Guðlaugur Helgi Karlsson

Mbl.is 18. október 2014 |

Guðlaugur Karlsson fæddist á Siglufirði 25. desember 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 11. október 2014.

Foreldrar hans voru hjónin Herdís Hjartardóttir húsmóðir, f. 15.8. 1894 í Langhúsum í Fljótum í Skagafjarðarsýslu, d. 26.12. 1987 og Karl Sturlaugsson húsasmíðameistari, f. 27.4. 1886 í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu, d. 8.2. 1948.

Systkini Guðlaugs eru:

 • 1) Hjörtur Gunna Karlssonr, (Hjörtur Karlsson) f. 13.4. 1926, d. 25.4. 2000 og
 • 2) Herdís Kristín Karlsdóttir, (Herdís Karlsdóttir) f. 30.10. 1927, d. 11.4. 2006.

Guðlaugur kvæntist 6.9. 1952 eftirlifandi eiginkonu sinni Magðalenu Sigríði Hallsdóttur, fv. símafulltrúa, f. 28.6. 1928 á Siglufirði. Foreldrar hennar voru Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 15.12. 1897, d. 10.8. 1983 og Hallur Garibaldason verkamaður, f. 24.6. 1893, d. 15.4. 1988.

Guðlaugur Karlsson - ókunnur ljósmyndari

Guðlaugur Karlsson - ókunnur ljósmyndari

Börn Guðlaugs og Magðalenu eru:

1) Guðný Sigríður Guðlaugsdóttir
börn þeirra eru:
, ljósmóðir og hjúkr.fr., f. 23.11. 1953, maki
Ómar Einarsson
framkv.stj., f. 14.2. 1954,
 • a) Einar, f. 1981, sambýliskona Unnur Gísladóttir, f. 1983, dóttir þeirra Karen Emmý, f. 2010,
 • b) Soffía Arna, f. 1985, maki Ari Þorleifsson, f. 1982, sonur þeirra Ómar, f. 2013,

2) Guðrún Herdís Guðlaugsdóttir
börn þeirra eru:
skrifstofumaður, f. 24.4. 1957, maki Kristján S. Sigmundsson framkv.stj., f. 9.6. 1957,
 • a) Sigmundur, f. 1983, maki Svanhildur Birgisdóttir, f. 1982, börn þeirra Þóra Marín, f. 2011 og Kristján Sigfús, f. 2013,
 • b) Magðalena Sigríður, f. 1988, sambýlismaður Arnþór Gíslason, f. 1984, sonur þeirra Gunnar Helgi, f. 2014,
 • c) Guðlaugur Helgi, f. 1994, unnusta Sóley Ósk Benediktsdóttir, f. 1994,
3) Karl Guðlaugsson
börn þeirra eru:
tannlæknir, f. 7.4. 1966, maki
Kristjana Sæberg Júlídóttir
hjúkr.fr., f. 22.10. 1963,
 • a) Sara Margrét, f. 1986,
 • b) Sigríður, f. 1992, sambýlismaður Eiríkur Björgvin Hilmarsson, f. 1987, sonur Eiríks er Mikael, f. 2007,
 • c) Júlí, f. 1996, unnusta Brynja Þórðardóttir, f. 1997, d) Lív, f. 2002,
4) Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir
börn þeirra:
, hjúkr.fr., f. 17.6. 1969, maki Nils Gústavsson, verkfr., f. 5.2. 1966,
 • a) Margrét, f. 1998,
 • b) Andrea, f. 2001 og
 • c) Gústav, f. 2003.

Guðlaugur var fæddur og uppalinn á Siglufirði og bjó þar allt sitt líf. Hann lauk loftskeytaprófi 1948 og fiskmatsprófi 1959. Hann starfaði sem loftskeytamaður á símstöðinni á Siglufirði og í afleysingum á flutningaskipum og togurum auk þess að starfa í frystihúsi og á skattstofunni. Guðlaugur var símafulltrúi á símstöðinni á Siglufirði frá árinu 1967 þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Guðlaugur tók þátt í ýmsum félagsstörfum, s.s. hjá Rótarý, Lions, sat í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju auk þess að vera virkur félagi í Karlakórnum Vísi þar sem hann var formaður í nokkur ár.

