Tengt Siglufirði
3. mars 1996 | Minningargreinar mbl.is
Haraldur Sölvason var fæddur 3. janúar 1904 að Kjartanstaðakoti í Viðvíkursveit í Skagafirði. Hann lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 20. febrúar sl.
Foreldrar hans voru hjónin Sigurlaug Björnsdóttir og Sölvi Jóhannsson, sem lengi var póstur milli Sauðárkróks og Siglufjarðar.
Haraldur var fjórði í röð 16 systkina, en 11 af þessum stóra systkinahópi komust á legg. Tvö af systkinum Haraldar lifðu hann, Sigríður, búsett á Dalvík, og Jóhann, andaðist á Hrafnistu 28. febrúar sl. Haraldur ólst upp víða í Skagafirði, en fluttist 1926 til Siglufjarðar og bjó þar nær hálfa öld.
Árið
1933 gekk Haraldur að eiga eftirlifandi eiginkonu sína Guðrún Brynjólfsdóttir ættaða frá Landeyjum og bjuggu þau á Siglufirði þar til þau fluttust
til Hveragerðis 1975.
Börn eignuðust þau þrjú:
----------------------------------------------------------
3. mars 1996 | Minningargreinar mbl.is
Haraldur Sölvason Haraldur lagði gjörva hönd á margt á sinni löngu starfsævi, þá þegar sem barn vakti hann yfir ám í Skagafirði. Hann tók þátt í síldarævintýrinu á Siglufirði, var m.a. kyndari í hinum ýmsu síldarbræðslum í tæp 40 sumur, var á sjó og stundaði búskap með allri annarri vinnu, vann lengi hjá Siglufjarðarkaupstað og Hveragerðisbæ eftir suðurkomuna.
Sá sem þessi orð ritar man, er hann var um fermingu, eftir snaggaralegum manni hlaupandi um fjöll og dali á Siglufirði hugandi að kindum sínum, en þar fór Haraldur Sölvason rúmlega fertugur, sem unglingsstrákur væri.
En örlögin réðu því síðar að þessi sporlétti maður varð tengdafaðir minn, og mikill vinur og lærifaðir. Því í
lífsins skóla og í hörðum heimi kreppuárana lærðist margt sem hann miðlaði til næstu kynslóða. Hann kunni vel að segja frá, og ógrynni af sögum og vísum,
og gjarnan fylgdu stuttar sögur og skýringar með vísunum.
Haraldur þekkti mjög vel til bæja og fjalla í Skagafirði og á Siglufirði, minni hans var með ólíkindum og
æði oft þurftum við yngra fólkið að leita eftir svari við ýmsum spurningum, um menn og málefni og aldrei var hans úrskurði áfrýjað.
Haraldur tók þátt
í verkalýðsbaráttu á sinum yngri árum, því þá brunnu þau mál hvað heitast á Siglufirði. Hann var söngelskur, og lagviss, unni landi og þjóð,
með honum er genginn enn einn Íslendingurinn, þeirra sem unnu við vegagerð með hestakerru og nánast með berum höndum um og fyrir 1920.
Hann tók og þátt í sprengivinnu og mannvirkjagerð
í Siglufjarðarskarði uppúr 1940. Það var vetrarvinna, og bjuggu vegagerðarmenn þar stundum í snjóhúsum, meðan á framkvæmdum stóð. Allt þar til fyrir um fimm árum
tóku þau hjónin Guðrún og Haraldur þátt í fjölskylduútilegum þar sem fjórar kynslóðir skemmtu sér saman af lífi og sál við leiki, söng og spil.
Elsku tengdapabbi, ég vil þakka þér fyrir allar ánægju- og fróðleiksstundirnar sem við höfum átt saman og sér í lagi þakkir og kveðjur frá sonum okkar
Höllu sem því miður geta ekki minnst þín með nærveru sinni, en hugur þeirra mun engu að síður vera hjá okkur öllum þessa dagana. Barnabörn mín eiga sérstakar
og skemmtilegar minningar um langaafa og langömmu.
Far í friði, félagi, með þökk fyrir samfylgdina.
Hjálmar Stefánsson.
-------------------------------------