Kjartan Gústafsson

27. október 2016 | Minningargreinar mbl.is

Kjartan Gústafsson fæddist á Siglufirði 9. febrúar 1942. Hann lést af slysförum 14. október 2016.

 • Foreldrar hans voru
 • Jórunn Frímannsdóttir, f. 12. júlí 1915, d. 11. apríl 2009, og
 • Gústaf Guðnason, f. 1. ágúst 1915, d. 3. nóvember 1969.

Kjartan var fimmti í röð tólf systkina, sem eru

 • Guðni Leifur, f. 1935,
 • Pálína, f. 1938, d. 1938,
 • Pálína, f. 1939,
 • Frímann Jósef, f. 1940,
 • Jóhanna Steinþóra, f. 1943, d. 2008,
 • Eggertína Ásgerður, f. 1944,
 • Guðbrandur, f. 1946,
 • Marín f. 1951.
 • Systkini samfeðra eru
 • Valur Hólm, f. 1946,
 • Theódóra, f. 1951,
 • Sigþóra, f. 1953.
Kjartan Gústafsson - Ljósm. ókunnur (mbl.is)

Kjartan Gústafsson - Ljósm. ókunnur (mbl.is)

Kjartan kvæntist Sigríði Fanneyju Aradóttur, f. 3. febrúar 1947, árið 1963 en þau skildu 1978. Þau eignuðust þrjú börn

1) Jóhanna Rannveig

Hennar börn:
, f. 28. janúar 1964. Sambýlismaður Atli Hörður Bjarnason, f. 1974.
 • a) Kjartan Ingi Einarsson, f. 1980, d. 1986,
 • b) Jóhann Freyr Sigurbjarnarson, f. 1992.
2) Margrét Arndís,
f. 29. september 1965. Maki Andrés Ingiberg Leifsson, f. 1961.
Þeirra börn
:
 • Leifur, f. 1983,
 • Sigríður, f. 1986,
 • Andrea Rún, f. 1993,
 • Almar Berg, f. 1998.

3) Ari Jón, f. 24. desember 1970. Maki Elín Ása Hreiðarsdóttir, f. 1972.
Börn þeirra:

 • Einar Örn, f. 2001,
 • Elvar Már, f. 2006.

Kjartan kvæntist Ólöfu Þorvaldsdóttur, f. 1954, frá Ólafsfirði árið 1987. Foreldar hennar voru Þorvaldur Þorsteinsson, f. 1916, d. 1988, og Sveinsína Jónsdóttir, f. 1916, d. 2013. Þeirra barn: Sveinn Þór, f. 1992.

Kjartan ólst upp á Austari-Hóli í Flókadal frá 4 til 14 ára aldurs, en fluttist þá til Siglufjarðar. Hann fór á sjó 22 ára gamall og var á mörgum bátum, lengst á Sigurfara ÓF með mági sínum, Núma Jóhannssyni skipstjóra. Kjartan, sem var kokkur, hætti á sjó árið 2001.

Sjómannafélag Ólafsfjarðar heiðraði Kjartan árið 2014 fyrir vel unnin störf til hagsbóta fyrir sjómenn og Ólafsfjörð. Kjartan var félagi í Kiwanis og Félagi eldri borgara í Ólafsfirði. Eftir að hann fór í land vann hann við ýmis störf. Hann var umboðsmaður Morgunblaðsins í Ólafsfirði síðustu 10 árin. Kjartan og Ólöf bjuggu lengst af á Brekkugötu 7, Ólafsfirði.

Útförin fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 27. október 2016, og hefst klukkan 14.
---------------------------------------

Ég á ennþá erfitt með að trúa að þeirri staðreynd sem mér var tjáð þegar hringt var í mig föstudagsmorguninn 14. október; að Kjartan Gústafsson, mágur minn, hefði lent í slysi þegar hann var að bera út Morgunblaðið og væri látinn. Á augabragði var honum kippt frá okkur.

Ég hafði þekkt Kjartan í rúm 30 ár eftir að hann kynntist systur minni, Ólöfu, og bjuggu þau m.a. á neðri hæðinni hjá mér á Túngötu 17 Ólafsfirði í tæp 15 ár og samgangur því mikill.

Það hrannast upp margar minningar um Kjartan. Hann vann stóran hluta ævi sinnar á sjó á mörgum skipum og þegar Kjartan var aðeins 24 ára lenti hann í slysi um borð og slasaðist mjög illa á fæti sem háði honum mikið alla tíð eftir það. Hann kvartaði hins vegar aldrei og harkan og dugnaðurinn hjá honum var allsráðandi og að vera dæmdur öryrki átti ekki uppi á pallborðið hjá honum.