Útför Guðlaugs fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 18. október 2014, og hefst athöfnin klukkan 14.
--------------------------------------------------------

Það var kyrrð yfir firðinum fagra. Stilla sem aldrei fyrr og mátti sjá glitta í „morsandi“ stjörnur á himinhvolfinu innan um dúnmjúk ský með snævi þakinn fjallahringinn sem umvefjandi faðm. Kallið var komið og tími til þess að leggja af stað hjá pabba okkar Guðlaugi Helga, á vit nýrra ævintýra í faðm þess hlýja og fallega sem bíður okkar allra.

Við þökkum Guði fyrir þennan yndislega pabba. Við kveðjum hann með þakklæti í hjarta fyrir alla þá ást og umhyggju sem hann gaf okkur og fyrir að vera til fyrir okkur. Við grátum af gleði yfir því að hafa átt hann, en líka af því við munum sakna hans svo mikið.

Guðný Sigríður, Guðrún Herdís, Karl og Guðbjörg Jóna.

Tengdafaðir minn Guðlaugur Helgi Karlsson hefur fengið hvíldina. Ég veit að hún var honum kærkomin eftir mörg ár þar sem hann gat ekki notið þeirra gæða sem lífið hafði upp á að bjóða.

Ég kynntist Gulla Kalla fyrst sumarið 1977, þegar ég kom inn í fjölskylduna. Ég kom til Siglufjarðar í sýningarferð og á móti mér tók Gulli og ég kynnti mig. Ég hafði rétt náð að segja til nafns þegar hann sagði að við þyrftum að fara niður í kjallara og athuga með þvottavélina. Þar kynntist ég „bússunni“ fyrst.

Við náðum strax mjög vel saman og má segja að við höfum frá fyrstu tíð verið á sömu blaðsíðu eins og sagt er í dag. Margar eru minningarnar, t.d. þurfti alltaf að vera að gera eitthvað, hvort sem það var að fara á haugana, bletta húsið eða kíkja á hefilbekkinn hjá Hirti, bróður Gulla.

Eitt af því sem hann var mjög stoltur af var Karlakórinn Vísir, en Gulli var einmitt þátttakandi í því mikla ævintýri sem kórinn var. Þeir héldu tónleika um allt land, ferðuðust til útlanda og má segja að þeir hafi verið popparar þess tíma. Hvað hlustuðum við ekki oft á Karlakórinn Vísi í stofunni á Fossveginum og hann sagði sögur frá ferðum kórsins.

Það var alltaf líf í kringum Gulla Kalla, enda sagði hann að það þýddi nú lítið að vera bara „að sjúga bolsíur“, það væri nær að fá sér smá „límonaði“ og á ég margar frábærar minningar frá þeim tíma sem ég geymi með mér. Gulli talaði oft í frösum, sem í dag eru orðnir fastir innan fjölskyldunnar.

Einnig átti hann það til að gefa hinum ýmsu mönnum viðurnefni sem mér skilst að pabbi hans, Kalli Sturlu, hafi einnig verið frægur fyrir.

Þegar Gulli vann sem símafulltrúi á símstöðinni á Siglufirði, þá fékk maður iðulega símtöl frá honum og alltaf byrjaði hann samtalið með því að segja: „Ég er bara að kanna sambandið,“ og síðan var rætt um eitt og annað.

Ég eignaðist ekki bara frábæran tengdaföður, heldur einnig mikinn vin, því það bar aldrei skugga á okkar vináttu. Minningar mínar um tengdaföður minn tengi ég við síðustu öld, því það eru minningar sem standa uppúr og lýsa honum eins og hann var, en heilsu hans fór að hraka upp úr aldamótunum og var hann engan veginn sami maður og áður.

