Tengt Siglufirði
8. janúar 2009 | Minningargreinar mbl.is
Eufemía Kristinsdóttir, Ebba eins og hún var kölluð, fæddist á Siglufirði 2. janúar
1930.
Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 31. desember síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru
Hinn 17. janúar 1948 giftist Ebba Haraldur Axel Einarsson frá Hjalteyri við Eyjafjörð, f. 8.4. 1925, d. 15.7. 2004.
Ebba ólst upp í foreldrahúsum á Siglufirði. Hún fluttist ung að árum til Hjalteyrar og stofnaði þar heimili með Haraldi eiginmanni sínum. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur og síðan í Garðabæ þar sem hún bjó yfir 40 ár. Hún helgaði heimili sínu, eiginmanni og börnum starfskrafta sína en þegar þau voru flest komin til vits og ára hóf hún störf hjá Garðabæ (Garðahreppi) og enn voru það börnin sem áttu hug hennar því þar starfaði hún sem forstöðukona á gæsluvöllum og leikskólum Garðabæjar það sem eftir lifði starfsævinnar.
Útför Ebbu verður gerð frá Vídalínskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
------------------------------------------------
Elsku tengdamamma.
Fréttin af andláti þínu kom á óvart. Þegar þú varst lögð inn á Landspítalann á Þorláksmessu hafði ég þá trú að það þyrfti bara að stilla lyfjagjöfina hjá þér eins og var gert fyrr á árinu. Þegar ég hugsa til baka eftir að hafa séð þig við útskriftina hjá Einari Trausta og þú hafðir ekki treyst þér til að vera við athöfnina sjálfa, sem var mjög ólíkt þér, þá fannst mér þú ekki líta alltof vel út, virtist þreytt, en á hörkunni komstu til að geta glaðst með okkur. Innst inni hvarflaði að mér að þú værir veikari en þú lést uppi. Þú vildir taka þátt í öllum gleðistundum með gullmolunum þínum. Veit ég að Einar Trausti huggar sig við þessa stund, en það var mjög erfitt fyrir hann að fá þessa frétt til Tenerife þar sem hann var með fjölskyldu unnustu sinnar um jól og áramót.
Ekki var ég mjög gömul þegar ég kom fyrst á Tjarnarflötina, rétt nýorðin 16 ára. Fyrstu skiptin var maður mest inni í herbergi. Ebba hafði miklar áhyggjur af því að ég nærðist ekki. Mér var færður matur inn í herbergi þar til ég þorði að koma fram og hitta hópinn smátt og smátt. Var ég fljót að kynnast öllum og fannst ég vera heppnasta manneskja í heimi að fá að tilheyra þessari stórfjölskyldu, ég varð svo rík að eignast góða tengdamóður og tengdaföður.
Ég er elst fjögurra systkina en það vantaði mömmu á heimilið (móðir mín lést þegar ég var á tólfta ári). Var því gott að eignast Ebbu sem tengdamóður sem var boðin og búin til að hjálpa og ávallt var gott að leita til hennar. Samverustundir okkar hafa verið margar á stórhátíðum, ættarmótum og á merkum tímamótum í lífi hvers og eins og ekki má gleyma öllum frábæru ferðunum á Kirkjuhól, Ísafjörð og nú síðustu ár í Heydal.
Mikið hefur verið brallað í þessum samverustundum okkar, spilað, gerðar stíflur á ströndinni á Kirkjuhóli og farið í boccia þar á túninu með netakúlum úr plasti, þeim systkinum hefur ekki leiðst að búa til keppni öllum til skemmtunar. Ebba tók þátt í flestu en hún hafði ást og yndi af að ráða krossgátur. Stórfjölskyldan hefur verið með keilumót Haraldar til heiðurs tengdaföður mínum um páska sem endar með að allur hópurinn kemur saman og borðar, í lokin er farandbikarinn afhentur.
Ebba hélt vel utan um alla gullmolana sína þótt hópurinn væri orðinn stór, fylgdist vel með öllum (hún hafði oft orð á því hversu rík hún væri að eiga allan þennan hóp) og lenti það á henni að fræða okkur um það helsta þegar við komum í bæinn. Hún var farin að hvetja barnabörnin til að vera ekki að draga það lengur að gifta sig því henni fannst svo gaman að upplifa þann dag í lífi þeirra eða bara allar gleðistundir í lífi þeirra. Ég mun sakna fallega brossins þíns, hlýja hlátursins og hins hlýja mjúka faðmlags þíns. Hafðu þökk fyrir allt elsku Ebba. Ég kveð þig með söknuð í hjarta.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín tengdadóttir Jóhanna
Kristín.
