Sr. Emil Björnsson fyrrverandi fréttastjóri ­

21. júní 1991 | mbl.is

Hinn 17. júní lést séra Emil Björnsson fyrrverandi fréttastjóri Sjónvarpsins og prestur Óháða safnaðarins. Hann átti að baki óvenju fjölbreyttan feril ­ eða einsog hann orðaði það sjálfur ­ sem sveitamaður, prestur og fjölmiðlamaður, svo fjölbreyttan að honum fannst stundum sem hann hefðiverið uppi á öllum öldum Íslandssögunnar, og þó ávallt ungur, með fingur á slagæð líðandi stundar.

Hann fæddist 21. september 1915 að Felli í Breiðdal, sonur hjónanna

  • Guðlaugar H. Þorgrímsdóttur ljósmóður frá Gautavík á Berufjarðarströnd, og
  • Árna Björns Guðmundssonar bónda á Felli.

Hann ólst upp á Felli við þær aðstæður sem tíðkuðust í sveitum Íslands á þeim tíma og hann hefur í minningum sínum lýst sem fornaldarlífi á 20. öld. Hann missti föður sinn aðeins sjö ára gamall. Móðir hans bjó áfram á Felli, en þar var einnig til heimilis Guðmundur Árnason, afi Emils, sem hafði mjög mótandi áhrif á hann. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1939. Síðan stundaði hann nám í viðskiptadeild Háskóla Íslands um tveggja áraskeið, en sneri sér við að guðfræðinámi og varð cand. theol. vorið 1946.

Vorið 1941 kvæntist hann Álfheiður Laufey Guðmundsdóttir söngkonu, dóttur hjónanna

  • Guðmundar Hafliðasonar hafnarstjóra á Siglufirði og
  • Theodóru Pálsdóttur Árdal, skálds.

Þau lifðu í einstaklega farsælu hjónabandi í liðlega 50 ár og varð fjögurra barna auðið, en þau eru

  • Theodóra Guðlaug, fædd 1940, íþróttakennari, gift Þórhalli Þórhallssyni, verslunarmanni,
  • Björn fæddur 1948, dagskrárgerðarmaður við sjónvarpið, maki Ragna Fossberg, förðunarmeistari Sjónvarpsins,
  • Guðmundur, fæddur 1951, tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, kvæntur Valgerði Jónsdóttur, músíkþerapista, og
  • Álfheiður, fædd 1956, húsmóðir, gift Guðjóni Hauki Haukssyni, verslunarmanni. Öll eru börnin einstaklega vel af guði gerð og bera menningarheimili foreldra sinna glæsilegt vitni. Barnabörn séra
    Emils og Álfheiðar eru sjö talsins.

Jafnhliða námi stundaði Emil ýmis störf. Þannig var hann ræðuskrifari Alþingis frá 1941-49. Hann hóf störf á Fréttastofu útvarpsins árið 1944 og starfaði þar sem fréttamaður og síðar varafréttastjóri allt til þess er hann var ráðinn dagskrárstjóri frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins árið 1965. Jafnhliða störfum sínum hjá Útvarpinu var hann blaðamaður hjá dagblaðinu Vísi um skeið.

Sem fréttamaður og blaðamaður varð hann þjóðkunnur og naut mikils álits og vinsælda. En þrátt fyrir umsvifamikil störf á sviði fjölmiðlunar gleymdi hinn ungi guðfræðingur ekki köllun sinni. Eftir að hann hafði sótt um prestsembætti við Fríkirkjuna í Reykjavík og eftir þær deilur sem urðu í framhaldi af prestkosningunni, stofnuðu fjölmargir stuðningsmenn hans Óháða söfnuðinn og kvöddu hann til prestþjónustu snemma árs 1950. Starfaði hann síðan óslitið sem prestur safnaðarins til ársins 1984. Prestsstörf fóru honum vel úr hendi, einsog annað sem hann tók að sér. Hann var með afbrigðum skörulegur ræðumaður og talaði jafnan blaðalaust.

Það var í janúar árið 1965 sem leiðir okkar Emils lágu fyrst saman, þegar ég hafði verið ráðinn tilað veita forstöðu sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins. Hann sýndi strax mikinn áhuga á þessu nýja fyrirtæki, sem flestir höfðu þá mikla vantrú á. Þessi áhugi hans leiddi síðan til þess að hann var fyrsti starfsmaður sem til Sjónvarpsins var ráðinn á eftir mér. Það var ómetanlegt að fá slíkan mann til samstarfs.

Vegna fyrri starfa hafði hann frábæra þekkingu á mönnum og málefnum þjóðarinnar. Traust húmanisk þekking eins og guðfræðimenntun veitir er tvímælalaust góð undirstaða fyrir menn sem starfa á þessu sviði. Eins og mál stóðu þurfti vissan kjark til að yfirgefa starf varafréttastjóra hjá hinni virtu og traustu fréttastofu Útvarpsins, og leggja út í þá óvissu sem starf hjá Sjónvarpinu var. En eitt af einkennum Emils var kjarkur og baráttugleði.

Þá var honum strax ljóst að það var óhjákvæmilegt að þjóðin eignaðist sjónvarp tilað treysta tunguna í sessi og hlúa að menningu hennar, en sjónvarpsöld var þá þegar gengin í garð á Íslandi þar sem farið var að horfa á sjónvarp varnarliðsins. Hinn mikli áhugi manna á Keflavíkursjónvarpinu, sem eðlilega var þó ekki á neinn hátt sniðið að þörfum Íslendinga, mátti vera vísbending um að hér var kominn til sögunnar fjölmiðill sem almenningur kunni að meta.