Kjartan var einstaklega bóngóður maður og vildi allt fyrir alla gera. Í hans orðaforða var ekki til orðið nei, það veit ég sjálfur og margir aðrir hafa notið góðs af því. Þrátt fyrir háan aldur var Kjartan að slá og hirða margar lóðir hér í bæ og voru margir þakklátir honum, en sjaldan vildi Kjartan taka greiðslu fyrir.

Í rúm tíu ár höfðu Kjartan og Ólöf borið út Morgunblaðið á Ólafsfirði og gert það með miklum sóma. Það var nánast hægt að stilla klukkuna eftir því hvenær bréfalúgan opnaðist á morgnana og Mogginn kominn í hús. Blöðin áttu að koma með rútunni til Ólafsfjarðar um klukkan 9.30 en það fannst Kjartani ekki nógu gott því þau voru komin til Dalvíkur rúmlega sex, hann keyrði því sjálfur til Dalvíkur alla morgna og sótti blöðin til þess að Moggaáskrifendur á Ólafsfirði fengju blöðin sín fyrr.

Kjartan var mikil félagsvera, hann var t.d. í Kiwanis og voru þau hjónin mjög dugleg að rækta samveru og samband við vini sína. Þau hjón voru með eindæmum gjafmild og við minnsta tilefni komu þau færandi hendi með blóm eða gjafir.

Ólöf og Kjartan fluttu á Brekkugötu 7 árið 2004 og hafa búið þar síðan ásamt syni sínum, Sveini Þór. Það eru vandfundnir meiri fagurkerar en þau og ber heimilið þeirra þess merki.

Það er oft erfitt að skilja tilveruna og hversu óréttlát hún getur verið, hver er tilgangur með að kippa burt öðlingi eins og Kjartani, án nokkurs fyrirvara? Maður sem var allt sitt líf að þjóna öðrum og gera góðverk og mátti ekkert aumt sjá. Ég er sannfærður um að ef allir væru eins og Kjartan væri heimurinn betri en hann er í dag.

Elsku hjartans Ólöf og Sveinn Þór. Missir ykkar er mikill, það ríkir mikil sorg og söknuður á Brekkugötu 7, en því miður verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að Kjartan kemur ekki heim aftur.

Megi Guð veita ykkur styrk og stoð á þessum erfiðu tímum.

Við fjölskyldan vottum öllum ættingjum Kjartans samúð okkar og um leið og við þökkum Kjartani fyrir allar góðar og dýrmætar stundir í gegnum árin og samstarf okkar, sem var alla tíð mjög gott, enda ekki annað hægt því betri mannvinur en Kjartan er vandfundinn.

Blessuð sé minning þín. Þorsteinn Þorvaldsson.
---------------------------------------------

Í dag kveðjum við vin okkar Kjartan Gústafsson. Það kom mjög fljótt í ljós við nánari kynni, þegar hann kom inn í fjölskyldu okkar, að þarna var óvenjuhlýr og þægilegur maður á ferð.

Hann var þá á miðjum aldri, sjómaður sem hafði frá unga aldri stundað sjómennsku, oftast starfað sem kokkur. Og við fengum svo sannarlega að njóta kunnáttu hans á því sviði, því þær voru ekki svo fáar matarveislurnar sem fjölskyldan fékk að njóta, sem þau héldu okkur á æskuheimili Ólafar að Brekkugötu 7.

Það var gaman að fylgjast með þeim hjónum hvað þau voru samtaka í að laga og bæta allt sem sneri að heimili þeirra og þar kom sér vel hagleikur Kjartans og þess ber heimili þeirra fagurt vitni.

Gott dæmi um hvað Kjartan var kærleiksríkur maður var öll framkoma hans og umönnun. Þegar heilsa tengdamóður hans var farin að gefa sig reyndist hann henni eins og besti sonur og það vitum við að hún Sveinsína var honum ævinlega þakklát fyrir alúð hans og nærgætni.

Kjartan kom úr stórri fjölskyldu og voru ættingjar hans dreifðir um allt land. Þau hjón voru dugleg að ferðast um landið og heimsækja ættingja og vini.

