Guðrún Pálsdóttir frá Kambi

Guðrún Pálsdóttir. -- 27. okt. lézt hér að heimili sínu frú Guðrún Pálsdóttir frá Kambi, maki Ásgrímur Þorsteinsson, skipstjóri.

Hún var orðin háöldruð kona, skorti einungis mánuð í 81 árs aldur. Guðrún var fædd á Siglunesi, en hefir búið hér á Siglufjarðareyri frá því árið 1880 eða full 60 ár. Guðrún sál var hin mesta greindarkona, góðfús og hjálpsöm og einkar vinsæl.

Dugnaði hennar og hagsýni er viðbrugðið, er hún barðist ein með barnahóp þeirra hjóna langtímum saman, er maður hennar var á hákarlalegum eða fiskileit. Var þá oft erfitt fyrir um aðdrætti og annað. þegar allt mæddi á einum.

Guðrún var síkát og ánægð og ein af þeim mörgu konum hinnar gömlu kynslóðar, er leggja allt í sölurnar fyrir skyldurnar, við börn sín og heimili.
Þau hjón áttu 6 sonu, og eru nú þrír á lífi. Tvo sonu misstu þau hjónin, Jón og Ólaf, á besta þrozkaaldri.

Drukknuðu þeir báðir, en einn son misstu þau á bernskualdri. Guðrún heitin bar önn heimilis síns fram á síðustu stund, því viljinn og kjarkurinn var hvorttveggja endingargott, og skylduræknin og ástin á heimilinu óbiluð. En líkamskraftarnir voru að þrotum komnir, eins og að líkum lætur, eftir jafn langa hvíldarlitla starfsævi.

Allir Siglfirðingar minnast hinnar starfsglöðu heiðurskonu með virðingu og þakklæti. Þess væri óskandi að sem flestar konur hinnar yngri kynslóðar væru og yrðu henni líkar að skyldurækni og starfsgleði. Það væri vorri litlu þjóð meira virði en allir milliríkjasamningar og hlutleysisvernd.