Við höfðum oft gantast með „bússuna“ enda hún samofin kjallaranum á Fossveginum. Það var svo einn blíðviðrisdag, sumarið 2002, að hann kom austur í sumarbústað til okkar Guðrúnar og hvað hafði hann í farteskinu? Jú hann færði mér „Bússuna“ að gjöf og sagði að hún væri best komin hjá mér í geymslunni í sumarbústaðnum, hann hefði ekki not fyrir hana lengur.

Elsku Madda mín, ég bið góðan Guð að vaka yfir þér um leið og ég þakka tengdaföður mínum fyrir allt og allt.

Þinn tengdasonur, Kristján S. Sigmundsson.
------------------------------------------------

Guðlaugur Helgi Karlsson, Gulli Kalla, tengdafaðir minn, frá Siglufirði hefur fengið langþráða hvíld. Hin síðari ár hafa verið honum erfið og dapurt hefur verið að horfa upp á heilsuna bresta og lífið fjara út.

Það mun þó ekki skyggja á fyrri tíma, með ótal minningum um stundir sem voru fullar af lífsgleði og skemmtilegheitum.

Alla tíð bjuggu Gulli og Madda á Siglufirði og þangað fóru börn, tengdabörn og barnabörn reglulega og upplifðu lífið og tilveruna með öðrum hætti en á höfuðborgarsvæðinu. Umhyggja Gulla fyrir fjölskyldunni var mikil, barnabörnin hændust að honum og elskuðu hann öll og fannst fátt skemmtilegra en að vera hjá afa Gulla og ömmu „túrbó“.

Og svo var líka veðrið alltaf svo gott á Sigló og í daglegum símtölum, hér áður fyrr, við Gulla á símstöðinni voru veðurlýsingarnar alltaf með sama hætti, veðrið var dásamlegt og skipti þá ekki máli hvort úti væri sól og blíða eða norðangarri. Gulla verð ég svo ævinlega þakklátur fyrir að hann skyldi treysta mér svona vel fyrir Lordinum.

Minning hans verður í heiðri höfð á Fossveginum, þar sem börn og fjölskyldur hafa komið sér upp dvalarstað í glæsihúsinu sem hann byggði, þar verður gestum boðið upp á snafs úr bússu og spiluð tónlist með Karlakórnum Vísi.

Starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar er þökkuð öll umönnun og hjúkrun, hin síðari ár, við bæði Gulla og Möddu.

 • Ég vildi að ég væri eins og þú
 • og vakað gæti bæði daga og nætur
 • Þá öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú
 • sem aldrei bregst er hugga lætur.
 • Já, ef ég mætti lifa eins og lindin silfurtær
 • sem lög á sína undrastrengi slær.

(Bjarki Árnason)

Ómar Einarsson.
------------------------------------------------------

Nú hefur elsku besti afi minn kvatt þennan heim. Sorgin er mikil en huggunin er sú að nú ertu kominn á góðan stað og laus úr fjötrum lúins líkama.

Margar hlýjar og góðar minningar rifjast upp um góðan og hjartahlýjan afa og mun ég varðveita þær í hjarta mínu alla ævi.

Ég kveð þig nú með þakklæti fyrir samfylgdina og treysti því að vel verði tekið á móti þér.

 • Þangað til næst
 • Legg ég nú bæði líf og önd,
 • ljúfi Jesús, í þína hönd,
 • síðast þegar ég sofna fer
 • sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgrímur Pétursson)

Þín afastelpa,  Soffía Arna.
------------------------------------------------------

Gulli frændi var hrókur alls fagnaðar. Mér þótti hann alltaf ótrúlega skemmtilegur.

Við vorum systkinabörn og mikill samgangur á milli systkinanna þegar ég var að alast upp. Ég, sem langyngsti meðlimur beggja fjölskyldna, leit upp til frændsystkina minna og var ekkert nema eyru og augu þegar þau voru nálæg. Gulli var yngstur þriggja systkina en Hjörtur var elstur og Dísa í miðið.

