Haraldur Axel Einarsson húsasmíðameistari

23. júlí 2004 | Minningargreinar mbl.is 

Haraldur Einarsson fæddist í Sæborg á Hjalteyri við Eyjafjörð 8. apríl 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 15. júlí síðastliðinn.

 • Foreldrar hans voru Einar Jónasson, verkamaður á Hjalteyri, f. 2.11. 1888, d. 23.2. 1969, og
 • Kristín Margrét Kristjánsdóttir, húsmóðir á Hjalteyri, f. 12.12. 1884, d. 22.6. 1977.
 • Systkini Haraldar eru:
 • Jónas Kristján, f. 24.11. 1920,
 • Pétur, f. 6.7. 1926, d. 10.3. 1992,
 • Þórhallur Margeir, f. 14.2. 1931, og
 • María Margrét, f. 19.11. 1934.
Haraldur Einarsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Haraldur Einarsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Hinn 17. janúar 1948 kvæntist Haraldur Eufemíu Kristinsdóttur (Ebbu) frá Siglufirði, f. 2.1. 1930.

 • Foreldrar hennar voru Kristinn Zophanías Jóakimsson, verkamaður á Siglufirði, f. 27.5. 1902, d. 2.9. 1967, og
 • Sigurbjörg Sigmundsdóttir, húsmóðir á Siglufirði, f. 3.3. 1907, d. 16.2. 1984.
 • Börn Haraldar og Ebbu eru:
 • 1) Kristján, f. 20.10. 1947, kvæntur Halldóru S. Magnúsdóttur, f. 7.2. 1950.
 • Börn Kristjáns og Halldóru eru:
 • a) Ebba Áslaug, f. 3.9. 1971, sambýlismaður Einar Hansen Tómasson, f. 6.1. 1971, dætur þeirra eru
 • Kristín Nanna, f. 8.9. 1995, og
 • Halldóra Elín, f. 2.6. 2002.
 • b) Magnús, f. 7.1. 1975, kvæntur Önnu Rún Frímannsdóttur, f. 30.3. 1976,
 • sonur þeirra er
 • Daníel Hugi, f. 9.7. 2001.
 • c) Þórunn Arna, f. 17.11. 1983, unnusti Pétur Georg Markan, f. 16.2. 1981.
 • 2) Eysteinn Haraldsson, f. 10.7. 1952, kvæntur Finnborgu Laufeyju Jónsdóttur, f. 25.12. 1954.
 • Börn þeirra eru:
 • a) Kristinn Jón, f. 6.10. 1975, kvæntur Inger Rós Jónsdóttur, f. 3.4. 1976. b) Axel Þór, f. 15.12. 1979.
 • c) Bjarki Páll, f. 1.4. 1986. d) Eydís Lilja 15.1. 1993.
 • 3) Sigurbjörn Kristinn, f. 29.10. 1953, sambýliskona Ingibjörg Sigurbergsdóttir, f. 6.9. 1947.
 • Synir Sigurbjörns eru:
 • a) Haraldur Kristinn, f. 27.4. 1975, sambýliskona Elva Rakel Sævarsdóttir, f. 26.1. 1980. b) Kristinn, f. 10.9. 1986.
 • 4) Einar, f. 26.12. 1956, kvæntur Jóhönnu Kristínu Guðbjartsdóttur, f. 9.12. 1959.
 • Börn þeirra eru:
 • a) Þóra Guðrún, f. 18.5. 1979, sambýlismaður Jón Grétar Herjólfsson, f. 8.8. 1978.
 • b) Haraldur Axel, f. 8.7. 1981.
 • c) Einar Trausti 7.7. 1989.
 • 5) Haraldur Axel, f. 23.6. 1959, kvæntur Sigrúnu Ástu Gunnarsdóttur, f. 16.9. 1960. Börn þeirra eru:
 • a) Heiðrún Tinna, f. 14.11. 1985, unnusti Birgir Hrafn Sigurðsson, f. 13.9. 1985.
 • b) Hugrún Tanja, f. 9.8. 1987.
 • c) Haraldur Axel, f. 10.2. 1993.
 • d) Hafrún Erna, f. 7.6. 1995.
 • 6) Hrafnhildur, f. 2.8. 1960, gift Snorra Olsen, f. 20.7. 1958.
 • Dætur þeirra eru:
 • a) Helena Eufemía, f. 1.9. 1983.
 • b) Thelma Kristín, f. 21.9. 1987.
 • 7) Stúlka, f. 27.9. 1968, d. 27.9. 1968.
 • 8) Margrét Ásdís, f. 27.9. 1968, gift Hlyni Rúnarssyni, f. 11.12. 1968.
 • Börn þeirra eru:
 • a) Arnór Kristinn, f. 29.11. 1992.
 • b) Hafdís Katrín, f. 22.7. 1999.

