Guðmundur Hafliðason Fæddur 7. maí 1889 — Dáinn 7. október 1941

DAUÐINN HEFIR látið stutt stórra högga milli hér í þessum bæ síðastliðið misseri. Þarf eigi að rekja þá atburði alla hér.
Síðasta stóra skarðið hjó hann í liðsveit Siglufjarðar 7. okt. síðastliðinn.

Þá hneig fyrir sigðinni miklu einn allra glæsilegasti sonur Siglufjarðar. Það ætti ekki að vera mikil þrekraun að skrifa um Guðmund Hafliðason látinn. En þó er því þann veg farið um mig að mér finnst mér sé orða vant, er eg á að minnast þessa góða manns.

Eg ætla mér ekki að skrifa hér neitt um opinber störf hans. Það er gert á öðrum stað hér í blaðinu. Eg kom ekki oft til Guðmundar meðan hann háði sína þungu sjúkdómsbaráttu, en síðasta daginn hans í þessu lífi lá leið mín framhjá sjúkrabeði hans, og eg talaði þá við hann nokkur orð. Eg bjóst við að sjá hann örmagna og andlega bugaðan. En eg sá fljótt, að þar hafði eg farið villur vegar.

Guðmundur Hafliðason - ókunnur ljósmyndari

Guðmundur Hafliðason - ókunnur ljósmyndari

Eg varð þess skjótt var, að þrátt fyrir allar þjáningarnar, hafði hann gjörla fylgzt með atburðum síðustu daga. Hann var rólegur, gjörhugull og bar enn fullan blæ sinnar miklu karlmannlegu göfgi. Hann átti að vísu örðugt um mál, en allt, er hann sagði, bar vott um samúð hans með þeim er þá höfðu nýlega orðið fyrir sorgum. Hjartagöfgin var enn hin sama og áður, og ástúðin jöfn og fyrr til alls, er bágt átti.

Og handtakið hans var enn fullt af hlýju og nærgætni. „Ég er nú á förum“, sagði hann. „Eg ætla að biðja þig að skila kveðju minni til allra, sem eg þekki“. Og nú skila eg þessari kveðju hans til allra, er þetta lesa. Eg sá, að karlmennið og hetjan með barnshjartað var að fullu sátt við lífið og tilveruna.

Hann var rólegur eins og sá er veit, að góðs er að vænta framundan, æðrulaus og ókvíðinn, eins og hann ætli að skreppa stutta bæjarleið. Eg bið að heilsa! Þessi gamla, fornízlenzka kveðja felur í sér svo ótal margt, allt, er menn vildu sagt hafa að leiðarlokum. Það er mikið tjón fyrir Siglufjörð að missa þetta óskabarn sitt á bezta þroska aldri, því áreiðanlega átti hann margt eftir ógert af því, er honum var hugstæðast, en allt — öll hans störf, voru helguð sveitinni hans, firðinum hans, er hafði fóstrað hann, og hann unni fölskvalaust. Guðmundur var sá Siglfirðingur, er eg hygg að vinsælastur hafi verið þeirra, er eg hefi þekkt og kynnzt. Og það var ekki að ófyrirsynju. Hann var manna glæsilegastur, mikill á velli, tiginmannlegur og kurteis.

Hann var manna hreinskilnastur, svo ekki varð um villzt hvort honum líkaði betur eða ver, en fals eða undirhyggja fannst ekki í hans munni. Hann var manna tryggastur og vinfastastur og jafnan albúinn þess að veita aðstoð og hjálp vinum sínum, og oft um efni fram. Hann var manna hjartabeztur og mátti ekkert aumt sjá. Lítilmagninn átti þar örugga stoð, er hann var, og margra hlut rétti hann, þeirra er lítils voru umkomnir.

