Tengt Siglufirði
26. febrúar 2014 | Minningargreinar mbl.is
Sigurlína Sigurgeirsdóttir fæddist á Siglufirði 16. júní 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 12. febrúar 2014.
Foreldrar hennar voru
Sigurlína var yngst þeirra systkina sem ólust upp hjá fósturforeldrum móður hennar sem þau kölluðu ömmu og afa, Friðrikku Þorsteinsdóttur og Jóni Jónassyni.
Systkini Sigurlínu sammæðra eru:
Sigurlína giftist á Siglufirði þann 6. júní 1954 Tómas Einarsson, f. 12.
september 1932, verkamanni í byggingavinnu en lengst af starfandi í álverinu í Straumsvík.
Foreldrar Tómasar voru
Börn Sigurlínu og Tómasar eru:
1) Selma Tómasdóttir,
f. 18. desember 1953, gift Jóni Magnússyni, f. 22. maí 1952.
Börn þeirra eru:
2) Sigurgeir, f. 22. maí 1957, kvæntur Báru Hjaltadóttur, f. 11. apríl 1958.
3) Guðrún,
f. 9. júlí 1965, gift Páli Ævari Pálssyni, f. 2. júlí 1960.
Dætur þeirra eru:
Afkomendur Sigurlínu og Tómasar eru sautján, börnin þrjú, sjö barnabörn og sjö barnabarnabörn.
Sigurlína er alin upp á Siglufirði og lauk barnaskólaprófi. Fór síðan fjórtán ára gömul að vinna í Félagsbakaríinu, seinna við síldarsöltun og í frystihúsi, en lengst af starfaði hún á Sérleyfisstöðinni á Siglufirði, eða í tíu sumur. Árið 1971 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur, fyrst á Dunhaga en settist síðan að í Fögrubrekku í Kópavogi og undi þar hag sínum vel.
Fyrir sunnan starfaði Lína í bakaríi á Fálkagötu, við skúringar í Digranesskóla, í versluninni Vörðufelli, á prjónastofunni Álafossi og á Saumastofunni Tinnu sem verkstjóri og loks sem starfsþjálfi hjá Vinnustofum Kópavogshælis í fimmtán ár og lauk þar starfsævi sinni 65 ára gömul. Handavinna var hennar líf og yndi alla tíð og að hluta til aukavinna.
Útför Sigurlínu fer fram frá Digraneskirkju
í dag, 26. febrúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.
----------------------------------------------------
Lína tengdamóðir mín hefur verið veik af minnissjúkdómi undanfarin ár, en er nú fallin frá. Tommi og fjölskyldan sitja eftir í söknuði, en jafnframt þakklæti fyrir heila ævi með henni og geta síðustu árin endurgoldið umhyggjusemi hennar, þegar hún sjálf þurfti á að halda. Tengdapabbi hefur annast um Línu heima, hún sótti dagþjálfun í Roðasölum síðustu misseri og bjó frá október sl. á Droplaugarstöðum. Að sinna veikum ástvini sameinar fjölskylduna og hjálpar okkur að líta til baka með þakklæti og auðmýkt.
Blíðlyndi tengdamóður minnar breyttist ekkert þótt hún væri veik, hún endurgalt knús og nefndi nöfn, þótt flest annað væri horfið úr minninu.
Lína fæddist árið 1935 á Siglufirði. Guðrún móðir hennar var langdvölum á Kristneshæli og Vífilsstöðum vegna berkla, rak þó ætíð saumastofu á þessum stöðum og Lína fékk dugnað við handverk í móðurarf. Hún var ásamt systkinum sínum sammæðra alin upp hjá Friðrikku og Jóni „ömmu og afa“, fósturforeldrum móður hennar. Seinna bjó Friðrikka gamla háöldruð á heimili hennar. Lína var af góðu fólki komin og þurfti ekki aðrar fyrirmyndir að ömmuhlutverkinu en henni var í blóð borin og numin af Friðrikku.
TomLín fjölskyldan, eins og við kölluðum okkur, óx og dafnaði frá fæðingu fyrsta barnsins þegar Lína var átján ára gömul og þar til yngsti afkomandinn fæddist fyrir tveimur árum, þá taldi fjölskyldan 26 manns, börnin þeirra Tomma þrjú, barnabörnin sjö og barnabarnabörnin sjö, þannig eru afkomendur sautján.
