Tómas Sigurður Jóhannsson

15. janúar 2004 | Minningargreinar mbl.is

Tómas Sigurður Jóhannsson fæddist í Reykjavík 30. janúar 1926. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 3. janúar síðastliðinn.

Foreldrar Tómasar voru hjónin

 • Sesselja Jónsdóttir, f. á Skeiði í Svarfaðardalshr. 13. október 1883, d. 30. maí 1932 og
 • Jóhann Kr. Sveinbjörnsson, f. á Brekku í Svarfaðardal 9. janúar 1884, d. 8. mars 1968.

Eitt syskina Tómasar dó í frumbernsku en hin voru

 • Jón Tryggvi, f. 1906, d. 1962,
 • Anna Aðalheiður, f. 1909, d. 1958,
 • Stefanía Ólöf, f. 1912, d. 1985,
 • Nanna, f. 1915, d. 1934,
 • Sesselja Guðrún, f. 1918, d. 1974 og
 • Björn, f. 1922, d. 1944.
Tómas Jóhannsson

Tómas Jóhannsson

Tómas kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Brynja Gestsdóttir á Siglufirði, 26. desember 1947 og eiga þau þrjú börn:

1) Gunnar Hilmar, (Gunnar Tómason)
börn hans eru
f. 1947,
 • Ragnar Vilberg,
 • Caroline María,
 • Díana Brynja Madeleine og
 • Natalie Viktoria.
2) Jóhann Sveinbjörn Tómasson,
börn þeirra eru
f. 1949, maki Bryndís Guðmundsdóttir,
 • Tómas Helgi,
 • Guðmundur Freyr og
 • Guðrún Arna.
3) Hrafnhildur Tómasdóttir
börn þeirra eru
, f. 1956, maki Gunnar R. Sverrisson,
 • Andri Tómas og
 • Thelma.

Á Siglufirði starfaði Tómas lengst af hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

1983 fluttust Brynja og Tómas til Reykjavíkur, þar sem hann starfaði hjá iðnaðardeild ÁTVR til ársloka 1996.

Útför Tómasar fór fram í kyrrþey, að ósk hins látna.
-----------------------------------------------

Pabbi var sólskinsbarn. Þegar hann fæddist í Reykjavík árið 1926 höfðu foreldrar hans, Jóhann Sveinbjörnsson frá Brekku og Sesselja Jónsdóttir frá Tjörn í Svarfaðardal, nokkur ár um fertugt. Að baki voru erfið ár harðrar lífsbaráttu í Svarfaðardal, Sauðanesi á Upsaströnd og Dalvík. Amma hafði veikzt alvarlega og afi orðið að leysa upp heimilið.

Pabbi kom nú eins og ljósgeisli inn í líf fjölskyldunnar sem hafði sameinazt á ný. Hann átti einstaklega blíða móður og var eftirlæti systkina sinna. Afi, Jóhann Sveinbjörnsson var sjómaður á togurum meðan tíminn staðfesti fullan bata ömmu. Vorið 1930 fluttist fjölskyldan til Siglufjarðar þar sem afi hafði fengið stöðu tollvarðar. Sumarið 1932 dró ský snöggt fyrir sólu er amma lézt í hörmulegu slysi. Minning hennar var áreiðanlega það helgasta sem pabbi geymdi í sinni hreinu sál.

Síðar giftist afi góðri konu, Guðný Guðmundsdóttir. Þau náðu bæði háum aldri og létust á Hrafnistu í Reykjavík. Slys, veikindi og ótímabær dauði lék börn og tengdabörn afa og ömmu Sesselju grátt.
Einungis Stefanía og pabbi urðu meira en hálfsextug. Í bráðum tuttugu ár höfum við haldið ættarmót niðja Jóhanns og Sesselju. Þar hefur pabbi einn barna þeirra notið ómældrar ástar og hlýju systkinabarna sinna og afkomenda þeirra. Verður nú skarð fyrir skildi næsta sumar.

Pabbi reyndist fljótt vel gerður drengur. Strax kom í ljós að hann hafði erft fagra söngrödd móður sinnar, en hún var barnabarn prestshjónanna Hjörleifs Guttormssonar og Guðlaugar Björnsdóttur.
Af þeim er komin Skinnastaðaætt, alkunn af tónlistarfólki og eru þar þekktastir Árni Björnsson tónskáld og Árni Kristjánsson píanóleikari, þremenningar við pabba. Pabbi var sísyngjandi og fékk sem barn viðurnefnið Tommi söngur á Siglufirði. Þar söng hann margsinnis opinberlega sem drengur, oftast með jafnaldra sínum og vini, Hilmar Rósmundsson.