Einn af mörgum kostum Kjartans var hve bóngóður hann var og vildi gjarnan rétta hjálparhönd, ef hann gat komið því við. Það getum við best staðfest því þau hjón hafa í gegnum árin haft umsjón og eftirlit með heimili okkar þegar við höfum brugðið okkur bæjarleið í lengri eða skemmri tíma.

Skyndilegt og sviplegt fráfall Kjartans, þar sem hann var við vinnu af sinni alkunnu samviskusemi og skyldurækni, er okkur mikið áfall.

Samúðarkveðjur til Ólafar, barnanna og annarra ættingja.

Minning um góðan dreng lifir. Jón og Sigrún.
---------------------------------------------------------

Látinn er góðvinur okkar, Kjartan Gústafsson, eftir hörmulegt slys .

Kynni okkar hófust fyrir nær þremur áratugum, þegar hann kvæntist Ólöfu Þorvaldsdóttur, systur Gunnu. Fyrstu árin var Kjartan lengst af á sjó, svo að samskiptin voru ekki mjög náin.

Árið 1986 fluttu Kjartan, Ólöf og Sveinn Þór, sonur þeirra, sem þá var fjögurra ára, á neðri hæðina til okkar og þá efldust kynni okkar.

Eftir því sem árin liðu varð okkur æ ljósara hvílíkur mannkostamaður Kjartan var. Hafi nokkur maður staðfest það með breytni sinni að sælla er að gefa en þiggja þá var það Kjartan .

Þessi gjafmildi og góðhjartaði maður kunni sér ekki alltaf hóf, hvort sem hann átti frumkvæði að hjálpseminni eða var beðinn um greiða. Það var engu líkara en orðið nei væri ekki til í vitund hans. Örlæti hans og bóngæðum virtust engin takmörk sett.

Eftir ýmis líkamleg áföll frá tvítugsaldri bjó hann við skerta starfsorku. Hann lét fötlun sína ekki á sig fá, þegar hann var beðinn um greiða, sem reyndi á líkamlegan styrk, t.d. að slá erfiðar lóðir, þrífa rusl og koma í förgun eða þeytast í fyrirvaralausar sendiferðir. Ánægjan að geta orðið öðrum að liði skipti hann meira máli en aurarnir sem hann fékk í vasann. Því miður voru þeir til sem misnotuðu sér hjálpsemina og „gleymdu“ að borga.

Auk gjafmildi og fórnfýsi var einn af mannkostum Kjartans mikil ættrækni. Í þeim efnum voru þau hjónin afar samhent.

Ættbogi Kjartans var stór. Hann átti 10 systkini, þar af einn hálfbróður, sem ekki ólst upp í systkinahópnum og var án allra tengsla við systkini sín, þar til Kjartan náði sambandi við hann skömmu fyrir brúðkaup þeirra Ólafar. Í brúðkaupinu komst þessi týndi bróðir loks í sitt rétta ættarumhverfi. Þökk sé Kjartani.

Meðan foreldrar Gunnu héldu heimili á Brekkugötu 7 og einnig eftir að pabbi hennar dó var Brekkugata 7 miðstöð fyrir brott flutta ættingja og vini, sem komu í heimsókn í fjörðinn. Öllum var tekið opnum örmum.

Eftir fráfall foreldra Gunnu var þess að vænta að þessar heimsóknir legðust af en sú varð ekki raunin. Nýir armar jafn opnir og hlýir umluktu þá eins og áður. Það voru armar Kjartans og Ólafar.

Brekkugötuhjónin héldu vel utan um hópinn sinn á meðan þau lifðu og samverustundirnar með þeim voru okkur dýrmætar og treystu ættarböndin.

Stórt skarð er nú höggvið í Brekkugötuhópinn. Það skarð verður aldrei fyllt. Við erum þess þó fullviss, að Ólöf og Sveinn Þór munu leggja sig öll fram við að halda hópnum saman. Þau hafa bæði sýnt ótrúlegan styrk eftir lát Kjartans.

Megi almættið veita þeim huggun og styrk um ókomin ár.

Guðrún og Hreinn.

===============================================

Morgunblaðið: 

Maður­inn sem lést í bíl­slysi á Ólafs­firði á föstu­dag hét Kjart­an Gúst­afs­son. Hann var 74 ára.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu bar slysið að með þeim hætti að Kjart­an var að keyra út blöð þegar hann legg­ur bif­reið sinni og fer út. Bif­reiðin renn­ur af stað og Kjart­an reyn­ir að stöðva hana en klemm­ist á milli bíls­ins og steypts lóðar­veggs.

Hann lést á vett­vangi.