Tengt Siglufirði
Guðmundur Árnason fæddist á Ólafsfirði 4. febrúar 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 15. júní 2014.
Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir frá Ólafsfirði, f. 27. mars 1904, d. 3. mars 1985, og Árni Steindór Guðmundsson úr Skagafirði, f. 18. nóvember 1898, d. 20. febrúar 1988. Systkini Guðmundar eru
Eiginkona Guðmundar er Regína Guðlaugsdóttir, f. 6.9. 1928. Regína er dóttir hjónanna Þóra Björnsdóttir Ólsen, f. 4.11. 1897, d. 27.3. 1976, og Guðlaugur Gottskálksson, f. 1.10. 1900, d. 6.2. 1977.
Regína
og Guðmundur gengu í hjónaband 1. október 1950 á Barði í Fljótum.
Dætur þeirra eru:
Guðmundur hóf árið 1948 störf hjá Pósti og síma á Siglufirði. Hann gegndi stöðu stöðvarstjóra hjá Pósti og síma í Kópavogi árin 1973-1978 og síðar stöðu stöðvarstjóra hjá Pósti og síma á Siglufirði árin 1978-1998.
Útför Guðmundar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 28. júní 2014,
og hefst athöfnin kl. 14.
-------------------------------------------------
Elsku hjartans pabbi minn. Á kveðjustund koma margar minningar og myndbrot upp í hugann. Verð að viðurkenna að ég er oft búin að hlæja upphátt í gegnum tárin. Ég á svo margar skemmtilegar minningar um pabba, en stundum gat hann farið ótrúlega í taugarnar á mér, sérstaklega þegar hann var með veiðidelluna. Ég fékk það dásamlega hlutverk að fara upp í fjall og ná í mosa handa ánamöðkunum.
Fyrst fannst mér þetta skemmtilegt, en þegar hann gat bara alls ekki farið að veiða nema hafa mig með fóru nú að renna á mig tvær grímur. Mér fannst mýið óþolandi og ekki skemmtilegt að ganga með nælonsokk yfir andlitinu. Ég gerði þetta af mikilli samviskusemi af því að pabbi taldi mér trú um að ég væri veiðiklóin hans. Þegar ég lít til baka þá var þetta bara rétt hjá honum, hann fékk alltaf lax ef ég var með. Einu sinni gerði hann mér mikinn grikk og setti ánamaðk á milli varanna á sér þegar hann var að þræða upp á öngulinn, þetta fannst mér ekki fyndið.
Pabba var margt til lista lagt. Hann var í frjálsíþróttum og átti drengjamet í þrístökki í mörg ár. Hann var góður skíðastökkvari, tók alltaf þátt í öllum skíðamótum á Siglufirði, bæði sem þátttakandi og dómari. Pabbi var frábær bridgespilari og tónlistarmaður. Hann spilaði með hljómsveitinni Gautum um tíma á trommur og saxófón, sem var hans uppáhaldshljóðfæri.
Fyrir hver jól fór pabbi til rjúpna til að veiða í jólamatinn. Hann veiddi bara í matinn fyrir aðfangadag, aldrei umfram það, hreinsaði svo byssuna og geymdi til næsta árs. Góð fyrirmynd.
Pabbi veiddi í matinn en var alls ekki liðtækur í eldhúsinu, langt því frá, samt reyndum við mamma að fá hann til liðs við okkur. Fundum út að hann gæti skrælt kartöflurnar, sem hann gerði bara vel, en varð að vera einn því hann tók svo mikið pláss í eldhúsinu. Hann fór í sumarbústaðinn með nokkrum mönnum til að dytta að eitt sinn, sagan segir að hann hafi hellt upp á kaffi, en menn þurftu að sverja eið að segja mömmu ekki frá því.
Pabbi hafði ótrúlega gaman af sögu og landafræði, las mikið og var mjög fróður. Ótrúlega skemmtilegt að ferðast með honum. Mér er minnisstætt ferðalag sem stórfjölskyldan fór í til Lúxemborg fyrir mörgum árum og skoðuðum við Rínardalinn. Pabbi var búinn að liggja yfir sögunni og svæðinu og kunni allt utan að. Dásamlegt að hafa hann í aftursætinu eins og leiðsögumann.