Haraldur ólst upp í foreldrahúsum á Hjalteyri. Hann kynntist þar ungur að árum öllum almennum störfum til sjávar og sveita. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði í Reykjavík 1946 og hlaut meistaranafnbót í faginu 1951. Hann hóf störf á Keflavíkurflugvelli 1952 og starfaði þar lungann af starfsævi sinni fyrst hjá Sameinuðum verktökum og síðan Íslenskum aðalverktökum allt þar til hann lét af störfum 1997. Haraldur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann sat í stjórn Íslenskra aðalverktaka um skeið, hann var formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar í tvö ár, var formaður ungmennafélagsins Stjörnunnar um tíma og ennfremur gegndi hann nefndarstörfum fyrir Garðabæ.

Útför Haraldar verður gerð frá Vídalínskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Þegar mér bárust fréttir af láti tengdaföður míns komu fram í hugann minningar löngu liðinna tíma. Ég sé hann fyrir mér þegar ég, ung stúlkan, hitti hann í fyrsta sinn á Tjarnarflötinni, glæsilegan og virðulegan en dálítið kíminn. Hann var rólegur maður að eðlisfari og ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni heyrt hann vera hvassyrtan við nokkurn mann. Alltaf var stutt í brosið og hnyttin tilsvör hans eru öllum minnisstæð. Hann sýndi börnum sínum og fjölskyldunni allri ávallt ást og virðingu sem hún kunni svo vel að meta, enda Haraldur sannkallaður öðlingur.

Lífslán Haraldar var eflaust þegar leiðir hans og Ebbu tengdamóður minnar lágu saman. Í sameiningu bjuggu þau fjölskyldu sinni gott heimili og komu á legg sjö mannvænlegum börnum. Þegar horft er yfir afkomendahópinn má með sanni segja að orð Biblíunnar um orsök og afleiðingu sannist: "Svo sem maðurinn sáir svo mun hann og uppskera."

Síðasta aldarfjórðunginn höfum við búið sitt á hvoru landshorninu, ég og fjölskylda mín á Ísafirði og tengdaforeldrar mínir í Garðabæ. Samverustundir okkar hafa því verið færri en efni stóðu til en því ánægjulegri þegar af þeim gat orðið. Sérstaklega var gaman þegar stórfjölskyldan hittist, hvort sem var á merkum tímamótum í lífi hvers og eins, á ættarmótum eða stórhátíðum. Þá var hátíð í bæ og margt skemmtilegt brallað saman.

Um það leyti er Haraldur lauk starfsævi sinni kenndi hann sjúkdóms sem fór versnandi ár frá ári og nú hefur hann fundið langþráða líkn í hendi guðs.

Elsku Ebba. Ég bið algóðan guð að styrkja þig og styðja. Góður maður er genginn og minningin um hann mun lifa með öllum þeim sem til hans þekktu.

Elsku Haraldur. Ég kveð þig með söknuð í hjarta.

 • Far þú í friði,
 • friður Guðs þig blessi,
 • hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Þín tengdadóttir, Halldóra.
--------------------------------------

Elsku Halli afi.

Nú er ferðalagi þínu lokið hér á jörðu og í senn mun annað jafnviðburðaríkt taka við.

Návist þín var engu lík, þú varst alltaf svo hjartgóður og hlýr. Húmorinn var sjaldan langt undan þegar þú komst við sögu og varst þú sérstaklega laginn við að koma fólki til að brosa.

Þrátt fyrir þá miklu sorg sem ríkti þennan örlagaríka dag fékkstu loksins að hvílast. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu um stund, þrátt fyrir þá skínandi sól sem skein allan daginn. Við vitum að Guð var að gráta brottför þína...hann grét gleðitárum.

