Tengt Siglufirði
Mig langar að minnast föður míns í tilefni þess að í dag eru eitt hundrað ár frá fæðingu hans.
Guðmundur Einarsson fæddist
á Siglufirði, 15. júní 1909. Foreldrar hans voru Einar Halldórsson, f. í Tungu í Stíflu í Fljótum 30. mars 1853 og Svanborg Rannveig Benediktsdóttir,
f. 3. maí 1885.
Systkini pabba voru átta, einnig átti hann tvö hálfsystkini af fyrra hjónabandi Einars, fyrri kona hans hét Guðrún og eignuðust þau tvö börn,
Rósu og Stein.
Tvö af alsystkinum pabba, þau Guðrún og Eiður, dóu í æsku en þau sem upp komust eru, Benedikt f. 1906, Guðbrandur Maron f. 1912, Guðrún Júlíana f. 1914, og Óli Martinius f. 1916, sem öll eru látin, og Jón f. 1917 og Zophanía Guðmunda f. 1925, sem eru enn á lífi.
Pabbi ólst upp í foreldrahúsum á Siglufirði, hann gekk í barnaskóla Siglufjarðar og lærði m.a. lestur hjá Arnfinnu Björnsdóttur sem þá var að hefja sinn feril sem kennari, og gaman er að segja frá því að hún kenndi mér bæði lestur og handavinnu.
Pabbi byrjaði snemma að vinna eins og venja var á þessum tímum, hann fór að vinna í síldarverksmiðjunni Rauðku, aðeins 16 ára gamall og vann þar á vöktum í 3 ár, þá fór hann til Noregs og dvaldist þar hjá móðursystur sinni í eitt ár, þar sem hann lærði m.a. norsku á þessu ári. Hann kom svo aftur til Íslands og hóf störf í beinaverksmiðjunni í Siglufirði og einnig í tunnuverksmiðjunni um tíma.
Hann lauk vélstjóranámi árið 1929. Upp úr 1930 hóf hann störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í Siglufirði. Fram til þess tíma höfðu síldar- og beinamjölsverksmiðjur verið í eigu erlendra aðila. Árið 1930 er fyrsta verksmiðjan sem Íslendingar byggðu fyrir eigin reikning gangsett á Siglufirði. Pabbi tók því þátt í uppbyggingu þessa iðnaðar.
Í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar var efnt til samkeppni um hönnun stækkunar verksmiðjanna á Siglufirði, en þær voru þá orðnar þrjár. Pabbi hlaut þar viðurkenningu fyrir sína tillögu. Pabbi var rómaður fyrir handlagni og nákvæmni við störf sín og leituðu menn víða að liðveislu hans við margháttuð og ólík verk. Pabbi ferðaðist víða á vegum SR til að vinna að ýmiss konar endurbótum í öðrum síldarverksmiðjum.
Árið 1932 kynnist pabbi mömmu, Guðbjörg Magnea Franklínsdóttir frá Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu, f. 19. október 1912. Þau hófu sinn búskap á Siglufirði og varð þeim sjö barna auðið. Þau eru:
Eftir 30 ára starf hjá SR fór hann að vinna við uppsetningar og viðhald á síldarverksmiðjum, m.a. á vegum Landsmiðjunnar í Bolungarvík og á Stöðvarfirði og víðar. Við tvö yngstu systkinin urðum þess aðnjótandi að fá að fara með pabba og mömmu bæði til Bolungarvíkur og Stöðvarfjarðar og vera sumarlangt á hvorum stað og upplifa stemminguna á þessum stöðum. Það er mér ógleymanlegt.
Strax á yngri árum tók pabbi virkan þátt í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum verkafólks, hann hafði sínar skoðanir á þjóðmálum og fylgdist vel með þeim mönnum og málefnum sem þar skiptu máli um alla sína ævi. Hann vann alla tíð ötullega að ýmsum þjóðþrifamálum, í gegnum verkalýðshreyfinguna, til gagns fyrir verkafólk.
Árið 1947 varð hann frumkvöðull þess að sá siður var tekinn upp að lýsa upp Hvanneyrarskálabrún á Siglufirði um hver áramót. Það ár fór hann ásamt nokkrum vinnufélögum sínum upp á brún með tjörukyndla og þannig byrjaði það. Þegar ég hugsa til þess að hann hafi velt þessu af stað á sínum tíma, þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem þetta var bundið í þá daga, þegar alltaf þurfti að þramma upp hlíðina í allskonar ófærð og veðri til að skipta um kyndla, og náttúrulega að breyta ártalinu þegar klukkan sló 12 á miðnætti, þá fyllist ég stolti yfir því að hafa átt hann sem pabba minn.
Pabbi var alla tíð mjög bókhneigður maður og átti mjög mikið og gott safn bóka sem hann nýtti sér á margan hátt. Hann hafði mikið dálæti á ljóðum og ævisögum, mamma og pabbi höfðu mikið yndi af því að lesa saman úr bókum sínum. Pabbi var frekar hlédrægur maður og hógvær, en glaðvær í góðra vina hóp. Barnabörn pabba og mömmu eru nú 16, barnabarnabörnin eru orðin 30. Pabbi var alla tíð mjög barngóður maður sem hafði yndi af börnum.
Pabbi var heilsuhraustur maður mestan hluta ævinnar, hann lést 20. janúar 2002. Mamma lifði pabba til 20. október 2005, þegar hún lést.
Blessuð sé minning þeirra beggja,
Inga Guðmundsdóttir.