Pabbi var góður námsmaður og lauk gagnfræðaprófi með hárri einkunn, tveimur árum yngri en bekkjarsystkin hans. Því miður sneri hann frá Menntaskólanum á Akureyri eftir aðeins tvær vikur og kom fyrir ekki þótt hollvinur fjölskyldunnar, Þórarinn Björnsson, síðar skólameistari, reyndi að hafa áhrif á hann.

Nokkrum árum síðar sneri móðir okkar aftur heim til Siglufjarðar frá Norðfirði þar sem hún hafði verið í fóstri í sjö ár. Með þeim ungum tókust ástir sem aldrei bar skugga á þar til dauðinn skildi eftir fimmtíu og sex ára hjónaband.

Fyrsta barn þeirra, Gunnar, fæddist sumardaginn fyrsta 1947. Tveimur árum seinna missti þessi efnilegi drengur heyrnina af völdum heilahimnubólgu. Nám heyrnleysingja fór fram í Málleysingjaskólanum í Stakkholti 3 í Reykjavík, þar sem börnin voru í heimavist frá fjögurra ára til sextán ára aldurs. Má nærri geta hver raun það hefur verið ungum foreldrum að þurfa að senda barnið sitt í burtu.

Menntunin var afar takmörkuð en fyrir atbeina pabba komst Gunnar til frekara náms í Noregi og síðar Svíþjóðar þar sem hann hefur nú búið í þrjátíu og fjögur ár. Enginn nema sá sem nálægt stendur skilur hvílík einangrun og missir fylgir heyrnarleysi.

Pabba var margt til lista lagt. Hann var einn margra afbragðs bridgespilara sem uxu upp á Siglufirði. Hann var á yngri árum liðtækur frjálsíþróttamaður og átti um skeið Siglufjarðarmet í hástökki. Hann var varamarkvörður KS. Þegar hann stóð í markinu var ég alltaf lafhræddur um að hann þyrfti að skutla sér á grjóthörðum vellinum eða fengi á sig klaufamark.

Sjálfur sagði hann að úthlaupin hefðu bætt upp það sem á vantaði milli stanganna. Ég var hins vegar bæði öruggur og stoltur við hlið pabba í kirkjunni, þegar hann tók undir í söngnum. Þessi hógværi og lítilláti maður sem hlustaði þegar aðrir töluðu byrjaði alltaf ósjálfrátt að syngja þegar hann heyrði falleg lög. Ekkert veitti honum eins mikla ánægju og söngurinn. Í sex áratugi söng hann með félögum sínum, fyrst í Vísi á Siglufirði og síðar í Karlakór Reykjavíkur.

Pabbi var mildur faðir og skilningsríkur. Hann hafði aldrei mörg orð um hlutina en við vissum alltaf vilja hans. Hann notaði aldrei ljót orð eða blótsyrði. Hann var okkur fyrimynd með framkomu sinni og breytni sem var honum svo eðlislæg og áreynslulaus. Þegar ég var yngri fannst mér oft að pabbi ætti að hafa sig meira í frammi.

Árið 1958 kom nýtt togskip, Margrét SI 4, til Siglufjarðar. Við strákarnir hlupum niður á bryggju til að skoða skipið. Mér fannst allir pabbar bæjarins komnir til að fagna og þiggja veitingar nema pabbi. Ég fann hann í SR 46 síldarverksmiðjunni og bað hann endilega að koma líka. Þegar ég svo ætlaði að fá hann með mér heim um kvöldmat var orðið of gaman. Ég hljóp kjökrandi heim og bað mömmu að fyrirgefa þau vandræði sem pabbi hafði ratað í mín vegna.

Það eigum við nútíma læknisfræði, frábærum læknum og heilbrigðisstarfsfólki að þakka að líf pabba lengdist um rúm tuttugu ár. Hann bar ómælt traust til þessa góða fólks og mat það mikils. Síðasta árið var erfitt. Þá sýndi mamma enn einu sinni úr hverju hún er gerð. Pabbi leit aldrei á sig sem sjúkling. Hann var fyrst og síðast maður. Hann kenndi aldrei öðrum um. Beiskju átti hann ekki til.