Pabbi elskaði að ferðast, hann var svo þyrstur í fróðleik. Ítalíuferð með foreldrum fyrir nokkrum árum var mjög dýrmæt. Ég veit í dag að ef pabbi hefði getað ferðast aftur þá væri það til Ítalíu. Ég vona að þegar ég fer næst til Ítalíu, þá verði hann með mér.
Það má nú ekki gleyma að pabbi var eðalkrati frá upphafi til enda, mjög réttsýnn maður og stóð fast á bak við sannfæringuna sína, en var aldrei fordómafullur.
Þegar ég kveð þig, pabbi minn, þá bið ég að sálin þín megi fljúga fallega og friðsöm inn á nýjar víddir. Góða ferð.
Þóra Guðmundsdóttir.
-------------------------------------------------
Sunnudaginn 15. júní sl. kvaddi elskulegur pabbi minn eftir baráttu við Alzheimer. Þótt hvíldin hafi verið honum kærkomin finnst manni erfitt að sleppa.
Ég er svo heppin að fá bara góðar minningar upp í hugann. Pabbi var sterkur karakter, pínulítið ferkantaður eins og sumir myndu segja sem fólst þá helst í nákvæmni í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, mætti með fyrstu mönnum í vinnuna og lét aldrei bíða eftir sér. Honum fannst stundum við stelpurnar hans ekki kunna á klukku en við sögðum bara að við værum á siglfirskum tíma og þá var bara hlegið.
Pabbi var mjúkur maður og hann og mamma voru með fáar reglur í uppeldinu, treystu okkur systrum og þótti sjálfsagt að við færum eftir þessum reglum og reyndum við ekki að sniðganga þær. Hann var mjög stoltur og ánægður með okkur og mömmu og var hann mjög duglegur að benda okkur á styrkleika okkar og hvað við gætum gert betur og hvetja okkur til góðra hluta. Barnabörnin voru honum einstaklega kær og nefndi hann oft við mömmu hversu gæfusöm og heppin þau væru með hópinn sinn. Nafni hans Guðmundur Freyr er frumburðurinn minn.
Að ferðast með pabba var frábært, alveg sama hvert var farið var hann hafsjór af upplýsingum sem hann fræddi okkur á enda búinn að lesa allt sem hann komst yfir um viðkomandi stað. Uppáhaldsstaðurinn hans var Ítalía og langaði hann alltaf aftur en vegna heilsubrests komst hann aldrei.
Fljótin voru líka í uppáhaldi hjá honum því hann og mamma eiga sumarbústað sem þau hafa notað mjög mikið í gegnum árin og á ég margar góðar minningar þaðan. Pabbi kenndi mér að veiða enda mikill veiðimaður. Hann veiddi mikið í Fljótánni og sem barn man ég svo vel hversu spennandi var alltaf þegar hann kom úr veiði, hversu marga laxa hann fékk og hversu stóra og ekki síður að fylgjast með pabba og Hauki frænda sem á bústað við hliðina taka stöðuna, metast og segja veiðisögur sem voru oft kryddaðar með pínu Ólafsfjarðargrobbi og urðu ótrúlega skemmtilegar.
Pabbi þótti nú ekkert sérstaklega liðtækur í heimilisstörfum en hann kom sterkur inn á öðru sviði, t.d. kenndi mér á skíði enda Íslandsmeistari í skíðastökki þegar hann var ungur og var alltaf til staðar fyrir mig.
Pabbi hafði sterkar skoðanir en ríka réttlætiskennd. Húmorinn og hláturinn voru til staðar og vorum við pabbi jafningar þar. Þurftum enga orðabók til að skilja hvort annað.
Pabbi lagðist inn á sjúkrahúsið á Siglufirði sl. sumar og var í rúmt ár. Þóra Regína mín flutti norður í janúar til að fara í Menntaskólann á Tröllaskaga. Hún aðstoðaði ömmu sína og var eins og sólargeisli í lífi afa síns þennan tíma með sinni opnu, jákvæðu og frábæru framkomu. Hjartans þakkir, elsku Þóra Regína mín. Hjartans þakkir sendi ég líka til lækna og hjúkrunarfólks fyrir frábæra umönnun.