Heima hjá mér gengu Gulli og Hjörtur alltaf undir nafninu „strákarnir“ en það voru engir strákar á mínu heimili, en Dísa var kölluð „Dísa litla“ til að aðgreina hana frá móður sinni. Dísa var mér sem fjórða systirin alla tíð. Í raun fannst mér þau öll eins og eldri systkini mín þrátt fyrir töluverðan aldursmun. Gulli og Hjörtur unnu báðir sem loftskeytamenn á ritsímanum á Siglufirði og voru alla tíð óaðskiljanlegir bræður. Gulli missti mikið þegar Hjörtur lést fyrir nokkrum árum. Gulli var alltaf hress, mjög fyndinn og orðheppinn.

Það fór aldrei á milli mála þegar Gulli var á staðnum, hann var ekki beint lágvær. Ég minnist ótal ánægjustunda á heimili Dísu föðursystur og á heimili Gulla og Möddu eiginkonu hans, en þau voru mjög gestrisin og frábær heim að sækja. Þegar komið var á Siglufjörð eftir að ég fluttist þaðan var alltaf farið að heimsækja Gulla og Möddu. Var mér og fjölskyldu minni, þegar hún kom til sögunnar, alltaf tekið opnum örmum, ekki síður af Möddu, sem var ætíð jafnelskuleg, alltaf tilbúin að hjálpa öllum og hafði ráð undir hverju rifi.

Gulli hefur átt við veikindi að stríða í mörg ár og er örugglega hvíldinni feginn. Ég samgleðst honum í hjarta mínu þrátt fyrir að erfitt sé að horfa á eftir góðum frænda. Gulli er síðastur systkinanna til að fara á vit feðra sinna. Að honum gengnum er vissum kafla lokið hjá þessum frændgarði, þó eiga þau öll afbragðsafkomendur sem þau voru örugglega stolt af, enda full ástæða til.

Ég kveð elsku frænda minn með söknuði en þakka fyrir hvað hann gaf mér með nærveru sinni, lífsgleði og góðu skapi sem barni og fullorðinni konu. Elsku Madda, Guðný, Guðrún, Kalli, Guðbjörg og fjölskyldur, ég ásamt fjölskyldunni sendi okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Sveinbjörg.
----------------------------------------------

Í dag kveð ég minn elskulega móðurbróður, Gulla frænda á Sigló. Þannig var talað um hann á mínu heimili, þetta tvennt fór saman; Gulli og Siglufjörður. Það er margs að minnast og svo margt sem ég er þakklát fyrir þegar ég hugsa með hlýju og gleði í hjarta til frænda míns. Ég var mjög lítil hnáta þegar ég man eftir mínum fyrstu ferðum til Siglufjarðar.

Þeir bræður Hjörtur og Gulli voru ávallt nefndir í sömu andránni, enda vorum við mamma oft á ferðinni að heimsækja ömmu og þá bræður og fjölskyldur þeirra á Sigló. Því er varla hægt að minnast á Gulla öðru vísi en að tala líka um Hjört frænda. Ég á margar skemmtilegar og ljúfar minningar um þá bræður frá því ég var lítil stelpa. Eftirvæntingin var alltaf mikil þegar komið var akandi að Strákagöngunum og svo alltaf viss léttir að sjá húsin í bænum birtast þegar ekið var inn fjörðinn.

Eftirvæntingin var ekki síðri að fá að hitta Gulla á pósthúsinu og Hjört á loftskeytastöðinni. Ég man enn hvað ég iðaði af spenningi að hitta þá því þeir tóku mér alltaf fagnandi á vinnustaðnum sínum og leyfðu mér að skoða framandi tæki í póst- og fjarskiptum. Það var mikið ævintýri fyrir litla stelpu.

Heimsóknir á heimili Gulla og Möddu á Siglufirði voru margar, á sumrin og um páska. Það voru ófáar ferðir sem voru farnar á skíði í Hólshyrnunni um páskana. Það var alltaf yndislegt að fá að dvelja hjá þeim. Heimili þeirra einkenndist af hlýju og gestrisni og þar var alltaf líf og fjör. Gulli frændi var alltaf lífsglaður og kátur.