Hann var manna gestrisnastur og beztur heim að sækja, enda naut hann þar að hinnar ágætu konu sinnar, sem og í mörgu fleiru, því með þeim hjónum mátti kalla fullkomið jafnræði um hjálpsemi, gjafmildi og gestrisni. Var þar öll heimilisrausn með þeim ágætum, að landskunn er, og þó víðar. Mátti svo að orði kveða, að þar væri gestafagnaður dag hvern, og ekki farið i manngreinarálit. Þangað var gott að koma, því þar var maður velkominn.

Hann var manna skemmtilegastur og kunni betur að gleðjast með glöðum en títt er um marga, því hann var sannur höfðingi í svip og lundu. Það er sagt, að oftast sé skrifað og sagt oflof um látna menn, og satt er það, að svo muni oft vera, því samkvæmt kristnum sið er ljúfara að minnast þess í fari látins manns, sem gott var um hann, en hins, er miður var.

En svo var það um Guðmund Hafliðason, að meðan hann var lífs, hefi eg fyrir satt, að hans hafi aldrei og hvergi verið nema að góðu getið, og breytist það ekki, þótt eftir hann sé mælt látinn. Vegna þessa alls er hans sárt saknað af öllum, er kynntust honum, og mest af þeim, er þekktu hann bezt. En þó er eftirsjáin dýpat og mest hjá eftirlifandi konu hans og börnum og öðrum nákomnum ástvinum. Hjá þeim öllum geymist bezt sá mikli og hugljúfi minningaauður er hann lét eftir sig. Á heimili hans er hver blettur helgaður hjartkærum minningum um ástríkan eiginmann og föður og glæsilegan og tiginn heimilihöfðingja.

Sigurður Björgólfsson.
----------------------------------- 

IN MEMORIA M „Hér féll grein af góðum stofni grisjaði dauði meira en nóg“

I.

Í skjóli fyrir norðan veðrum og kulda stendur mynd við Norðurgötuna, er allir, sem til Siglufjarðar koma taka eftir. Móti sumri og sól í hlýlegum garði, með Hafliða hús að baki og hús Guðmundar Hafliðasonar sem skjólvegg fyrir norðan áttum og vetrarhríðum. Þessi mynd er af Hafliða hreppstjóra. Manni, sem enginn gleymir, er einu sinni hefur séð hann.

Mynd þessi er reist af Norðmönnum til minningar um hann og sem þakklætisvottur til , góðs drengs og göfugmennis. Margra spor, innlendra og erlendra, hafa legið um þessar slóðir, heim að þessum tveimur húsum, er þarna standa. Sumir hafa vakið eftirtekt manna, en aðrir, eins og gengur, hafa horfið í fjöldann. Þarna mátti daglega sjá á ferð háan, spengilegan mann, bjartan yfirlitum, góðlegan og vinalegan við hvern er hann mætti og talaði við. Maður þessi hlaut að vekja eftirtekt, hvar sem hann fór. Þetta var Guðmundur Hafliðason.

II.

Guðmundur Hafliðason er fæddur hér í Siglufirði hinn 7. maí 1889 og hafði því 2 um fimmtugt, er hann lézt. Foreldrar hans voru Hafliði Guðmundsson hreppstjóri og kona hans, Sigríður Pálsdóttir.

Hann ólst upp í föðurhúsum á hinu ágætasta heimili, þar sem allir voru velkomnir og hvers manns vandræði leyst, ef þess var kostur. Bar snemma á hinum góðu eiginleikum Guðmundar, er síðar einkenndu hann, en það voru drenglund, karlmennska, festa og tryggð. Voru þessir eiginleikar þroskaðir undir handleiðslu mjúkra móðurhanda og ágæts föður.

Hann minntist þessara uppvaxtarára sinna með hlýju, og var þakklátur fyrir þá gæfu, að hafa notið handleiðslu sinna ágætu foreldra meðan skapgerð hans var að mótast. Enda kom þetta meira og minna fram í daglegri umgengni hans. Siglufjörður var ekki stór er Guðmundur var að alast upp. Það hlaut því að takast vinátta með þeim æskumönnum, sem þá voru að alast hér upp. Enda voru þeir margir, vinirnir, sem Guðmundur átti frá æskuárunum og hélzt sú vinátta æ síðan.