-----------------------------------------------------
Heima á Ísafirði hangir uppi á vegg ljósmynd af ungum og myndarlegum hjónum með fríðan barnahóp í kringum sig. Þetta er mynd af Ebbu ömmu og Halla afa. Á myndinni er hún þrítug, hann fimm árum eldri og börnin þá orðin sex talsins. Þau kynntust á Siglufirði þegar síldarævintýrið var í algleymingi.
Afi var við trésmíðanám á Siglufirði og vann þar við að reisa síldarverksmiðju. Hann hefur sennilega ekki verið lengi að reka augun í fallegustu stúlkuna á síldarplaninu en amma var þá sextán ára. Það fylgir gjarnan sögunni hvað amma var lagleg, dökk á brún og brá, og afi mikið glæsimenni. Það er skemmst frá því að segja að fljótlega áttu þau von á barni og amma hleypti þá heimdraganum og fluttist á heimaslóðir afa, Hjalteyri. Þar hófu þau búskap, kornung, í skjóli foreldra afa.
Þessi fallega saga um kynni ömmu og afa er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekki bara vegna þess hvað hún er rómantísk heldur sýnir hún líka vel hvern mann amma hafði að geyma. Það hefur þurft sterk bein fyrir unga stúlku að fara að heiman og takast á hendur barnauppeldi og bústang. Það lýsir henni vel að hafa viljað standa á eigin fótum og bjarga sér sjálf. Afi var mikið fjarri heimilinu vegna vinnu og ábyrgðin á börnum og búi hvíldi því á ömmu. Amma talaði samt aldrei um erfiðleika eða basl. Þvert á móti þá hjálpuðust allir að, eldri börnin hjálpuðu með þau yngri og allir lögðust á eitt til að hlutirnir mættu ganga upp.
Þetta segir líka mikið um ömmu. Allt var svo auðvelt og vandræðalaust. Hún leit lífið og tilveruna jákvæðum augum og fór brosandi í gegnum lífið. Hún gerði lítið úr vandamálum og sigraðist á öllum erfiðleikum með bjartsýni og einstakri lífsgleði. Hún var engin venjuleg amma hún Ebba amma. Mér fannst hún aldrei verða gömul. Hún leit út fyrir að vera yngri en aðrar ömmur, með hrafntinnusvart hárið og blikandi augun, og hún var svo sannarlega ung í anda. Hún talaði alltaf við mig sem jafningja og kynslóðabil var ekki til á milli okkar.
Hún ferðaðist mikið, fór í leikhús og kvikmyndahús, fylgdist með tíðarandanum og elskaði að vera innan um fólk. Hún hafði oft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lá ekkert á þeim. Hún hafði líka mikinn húmor, ekki síst fyrir sér og sínum, og hafði lag á því að láta fólki líða vel í kringum sig. Enginn hafði eins góða nærveru og Ebba amma. Allt frá því að ég var lítil stelpa í heimsókn á Tjarnarflötinni fannst mér svo gott að vera í kringum hana og gaman að spjalla við hana. Núna er það að renna upp fyrir mér hvað hún var stór partur af tilverunni og hvað vantar mikið þegar hún er farin. Ótal minningar skjóta upp kollinum, dýrmæt augnablik og samverustundir sem ég vildi að hefðu orðið miklu fleiri.
Ebba amma dó skyndilega aðfaranótt gamlársdags. Ég var ekki tilbúin að kveðja hana strax en svona held ég að hún hefði sjálf viljað hafa það. Hún var orðin miklu veikari en hún vildi vera láta en ætlaði ekki að láta það buga sig. Hún vildi standa á eigin fótum og það hefði ekki átt við hana að verða veikari og vanmáttug. Hún kvaddi áður en kirkjuklukkurnar hringdu inn nýja árið og sá til þess að við munum hana eins og hún var. Ebba amma sagði alltaf að það yrði aldrei nema einn maður fyrir hana. Nú hittast þau aftur hún og Halli afi og halda á vit nýrra ævintýra saman. Einmitt þannig held ég að hún hafi hugsað sér það.
Guð geymi þig elsku amma mín og hafðu þökk fyrir allt.
Þín Ebba Áslaug.
-------------------------------------------------
Amma mín var ofurhetja. Þegar ég var lítil fannst mér ég svo heppin að eiga svona flotta ömmu, hún var allt öðruvísi en allar hinar ömmurnar. Hún amma mín átti nefnilega sjö börn, var alltaf hlæjandi og glöð, notaði aldrei orðið nei, vann á róló og átti alltaf fullar skúffur af súkkulaði sem oftast nær kom frá útlöndum, svo eitthvað sé nefnt. Núna þegar ég er orðin eldri dáist ég ennþá að ömmu minni, er með sama glampann í augunum, en súkkulaðiskúffan og veraldlegir hlutir hafa fengið að víkja fyrir öðrum gildum.
