn og létt í skapi rétt eins og lífið væri bara skemmtilegt bingó.

Guðbjörn.