Kringum 1970 höfðu margir þröngan skó hér á landi, tvö systkini Línu fluttu til útlanda, en þau Tommi tóku sig upp og fluttu suður. Atvinnuöryggi og fallegt heimili á nýjum stað, gestkvæmt í eldhúskróknum, heimahagarnir og síldarárin voru endalaus uppspretta skemmtisagna og minninga. Brottfluttir Siglfirðingar halda vel hópinn, Lína tók þátt í undirbúningi fyrir samkomur þeirra og oft var farið norður í heimsóknir.
Heimavið sat hún gjarnan í hægindastól, kveikt var á lampa, þægilega tónlist í útvarpinu og hannyrðir í kjöltunni. Ef gesti bar að garði var strax rokið upp og veitingar bornar fram. Lína gekk til verka af festu, gerði samninga við verktaka, skipulagði heimsreisur og lét drauma rætast. Þrisvar fór hún til Ástralíu að heimsækja Kollu systur. Ógleymanleg voru skiptin þegar þau systkinin komu saman Lína, Kolla, Rikki og Brynja, leigðir voru veislusalir og síðan skemmt sér, hlegið og sagðar sögur.
Fjölskyldunni var haldið þétt saman, á hátíðum var spilað bingó. Ef einhver stóð í framkvæmdum „kom eftirlitið“. Lína vildi fagurt mannlíf, ef útaf bar var gert gott úr því. Hún bað okkur að standa saman, hún var góð fyrirmynd. Heimili afkomenda eru prýdd fallegum hannyrðum, mörgum tengdum jólum, handverkið og góðvildin sem við nutum munu halda minningunni á lofti. Hún lét afkomendur finna að mamma væri heima. Þannig líður öllum best.
Guð blessi minningu Línu tengdamóður minnar.
Jón Magnússon.
------------------------------------------------
Elsku amma Lína.
Nú grátum við systkinin vegna þeirra stunda sem við glöddumst yfir með þér áður.
Þú gafst okkur svo margt; ást, hlýju, öryggi, traust og vináttu. Fjölmargar minningar frá barnæskunni koma nú upp í hugann, t.d. þau skipti sem við fengum að gista hjá ykkur afa í Fögrubrekkunni. Á meðan afa var gert að sofa í gestaherberginu fengum við að kúra með þér í hjónarúminu þar sem þú söngst okkur í svefn með Guttavísunum.
Þú tókst ávallt á móti okkur með faðmlagi og kossum og oftar en ekki var ilmur af nýsteiktum kleinum, pönnukökum og/eða soðbrauði í loftinu þegar við komum í heimsókn.
Við munum varla eftir þér öðruvísi en við hannyrðir og búum við að þínu fallega handverki sem prýðir heimili allra afkomenda þinna og er okkur óendanlega dýrmætt. Yfir sumartímann fengu grænir fingur þínir smá pásu frá prjóni og hekli þar sem þú ræktaðir fallega garðinn ykkar afa og lagðir alúð við rósarækt. Stundum fengum við að „hjálpa“ sem yfirleitt fólst í því að koma eins mikilli grasgrænu á fötin okkar eins og mögulegt var í ærslagangi og kjánaskap en alltaf fengum við rós með heim að launum.
Elsku amma, við elskum þig og við söknum þín.
Valdís og Arnór.
---------------------------------------
Elsku amma okkar, takk fyrir þær dýrmætu og yndislegu stundir sem við fengum að eiga með þér. Það er svo margt sem við eigum þér að þakka og þú varst okkur svo óendanlega mikils virði. Takk fyrir sögustundir fyrir svefninn sem munu aldrei gleymast, takk fyrir að troða okkur út af vöfflum og kleinum, takk fyrir allar bænirnar þínar og að þreytast ekki á því að spila ólsen ólsen. Allir þeir dýrgripir sem þú ýmist prjónaðir eða saumaðir handa okkur verða varðveittir eins og gull og gersemar. Við söknum hlátursins þíns, faðmlagsins og raddarinnar en við vitum að þú ert nú á betri stað og við fáum að eiga og varðveita fallegu minninguna um þig.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Við elskum þig, amma, Rakel Gyða og Ester Ósk.