Honum fannst líf sitt hafa verið gott og gjöfult. Þannig dó pabbi sáttur við guð sinn og alla menn 3. janúar sl. á Líknardeild LSH í Kópavogi þar sem hann og fjölskyldan öll naut umhyggju og hlýju sem aldrei gleymist. Útför hans fór fram í kyrrþey 9. janúar á 120. afmælisdegi föður hans.

Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson annaðist athöfnina af stakri smekkvísi sem pabba hefði fallið vel. Vinir hans í Karlakór Reykjavíkur og Sigrún Hjálmtýsdóttir færðu honum að skilnaði undurfagran söng. Síðast en ekki sízt flutti Gerður Sjöfn Ólafsdóttir táknmálstúlkur Gunnari bróður alla athöfnina, ritningarorð, bænir, minningarorð og söng á hrífandi fallegu táknmáli. Þannig lauk fögru lífshlaupi á viðeigandi hátt. Með pabba er genginn einstakur maður, mömmudrengur eins og þeir gerast beztir. Blessuð sé minning hans.

Jóhann Tómasson
-----------------------------------------------

Að morgni 3. janúar sl. lést hjartkær tengdafaðir minn, Tómas Jóhannsson frá Siglufirði, á líknardeild LSH í Kópavogi, tæplega 78 ára að aldri.

Þennan morgun var veðrið einstaklega stillt og friðsælt að horfa út á voginn frá glugganum hans. Eins og táknrænt fyrir hann. Tómas var einstaklega orðvar maður og nærgætinn. Maður friðar og yfirvegunar. Siðferðisþroski hans held ég að hafi verið á hærra plani en gengur og gerist. Orðum hans mátti ávallt treysta. Þar nægði tveggja manna tal.

Eins og títt er um góða menn var Tómas viðkvæmur maður. Hann ætlaði öðrum alltaf hið góða en auðfundið var að þeir sem brugðust trausti hans eða beittu ranglæti áttu ekki upp á hans pallborð.

Hann var einstaklega hlýr og góður afi. Hann kenndi barnabörnum sínum snemma að spila á spil og var ólatur við að iðka með þeim þá íþrótt. Hann hvatti þau óspart áfram í viðfangsefnum þeirra og með fordæmi sínu kenndi hann að leggja bæri sig allan fram við sérhvert verkefni sem tekist er á við.

Sjálf átti ég tengdaföður minn alltaf vísan að þegar ég þurfti á að halda. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát.

Brynja mín. Þið Tommi kunnuð þá list að vera hjón. Glöddust saman á góðum stundum, studduð hvort annað í gegnum hretin. Alltaf saman. Ást þín og umhyggja í garð mannsins þíns síðustu mánuði sem endranær hefur vakið aðdáun og virðingu okkar allra og hjálpað okkur. Óbilandi þrek og kjarkur til að standa við hlið hans allt til enda. Megi góður Guð styrkja þig nú í sorg og söknuði og vísa þér veginn áfram.

Blessuð sé minning góðs manns.

Bryndís.
----------------------------------------

Elsku afi minn.

Ég trúi því ekki að þú sért búinn að yfirgefa þetta líf. Minningarnar hafa hrannast upp síðustu daga og ég hef ekki hugsað um annað en þig. Ég sakna þín svo ótrúlega mikið en ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna.

Öllum sem þekktu þig líkaði vel við þig og þótti vænt um þig og hvar sem þú komst gladdirðu með nærveru þinni. Við vorum mjög náin og þegar ég var lítil vissum við ekkert skemmtilegra en að spila rommý. Ég sé það núna að þú gast ekki horft upp á litlu afastelpuna þína tapa þannig að ég fékk alltaf smávegis hjálp. Það var svo gaman þegar þú sóttir mig í skólann og fórst með mig upp í vinnu til ykkar ömmu. Fyrst þurfti ég að læra en svo fékk ég að hjálpa til í vinnunni sem mér fannst ekki lítið spennandi.

Þú varst líka langbesti bingóstjórinn. Það voru skrýtin jól þetta árið þegar við gátum ekki haft bingó á jóladag. Það hefur alla mína tíð verið ómissandi þáttur í jólahaldinu. Það verður enginn eins og þú afi minn.

Ég vissi alltaf hvar ég hafði þig. Ef mér leið illa gat ég alltaf komið til þín og mesta huggunin var að fá að halda í hendurnar þínar. Þær voru svo þykkar og hlýjar og traustar. Pabbi fékk hendurnar þínar og þangað leita ég oft huggunar núna vegna andláts þíns.

Ég þakka Guði á hverjum degi fyrir að hafa fengið að vera barnabarnið þitt. Ég hef verið svo heppin að eiga tvo bestu afa í heimi.

