Jónas Þórðarson, Siglunesi

Þann 17. Ágúst 1944 létzt Jónas Þórðarson, Siglunesi í Landspítalanum eftir langa og erfiða legu.

Vinir og kunningjar Jónasar sakna hans sárt og finna til tómleika, en móðir og systkini finna að sjálfsögðu mest til sorgar og söknuðar við fráfall hans, Jónas var fæddur 20. nóvember 1915— sonur hjónanna Margrétar Jónsdóttur og Þórðar Þórðarsonar vitavarðar á Siglunesi.

Átta ára að aldri missti hann föður sinn, en ólst upp hjá móður sinni á Siglunesi, og varð ásamt eldri systkinum sínum fyrirvinna heimilisins. Fulltíða maður stundaði hann bæði sjósókn og verksmiðjuvinnu, en ætlun hans var að þreyta afl sitt við Ægir í framtíðinni. Hafði hann byrjað á lítilsháttar útgerð og var í þann veginn að auka hana og stækka, er hann veiktist fyrir rúmu ári síðan.

Þannig höguðu örlögin því, að starfsdagur hans varð ekki lengri. Dugnaður, reglusemi og starfsorka eru nauðsynlegir eiginleikar til að afkasta miklu dagsverki, ef líf og heilsa endist. Jónas Þórðarson var gæddur þessum eiginleikum, og ég minnist þess, þegar ég sá hann hraustan og kátan, að ég hugsaði með mér, að hann væri sönn ímynd hinnar íslenzku æsku, og að eftir hann myndi koma til með að liggja mikið starf.

Eitt var það, sem einkenndi Jónas framar mörgum; það hans góða og glaða viðmót ásamt karlmennsku. Hann var glaður og kátur jafnan og æðraðist ekki þótt í móti blési. Hann kvartaði aldrei yfir veikindum sínum og mælti ekki æðru orð heldur var glaður og reifur við þá, sem heimsóttu hann, og hló og gerði að gamni sínu. Mun þó engum hafa verið kunnugra um hvert stefndi en sjálfum honum. Þannig eru sönn karlmenni. Eg kveð þig með von um, að við hittumst aftur á strönd hins ókunna lands.

Vinur.