Þegar ég var 15 ára naut ég þeirra forréttinda að fá að búa hjá Gulla og Möddu eitt sumar á Sigló og fékk þá vinnu í frystihúsinu sem var mikil og góð reynsla. Þetta sumar var hitabylgja á Sigló, oft líflegt í bænum og margar minningar sem tengjast þessu fallega og skemmtilega sumri. Þá var gott að eiga Gulla frænda að þetta sumar og vita að það var hægt að koma til hans í eldhúsið og eiga við hann spjall um lífið og tilveruna á léttu nótunum.

Það er með þakklæti en sorg í hjarta sem ég kveð Gulla frænda enda viss þáttaskil í lífinu þegar þau systkinin, Hjörtur, mamma og Gulli, hafa öll kvatt okkur. Þau eru öll komin heim. Á síðustu árum, eftir að Gulli veiktist, hefur það verið einstakt að fylgjast með því hversu dugleg frændsystkini mín hafa verið að hugsa um foreldra sína á Siglufirði. Það er óendanlega mikils virði að sinna nánasta fólkinu sínu eins vel og þau hafa gert. Ég bið góðan Guð að blessa Möddu, Guðnýju, Guðrúnu, Kalla og Guðbjörgu og fjölskylduna, hugga og styrkja ykkur öll í sorginni og varðveita allar góðar minningar sem þið eigið um ykkar elskulega eiginmann, pabba, tengdapabba og afa.

 • Nú lyftir hann hendinni, signir sig,
 • svo á hann erindi, Guð, við þig,
 • ég veit það, því varirnar bærast.
 • Hann flýtir sér ekkert, hann er hjá þér,
 • nú er hann að biðja fyrir sér
 • og öllu sem er honum kærast.
 • Svo þegar kemur hann aftur inn
 • hve endurnærður er svipurinn
 • og kveðjan hans þá er þessi:
 • Guð gefi þér nú góðan dag
 • og gæti að okkar ævihag
 • og húsið og bæinn hann blessi.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Með hjartans kveðju, Herdís Gunnarsdóttir.
------------------------------------------------------

Mig langar að minnast Gulla Kalla í nokkrum orðum, hver þekkir ekki Gulla Kalla á Siglufirði? Ég held að allir þekki hann. Ég var ekki gömul þegar ég fór að gefa Gulla afmælisgjafir og var sú gjöf eins ár eftir ár; jú, svartir sokkar vel pakkaðir inn í jólapappír! Það er svo margs að minnast en helstu minningar eru þegar ég fékk að fara með Gulla í jeppanum Kalla og voru þau ófá skiptin sem Gulli greip mann upp í á leið heim úr skólanum.

Fannst manni það heiður að fá að sitja í hjá honum og alltaf var þessi góða setning sem hann sagði við mig: „Hv ett bosja bosja gamla geit,“ og alla tíð þegar við hittumst kom þessi setning hjá honum. Gulli kom oft í heimsókn til okkar þegar við bjuggum á Siglufirði. Eitt skiptið var Gulli einn heima og bauð mamma honum í sunnudagsmat.

Gulli spurði hvað yrði í matinn, mamma sagði að það væri snitsel, sem var uppáhaldsmatur hans. Gulli mætir í matinn og segir þegar hann er búinn að háma í sig snitselið að hann hafi nú aldrei fengið svona gott lambasnitsel. Það var ekki fyrr en löngu seinna að mamma sagði honum að þetta hefði ekki verið lambasnitsel heldur href="javascript:void(0)"nusnitsel en Gulli borðaði ekki href="javascript:void(0)"nukjöt.

Gulli var gull af manni og gleymi ég ekki, þegar pabbi minn slasaðist alvarlega, að daglega hringdi Gulli í móður mína til að „testa“ sambandið hjá skautadrottningunni eins og hann kallaði hana. Ég er viss um að það var mesti og besti stuðningur sem móðir mín fékk á þessum tíma. Alltaf var Gulli hress og var hann alltaf tilbúinn að hressa mömmu mín og veit ég að hún mun alltaf vera honum þakklát fyrir þessi símtöl. Elsku Gulli, ég ætla að kveðja þig með þessum orðum: „Hv etta bosja bosja.“

Helga Sigríður.