Elsku afi, við eigum eftir að sakna þín óendanlega mikið og eigum aldrei eftir að gleyma þér. Takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Guð og englarnir varðveiti þig. Þínar stelpur,

Helena og Thelma.
-----------------------------

Elsku hjartans afi.

Við viljum þakka þér fyrir allar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Allar þessar skemmtilegu minningar sem við eigum þó að þú sért nú farinn upp til himna. Minningar á borð við; þegar þú fórst með okkur öllum upp á Kirkjuhól, Heiðrún át allar pillurnar þínar og kenndi svo kettinum Júlíusi um, Hugrún kenndi þér Macarena inni á gangi og hversu brosmildur þú varst alltaf þegar eitthvert okkar kom í heimsókn. Svo var líka alltaf mjög stutt í stríðnispúkann, straukst t.d. nokkrum sinnum af nunnuklaustrinu, og hafa börnin þín eflaust erft þann hæfileika frá þér.

Það er alltaf sárt að missa einhvern en það er líka gott að vita til þess að núna situr þú á góðum stað og horfir niður á okkur brosandi og ljómar allur af hamingju.

 • Láttu nú ljósið þitt
 • loga við rúmið mitt.
 • Hafðu þar sess og sæti,
 • signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Ástarkveðjur; Heiðrún, Hugrún, Haraldur og Hafrún.
--------------------------------------------

Á fallegum sumardegi í sænsku Smálöndunum fékk fjölskyldan þær fréttir að Halli afi væri dáinn. Þrátt fyrir þessi sorgartíðindi reyndum við að njóta dagsins, því við vissum að einmitt þannig hefði afi viljað hafa það.

Halli afi var einstaklega ljúfur og hlýr maður. Hann tók lífinu með stóískri ró og ekkert virtist koma honum úr jafnvægi. Það voru aldrei nein læti í kringum hann afa. Hann lét sér oftar en ekki nægja að hlusta á samræðurnar yfir eldhúsborðinu en átti svo til að lauma inn hárfínum athugasemdum sem hittu beint í mark. Hann hafði mikinn húmor og gat á köflum verið bæði stríðinn og eilítið háðskur. Þegar svo bar undir kom glettnisblik í augun á honum og skeggið titraði undan brosviprunum.

Margar góðar minningar eru tengdar ömmu og afa á Tjarnarflötinni. Þar hittist stórfjölskyldan og oft var glatt á hjalla. Ég sé fyrir mér Halla afa í ljósbrúnum leðurstól og man eftir lítilli stúlku sem herti upp hugann áður en hún kyssti afa sinn bless því skeggið átti það til að stinga. Eftir að fjölskyldan flutti á Ísafjörð bjuggum við á Tjarnarflötinni þegar við áttum erindi í höfuðborgina og þar þótti mér alltaf svo gott og gaman að vera. Seinna fékk ég að fara sjálf í heimsóknir til ömmu og afa og þær voru ófáar ferðirnar hans afa að sækja mig og skutla út á Reykjavíkurflugvöll. Eitt sinn þegar ég var í bænum var afi ræstur út fyrir allar aldir til að skutla mér í ákveðna verslun en þar beið glæný sending af úlpum eins og ég þurfti bráðnauðsynlega að eignast. Við vorum mætt klukkutíma fyrir opnun til þess að missa nú ekki af úlpunni. Þegar við komum að búðinni var hvergi mann að sjá og ég gleymi ekki svipnum á afa þegar hann spurði mig kíminn "og hvar er svo röðin"?

Þegar afi veiktist og var orðinn ósjálfbjarga um margt hélt hann samt kímnigáfunni lengst af. Hann var ennþá að lauma að okkur gullkornum og þó svo að það væri stundum erfitt að skilja hvað hann sagði þá sá maður í augunum hans að hann var að gera að gamni sínu og við hlógum saman. Þegar ég heimsótti hann fyrir nokkru fannst mér glampinn í augunum vera slokknaður og þá vissi ég að hann væri að fara frá okkur.

Við kveiktum á kertum í Dómkirkjunni í Lundi til minningar um Halla afa. Nú er komin kveðjustund en eftir lifir minningin um góðan afa. Elsku amma, Guð gefi að þú haldir áfram að vera eins jákvæð og lífsglöð og þú hefur verið í gegnum súrt og sætt. Hann afi var heppinn að eiga þig.

Ebba Áslaug.