Góðvild, mildi, fágun. Hún hafði aldrei hátt. Birta og fegurð fylgdu Línu móðursystur minni alla tíð. Öllum leið vel í návist hennar. Hugur hennar var alltaf með öðrum. Henni lá aldrei á. Iðjusöm og fumlaus. Snillingur í höndunum. Eins og Guðrún amma. Hún var glaðlynd og hláturmild. Aðrir gengu þó alltaf fyrir. Jafnvel þegar grimm sjúkdómsraun hafði skert líkamlegt og andlegt atgervi hennar var kveðja Línu söm: „Hvað segir þú þá, Jóhann minn?“ Nú kveð ég hjartkæra Línu líkt og Jónas Hallgrímsson fuglinn „sárglaður og með tárum“ um leið og ég þakka Guði sem gaf hana og veitir nú hvíld.
Lína og Tommi, vinur okkar, áttu miklu láni að fagna í börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Þar varð fjársjóður þeirra.
Brynja, móðir okkar, hefur nú á fáum árum séð á eftir systkinum sínum: Rikka, Kollu og nú Línu.
Við Bryndís biðjum Guð að styðja allt þetta góða fólk í sorginni. Blessuð veri minning yndislegrar móðursystur minnar.
Jóhann
Tómasson.
---------------------------------------------------
5. mars 2014 | Minningargreinar |mbl.is
Sigurlína Sigurgeirsdóttir fæddist 16. júní 1935. Hún lést 12. febrúar 2014. Útför Sigurlínu fór fram 26. febrúar 2014.
Elsku amma mín. Mig langar að kveðja þig með broti úr sálmi sem þú hafðir undirstrikað í Biblíunni þinni sem þú gafst mér og mér þykir svo undurvænt um.
Elsku amma, ég er svo þakklát fyrir að hafa átt jafn yndislega, hæfileikaríka og glæsilega ömmu og þig sem kenndi mér svo margt – allt frá því að útbúa fiskibollur til þess að temja mér nægjusemi og þrifnað. Við söknum þín og mjúku handanna þinna með „rauða hringnum“, við söknum fallega brossins þíns og dillandi hlátursins, við söknum skemmtilegu frásagnanna frá Siglufirði, við söknum þín.
Guð blessi minningu elskulegrar ömmu Línu.
Berglind og fjölskylda.
Mig langar að minnast þín, amma Lína, í örfáum orðum og þakka þér fyrir stundirnar sem við áttum saman. Síðustu árin voru þér erfið vegna veikinda. Það er þó ekki minningin um baráttu þína við illvígan Alzheimers-sjúkdóm sem lifir í hjarta mínu heldur minningin um umhyggjusama, hlýlega og duglega konu.
Þú varst glæsileg og hafðir gaman af því að klæða þig upp á. Þú áttir marga fallega skartgripi sem þú geymdir á vísum stað og var spennandi að skoða. Mér er það sérstaklega minnistætt þegar þú komst í klippingu í Logafoldina til mömmu og þið spjölluðuð um heima og geima á meðan ég sat hugfangin og hlustaði á hvert orð. Þú hafðir frá svo mörgu skemmtilegu að segja.
Ég minnist þess líka með hlýhug þegar þú föndraðir með okkur frændsystkinunum. Þar varst þú sannarlega á heimavelli, enda einstaklega fær handavinnukona. Það var gaman að skoða allt handverkið heima hjá ykkur afa og það var ósjaldan sem þú leyfðir mér að taka eitthvað fallegt með heim.
Þið afi áttuð fallegt heimili í Fögrubrekku í Kópavogi þar sem þið bjugguð í áratugi. Þar tókstu alltaf vel á móti manni og varst mikil húsmóðir. Oft bauðstu upp á heimabakaðar kleinur og kæfuna góðu. Það var gaman að koma í gróðurhúsið ykkar og fá að klippa afleggjara af rósunum sem þið ræktuðuð af miklum áhuga.
Elsku amma, ég minnist þín með þakklæti í huga og veit að nú ertu komin á betri stað þar sem þér líður betur. Guð styrki afa, pabba, Selmu og Gunnu á erfiðum tímum.
Þín
Erna.