Guðmundur vakti traust félaga sinna hvar sem hann fór, og þeir áttu alltaf hauk í horni, þar sem hann var. Það fór ekki hjá því, að slíkur maður sem Guðmundur var, hlyti traust samborgara sinna og þeir létu honum í hendur margvísleg trúnaðarstörf. Oft var hann í forföllum föður síns settur hreppstjóri, og eftir fráfall hans gegndi hann hreppstjóraembættinu, unz Siglufjörður hlaut bæjarréttindin. En eftir það var hann oftast settur til að gegna embætti bæjarfógeta í forföllum hans eða fjarvistum.

Eftir að Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi 1918, urðu hafnamálin einhver mestu framtíðarmál kaupstaðarins og jafnframt viðkvæmustu málin. Það var því ekki að furða, þó þau væru fengin Guðmundi Hafliðasyni í hendur, að meira og minna leyti, er hann varð hafnarvörður, en því starfi gegndi hann með hinni mestu prýði til dauðadags. Guðmundur unni Siglufirði og öllu sem siglfirzkt var. Honum voru viðkvæm öll framtíðarmál Siglufjarðar, og lét hann sér annt um allt er varðaði heill og hag bæjarins.

Tillögur hans í hafnamálum voru mikils metnar, og átti hann mikinn þátt í þeim framgangi hafnamálanna, sem nú er orðinn, þó honum manna bezt hafi verið ljóst, að engin framtíðarlausn er fengin á þeim málum ennþá. Það hefir verið erfitt verk að vera her hamarvörður meðan engin hafskipabryggja var og öll fram og uppskipun varð að fara fram á bátum. Þó ber öllum saman um það, að hafi hafnarvarðarstaðan verið erfið fyrr, þá hafi starfið vaxið svo mjög nú hin síðari árin, og höfnin orðið, a.m.k. um sumartímann, stærsta höfn landsins. Störfin urðu því sýnu erfiðari eftir að bryggjan kom.

Hér var meginþorri íslenzkra skipa yfir síldveiðitímann, auk fjölda útlendra skipa og vöruflutningaskipa, og þurftu mörg að komast að bryggju samtímis og fá afgreiðslu. Öllum kunnugum var það ljóst, að þetta starf krafðist mikils af þeim manni, er við það var. Það þurfti ekki aðeins að sjá um, að gefnum fyrirskipunum væri hlýtt, heldur og þurfti að haga svo til, að ekki yrði árekstrar og óþarfa tafir, er mest var önnin við höfnina. Um það ber öllum saman, að Guðmundur rækti þetta starf með fádæma prýði og myndugleik svo af bar.

Ávann hann sér traust og virðingu allra, innlendra sem útlendra, og veit eg að mörgum sjómanninum muni þykja skarðið stórt og vandfyllt, þar sem Guðmundur er horfinn af hafnarbryggjunni. Guðmundur var alla tíð í flokki þeirra manna, er unnu einstaklingsfrelsi og frjálsu framtaki. Var hann þar heill og óskiptur og hélt sínu fram, hvort sem féll betur eða verr. Skoðun sinni hélt hann fram með einurð og festu, enda var maðurinn hreinskilinn og fór sínar götur.

Honum var það ekki að eðli, að trana sér fram, en með festu sinni, hreinskilni og drengskap vakti hann traust samborgara sinna, svo þeir vildu hann þar, sem þeir þóttust þurfa trausts og halds til framgangs málum Siglufjarðar. Enda brást hann ekki því trausti, vegna meðfæddra eiginleika, og vegna þess, að hann unni Siglufirði og því, sem hann áleit honum fyrir beztu. Siglufjörður átti í honum sterkan málsvara, enda hefi eg, og sennilega fleiri, heyrt hann verja Siglufjörð þannig, að auðheyrt var, að hans málefni voru honum hjartfólgin og viðkvæm.