Elsku mamma mín, missir þinn er mikill, yfir 64 ár saman. Þú reyndist pabba frábærlega í hans veikindum og gafst honum tækifæri til að vera lengur heima.
Elsku pabbi minn, það verður vel tekið á móti þér, við hugsum vel um mömmu. Takk fyrir allar yndislegu stundirnar.
Þín, Helena (Hella) og fjölskylda.
---------------------------------------------------------
Sunnudaginn 15. júní kvaddi yndislegi afi minn hann Guðmundur okkur. Á sama tíma og mig langar að vera ótrúlega ósátt og sorgmædd yfir því að hann skyldi fara, þá er ég samt svo þakklát að hann fékk að sofna. Á síðustu tveimur árum fór honum svo gífurlega aftur vegna Alzheimers og það var sárt að sjá hann hverfa fyrir framan augun á okkur.
Ég er alin upp að mörgu leyti hjá ömmu minni og afa á Siglufirði og það voru ófá sumrin sem ég eyddi gífurlegum tíma fyrir norðan hjá þeim. Ég hef alltaf talið mig ótrúlega lánsama að alast upp í svona nánu samneyti við þau og kenndu þau mér bæði ákveðin lífsgildi sem fylgja mér enn þann dag í dag.
Þær eru ófáar minningarnar mínar frá pósthúsinu, enda fannst mér ótrúlega spennandi að fylgjast með afa vinna. Afi leyfði mér oft að setjast við skrifborðið sitt og nota alla mögulega hluti eins og stimplana og ritvélina sem auðvitað var eins og gullnáma fyrir lítið barn. Við afi áttum það sameiginlegt að vera alveg ótrúlega ferköntuð bæði á köflum og alltaf með alla litlu hlutina á hreinu. Afi var handviss um að ég hefði lært þetta af honum ásamt því að spara og fara vel með peninga, en verst að landafræðin skilaði sér ekki jafn vel þótt hann reyndi.
Sumarbústaðurinn þeirra í Fljótunum var minn uppáhaldsstaður, minn ævintýraheimur með þeim. Að fá að fara á bátnum með afa að kíkja í netin var í uppáhaldi, enda afi ótrúlegur veiðikarl.
Afa gat maður alltaf platað í að stelast smá. Maður vissi nefnilega að þó amma væri búin að segja nei þá var oft hægt að blikka afa til að gera hlutina. Svo þegar amma reyndi að skamma hann fyrir að láta hlutina eftir mér þá brosti hann bara og hló og þá gat hún ekki annað en hlegið með.
Við afi vorum líka alltaf sammála um að amma byggi til bestu kökurnar, jólakakan og súkkulaðikakan í sérstöku uppáhaldi, og að pönnsurnar hennar væru á heimsmælikvarða. Það hefði reyndar engu skipt hvað amma bar á borð fyrir hann því að hans sögn var hún besti kokkur í heimi. Amma var honum allt, enda kletturinn hans.
Við barnabörnin og seinna meir barnabarnabörnin höfum alltaf skipað gífurlega stóran sess í lífi afa og ömmu. Afi talaði oft um hversu lánsamur hann væri að eiga okkur öll. Hann var svo yfir sig glaður þegar ég sagði honum að ég ætti von á Söru Maríu okkar og voru þau með þeim fyrstu sem mættu niðri á spítala. Þrátt fyrir veikindin mátti alltaf sjá risastórt bros í hvert skipti sem hann hitti yngstu meðlimi fjölskyldunnar. Mér datt þess vegna í hug eitt árið að láta manninn minn taka hópmynd af okkur sem ég setti í ramma frá okkur öllum og ég held ég hafi aldrei séð hann jafn yfir sig hamingjusaman með nokkra jólagjöf fyrr eða síðar.
Það er ótrúlega tómlegt hér án þín, afi minn, en ég er handviss um að þú ert kominn á betri stað þar sem þér líður vel og ég veit að einn daginn hittumst við á ný. Þangað til verða pabbi og allir hinir englarnir mínir á himnum að gefa þér faðmlögin og knúsin frá mér. Hvíldu í friði, elsku afi minn, mér þykir óendanlega vænt um þig!
Vilhelmína Eva, Steven Páll og Sara María.