Ég dáist að því hvernig hún valdi að lifa lífinu, hverig hún barðist fyrir sínu, hvernig hún þraukaði í gegnum erfiða tíma án þess að kvarta og hvernig henni tókst alltaf að sjá gleðina í öllum hlutum. Á endanum, eftir allt þetta ferðalag, stóð hún uppi sem sigurvegari, sátt við eigið líf. Það var eins og það væru engar hindranir sem gætu staðið í veginum fyrir henni ömmu. Þegar lífið tók á sig óvænta stefnu heyrði maður hana aldrei kvarta en þess í stað var hún ávallt dugleg að þakka fyrir allar þær gjafir sem lífið hafði gefið henni, hún sá það bjarta og jákvæða í hverjum hlut.
Þrátt fyrir það hvað fjölskyldan okkar er stór var faðmur ömmu alltaf nægilega stór til þess að faðma allan þennan fjölda að sér og gefa okkur alla sína ást og gleði. Hún sparaði aldrei faðmlögin og kossana, né það að minna okkur á hversu mikið hún elskaði okkur. Lífssýn Ebbu ömmu var alveg einstök. Maður lifir bara einu sinni og það er eins gott að nota lífið sem okkur var gefið vel og njóta þess á allan hátt sem maður getur meðan maður lifir. Þessi boðskapur er stærsta gjöfin sem hún amma mín gaf mér og hann hef ég reynt að taka með mér í gegnum mitt ferðalag í lífinu og hann á eftir að fylgja mér alla tíð.
Ef amma væri ofurhetja í teiknimynd þá hefði hún þann eiginleika að geta fyllt hjörtu fólks af birtu og gleði bara með því að brosa. Elsku amma mín ef ég verð amma einhvern daginn þá pant verða alveg eins amma og þú.
Þín Þórunn Arna.
--------------------------------------------
Elsku Ebba amma, það voru blendnar tilfinningar sem fóru um okkur síðastliðið gamlárskvöld þegar við kvöddum liðna árið og tókum á móti því nýja. Sorgmædd hugsuðum við til þess að þú yrðir ekki með okkur áfram og næðir ekki að upplifa 79 ára afmælisdaginn þinn, hinn 2. janúar. Hvernig yrði eiginlega lífið án þín? Þú hafðir svo einstaklega sterka og góða nærveru, frábæra kímnigáfu og stundum örlaði á stríðni sem þó alltaf var meinlaus.
Mikið gátum við hlegið oft saman og margar eru þær orðnar stundirnar sem við höfum átt og deilt með þér í gegnum árin. Þú hafðir svo mikla ást og alúð að gefa og vildir allt fyrir alla gera. Þú varst inni í öllum málum, varst oft fyrst með fréttirnar og með allt þitt á tæru. Þú sýndir þinni stóru fjölskyldu einstakan áhuga enda var hún stolt þitt og yndi og skemmtilegastar voru þær stundir þegar stórfjölskyldan kom saman, hvort sem það var á Garðatorginu eða á eftirminnilegu ættarmótunum þar sem þú fórst gjarnan með þeim síðustu í háttinn því ekki vildir þú missa af fjörinu. Þú varst svona nýmóðins amma og langamma, áttir alltaf nýjustu spólurnar og leikföngin, langömmubörnunum til mikillar skemmtunar.
Með jákvæðnina í farteskinu tókstu á við raunir lífsins, nú í seinni tíð veikindi Halla afa og fráfall hans sem og í kjölfarið þín eigin veikindi en aldrei léstu bilbug á þér finna enda sannkölluð Pollýanna út í gegn. Við viljum þakka þér fyrir allt sem þú gafst okkur og kenndir, minningin um dásamlega ömmu og langömmu verður ávallt í hjörtum okkar geymd.
(V. Briem)
Við kveðjum þig elsku amma eins og þú kvaddir okkur alltaf þegar þú sagðir: „Ég elska ykkur öll.“ – Við elskum þig líka.
Þín
Magnús, Anna Rún, Daníel Hugi og Birta Dís.
-----------------------------------
Ebba, kær vinkona, er öll. Ebba var ein sú jákvæðasta manneskja er ég hef hitt um dagana, alltaf kát og glöð sama hvað bjátaði á.
Við fórum saman í ferðalag til Borgundarhólms í maí 2004. Þar áttum við góðar stundir í yndislegu umhverfi ásamt fleira góðu fólki.
Einnig minnist ég allra fundanna hjá kvenfélagi Garðabæjar, Ebba alltaf sparibúin og glöð.
Ebba var alltaf á leiðinni í heimsókn til mín, „...kem í næstu viku“, sagði hún er við hittumst síðast, vongóð um að sér liði betur þá.
Ég sendi börnum hennar og ættingjum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Far þú í friði, Ebba mín.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Ásta Hávarðardóttir.