Guðmundur kvæntist 1912 Theodóra Pálsdóttir, Árdals skálds, hinni ágætustu konu, er lifir mann sinn ásamt 5 mannvænlegum börnum. Auk þess ólu þau upp dreng, er þau gengu í foreldra stað. Heimili Guðmundar var viðbrugðið fyrir gestrisni og myndarskap, enda voru þau hjónin samhent um rausn og gestrisni.

Voru allir þar velkomnir, hvenær sem var, enda má segja, að hús þeirra stæði opið öllum, er þau þekktu eða kynntust. Hafa margir sótt þangað vinsemd og hlýju, alúð og nærgætni og bera þeir fram þakkir sínar hljóðum huga. til hans er nú er horfinn, og senda hinu vinsæla heimili, húsfreyju og börnum, samúð sína og hluttekningu í hinni þungbæru sorg þeirra, er heimilisfaðirinn er horfinn úr hópnum.

Það var öllum kunningjum og vinum Guðmundar heitins ljóst tvö síðustu árin, að hann gekk ekki heill til skógar. Þó mátti það ekki marka á honum er hann gekk til starfssins. Það var ekki siður hans, að vera með harmatölur eða leitandi eftir samúð með sjálfum sér. Til þess var hann of mikið karlmenni, og bjartsýni hans gerði honum það einnig auðveldara. Hann andaðist hinn 7. október eftir þunga legu.

III.

Nú er þeim fækkað er halda heim í Guðmundar-hús. Öðlingurinn horfinn. Eftir eru minningarnar hjartfólgnar ástvinum hans og öðrum vinum. Þær standa greyptar í hugann traustar og fagrar, eins og mynd föður hans í garðinum. Mynd hans, sem hann reisti sér sjálfur með lífi sínu og starfi verður óbrotgjörn í hugum Siglfirðinga.

Repuiescat in pacem. B. e.
Siglirðingur 31/10/1941
--------------------------------

Guðmundur Hafliðason, hafnarvörður, lést þann 7. október 1941- hér á Sjúkrahúsinu eftir langa legu. Guðmundur var fæddur 7. maí 1889 hér á Siglufirði og var sonur hjónanna Hafliða Guðmundssonar hreppstjóra og Sigríðar Pálsdóttur. Ólst hann upp hjá foreldrum sínum og hefur alið hér allan sinn aldur.

Eftir fermingu gerðist hann verzlunarmaður hjá Gránufélagsverzluninni hér og starfaði að því um hríð. Veturinn 1910 fór hann á verzlunarskóla og er hann hafði útskrifazt þaðan 1912, gerðist hann -verzlunarstjóri í verzlun Snorra Jónssonar og var það um þriggja ára skeið. 1917 varð hann hreppstjóri eftir föður sinn og gegndi því starfi til 1919, er Guðmundur Hannesson varð hér bæjarfógeti eftir að Siglufjörður hafði fengið kaupstaðarréttindi.

Varð hann síðan hafnarvörður hjá bænum og gegndi því starfi síðan. Hann var og varafulltrúi í bæjarstjórn um margra ára skeið. Árið 1912 kvæntist Guðmundur heitinn eftirlifandi konu sinni Theodóru Pálsdóttur Árdals og áttu þau saman 5 börn, sem öll eru á lifi og uppkomin, auk þess tóku þau einn dreng til fósturs og ólu hann upp.

Guðmundur heitinn hafði fyrir mörgum árum kennt sér þess meins, er dró hann til dauða, en það var fyrst síðustu tvö árin, að sjúkdómurinn færðist verulega í aukana og má heita, að hann lægi rúmfastur mest allan þann tíma. Með Guðmundi heitnum er til moldar borinn góður drengur og vill blaðið votta vandamönnum hans öllum og vinum samúð sina og hluttekningu.

Mjölnir 21/10/1941