--------------------------------------------------------
Elsku afi minn, Guðmundur Árnason, kvaddi okkur 15. júní síðastliðinn. Síðan hann kvaddi hafa dagarnir verið hálftómlegir. Í janúar flutti ég til Siglufjarðar til að fara í Menntaskólann á Tröllaskaga og líka til að hjálpa ömmu og afa.
Fljótlega urðu ferðir mínar til afa á hverju kvöldi og alltaf á sama tímanum kl. 20, afi var nefnilega mjög vanafastur á tíma og vildi hafa allt í föstum skorðum. Ég fór að syngja fyrir hann og elskaði afi það, sérstaklega þegar ég breytti textunum og setti hann inn í þá. T.d „Sofðu unga ástin mín“ varð „Sofðu ungi afi minn“, það fannst honum frábært. Við hlustuðum líka mikið á tónlist. Söngur og tónlist er svo gott fyrir Alzheimers-sjúklinga. Afa fannst alltaf gaman þegar ég hrósaði honum, sagði ég oft við hann að hann væri bráðmyndarlegur og vel gefinn og þá hló hann alltaf og var sammála mér.
Við föndruðum líka mikið, bjuggum t.d. til báta, hatta, blóm, froska og svani sem við gerðum í alls konar litum. Einn báturinn var blár og fannst afa hann mjög sérstakur og kallaði hann „Flakkarann“, þá skelltum við bara höttunum á okkur og fórum í sjóaraleik.
Þessi tími með afa er búinn að vera ógleymanlegur og er ég ótrúlega þakklát að hafa fengið þennan tíma með honum og stytt honum stundir í veikindum hans. Get ekki lýst með orðum hversu mikils virði afi var mér. Hann var ekki bara afi minn heldur líka besti vinur minn.
Veit þú fylgist með mér.
Elsku sterki og flotti afi minn, takk fyrir allar góðu og ógleymanlegu stundirnar. Sakna þín ótrúlega mikið. Veit það verður tekið vel á móti þér. Þín
Þóra Regína.
-----------------------------------------
Elsku afi okkar, Guðmundur, lést sunnudaginn 15. júní sl. Mikið söknum við hans. Afi hafði alltaf tíma fyrir okkur og lét okkur alltaf vita hversu mikils virði við værum.
Elsku afi okkar, takk fyrir allt það góða sem þú kenndir okkur og allar stundirnar sem við áttum með þér.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Þínir afastrákar, Guðmundur Freyr og Arnar Freyr.
Kær bróðir minn, Guðmundur Freymóður Árnason, er látinn. Guðmundur var 13 ára og Haraldur Reynir 12 ára þegar ég fæddist. Foreldrar okkar voru búsett á Ólafsfirði. Misstu sitt fyrsta barn í fæðingu, dreng. Síðan kom Guðmundur, þá Reynir og Jóhanna Guðrún sem deyr eins og hálfs árs. Og síðast kem ég, en þá voru þau flutt til Siglufjarðar.
Ég minnist Guðmundar á góðan og viðkvæman hátt. Hann var ljúfur og góður bróðir en Reynir var fjörkálfurinn. Guðmundur hafði marga hæfileika og oft mikið glens í gangi. Þeir áttu mörg áhugamál. Höfðu gaman af að dansa, syngja, spila og vera í íþróttum. Fyrir utan tónlistina og saxófón hjá Guðmundi. Einnig átti hann grammófón sem ég og Rósa frænka mín fengum að trekkja og spila uppáhaldslagið okkar.
Guðmundur var knattspyrnumaður og góður skíðamaður og varð síðar Íslandsmeistari í skíðastökki og Reynir í frjálsum og sýndi fimleika. Ég var hreykin af bræðrum mínum og fannst þeir fallegir og flottir. Einnig voru þeir miklir veiðimenn og berjatínslumenn. Guðmundur kenndi okkur unglingunum í skólanum að spila vist.
Þegar Guðmundur var svo farinn að vinna á pósthúsinu á Sigló fannst mér svo gaman að koma til hans. Hann bauð mér alltaf innfyrir að spjalla smá. Hann fylgdist með hvernig mér gekk í skólanum og hrósaði mér þegar ég var dugleg. Hann sagði að hann sæi hverjir færu vel með peninga.