Það var Emil brennandi áhugamál að okkur tækist að skapa hér sterkt íslenskt sjónvarp til mótvægis viðþá holskeflu erlendra fjölmiðlunar sem fyrirsjáanlegt var að yrði æ sterkari. Fyrsta verk okkar var að sjálfsögðu að manna skútuna, og hér kom mannþekking Emils og innsæi svo sannarlega að fullum notum. Og ég held að fullyrða megi að valinn maður hafi verið í hverju rúmi þegar siglingin hófst í september 1966.

Starf Emils hjá sjónvarpinu var tvíþætt. Annars vegar var hann fréttastjóri en hins vegar stjórnaði hann dagskrárgerð á sviði fræðsluefnis. Þar sem sjónvarpið varð brátt sterkasti fjölmiðill landsins og fylgst var með fréttum þess næstum því á hverju heimili, var það mikill ábyrgðarhluti að velja og hafna efni í fréttatímann og var hart sótt að fréttastjóranum, ef mönnum líkaði ekki mat fréttastofunnar á því hvað fréttnæmt væri. Í slíkum málum stóð Emil alltaf fastur fyrir sem klettur hver sem í hlut átti, og lét hann jafnan sannfæringu sína eina ráða ferðinni. Þess má geta að Emil las allar fréttir yfir áður en birtar voru, og varþá jafnt hugað að málfarslegum atriðum sem innihaldi enda hafði málvöndun hans gífurleg áhrif á alla fréttamenn sem með honum störfuðu.

Þá var innsæi hans ekki síður notadrjúgt þegar að dagskrárgerðinni kom. Hann hafði góða tilfinningu fyrir því hvað almenningur vildi sjá og hvernig hægt væri að gera fræðsluefni svo úr garði að áhugavert þætti. Hann einbeitti sér mjög að stjórnunarmálum, bæði á sviði frétta og dagskrárgerðar, og var því ekki eins og áberandi út á við eins og þegar hann starfaði sem fréttamaður hjá Útvarpinu. En þá sjaldan að hann lét til sín taka á sviði dagskrárgerðar var það jafnan með þeim hætti að eftir var tekið. Má hér nefna þætti hans um Sigurð Nordal, Brynjólf Bjarnason og Gylfa Þ. Gíslason, sem allir voru þaulhugsaðir og sérstaklega vel unnir.

Auk allra þeirra starfa sem hér hafa verið nefnd sinnti séra Emil ritstörfum, enda frábærlega ritfær. Eftir að hann hætti hjá Sjónvarpinu gaf hann út minningar sínar Á misjöfnu þrífast börnin best og Litríkt fólk og ná þær til ársins 1950. Því miður entist honum ekki heilsa til að rita framhald þeirra. Þá gaf hann einnig út bókina Minni og kynni, sem eru frásagnir og viðtöl við ýmsa merka samtíðarmenn. Auk þess skrifaði hann fjölda tímaritsgreina og ýmislegt er til í handriti eftir hann, þ.á m. er ljóðabók, sem er fullbúin frá hans hendi.

Af þátttöku hans í félagsmálum má nefna, að hann var formaður Blaðamannafélags Íslands 1965-66 og sat um skeið í stjórn Barnavinafélags Sumargjafar. Þá var hann einn af frumkvöðlum að stofnun Landssamtaka hjartasjúklinga og sat í stjórn þeirra frá upphafi.

Síðla árs 1981 tók að bera á vanheilsu hjá honum og fór hann til hjartuppskurðar í Lundúnum það haust. Hann kom aftur til starfa vorið 1982, en gekk þó ekki alveg heill til skógar eftir það. Hann lét af störfum sjötugur að aldri, í nóvember 1985. Við vorum margir er söknuðum hans er hann hvarf úr starfi. Hann hafði fjölbreytt áhugamál og var íhugull og því afar skemmtilegur vinnufélagi. Þá má ekki gleyma því kryddi sem hann varpaði iðulega í tilveru okkar, er hann kastaði fram stökum, oft dýrt kveðnum, og í sumum tilvikum af munni fram, um það sem efst vará baugi þá stundina. Margar þessar vísur lifa hér á meðal manna, en því miður er þessi ágæta þjóðaríþrótt að hverfa hér í Sjónvarpinu sem annars staðar.

Að framanskráðu má ljóst veraað séra Emil á mikið og merkt ævistarf að baki, og er hér þó aðeins stiklað á stóru. Þessum mikla baráttumanni sem virist leiðast í logni var gefið ótrúlegt þrek og leikgleði, og gekk hann því af eldlegum áhuga að öllu því er hann tók sér fyrir hendur. Þess vegna markaði hann svo djúp spor á samtíð sína, miklu meiri en við kann að blasa við fyrstu sýn. Sprottinn úr hinu forna bændasamfélagi hafði hann afgjörandi áhrif á mótun þess framtíðarfyrirbæris sem Sjónvarpið var þegar það kom til sögunnar hérlendis, og tengdi því öðrum mönnum betur saman fortíð og framtíð.

Ég er þakklátur fyrir að hafanotið órofa vináttu Emils þann aldarfjórðung sem við áttum samleið, og jafnframt þakka ég ómetanlegt störf hans í þágu Sjónvarpsins. Ekkju hans, Álfheiði Guðmundsdóttur og börnum þeirra, barnabörnum og tengdabörnum votta ég innilega samúð mína.

Pétur Guðfinnsson