Þakka þér elsku afi minn fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Návist þín í lífi mínu hefur gert mig að betri manneskju. Að hafa fengið handleiðslu þína gegnum fyrstu sautján árin mín er ómetanlegt.

Ég sakna þín.

Þín  Guðrún Arna.
------------------------------------

Látinn er Tómas Jóhannsson frá Siglufirði eftir baráttu við erfið veikindi síðustu mánuðina. Tommi hennar Brynju eins og hann var ávallt nefndur heima á Siglufirði er mér minnisstæður allt frá barnæsku minni, enda nær vinskapur Tomma og Brynju, eftirlifandi eiginkonu hans, við foreldra mína, Skarphéðin Guðmundsson og Esther Jóhannsdóttir, yfir nærri alla þeirra lífstíð, og var daglegur samgangur þeirra á milli heima á Siglufirði.

Ég vil hér að leiðarlokum þakka Tomma og Brynju fyrir einstaklega trausta vináttu og hlýhug sem þau hafa sýnt allri fjölskyldu okkar í gegnum tíðina, sérstaklega þakka ég fyrir þann styrk sem þau hafa veitt móður minni hin síðari ár, þegar faðir minn háði erfiða veikindabaráttu í nærri tíu ár. Ekki hefði mig grunað þegar faðir minn var jarðsettur 30. janúar á síðasta ári, blessuð sé minning hans, að ég mundi setjast niður ekki ári síðar og minnast hans Tomma - traustasta vinar hans í gegnum tíðina alveg frá unglingsárum til æviloka. En ég vil þakka þér, Tommi minn, fyrir þann styrk sem þú varst fær um að veita móður minni eftir andlát föður míns.

Ekki ætla ég í þessum fáu orðum að rekja lífsferil þinn enda eru aðrir færari um það, en þó áttum við eitt sameiginlegt áhugamál sem ekki verður hjá komist að nefna hér, en það er hinn mikli áhugi okkar á knattspyrnu hvort sem var enski boltinn, sá íslenzki, eða árangur okkar gömlu félaga í KS á Siglufirði. Aldrei kom maður að tómum kofunum hjá þér varðandi boltann og ræddum við hann mikið þegar fundum okkar bar saman hin seinni ár (oft við litlar undirtektir og áhuga annarra viðstaddra). Ég þykist því vita að með þessu áhugamáli fylgdist þú með alveg eins og heilsan leyfði þér.

Um leið og ég þakka þér, Tommi minn, fyrir ævilanga vináttu við fjölskyldu okkar alla bið ég góðan guð um að blessa minningu þína. Ég veit að æskuvinkonurnar Brynja og móðir mín munu veita hvor annarri ómetanlegan styrk í söknuði þeirra, eftir erfiða baráttu sem þær hafa háð við hlið eiginmanna sinna í veikindum þeirra, en nú er stríði ykkar félaganna lokið og minningin um góða drengi er okkur fjölskyldunum mikill styrkur í sorginni.

Að leiðarlokum sendi ég og öll fjölskylda okkar Brynju, börnum, barnabörnum, barnabarnabörnum, tengdafólki og öðrum ástvinum hans Tomma okkar innilegustu samúðarkveðjur, Guð geymi ykkur og styrki á erfiðri kveðjustund.

Blessuð sé minning Tómasar Jóhannssonar.

Guðmundur Skarphéðinsson.
--------------------------------------------------

Við viljum kveðja afa okkar með nokkrum fátæklegum orðum, því engin orð ná að lýsa því nægilega vel hversu yndislegan afa við áttum. Afi hefur verið stór og dýrmætur partur af lífi okkar frá því við litum dagsins ljós. Að njóta nærveru hans, leiðsagnar og þess sem gerði afa svo einstakan, sem var skilyrðislaus og ótakmörkuð ást hans á okkur, er dýrmætara en orð fá lýst.

Minningarnar um hann eru okkur heilagar og við munum geyma þær í hjarta okkar. Þegar við komum frá því að kveðja afa hinstu kveðju sáum við hvar glampaði á gyllta og rauða geisla sólarinnar í gegnum glufu á alskýjuðum himninum. Við systkinin vorum sannfærð um að þarna færi afi, því ef einhver kæmist í þessa fallegu birtu þá væri það hann afi okkar.

Elsku afi, við þökkum þér fyrir allt sem þú gafst og varst okkur, mildi þína, umhyggju, ást og blíðu.

Þín Andri Tómas og Thelma.