Maður ætti að hafa þá slétta í veskinu en ekki vöðla þeim í vasann. Oft kom hann við hjá okkur mömmu með eitthvað gott með kaffinu. Hann kenndi mér að borða hákarl, hákarlsbitar ofan á seytt rúgbrauð var toppurinn. Eftir að ég flutti suður fengum við oft pakka í póstinum sem lyktaði vel, reyktur lax, og ég átti að ná í pakkann í hvelli.
Ég ólst upp í pólitískri umræðu. Mamma var mjög pólitísk og Guðmundur var formaður ungra jafnaðarmanna um tíma. Þannig að ef ég þurfti á aðstoð að halda um að taka ákvörðun um ýmis málefni hringdi ég í Guðmund og hann ráðlagði mér. Ekki samt endilega um pólitík. Ég hafði alltaf teiknað mikið með blýanti og þegar ég teiknaði mína fyrstu pennateikningu tók hann upp veskið og sagði:
„Ég ætla að kaupa þessa mynd.“ Nú hef ég átt heima á Siglufirði í hálft annað ár. Ég hef leitt hugann að því að hefði ég ekki kynnst sambýlismanni mínum væri ég ekki búandi á Sigló. Og hefði þar með ekki getað heimsótt og verið svona mikið hjá bróður mínum í hans veikindum. Og ég þakka honum samfylgdina í þessu lífi. Þetta er almættið sem stjórnar og ég er þakklát fyrir það.
Innilegar samúðarkveðjur til Regínu eiginkonu hans og dætranna Þóru og Helenu og fjölskyldna þeirra frá okkur Stefáni og sonum mínum og fjölskyldum þeirra.
Brynja Árnadóttir.
-----------------------------------------------------
Gagnfræðaskóli Siglufjarðar var til húsa á kirkjulofti Siglufjarðarkirkju un langt árabil. Þar hlaut margt ungmennið þekkingu og þroska í góðum félagsskap kennara og nemenda. Siglufjarðarkirkja var á þessum árum sannkölluð mennta- og menningarmiðstöð, eins og íslenzk kirkja var um aldaraðir – og er enn. Á þessum árum var mikill æskuþróttur undir kirkjuþakinu og fjölbreytt félagslíf, auk hefðbundins náms.
Það var haustið 1942, í miðri heimsstyrjöld, sem undirritaður og nokkrir tugir siglfirzkra og aðkominna unglinga hófu gagnfræðanám í Siglufjarðarkirkju. Meðal þeirra voru tveir einstaklingar, piltur og stúlka, sem urðu síðar hjón og mætir borgarar í Siglufjarðarkaupstað: Guðmundur Árnason, afreksmaður í skíðaíþróttum og stöðvarstjóri Pósts og síma, og Regína Guðlaugsdóttir, lengi íþróttakennari í Siglufirði.
Við Guðmundur áttum töluvert saman að sælda þegar á unglingsárum, fyrst og fremst vegna sameiginlegs áhuga beggja á íþróttum. Við æfðum saman frjálsar íþróttir, sem áttu vinsældum að fagna í bænum um þessar mundir. Við vórum í siglfirzku keppnisliði, sem sótti heim Ísfirðinga og Þingeyinga. En það var í skíðaíþróttum, sem Guðmundur gerði garðinn frægan, einkum í skíðastökki, en hann var Íslandsmeistari í þeirri grein árin 1952 og 1954. Hann bjó yfir ríkum keppnisanda og vilja til að gera allt, sem hann tók sér fyrir hendur, eins og hann bezt gat með sem mestum árangri.
Síðar spiluðum við saman brids, bæði í heimaklúbbi og innan Bridsfélags Siglufjarðar. Leiðir okkar lágu einnig saman í Lionsklúbbi Siglufjarðar og víðar í félagsstarfi. Guðmundur var góður félagi, hreinn og beinn, glaður á góðri stundu, hjálpsamur og vildi öllum vel.
Sem fyrr segir hóf hópur ungmenna gagnfræðanám í Siglufjarðarkirkju haustið 1942, fyrir 72 árum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þeim haustdögum. Heimurinn og heimabyggðin hafa breytzt ótrúlega mikið. En eitt er óbreytt: Vináttubönd ungs fólks, sem voru traustlega knýtt á kirkjuloftinu heima í miðri heimsstyrjöldinni síðari.
Einn úr hópnum, Guðmundur Árnason, er í dag kvaddur í þessari sömu kirkju, genginn inn í þá framtíð, sem okkar allra bíður, þar sem birtan, fegurðin og kærleikurinn ráða ríkjum. Hann dó inn í sumarið, sem vekur íslenzkt lífríki til nýs lífs, lita og fegurðar.
Ég og fjölskylda mín þökkum Guðmundi og Regínu áratuga vináttu. Megi genginn, gamall vinur eiga góða heimkomu.
Stefán Friðbjarnarson.
-----------------------------------------------
Látinn er á Siglufirði vinur minn og félagi, Guðmundur Árnason, fyrrverandi stöðvarstjóri Pósts og síma á Siglufirði.
Guðmundi kynntist ég fyrst ungur drengur þegar ég var sendill á kjördögum milli kjörstaðar og Borgarkaffis, skrifstofu og félagsheimilis okkar jafnaðarmanna í gamla, góða Alþýðuflokknum. Þar uppi á lofti, alltaf í sama herbergi og nánast alltaf í sama sætinu, sat Guðmundur á kjördag og tók við nafnalistum frá skrifurum flokksins á kjörstað og merkti inn í kjörskrá við nöfn þeirra sem höfðu kosið. Síðan sátu menn við „að deila“ þeim sem höfðu kosið niður á hina ýmsu flokka og telja saman. Þetta var á þeim tíma sjálfsagður þáttur í kosningastarfi og úrslitin oft nokkuð ljós áður en talið hafði verið upp úr kössunum.
Fyrir kjördag var Guðmundur alltaf búinn að margfara yfir kjörskrána og kalla til ýmsa flokksmenn til að fá sem bestar upplýsingar og gera sér grein fyrir stöðunni. Alltaf notaði hann vel yddaðan blýant og merkti samviskusamlega fjögur lóðrétt strik og síðan eitt skáhallt yfir og tók svo saman hvern tug. Þegar kjörstað hafði verið lokað settust flokkshestarnir niður og töldu saman og sögðu fyrir um úrslitin.
Ég byrjaði í bæjarpólitíkinni á Siglufirði í kosningunum 1986 og Regína kona Guðmundar skipaði annað sætið. Þegar búið var að loka kjörstað sagði Guðmundur að við myndum fá 311 atkvæði en við fengum 318. Slík var nákvæmni hans og helstu trúnaðar- og forystumanna.
Eins og hér hefur komið fram var Guðmundur mikill jafnaðarmaður og alla tíð mjög virkur í starfi eins og Regína kona hans. Þau hjón hafa verið með tryggustu og bestu stuðningsmönnum jafnaðarmanna á Siglufirði, bæði á tímum Alþýðuflokksins og svo Samfylkingarinnar.
Ég átti því láni að fagna að eiga Guðmund að sem einn öflugasta stuðningsmann minn bæði í prófkjörum og kosningum. Hann var einnig góður og tryggur álitsgjafi sem gott var að leita til og fá skoðun hans á hinum ýmsu þjóðmálum.
Fyrir þetta þakka ég Guðmundi sérstaklega og einnig fyrir allar samverustundir bæði á heimili þeirra hjóna og á skrifstofu hans í símstöðinni á Siglufirði.
Guðmundur var mjög virkur í hinum fjölmörgu félagasamtökum á Siglufirði og eftirsóttur í framvarðasveitir. Í Skíðafélagi Siglufjarðar, Skíðaborg, var hann einn af forystumönnum og alltaf til staðar á skíðamótum. Þar sem annars staðar nutu menn góðs af vandvirkni hans við útreikninga, eins og t.d. á stökkmótum en þar var hann einn af fremstu stökkdómurum okkar og leiðbeindi mörgum ungum mönnum við þá iðju.
Að lokum viljum við Oddný þakka Guðmundi Árnasyni margra ára samfylgd, vináttu og stuðning. Við sendum eiginkonu hans Regínu Guðlaugsdóttur og afkomendum þeirra hjóna okkar innilegustu samúðarkveðjur. Ég veit að ég mæli hér fyrir munn allra flokksfélaga okkar og jafnaðarmanna á Siglufirði.
Blessuð sé minning heiðursmanns, jafnaðarmanns og vinar.
Kristján L. Möller.